Leigubíll, skólastrákur, og bænarsvar
Höfundurinn býr í Rivers State, Nígeríu.
Við höfðum fengið hugboð um að við myndum finna hann, svo afhverju gekk það ekki upp?
Dag einn var mér og félaga mínum gefin tilvísun til að kenna manni sem bjó í þorpi sem kallaðist Tema, nærri hinni fallegu borg, Accra í Gana. Húsnúmerin í þorpinu voru ekki mjög nákvæm svo við fengum skriflega lýsingu okkur til hjálpar við að finna húsið.
Þegar við komum í þorpið fylgdum við leiðbeiningunum en gátum ekki fundið manninn, því lýsingin virtist geta átt við um mörg húsanna. Ráðvilltir ákváðum við að banka á dyr í hverfinu til að spyrja vegar, en enginn virtist kannast við manninn sem við leituðum að. Mér fannst ég knúinn til að biðja himneskan föður hjálpar.
Eftir bæn okkar, hafði ég þá tilfinningu að við myndum finna manninn sem við leituðum að, svo við lögðum okkur enn ákafar fram. Samt fundum við hann ekki. Við vorum orðnir þreyttir og ákváðum að snúa aftur á trúboðssvæðið okkar, því þar áttum við stefnumót. Þegar við komum á leigubílastæðið sá leigubílstjórinn, sem hafði keyrt okkur þangað, vonbrigðissvip okkar og spurði hvort við hefðum fundið þann sem við leituðum að. Svar okkar var að sjálfsögðu, nei.
Hann lagði til að við færum inn í skóla sem stóð á horninu og spyrðumst þar fyrir. Við sögðum það ekki vera samkvæmt lýsingunni sem við höfðum, en hann lagði fast að okkur að gera það. Við fórum úr leigubílnum og héldum að skólanum – ekki vegna þess að við töldum okkur finna einhvern, heldur einungis til að gleðja áhyggjufullan vin okkar.
Er við hófum göngu okkar að aðalbyggingu skólans, kom lítill drengur hlaupandi í átt að okkur. Hann brosti og sagði okkur að hann og bróðir hans væru einu meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu sem ættu heima á svæðinu og að hann gæti hjálpað okkur.
Ég og félagi minn horfðum forviða hvor á annan. Þetta var kraftaverk. Drengurinn hjálpaði okkur að finna manninn sem við leituðum að og hann meðtók svo síðar fagnaðarerindið og var skírður.
Þessi reynsla kenndi mér að himneskur faðir svarar bænum á sínum tíma og á sinn hátt. Þegar við hljótum ekki svörin við bænum okkar samstundis, getum við iðkað trú á hann og lært þolinmæði.