Efla trú ykkar fyrir tilstilli Fyrstu sýnarinnar
Ég bið þess að þið fylgið bænarforskrift Josephs, lærið sannleikann sem hann lærði og eflið trú ykkar á himneskan föður og son hans, Jesú Krist.
Þegar ég var 16 ára, ferðaðist ég frá heimili mínu í Idaho til austurstrandar Bandaríkjanna, á ráðstefnu sem haldin var fyrir pilta og stúlkur frá 50 fylkjum og um 40 þjóðum. Ég hafði varla áður lent í aðstæðum þar sem trú mín og sannfæring aðskildi mig frá öðrum.
Kvöld eitt í óformlegri hópumræðu var rætt um einhver trúarleg atriði og iðkanir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Fjölmennur nemendahópur snéri sé skyndilega að mér og tóku að spyrja spurninga, sem sumar voru mikilvægar trú okkar.
Þetta koma mér í opna skjöldu. Eftir augnabliks umhugsun, tókst mér þó að nefna einhverjar trúarlegar grundvallarreglur. Ég útskýrði að við ættum himneskan föður, að við værum synir hans og dætur og að við værum á jörðu til að þróa trú á Jesú Krist og verða reynd með því að velja gott fram yfir illt.
Að miðla þessum reglum, leiddi mig að vitnisburði Josephs Smith. Hinir nemendurnir höfðu ekki spurt um Joseph Smith, en ég fann mig knúinn til að segja frá upphaflegri ástæðu trúar minnar. Þegar ég sagði frá birtingu föðurins og sonarins í Lundinum helga, urðu allir skyndilega hljóðir. Sterk tilfinning heilagleika fyllti herbergið og mikill andlegur kraftur hvíldi yfir mér og fylgdi orðum mínum.
Að þessu loknu, þökkuðu nokkrir nemendur mér fyrir sterka sannfæringu mína. Sumir báðu jafnvel um frekari upplýsingar um kirkjuna. Þegar ég hafði snúið til herbergis míns um kvöldið, varð mér ljóst að þessi upplifun hafði haft mestu áhrifin á mig sjálfan. Ég hafði sjálfur fundið kraft þess að bera vitni um Guð föðurinn, Jesú Krist og Fyrstu sýnina.
Frá þessari upplifun, fyrir 50 árum, hef ég ótal sinnum borið vitni um föðurinn, soninn og spámanninn Joseph Smith. Ég hef alltaf fundið staðfestandi vitni heilags anda í þeim upplifunum.
Ég ætlað að greina frá fimm reglum sem mér hefur lærst af andlegum skilningi mínum á Fyrstu sýninni. Þessar reglur hafa styrkt trú mína á himneskan föður og hans ástkæra son og þrá mína til að fylgja þeim. Ég vona að þær efli ykkur líka þrótt.
1. Faðirinn, sonurinn og heilagur andi eru aðskildar verur
Fræðimenn og heimspekingar höfðu um aldir átt í deilum um eðli Guðs föðurins, Jesú Krists og heilags anda. Margir trúðu að þeir væru ein vera. Við þekkjum, sökum reynslu Josephs Smith í Lundinum helga fyrir 200 árum, hinn algilda sannleika um eðli Guðs.
Í fyrsta lagi, þá lifir hann! Í öðru lagi, þá eru faðirinn og sonurinn tvær aðskildar, dýrðlegar, upprisnar verur, með sín sér einkenni. Joseph lærði síðar að „heilagur andi hefur ekki líkama af holdi og beinum, heldur er hann andavera. Væri ekki svo, gæti heilagur andi ekki dvalið í okkur“ (Kenning og sáttmálar 130:22).
2. Við erum synir og dætur Guðs
Joseph Smith lærði, af Fyrstu sýninni og öðrum upplifunum, að Guð væri ekki einhver fjarlægur kraftur, sem hafði skapað heiminn og íbúa hans og síðan látið hann afskiptalausan. Sérhvert okkar er í raun „ástkær dóttir [eða sonur] himneskra foreldra“1
Yfirlýsingin um fjölskylduna segir: „Allar mannlegar verur – karlar og konur – eru skapaðar í mynd Guðs. Hver þeirra er ástkær andasonur eða dóttir himneskra foreldra, og sem slík á sérhvert þeirra guðlegt eðli og örlög.“2 Faðir okkar á himnum hefur skorinort lýst yfir þeim örlögum: „Því að sjá. Þetta er verk mitt og dýrð mín – að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika“ (HDP Móse 1:39).
Við erum auðkennd Guði og erum hér á jörðu til að verða líkari honum. Þessi skilningur á Fyrstu sýninni gerði mér sem pilti kleift að vita að ég ætti mér föður á himnum, sem elskaði mig og vildi að ég kæmi aftur til hans.
3. Við getum hlotið fyrirgefningu synda okkar
Eitt af því sem hrjáði Joseph mjög, var þrá hans eftir fyrirgefningu synda sinna. Í einni frásögn um Fyrstu sýnina, ávarpar Drottinn hinn unga leitanda sannleikans þessum orðum: „Joseph, sonur minn, syndir þínar eru þér fyrirgefnar. Far þína leið, gakk í lögmáli mínu og hald boðorð mín. Sjá, ég er Drottinn dýrðar. Ég var krossfestur fyrir heiminn, svo allir sem á nafn mitt trúa megi öðlast eilíft líf.“3
Joseph lærði að hann gæti hlotið fyrirgefningu synda, fyrir tilverknað friðþægingar Jesú Krists, og orðið hreinn og flekklaus frammi fyrir Guði. Honum var veitt örugg vitneskja um að Jesús Kristur tók á sig sjálfan syndir og byrðar allra sem hafa lifað og munu lifa á jörðu.
Við lærum af Fyrstu sýninni að við getum líka hlotið fyrirgefningu synda, sökum náðar frelsara okkar, Jesú Krists og dag einn staðið hrein frammi fyrir föðurnum.
4. Himneskur faðir heyrir bænir okkar og svarar þeim
Í lundinum þennan dag 1820, lærði Joseph að himneskur faðir heyrir bænir og svarar þeim. Joseph sagði síðar: „Ég var sannfærður um, að ég ætti eftir að fá guðdómlega vitrun, eins og ég hafði áður fengið“ (Joseph Smith – Saga 1:29). Af fordæmi hans má læra að við getum komið til himnesks föður í bæn, til að hljóta svör fyrir okkur sjálf.
Joseph endurtók ótal sinnum þessa bænarforskrift. Hann var sannfærður um að Drottinn mundi heyra bænir hans og svara þeim. Hann bað um það sem þið hafið líklega sjálf beðið um.
Hann bað um visku (sjá Joseph Smith – Saga 1:12–13).
Hann bað varðandi skírn (sjá Joseph Smith – Saga 1:68).
Hann bað um björgun (sjá Kenning og sáttmálar 121:1–4).
Hann bað fyrir trúboðunum (sjá Kenning og sáttmálar 109: 22).
Hann bað fyrir kirkjunni, meðlimum hennar og leiðtogum (sjá Kenning og sáttmálar 109:71–76).
Hann bað fyrir fjölskyldu sinni (sjá Kenning og sáttmálar 109: 68–69).
Þetta er okkur til eftirbreytni. Joseph sýndi að við getum öll farið til himnesks föður í bæn.
5. Faðirinn og sonurinn þekkja okkur persónulega
Við lærum af Fyrstu sýninni að þessar himnesku verur þekkja okkur persónulega, á sama hátt og þær þekktu Joseph. Faðirinn nefndi Joseph með nafni „benti á hina“ og sagði: „Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!“ (Joseph Smith – Saga 1:17).
Faðirinn og sonurinn þekktu þarfir, áhyggjur og þrár Josephs, á sama hátt og þeir þekkja okkar. Þeir þekkja líka sigra okkar og sorgir.
Þegar ég var unglingur, bað ég um ótal margt. Þegar ég horfi aftur núna, virðist sumt af því ekki svo mikilvægt. Það var mér þó mikilvægt á þeim tíma og ég skildi frá unga aldri að ég ætti föður á himnum, sem hlustaði á mig. Ég hlaut ekki alltaf svar um hæl, en mér fannst að hann myndi svara bænarkvaki mínu á hans tíma og á hans hátt, sem var sniðið að mínum þörfum.
Verið viss um og treystið því að Guð muni tala til ykkar. Trúið þeim tilfinningum sem vakna djúpt í hjarta ykkar. Ég hlaut trú á bænina og skil mátt hennar, því ég hafði vitneskju um upplifanir spámannsins Josephs Smith. Ég vissi að Guð þekkti mig með nafni og að hann myndi svara mér, á sama hátt og hann þekkir ykkur með nafni og mun svara bænum ykkar.
Vitnisburður
Ótal sinnum á hinum 68 árum sem ég hef lifað á jörðu, hef ég látið reyna á bænarforskrift Josephs. Ég hef líka, líkt og allir sannir lærisveinar frelsarans, hlotið svör frá himnum. Ég veit að Jesús er Kristur. Hann er sonur Guðs. Hann var reistur upp og lifir í dag. Hann hefur mátt til að fyrirgefa syndir okkar. Hann getur, fyrir trú, hlýðni og iðrun okkar, leitt okkur aftur til okkar himnesku heimkynna.
Ég ber vitni, sem postuli Drottins Jesú Krists og sem vígt vitni hans, af fullvissu og sannfæringu frá heilögum anda, um að faðirinn og sonurinn birtust Joseph Smith í Lundinum helga. Ég bið þess að þið fylgið bænarforskrift Josephs, lærið sannleikann sem hann lærði og eflið trú ykkar á himneskan föður og son hans, Jesú Krist.