2020
Þeir væntu komu Krists – og það getum við líka gert
Apríl 2020


Þeir væntu komu Krists – og það getum við líka gert

Spámenn Mormónsbókar væntu þess að Kristur kæmi. Við getum líka átt von um endurkomu hans er við lesum orð þeirra.

Christ visiting the Americas

HEIMSÓKNIN, eftir Jorge Cocco Santangelo

Hvaða orð koma upp í hugann þegar þið hugsið um Mormónsbók?

Nefítar, Lamanítar og aðrir –ítar?

Stríð, óbyggðir, hættur?

Iðrun, endurlausn, réttlæti?

Jesús Kristur?

Von?

Páskar eru tilvalinn tími til að hugleiða aftur boðskap Mormónsbókar. Einkum boðskap hennar um að Jesús er Kristur, frelsari okkar og lausnari. Sökum hans, munum við dag einn frelsast frá sársauka líkama og sálar. Frá dauða og synd. Við getum sigrast á öllu því slæma sem heimurinn færir okkur.

Við getum einfaldlega átt von.

Von – sönn von, með Jesú Krist að þungamiðju – innblés forna spámenn til að skrá heimildir á gulltöflurnar, sem síðar varð Mormónsbók. Jakob segir: „Og í þeim tilgangi höfum vér fært þetta í letur, að þeir megi vita, að vér þekktum til Krists og lifðum í von um dýrð hans mörg hundruð árum fyrir komu hans“ (Jakob 4:4; skáletrað hér).

Jakob vildi að við vissum að hann – og aðrir spámenn sem skráðu heimildirnar – vissi að Kristur kæmi. Mörg hundruð árum fyrir komu hans! Þeir voru líka innblásnir til að eiga þessa von af orðum þeirra spámanna sem þeir höfðu lesið. Jakob útskýrir: „Og vér lifðum ekki einir í von um dýrð hans, heldur einnig allir hinir heilögu spámenn, sem á undan oss komu.

Sjá, þeir trúðu á Krist og tilbáðu föðurinn í hans nafni, og vér tilbiðjum einnig föðurinn í hans nafni. …

„Þess vegna kynnum vér oss spámennina og vér höfum margar opinberanir og spásagnaranda. Og með öllum þeim vitnisburði öðlumst vér von, og trú vor verður óhagganleg“ (Jakob 4:4–6; sjá einnig 1. Nefí 19:21; Jakob 7:11; Mósía 3:13; Helaman 8:16).

Sú von sem þeir hlutu af eigin upplifunum og spádómarnir sem þeir lásu í ritningunum, bjó þá undir komudag Krists. Á sama hátt hafa spámenn í dag hvatt til þess að við búum okkur undir endurkomu Krists. Ef við viljum hafa þessa sömu von, þurfum við að „[kynna okkur] spámennina og [hljóta] margar opinberanir og spásagnaranda.“ Vitnisburðir þeirra um Jesú Krist munu ekki einungis styrkja okkar, heldur líka búa okkur undir komu hans.

Lehí

„Hversu mikilvægt er það því ekki að kynna íbúum jarðar þetta, svo að þeim sé ljóst, að ekkert hold getur dvalið í návist Guðs nema fyrir verðleika, miskunn og náð heilags Messíasar, sem fórnaði lífi sínu í holdinu og tók það aftur fyrir kraft andans til að koma til leiðar upprisu dauðra og verða sjálfur hinn fyrsti til að rísa upp.“

Nefí

„Og vér tölum um Krist, vér fögnum í Kristi, vér prédikum um Krist, vér spáum um Krist og vér færum spádóma vora í letur, svo að börn vor viti, til hvaða uppsprettu þau mega leita til fyrirgefningar synda sinna.“

Benjamín konungur

„Og hann skal kallast Jesús Kristur, sonur Guðs. …

Og sjá. Hann mun vitja sinna eigin, til að trúin á nafn hans færi mannanna börnum sáluhjálp. … 

Og á þriðja degi mun hann rísa upp frá dauðum. …

Því að sjá. Blóð hans friðþægir einnig fyrir syndir þeirra, sem fallið hafa vegna lögmálsbrots Adams, en dáið hafa án þess að þekkja vilja Guðs varðandi þá, eða sem syndgað hafa óafvitandi.“

Alma

„Og hann mun ganga fram og þola alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar. Og svo mun verða, til að orðið megi rætast, sem segir, að hann muni taka á sig sársauka og sjúkdóma fólks síns.

Og hann mun líða dauða til að leysa helsi dauðans, sem fjötrar fólk hans. Og hann mun kynnast vanmætti þess, svo að hjarta hans fyllist miskunn samkvæmt holdinu, svo að hann megi vita í holdinu, hvernig fólki hans verður best liðsinnt í vanmætti þess.“

Amúlek

„Og hin mikla og síðasta fórn verður sonur Guðs, já, algjör og eilíf.

Og þannig mun hann færa hjálpræði öllum þeim, sem á nafn hans trúa, en það er tilgangur hinnar síðustu fórnar, að hjartans miskunnsemin, sem sigrar réttvísina, nái fram að ganga, og opni manninum leið til að öðlast trú til iðrunar.

Og þannig getur miskunnsemin fullnægt kröfum réttvísinnar og umvefur þá örmum öryggisins, á meðan sá, sem ekki iðkar trú til iðrunar, er varnarlaus gagnvart öllu lögmálinu um kröfur réttvísinnar. Þess vegna kemur hin mikla og eilífa endurlausnaráætlun einungis þeim til góða, sem á trú til iðrunar.“

the Savior in Gethsemane

Gethsemane, by Jorge Cocco Santangelo

Lamanítinn Samúel

„Því að sjá. Hann hlýtur að deyja, til þess að hjálpræðið fái framgang. Já, óhjákvæmilegt verður og honum þóknanlegt, að hann deyi til að gjöra upprisu dauðra að veruleika og menn verði þar með leiddir í návist Drottins.

Já, sjá. Þessi dauði gjörir upprisuna að veruleika og endurleysir allt mannkyn frá hinum fyrsta dauða – andlegum dauða. Því að með falli Adams útilokast allt mannkyn úr návist Drottins og telst dautt, bæði gagnvart því stundlega og andlega.

En sjá. Upprisa Krists endurleysir mannkynið, já, allt mannkyn, og leiðir það aftur í návist Drottins.“

Christ with children

Blessing the Children, by Jorge Cocco Santangelo

Mormón

„Þér skuluð vita, að þér verðið að öðlast vitneskju um feður yðar og iðrast allra synda yðar og misgjörða og trúa á Jesú Krist, að hann sé sonur Guðs og að Gyðingar drápu hann, en fyrir kraft föðurins reis hann aftur og hefur þannig sigrað gröfina. Og í honum hverfur einnig broddur dauðans.

Og hann gjörir upprisu dauðra að veruleika. Þess vegna verða menn upp reistir til að standa frammi fyrir dómstóli hans.

Og hann hefur gjört endurlausn heimsins að veruleika, en með því mun hverjum þeim, sem reynist án sektar frammi fyrir honum á degi dómsins, það gefið að dveljast í návist Guðs í ríki hans og syngja þar föðurnum, syninum og hinum heilaga anda, sem eru einn Guð, látlaust lof með kórum himna í eilífri sælu.“