Líahóna
Sigur vonarinnar
Nóvember 2024


13:32

Sigur vonarinnar

Von er lifandi gjöf, gjöf sem vex er við aukum trú okkar á Jesú Krist.

Kæru bræður og systur um allan heim, er við förum inn í þennan mjög sérstaka tíma „aðalráðstefnu“ beinast augu himins örugglega að okkur. Við munum heyra „rödd Drottins“ með þjónum hans; við munum njóta „handleiðslu [og] huggandi“ áhrifa heilags anda og trú okkur mun verða styrkari.

Fyrir þrem árum hóf Russel M. Nelson forseti aðalráðstefnu með þessum orðum: „Hrein opinberun um ykkar hjartfólgnu spurningar gera þessa ráðstefnu gefandi og ógleymanlega. Ef þið hafið ekki enn leitað liðsinnis heilags anda til að hjálpa ykkur við að hlýða á það sem Drottinn vill að þið heyrið þessa tvo daga, þá býð ég ykkur að gera það núna. Gerið þessa ráðstefnu að tíma þar sem þið endurnærist af boðskap Drottins fyrir tilstilli þjóna hans.“

Ritningarnar tengja þessi þrjú orð saman á kröftugan hátt: Trú, von, kærleikur. Gjöf vonarinnar er ómetanleg gjöf frá Guði

Orðið von er notað um marga hluti sem við viljum sjá gerast. Til dæmis: „Ég vona að það rigni ekki.“ eða „Ég vona að liðið okkar vinni.“ Ætlun mín er að tala um helgar og eilífar vonir okkar sem miðast við Jesú Krist og hið endurreista fagnaðarerindi og „öruggar væntingar okkar um … fyrirheitnar blessanir réttlætisins.“

Von okkar um eilíft líf

Von okkar um eilíft líf er tryggð með náð Krists og eigin vali, sem gerir okkur kleift að fá þá ótrúlegu blessun að snúa aftur til okkar himneska heimilis og lifa að eilífu í friði og hamingju með himneskum föður okkar, ástkærum syni hans, trúfastri fjölskyldu okkar og dýrmætum vinum og réttlátum körlum og konum jarðar frá hverri heimsálfu og hverri öld.

Á jörðinni upplifum við gleði og sorgir þegar við erum prófuð og reynd. Sigur okkar kemur með trú á Jesú Krist þegar við yfirstígum syndir okkar, erfiðleika, freistingar, ósanngirni og áskoranir þessa jarðneska lífs.

Þegar við styrkjum trú okkar á Jesú Krist, sjáum við lengra en sem nemur baráttu okkar og til blessana og fyrirheita eilífðarinnar. Eins og ljós sem vex að ljóma, lýsir vonin upp myrkvaðan heim og við sjáum dýrðlega framtíð okkar.

Vonin kemur frá Guði

Frá upphafi hafa himneskur faðir og ástkær sonur hans óðfúsir blessað hina réttlátu með hinni dýrmætu gjöf vonar.

Eftir að hafa yfirgefið garðinn, var Adam og Evu kennt af engli um fyrirheitið um Jesú Krist. Gjöf vonarinnar upplýsti líf þeirra. Adam sagði: „Augu mín [hafa] lokist upp, og í þessu lífi mun ég gleði njóta.“ Eva talaði um „gleðina yfir endurlausn [þeirra] og eilíft líf sem Guð gefur öllum þeim sem hlýða.

Eins og heilagur andi færði Adam von, mun kraftur anda Drottins upplýsa hina trúuðu í dag og lýsa upp raunveruleika eilífs lífs.

Frelsarinn sendir okkur huggara, heilagan anda, förunaut trúar okkar og vonar, sem færir frið „ekki … eins og heimurinn gefur.“

Frelsarinn sagði: „Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir [viðhaldið ljóma vonar]. Ég hef sigrað heiminn.“

Á tímum erfiðleika verðum við að treysta Drottni í trú. Við biðjum hljóðlega: „Verði þó ekki minn heldur þinn vilji.“ Við finnum fyrir velþóknun Drottins á bljúgum fúsleika okkar og við bíðum eftir fyrirheitnum friði sem Drottinn mun senda á hans tíma.

Páll postuli kenndi: „Guð vonarinnar [mun fylla] yður … öllum fögnuði og friði … svo að þér séuð auðug að voninni,“ „Verið glöð í voninni, þolinmóð í þjáningunni,“ „í krafti heilags anda.“

Lærdómur vonar

Spámaðurinn Moróní vissi af eigin raun hvernig væri að eiga von á Krist í þrengingum. Hann útskýrði skelfilegar aðstæður sínar:

„því að ég er aleinn. … og ég á …[engan] stað til að fara á.“

„Og ég gef mig ekki fram … svo að þeir tortími mér ekki.“

Merkilegt er að á þessari dimmu og einmanalegu stund, skráir Moróní orð föður síns um von.

„Eigi maðurinn því trú, hlýtur hann að eiga von, því að án trúar er enga von að hafa.“

„Og í hverju skal von yðar fólgin?… Þér skuluð eiga von fyrir friðþægingu Krists og kraft upprisu hans, að vera reistir til eilífs lífs.“

Bræður og systur, von er lifandi gjöf, gjöf sem vex er við aukum trú okkar á Jesú Krist. „Trúin er [fullvissa] um það sem menn vona,“ Við byggjum upp sönnunarsteina trúar okkar með bæn, musterissáttmálum, með því að halda boðorðin, endurnærast stöðugt af ritningunum og orðum nútíma spámanna, meðtaka sakramentið, þjóna öðrum og tilbiðja vikulega með öðrum trúsystkinum.

Hús vonar

Til að efla von okkar á tímum vaxandi illsku hefur Drottinn boðið spámanni sínum að fylla jörðina af musterum sínum.

Þegar við komum inn í hús Drottins, finnum við fyrir anda Guðs sem staðfestir von okkar.

Musterið ber vitni um tóma gröf [Krists] og að lífið handan hulunnar haldi áfram fyrir alla.

Fyrir þá sem ekki eiga eilífan lífsförunaut, staðfesta helgiathafnirnar kröftuglega að sérhver réttlátur einstaklingur muni hljóta hverja fyrirheitna blessun.

Það er háleit von þegar ungt par krýpur við altarið til að verða innsiglað, ekki bara um tíma heldur um eilífð.

Það felst ómæld von fyrir okkur í loforðum sem gefin eru afkomendum okkar, hverjar sem aðstæður þeirra eru núna.

Það er enginn sársauki, engin veikindi, ekkert óréttlæti, engin þjáning, ekkert sem getur myrkvað von okkar þegar við trúum og höldum fast við sáttmála okkar við Guð í húsi Drottins. Það er hús ljóss, hús vonar.

Þegar voninni er kastað

Við fellum sorgartár þegar við sjáum sorg og örvæntingu hjá þeim sem eiga enga von í Kristi.

Ég horfði nýlega úr fjarlægð á hjón sem á sínum tíma höfðu trú á Krist en ákváðu síðan að láta af trú sinni. Þau voru farsæl í heiminum og þau nutu vitsmuna sinna og höfnunar trúar sinnar.

Allt virtist ganga vel þar til eiginmaðurinn, enn ungur að árum og orkumikill, veiktist skyndilega og féll frá. Eins og sólmyrkvi, höfðu þau útilokað ljós sonarins og niðurstaðan var sólmyrkvi vonarinnar. Eiginkonan, í eigin vantrú, fannst hún nú ráðvillt, sárlega óundirbúin, ófær um að hugga börnin sín. Vitsmunir hennar höfðu sagt að líf hennar væri í fullkomnu lagi þar til hún gat skyndilega ekki séð morgundaginn. Örvænting hennar olli myrkri og ringulreið.

Von í harmleik

Leyfið mér að bera sársaukafulla örvæntingu hennar saman við von annarrar fjölskyldu á Krist á átakanlegum tíma.

Fyrir tuttugu og einu ári var flogið með nýfæddan son frænda míns, Ben Andersen, og eiginkonu hans, Robbie, með bráðaflugi frá bændasamfélagi þeirra í Idaho til Salt Lake City. Ég kom á spítalann og Ben útskýrði hið alvarlega og lífshættulega ástand á hjarta barnsins. Við lögðum hendur okkar á litla höfuð Trey. Drottinn blessaði hann með áframhaldandi lífi.

Trey fór í skurðaðgerð á fyrstu viku ævi sinnar og fleiri skurðaðgerðir fylgdu í kjölfarið. Eftir því sem árin liðu, varð ljóst að Trey þyrfti að fá hjartaígræðslu. Jafnvel þó líkamleg geta hans væri takmörkuð, styrktist trú hans. Hann skrifaði: „Ég hef aldrei vorkennt sjálfum mér vegna þess að ég hef alltaf vitað mikilvægi þess að trúa á Jesú Krist og hafa vitnisburð um sáluhjálparáætlunina.“

Trey Andersen

Trey var með þessa tilvitnun í Russel M. Nelson forseta í símanum sínum: „Gleðin sem við finnum hefur lítið að gera með okkar lífsins aðstæður, en þess meira með það sem við einblínum á í lífinu.“

Trey Andersen

Trey skrifaði: „Ég hef alltaf hlakkað til að þjóna í fastatrúboði, en … læknarnir mínir munu ekki leyfa mér að þjóna í trúboði fyrr en að minnsta kosti ári eftir ígræðsluna mína. … Ég hef sett trú mína á Jesú Krist.“

Trey var spenntur yfir því að vera tekinn inn í bókhaldsnám við BYU, þessa önn, en enn spenntari seint í júlí þegar hann fékk símtalið sem hann hafði beðið eftir með mikilli eftirvæntingu, um að koma á sjúkrahúsið í hjartaígræðsluna sína.

„Eitt ár,“ sagði Trey, „og ég mun fara á trúboðið mitt.

Það voru miklar væntingar þegar hann kom inn á skurðstofuna. Hins vegar komu upp hörmulegir fylgikvillar meðan á aðgerðinni stóð og Trey komst aldrei til meðvitundar.

Móðir hans, Robbie, sagði: „Föstudagurinn hafði verið dagur mikillar hjartasorgar, … einungis reynt að átta sig á þessu. … Ég vakti lengi til þess að vinna úr þessu öllu. … En á laugardaginn vaknaði ég með algjöra gleðitilfinningu. Þetta var ekki bara friður; þetta var ekki afneitun. Ég fann gleði fyrir son minn og ég fann gleði sem móðir hans. … Ben hafði vaknað miklu fyrr en ég og þegar við fengum loksins tækifæri til að tala saman, hafði Ben vaknað með nákvæmlega sömu tilfinningu.“

Robbie og Ben Andersen

Ben útskýrði: „Skýrleiki kom yfir sál mína þegar Guð kenndi mér með sínum heilaga anda. Ég vaknaði klukkan 4:00 að morgni og fylltist ólýsanlegum friði og gleði. Hvernig er þetta mögulegt? … Fráfall Treys er svo sárt og ég sakna hans svo mikið. En Drottinn skilur okkur ekki eftir án huggunar. … Ég hlakka til ánægjulegra endurfunda.“

Loforð vonarinnar

Trey hafði skrifað þessi orð úr ráðstefnuræðu Russels M. Nelson forseta í dagbók sína: „Það virðist til að mynda ekki mögulegt að finna gleði þegar barnið manns þjáist af ólæknandi sjúkdómi eða þegar við missum atvinnuna eða þegar maki okkar er ótrúr. Það er samt einmitt slíka gleði sem frelsarinn býður okkur. Gleði hans er varanleg og fullvissandi um að „þrengingar munu aðeins vara örskamma stund“ [Kenning og sáttmálar 121:7] og verða okkur til farsældar.“

Bræður og systur, friðurinn sem þið leitið að kemur kannski ekki eins fljótt og þið viljið, en ég lofa ykkur að þegar þið treystið á Drottin mun friður hans koma.

Megum við rækta dýrmæta trú okkar, sækja fram með fullkominni birtu vonar. Ég ber vitni um að von okkar er frelsari okkar Jesús Kristur. Fyrir hann munu allir okkar réttlátu draumar rætast. Hann er Guð vonar - sigur vonarinnar. Hann lifir og elskar ykkur. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Russell M. Nelson, „Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf,“ aðalráðstefna,, apríl 2018.

  2. Russell M. Nelson, „Hreinn sannleikur, hrein kenning og hrein opinberun,“ aðalráðstefna, október 2021.

  3. „Hefurðu tekið eftir því í ritningunum að vonin stendur sjaldan ein? Von er oft tengd trú. Von og trú eru almennt tengd kærleika. Hvers vegna? Vegna þess að von er nauðsynleg fyrir trú; trú er nauðsynleg til að vona; trú og von eru nauðsynleg fyrir kærleika (sjá 1. Korintubréf 13:13, Alma 7:24, Eter 12:28, Kenning og sáttmálar 4:5). Þau styðja hvert annað eins og fætur á þriggja fóta kolli. Öll þrjú tengjast lausnara okkar.

    Trú [á rætur sínar í] Jesú Kristi. Von miðast við friðþægingu hans. Kærleikur er hin ,hreina ást Krists‘ (sjá Moróní 7:47). Þessir þrír eiginleikar eru samtvinnaðir eins og þræðir í snúru og eru kannski ekki alltaf nákvæmlega aðgreindir. Saman verða þeir viðfesta okkar til himneska ríkisins“ (Russell M. Nelson, „A More Excellent Hope“ [trúarsamkoma í Brigham Young háskóla, 8. jan 1995], speeches.byu.edu).

  4. Gospel Topics, “Hope,” Gospel Library.

  5. „Sá, sem tryði á Guð, gæti því með vissu vonast eftir betri heimi, … já, jafnvel samastaðar til hægri handar Guði, en sú von sprettur af trú og er sálum mannanna sem akkeri, er gjörir þá örugga og trúfasta“ (Eter 12:4).

  6. Öldungur Dieter F Uchtdorf sagði: „Leyfið mér þá að benda á að þunglyndi og aðrir erfiðir, andlegir og tilfinningalegir erfiðleikar eru raunverulegir og svarið er ekki einfaldlega: ,Reyndu að vera hamingjusamari.’ Tilgangur minn í dag er ekki að gera lítið úr geðrænum veikindum. Ég syrgi með ykkur og stend við hlið ykkar, ef þið takist á við slíkan vanda. Fyrir suma getur gleði falist í því að leita sér aðstoðar hjá þjálfuðu geðheilbrigðisstarfsfólki sem helgar líf sitt því að iðka sitt afar mikilvæga fag. Við ættum að vera þakklát fyrir slíka hjálp“ („Æðri gleði,“ aðalráðstefna, apríl 2024).

  7. Himneskur faðir hefur lýst því yfir að verk hans og dýrð sé að gera eilíft lífi okkar að veruleika (sjá HDP Móse 1:39).

  8. Sjá HDP Móse 5.

  9. HDP Móse 5:10.

  10. HDP Móse 5:11.

  11. Sjá HDP Móse 5:9.

  12. Jóhannes 14:27.

  13. Jóhannes 16:33.

  14. Sjá Lúkas 22:42.

  15. Rómverjabréfið 15:13.

  16. Rómverjabréfið 12:12.

  17. Rómverjabréfið 15:13.

  18. Mormón 8:5.

  19. Moróní 1:1.

  20. Moróní 7:42.

  21. Moróní 7:41.

  22. Hebreabréfið 11:1. Í þýðingu Josephs Smith segir, „Trúin er fullvissa um það, sem vonast er eftir, sannfæring um það, sem eigi er auðið að sjá“ (í Þýðing Josephs Smith – Viðauki). Við sjáum fullvissu um trú okkar á blessunum sem hljótast af þeim sem halda þá sáttmála sem þeir hafa gert við Drottin.

  23. Russell M. Nelson, „Gleði og andleg þrautsegja,“ aðalráðstefna, október 2016.

  24. Erindi flutt af Robbie Andersen við jarðarför sonar hennar, Treys Andersen, 12. ágúst 2024. Trey fór í aðgerð þann 31. júlí 2024. Hann lést 3. ágúst 2024.

  25. Erindi flutt af Ben Andersen við jarðarför sonar hans, Treys Andersen, 12. ágúst 2024.

  26. Russell M. Nelson, „Gleði og andleg þrautseigja,“ .

  27. Sjá 2. Nefí 31:20. Vonin sem Nefí talar um er fullkomin og björt vegna þess að hún hefur Krist að þungamiðju. Hann er fullkominn og friðþæging hans, sem býður upp á þessa björtu von, er líka fullkomin.