Einungis stafrænt: Ungt fullorðið fólk
Byggja upp ríkið í Nýju Kaledóníu
Ungt fullorðið fólk í Nýju Kaledóníu og víða um heim er að takast á við þá áskorun að þjóna og verða leiðtogar kirkjunnar.
„Tækifærið til að þjóna er ein af blessunum þess að vera meðlimur í kirkjunni.“1 Fyrir ungt fólk getur þjónusta í kirkjunni verið dásamlegt tækifæri til að vaxa, vera leiðtogi og styrkja sína andlegu vöðva. Ábyrgð yngri fullorðinsáranna er þó mikil og því getur þjónusta stundum verið áskorun – einkum á svæðum þar sem kirkjan er tiltölulega fámenn. Hvað gerið þið t.d. ef þið eruð kölluð sem stikuforseti Stúlknafélagsins, reynið að búa ykkur undir trúboðsþjónustu, samhliða skólagöngu og samræmingu trúarskólans og, já, þið eruð einungis 21 árs.
Á mörgum svæðum kirkjunnar eru þetta ekki óalgengar aðstæður. Í Nýju Kaledóníu, litlu erlendu yfirráðasvæði Frakklands, með um 2.400 meðlimi kirkjunnar, er ungum fullorðnum meðlimum oft falin nokkuð umfangsmikil ábyrgð við að byggja upp ríki Drottins. Russell M. Nelson forseti sagði eitt sinn við unga fólkið: „Þið eruð framtíðarleiðtogar kirkju Drottins! Eruð þið undir það búin að taka við taumnum og verða leiðtogar?“2 Af nauðsyn og kærleika til frelsarans, er ungt fullorðið fólk víða um heim reiðubúið að þjóna og leiða í kirkjunni.
Í ævilangri þjónustu hans
Trúboð gerir mörgu ungu fólk í Nýju Kaledóníu kleift að búa sig undir ævilanga kirkjuþjónustu. Syoelanne (Syo) Ulivaka fékk köllun um að þjóna sem annar ráðgjafi í biskupsráði, aðeins viku eftir aflausn sem fastatrúboði. „Ég hafði nýlokið trúboði mínu,“ sagði Syo. „Ég var þreyttur og hugðist nú geta tekið hvíld.“ Hann tók þó á móti kölluninni. „Ég einsetti mér að fara hvert sem Drottinn vildi að ég færi. Ég er í þjónustu hans – ekki einungis í tvö ár, heldur alla ævi.“
Frá því að Syo hóf þjónustu í biskupsráði, hefur hann gift sig, eignast barn og flutt í aðra deild. Hann þjónar þó áfram og framfylgir kirkjuköllunum sínum.
Öldungur Earl C. Tingey, aðalvaldhafi hættur störfum, sagði við unga fólkið: „Kirkjuköllun er ein dásamlegasta blessunin sem þið fáið notið á þessu tímabili ævi ykkar. Þið hafið svo margt að gefa deild ykkar eða grein, þar sem þið búið. Hæfileikar ykkar og kunnátta eru nauðsynleg hinni vaxandi kirkju.“3 Syo er ekki sá eini á svipuðu reki á eyjunum sem hefur nýtt eigin kunnáttu til hjálpar hinni vaxandi kirkju – fleira ungt fólk þjónar í næstum öllum stöðum á sviðum deildar og stiku. Syo segir: „Við reynum að tileinka okkur það sem við lærðum í trúboði okkar, til að efla stiku okkar og deildir.“ Þetta unga fólk færir margar fórnir til að efla ríkið í heimalandi sínu, en, líkt og Syo segir: „Við fórnum að mestu eigin tíma.“
Sumir hinna ungu fullorðnu hafa tvær eða jafnvel þrjár kallanir. „Það getur verið þeim blessun, en líka byrði,“ segir Syo, því svo margir reyna að finna jafnvægi kirkjuábyrgðar og alls þess sem yngri fullorðinsárin krefjast. „Það er erfitt að gera allt á sama tíma.“ Syo hefur þó komist að því, að þegar Drottinn er í fyrirrúmi, mun allt annað auðveldlega ganga upp. Hann segir: „Drottinn hefur hjálpað við allt annað – skólann, finna eiginkonu – allt var í höndum Drottins.“
Framtíð kirkjunnar
Spámennirnir og postularnir hafa sterkar skoðanir á þeim eiginleikum og þjónustu sem ungt fullorðið fólk getur veitt í kirkjunni: „Við þurfum ykkur óskipt í hjarta og sál. Við þurfum þróttmikið, hugsandi og kappsamt ungt fólk, sem kann að hlusta á hina hljóðu rödd heilags anda og bregðast við henni.“4
Ungt fullorðið fólk í Nýju Kaledóníu og víða um heim er að bregðast við þessu postullega ákalli. Því er ljóst að það er framtíð kirkjunnar og það kýs að þjóna á hvern þann hátt sem mögulegt er. Það hvetur hvert annað áfram í köllunum sínum. Það starfar með trúboðunum. Það miðlar fagnaðarerindinu og býður vinum í kirkju. Það veitir ungmennum deildar sinnar leiðsögn og hvetur þau til að þjóna í trúboði. Það ferðast langar leiðir til að komast í musterið. Það kennir þeim fjölskyldumeðlimum sem ekki eru í kirkjunni. Allt þetta stuðlar að uppbyggingu ríkisins.
Syo skilur það sem varðar þjónustu við Drottin: „Við erum verkfærin hans.“ Á þessum vaxtartíma kirkjunnar, mun Drottinn kalla heilaga á öllum aldri, hvarvetna, til að axla þá ábyrgð að byggja upp og efla ríki hans. Erum við reiðubúin til að svara því kalli?