2020
Hin yfirstandandi endurreisn
Apríl 2020


Hin yfirstandandi endurreisn

Endurreisnin hófst í Lundinum helga fyrir 200 árum og er enn yfirstandandi – og þú og ég getum verið þátttakendur í henni.

Joseph Smith kneeling

Þrá hjarta míns (Fyrsta sýnin), eftir Walter Rane

Þetta er dásamlegur og spennandi tími til að vera á jörðunni. Við höfum þá blessun að taka þátt í stórkostlegum viðburðum á þessari ráðstöfun í fyllingu tímanna, til undirbúnings síðari komu Drottins.1 Við fáum ekki einungis að vera sjónarvottar að þessum stórkostlegu viðburðum er þeir gerast, heldur einnig að vera þátttakendur í þeim.2

Við tölum stundum eins og endurreisn fagnaðarerindisins hafi öll átt sér stað á stuttum tíma. Þetta ferli hófst fyrir tvö hundruð árum með Fyrstu sýninni, en að sjálfsögðu lauk endurreisninni ekki þar. Verk Drottins hélt áfram fyrir atbeina Josephs Smith og samstarfsmanna hans, með þýðingu Mormónsbókar, endurreisn prestdæmisins, stofnun kirkjunnar, skipun trúboða, byggingu mustera, stofnun Líknarfélagins og svo framvegis. Þessir atburðir endurreisnarinnar hófust árið 1820 og hún hélt áfram allt líf Josephs Smith.

Eins dásamlegir og hlutirnir voru sem Guð opinberaði með Joseph Smith, þá lauk endurreisninni ekki á líftíma Josephs. Eftir dauða hans höfum við, með spámönnum, meðtekið áframhaldandi þróun musterisverka, viðbótarritningar, þýðingu ritninganna á mörg tungumál, útbreiðslu fagnaðarerindisins um allan heim, skipulag sunnudagaskólans, Stúlknafélagsins, Barnafélagsins og prestdæmissveita, ásamt fjölda skipulagsbreytinga á starfsemi kirkjunnar.

„Við erum vitni að endurreisnarferli,“ sagði Russell M. Nelson forseti. „Ef þið haldið að kirkjan hafi verið fyllilega endurreist, þá eruð þið einungis búin að sjá upphafið. Það er mikið eftir ennþá. … Bíðið eftir næsta ári. Síðan árinu eftir það. Takið vítamíntöflurnar ykkar. Slakið á. Þetta á eftir að verða spennandi.“3

Í samræmi við yfirlýsingu Nelsons forseta, þá er endurreisnin yfirstandandi og við höfum séð margar mikilvægar breytingar í kirkjunni síðan hann varð forseti hennar. Meðal þessara breytinga er endurskipulag prestdæmissveita, hirðisþjónusta kemur í stað heimilis- og heimsóknarkennslu og stofnað hefur verið til heimilismiðaðs og kirkjustyrkts náms fagnaðarerindisins.4 Fleiri breytingar hafa verið gerðar frá þessu og enn á meira eftir að gerast.

Dæmi í Vestur-Afríku

Þau fimm ár sem ég varði við þjónustu í svæðiforsætisráði Vestur-Afríku höfðu áhrif á vitnisburð minn um hina yfirstandandi endurreisn. Ég hef átt vitnisburð um fagnaðarerindið frá því að ég var ungur maður. Þegar ég bjó í Afríku átti ég hins vegar samneyti við suma hina fyrstu sem meðtóku fagnaðarerindið í Vestur-Afríku. Ég sá kirkjuna einnig breiðast hratt yfir heimsálfuna með stofnun hundruð deilda og stikna, yfirfullum musterum og samkomuhúsum af trúföstum meðlimum og góðum konum og körlum sem hjartanlega umföðmuðu hið endurreista fagnaðarerindi. Frammi fyrir augum mínum sá ég uppfyllingu spádóms Josephs Smith um að kirkjan myndi „fylla jörðina.“5

Tveir þessara trúföstu meðlima, James Ewudzie og Frederick Antwi, aðstoðuðu mig dag einn í Accra musterinu í Gana. Nokkrum árum áður en að trúboðar Síðari daga heilagra komu til Gana, hafði James verið hluti af 1000 manna hópi sem notaði Mormónsbók og annað kirkjuefni á kirkjusamkomum sínum. Þau báðu fyrir þeim degi að kirkjan kæmi til Gana. Hann, ásamt öðrum ungum mönnum, ferðaðist um Gana og kenndi fagnaðarerindið eins og það var í bókum okkar. Þegar trúboðarnir komu árið 1978, var hann skírður fyrsta daginn sem skírnir Síðari daga heilagra voru framkvæmdar í Gana.

Frederick Antwi

Fred Antwi, frumkvöðulsmeðlimur kirkjunnar í Gana.

Þegar Fred var nýgenginn í kirkjuna var hann viðstaddur jarðarför ættingja síns sem var ættflokkahöfðingi. Þar komst hann að því að áætlun fjölskyldunnar var að gera hann að nýja höfðingjanum. Vitandi að slík staða yrði þess valdandi að hann myndi framkvæma hluti sem færu gegn trú hans, flýtti hann sér í burtu og snéri baki við stöðu sem hefði fært honum fé og frama.

Þegar musterið í Accra var vígt ferðuðust bæði James og Fred fjögurra tíma ferð, aðra leið, í hverri viku, svo að þeir gætu starfað sem musterisþjónar. Þegar ég framkvæmdi helgiathafnir með þeim fann ég yfirgnæfandi tilfinningu sögunnar allt í kringum mig. Meðvitaður um það hlutverk sem þeir tveir skipuðu í kirkjusögunni í Afríku, þá fannst mér þetta líkt því að hafa John Taylor eða Wilford Woodruff, eða einhvern annan af fyrstu meðlimum kirkjunnar, með mér við að framkvæma þessar helgiathafnir.

Það sem ég sá, upplifði og skynjaði í Vestur-Afríku var hluti af því sem Drottinn sagði Enok að myndi gerast: „Og réttlæti mun ég senda niður af himni, og sannleika mun ég senda frá jörðu, til að bera vitni um minn eingetna, … og réttlæti og sannleika mun ég láta sópa jörðina sem vatnsflóð, til að safna mínum kjörnu saman frá öllum heimshornunum fjórum“ (HDP Móse 7:62).

Ég sá réttlæti og sannleika sópast yfir afrísku heimsálfuna og hina útvöldu safnast saman í þeim hluta heimsins. Vitnisburður minn um endurreisnina styrktist, því ég sá þann mikilvæga þátt endurreisnarinnar gerast frammi fyrir augum mér.

Ég sá einnig nokkuð annað sem tengdist hinni yfirstandandi endurreisn: Lifandi trú og andlega orku meðal hinna afrísku meðlima. Ég hef heyrt öldung David A. Bednar í Tólfpostulasveitinni: segja: „Kirtland [þar sem hinir Síðari daga heilögu bjuggu í kringum 1830] er ekki einungis í Ohio. Það er einnig í Afríku.“ Margir eru að ganga í kirkjuna í Afríku vegna hinnar kraftmiklu persónulegu andlegu upplifunar sinnar. Þessir nýju meðlimir færa andlega orku og þörf fyrir frekari lærdóm fagnaðarerindisins. Fyrir þeim er endurreisnin yfirstandandi á persónulegan máta. Þegar þeir læra sífellt meira um kirkjuna mun sannleikur fagnaðarerindisins halda áfram að opnast fyrir augsýn þeirra. Það sama má segja um okkur öll er við höldum áfram að auka við þekkingu okkar á fagnaðarerindinu.

Þrjár leiðir til að aðstoða við hina yfirstandandi endurreisn

Guð hefur veitt okkur stórkostlegt tækifæri til að skipa mikilvægum hlutverkum í verki hans. Drottinn sagði að „Líkaminn [kirkjan] hefur einnig þörf fyrir hvern [meðlim]“ (Kenning og sáttmálar 84:110). Allir meðlimir kirkjunnar eiga þá blessun að taka þátt í þessari yfirstandandi endurreisn. Hvernig gerum við það?

Ein leið til þess að taka þátt er að gera og halda helga sáttmála. Helgiathafnir, þar með taldar musterishelgiathafnir, hafa ekki tilgang nema að fólk framkvæmi þær og haldi síðan þá sáttmála sem tengjast þeim helgiathöfnum. Systir Bonnie Parkin, fyrrverandi aðalforseti Líknarfélagsins, sagði: „Sáttmálsgjörð er tjáning hins fúsa hjarta; að halda þá er tjáning hins trúa hjarta.“6

Með því að gera og halda sáttmála, undirbúum við okkur ekki bara fyrir eilíft líf, heldur erum við einnig að aðstoða við að undirbúa og styrkja það sem Drottinn kallar „sáttmálsþjóð [sína]“ (Kenning og sáttmálar 42:36). Við gerum sáttmála við Guð og verðum hluti af sáttmálsþjóð hans með skírn, staðfestingu, sakramentinu, Melkísedeksprestdæminu og helgiathöfnum musterisins.

Önnur leið til að taka þátt í hinni yfirstandandi endurreisn er með því að sinna þeim köllunum og verkefnum sem við hljótum. Þannig miðar kirkjunni áfram. Trúfastir kennarar kenna börnum, unglingum og fullorðnum fagnaðarerindið. Systur og bræður í hirðisþjónustu annast meðlimi kirkjunnar persónulega. Forsætisráð og biskupsráð veita stikum, umdæmum, deildum, greinum, sveitum, félögum, bekkjum og hópum leiðsögn. Leiðtogar unglinganna leiða stúlkur og pilta. Ritarar skrá mikilvægar upplýsingar, sem eru síðan skráðar á himnum og fjöldi annarra sinna nauðsynlegum hlutverkum í því að undirbúa fólk fyrir eilíft líf og síðari komu frelsarans.

members in Ghana

Ungmenni raða sér upp til að ganga inn í Accra musterið í Gana.

Þriðja leiðin til að taka þátt í endurreisninni er að aðstoða við samansöfnun Ísraels. Frá upphafi endurreisnarinnar hefur þetta verið lykilatriði verksins. Eins og Nelson forseti hefur kennt, höfum við tækifæri og skyldu til að aðstoða við samansöfnunina, beggja vegna hulunnar. Í lokaorðum fyrstu aðalráðstefnu hans sem forseta kirkjunnar, sagði Nelson forseti hnitmiðað: „Boðskapur okkar til heimsins er einfaldur og einlægur: Við bjóðum öllum börnum Guðs, báðum megin hulunnar, að taka á móti blessunum hins heilaga musteris, njóta varanlegrar gleði og vera hæf fyrir eilíft líf.“7

Samansöfnun Ísraels hérna megin hulunnar þýðir trúboðsverk. Þau okkar sem geta þjónað sem fastatrúboðar ættu að íhuga það tækifæri vandlega. Ég tel það mikla blessun að ég fékk að þjóna í trúboði á Ítalíu á þeim tíma sem kirkjan var mjög ung þar. Greinar okkar komu saman í leigðum sölum og við vonuðumst til að einhvern daginn myndu verða stikur þar og deildir. Ég varð vitni að því þegar hugrakkir frumkvöðlar komu inn í kirkjuna og lögðu grunninn að samansöfnun Ísraels í því merka landi.

Ein þeirra var Agnese Galdiolo. Við fundum ríkulega fyrir andanum þegar henni voru kenndar trúboðslexíurnar. Þrátt fyrir að finna fyrir andanum, vissi hún að fjölskylda hennar yrði eindregið á móti því að hún skírðist. Sú stund kom þó að hún samþykkti að skírast, uppfull af andanum. Hún skipti samt um skoðun sama morgun og skírnin átti að fara fram. Hún kom snemma í leiguhúsnæðið, þar sem hún átti að skírast, til að segja okkur að hún gæti ekki gert þetta, vegna þrýstings frá fjölskyldu hennar.

Hún samþykkti að spjalla aðeins við okkur áður en hún fór. Við fórum í kennslustofu, þar sem við lögðum til að við myndum biðja saman. Eftir að við höfðum kropið, báðum við hana um að flytja bænina. Eftir bænina stóð hún tárvot upp og sagði: „Allt í lagi, ég ætla að skírast.“ Nokkrum mínútum síðar skírðist hún. Árið eftir giftist hún Sebastiano Caruso og þau ólu upp fjögur börn, sem þjónuðu öll í trúboði og hafa síðan haldið áfram að þjóna í kirkjunni.

Caruso family

Öldungur og systir Curtis með nokkrum meðlimum Caruso fjölskyldunnar

Agnese og Sebastiano þjónuðu einnig í trúboði, þar sem Sebastiano var trúboðsforseti. Þegar ég þjónaði í öðru trúboði mínu á Ítalíu, 25 árum síðar, fékk ég að sjá hvað Caruso-fjölskyldan og aðrir frumkvöðlar, höfðu gert til að stækka ríki Guðs þar. Trúboðar mínir og ég unnum við að byggja upp kirkjuna, með þann draum að einhvern daginn myndi vera byggt musteri þar. Ímyndið ykkur gleði mína yfir því að við höfum nú musteri í Róm, Ítalíu.

Það er fátt sem jafnast á við gleði trúboðans. Þvílík blessun að hafa fæðst á tíma þar sem við getum gleðilega tekið þátt í yfirstandandi endurreisn, með því að hjálpa til við samansöfnun Ísraels.

Gleði trúboðans einskorðast ekki bara við fastatrúboða. Hvert og eitt okkar getur aðstoðað við trúarumbreytingu eða endurvirkjun systra okkar og bræðra, með því að vinna samtaka fastatrúboðunum. Við höfum það tækifæri að safna Ísrael saman með því að bjóða fólki að koma og sjá og með því að veita nemendunum vináttu.

Það er svo í gegnum musteris- og ættarsögustarf sem við hjálpum til við samansöfnun Ísraels handan hulunnar. Það hefur verið heilög ábyrgð okkar í mörg ár að gera þetta verk. Áður en Joseph Smith lést, framkvæmdu hinir heilögu skírnir fyrir hina dánu og nokkrir hlutu musterisgjöf sína og innsiglun. Musterisgjöfin fyrir hina lifandi hófst fyrir alvöru eftir að byggingu Nauvoo musterisins lauk. Musterisgjöf og innsiglanir fyrir áa hófst síðan í musterunum í Utah.

Eliza R. Snow, lykilþátttakandi í því endurreisnarverki, skildi mikilvægi þess þáttar í endurreisninni. Hún varði miklum tíma í húsi musterisgjafarinnar og aðstoðaði við helgiathafnirnar þar.8 Í einni heimsókn Líknarfélagsins, árið 1869, kenndi hún systrum sínum: „Ég hef verið að hugleiða hið mikla verk sem við þurfum að framkvæma, við að hjálpa til við sáluhjálp hinna lifandi og látnu. Við viljum vera… verðugir félagar guðanna og hinna heilögu.“ 9

Framboð helgiathafna musterisins hefur aukist gífurlega með byggingu hinna mörgu mustera um heiminn og enn fleiri eru á leiðinni.

Með þeim verkfærum sem við höfum nú í höndunum, þá getur musteris- og ættarsögustarf orðið reglulegur þáttur í þátttöku okkar í hinni yfirstandandi endurreisn. Ég hef verið áhugasamur og verið þátttakandi í ættarsögustarfi í mörg ár, en þessi verkfæri sem við höfum á netinu, hafa aukið afköst mín við að fara með nöfn ættmenna í musterið. Ég á helgar minningar af því að sitja við borðið í íbúð okkar í Gana og finna nöfn evrópskra forfeðra minna, sem við konan mín gætum farið með í Accra musterið í Gana. Þessi gleðilegu tækifæri hafa fylgt okkur á aðra staði sem við höfum verið send til.

Í gegnum Joseph Smith, hóf Guð „endurreisn allra hluta, sem talað hefur verið um fyrir munn allra hinna heilögu spámanna frá upphafi veraldar“ (Kenning og sáttmálar 27:6). Endurreisnin hefur haldið áfram fram á okkar tíma, eins og Guð „nú opinberar“ og „ [mun] enn opinbera margt stórfenglegt og mikilvægt varðandi Guðs ríki“ (Trúaratriðin 1:9). Ég er mjög þakklátur fyrir það að við fáum að taka þátt í þessari yfirstandandi endurreisn.

Heimildir

  1. Sjá Efesus 1:10; Kenning og sáttmálar 27:13.

  2. Sjá Daníel 2:35–45; Kenning og sáttmálar 65.

  3. Russell M. Nelson, í „Latter-day Saint Prophet, Wife and Apostle Share Insights of Global Ministry,“ 30. okt. 2018, newsroom.ChurchofJesusChrist.org.

  4. Sjá „Inspired Direction,“ Liahona, maí, 2019, 121.

  5. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 137.

  6. Bonnie D. Parkin, „Með heilagleika hjartans,“ aðalráðstefna, okt. 2002.

  7. Sjá Russell M. Nelson, „Fylkjum liði,“ aðalráðstefna, apríl 2018. Ári síðar endurómaði Nelson forseti þessi orð á aðalráðstefnu: „Megum við einnig helga og endurhelga líf okkar þjónustu við Guð og börn hans – beggja vegna hulunnar“ („Lokaorð,“ aðalráðstefna, apríl 2019).

  8. Hús musterisgjafarinnar var byggt á Musteristorginu á meðan á byggingu Salt Lake musterisins stóð. Hús musterisgjafarinnar var vígt árið 1855 og var notað fyrir helgiathafnir musterisins fram til 1889.

  9. Eliza R. Snow, ræða í Líknarfélagi Lehí deildarinnar, 27. okt. 1869, Relief Society Minute Book, 1868–79, Church History Library, 26–27.