Líahóna
Nærið ræturnar og greinarnar munu vaxa
Nóvember 2024


14:32

Nærið ræturnar og greinarnar munu vaxa

Vitnisburðargreinar ykkar munu hljóta styrk frá hinni dýpkandi trú ykkar á himneskan föður og ástkæran son hans.

Gömul kapella í Zwickau

Árið 2024 er að nokkru leyti tímamótaár fyrir mig. Í dag eru 75 ár liðin frá því að ég skírðist og var staðfestur meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu í Zwickau, Þýskalandi.

Aðild mín að kirkju Jesú Krists er mér dýrmæt. Að teljast meðal sáttmálslýðs Guðs, með ykkur, bræðrum mínum og systrum, er einn mesti heiður lífs míns.

Þegar ég íhuga persónulega lærisveinsvegferð mína, verður mér oft hugsað til gamals sveitaseturs í Zwickau og kærra minninga um að hafa sótt sakramentissamkomur kirkju Jesú Krists þar sem barn. Það var þar sem vitnisburður minn fékk sína fyrstu næringu.

Í þessari kapellu var gamalt loftdrifið orgel. Á hverjum sunnudegi var pilti falið að ýta sterkbyggðu handfanginu upp og niður og fylla þannig belgina til að orgelið virkaði. Stundum naut ég þeirra forréttinda að aðstoða við þetta mikilvæga verk.

Meðan söfnuðurinn söng hina kæru sálma okkar, pumpaði ég af öllum mætti svo að orgelið yrði ekki loftlaust. Úr stjórnandasætinu fyrir belginn hafði ég gott útsýni yfir nokkra töfrandi steinda glugga, einn sem sýndi frelsarann Jesú Krist og annan Joseph Smith í Lundinum helga.

Ég man enn eftir þeim helgu tilfinningum sem ég upplifði er ég virti fyrir mér þessa sólarupplýstu glugga á meðan ég hlustaði á vitnisburði hinna heilögu og söng sálma Síonar.

Á þessum helga stað bar andi Guðs mér vitni í huga og hjarta að það væri sannleikur: Jesús Kristur væri frelsari heimsins. Þetta er hans kirkja. Spámaðurinn Joseph Smith sá Guð föðurinn og Jesú Krist og heyrði raddir þeirra.

Fyrr á þessu ári, þegar ég vann að verkefnum í Evrópu, gafst mér kostur á að fara aftur til Zwickau. Því miður er þessi ástkæra gamla kapella ekki til staðar lengur. Hún var rifin fyrir mörgum árum til að rýma fyrir stóru fjölbýlishúsi.

Hvað er eilíft og hvað ekki?

Ég viðurkenni að það er sorglegt til þess að vita að þessi ástkæra bygging frá bernsku minni er nú aðeins minningin ein. Hún var mér helg bygging. En hún var samt bara bygging.

Hinn andlegi vitnisburður sem ég hlaut frá heilögum anda fyrir þessum mörgu árum hefur hins vegar ekki horfið. Hann hefur í raun styrkst. Það sem ég lærði í æsku um grundvallarreglur fagnaðarerindis Jesú Krists hefur verið mér óhagganleg undirstaða gegnum lífið. Sáttmálssambandið sem ég myndaði við himneskan föður og ástkæran son hans hefur haldist með mér – löngu eftir að Zwickau-kapellan var tekin burtu og steindu gluggarnir glötuðust.

„Himinn og jörð munu líða undir lok,“ sagði Jesús, „en orð mín munu aldrei undir lok líða.“

„Því að þótt fjöllin bifist og hæðirnar haggist mun kærleikur minn til þín ekki bifast og friðarsáttmáli minn ekki haggast, segir Drottinn sem miskunnar þér.“

Eitt það mikilvægasta sem við getum lært í þessu lífi er að vita hvað er eilíft og hvað ekki. Þegar við skiljum það, breytist allt – sambönd okkar, ákvarðanir sem við tökum og framkoma við fólk.

Að vita hvað er eilíft og hvað ekki, er lykillinn að því að efla vitnisburð um Jesú Krist og kirkju hans.

Ekki halda að greinarnar séu ræturnar

Hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists, eins og spámaðurinn Joseph Smith kenndi: „[Meðtakið] allan sannleikann, hvern þátt hans.“ Það merkir þó ekki að allur sannleikur sé jafngildur. Viss sannleikur er kjarninn, ómissandi og við rætur trúar okkar. Annar er viðauki eða greinar – verðmætur, en aðeins þegar hann tengist grundvallaratriðunum.

Líkt og spámaðurinn Joseph sagði líka: „Grundvallarreglur trúar okkar eru vitnisburður postulanna og spámannanna um Jesú Krist, að hann dó, var grafinn og reis upp á þriðja degi og sté upp til himins,og allt annað í trúarbrögðum okkar er aðeins viðauki við það.“

Með öðrum orðum, Jesús Kristur og friðþægingarfórn hans eru rætur vitnisburðar okkar. Allt annað eru greinar.

Þar með er ekki sagt að greinarnar skipti ekki máli. Tré þarf greinar. Eins og frelsarinn sagði við lærisveina sína: „Greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér nema hún sé á vínviðnum.“ Án tengingar við frelsarann, við næringuna sem er að finna í rótunum, visnar greinin og deyr.

Þegar kemur að því að næra vitnisburð okkar um Jesú Krist, velti ég fyrir mér hvort við höldum stundum að greinarnar séu ræturnar. Þetta voru mistökin sem Jesús sá í faríseum síns tíma. Þeir gáfu svo mikinn gaum að tiltölulega smávægilegum atriðum í lögmálinu að á endanum vanræktu þeir það sem frelsarinn sagði vera „það sem mikilvægast er“ – grundvallarreglur eins og „réttlæti, miskunn og trúfesti“.

Ef þið viljið næra tré, hellið þið ekki vatni yfir greinarnar. Þið vökvið ræturnar. Á svipaðan hátt, ef þið viljið að vitnisburðargreinar ykkar vaxi og beri ávöxt, nærið þá ræturnar. Ef þið eruð óviss um ákveðna kenningu eða iðkun eða eitthvað í sögu kirkjunnar, leitið þá að skýrleika í trú á Jesú Krist. Leitist við að skilja fórn hans fyrir ykkur, elsku hans fyrir ykkur, vilja hans fyrir ykkur. Fylgið honum í auðmýkt. Vitnisburðargreinar ykkar munu hljóta styrk frá hinni dýpkandi trú ykkar á himneskan föður og ástkæran son hans.

Ef þið til að mynda viljið sterkari vitnisburð um Mormónsbók, einblínið þá á vitnisburð hennar um Jesú Krist. Gætið að því hvernig Mormónsbók vitnar um hann, hvað hún kennir um hann og hvernig hún býður og innblæs ykkur að koma til hans.

Ef þið leitið að innihaldsríkari upplifun á kirkjusamkomum eða í musterinu, reynið þá að leita frelsarans í þeim helgiathöfnum sem við tökum á móti þar. Finnið Drottin í hans heilaga húsi.

Ef ykkur hefur einhvern tíma fundist þið útbrunnin eða yfirhlaðin vegna kirkjuköllunar ykkar, reynið þá að beina þjónustu ykkar aftur að Jesú Kristi. Látið hana vera tjáningu á elsku ykkar til hans.

Nærið ræturnar og greinarnar munu vaxa. Og með tímanum munu þær bera ávöxt.

Rótfastur í honum og byggir á honum

Sterk trú á Jesú Krist gerist ekki á einni nóttu. Nei, í þessum dauðlega heimi eru það þyrnar og þistlar efans sem vaxa sjálfkrafa. Hið heilbrigða og frjósama trúartré krefst ákveðins átaks. Mikilvægur hluti þess átaks er að tryggja að við séum tryggilega rótföst í Kristi.

Dæmi: Í fyrstu gætum við laðast að fagnaðarerindi og kirkju frelsarans vegna þess að við hrífumst af vinalegum meðlimum eða ljúfmennsku biskupsins eða hreinu útliti kapellunnar. Þessar aðstæður eru vissulega mikilvægar fyrir vöxt kirkjunnar.

Hvað sem því líður, ef rætur vitnisburðar okkar verða aldrei dýpri en þetta, hvað mun þá gerast þegar við flytjum í deild sem kemur saman í tilkomuminni byggingu, þar sem meðlimir eru ekki svo vingjarnlegir og biskupinn segir eitthvað sem móðgar okkur?

Annað dæmi: Er ekki ástæða til að vona að ef við höldum boðorðin og erum innsigluð í musterinu, munum við blessuð með fjölmennri, hamingjusamri fjölskyldu, með greindum og hlýðnum börnum, sem öll eru virk í kirkjunni, þjóna í trúboði, syngja í deildarkórnum og bjóða sig fram til að þrífa samkomuhúsið á hverjum laugardagsmorgni?

Ég vona svo sannarlega að við munum öll sjá þetta í lífi okkar. En hvað ef það gerist ekki? Munum við vera áfram bundin frelsaranum, hverjar sem aðstæðurnar eru – treysta honum og tímasetningu hans?

Við verðum að spyrja okkur sjálf: Byggist vitnisburður minn á því sem ég vonast til að gerist í lífi mínu? Er hann háður verkum eða viðhorfi annarra? Er hann ef til vill tryggilega grundvallaður á Jesú Kristi, „rótfastur í honum og byggður á honum“, án tillits til breytilegra aðstæðna lífsins?

Hefðir, venjur og trú

Mormónsbók segir frá fólki sem „virti stranglega helgiathafnir Guðs“. Þá kom efasemdarmaður að nafni Kóríhor, hæddist að fagnaðarerindi frelsarans og kallaði það „heimskulegar erfikenningar feðra þess“. Kóríhor leiddi „hjörtu margra afvega og fékk þá til að hreykja sér í ranglæti sínu“. Aðra gat hann ekki blekkt, því fagnaðarerindi Jesú Krists var þeim miklu meira en erfikenning.

Trú er sterk þegar hún á sér djúpar rætur í persónulegri reynslu, persónulegri skuldbindingu við Jesú Krist, óháð því hverjar erfikenningar okkar eru eða hvað aðrir geta sagt eða gert.

Vitnisburður okkar verður prófaður og sannreyndur. Trú er ekki trú ef aldrei er á hana reynt. Trú er ekki sterk ef hún mætir aldrei andstöðu. Örvæntið því ekki þótt þið glímið við trúarprófraun eða ósvaraðar spurningar.

Við ættum ekki að vænta þess að skilja allt áður en við framkvæmum. Það er ekki trú. Alma kenndi: „Trú er ekki að eiga fullkomna þekking.“ Ef við bíðum með að framkvæma þar til öllum spurningum okkar er svarað, þá takmörkum við verulega það góða sem við getum fengið áorkað og við takmörkum trúarmátt okkar.

Trúin er falleg vegna þess að hún stenst, jafnvel þótt blessanir berist ekki eins og vonast var eftir. Við sjáum ekki framtíðina, við vitum ekki öll svörin, en við getum treyst Jesú Kristi þegar við sækjum fram og upp á við, því hann er frelsari okkar og lausnari.

Trú stenst þrengingar og óvissu lífsins, vegna þess að hún er rótföst í Kristi og kenningu hans. Jesús Kristur, og faðir okkar á himnum, sem sendi hann, eru sameiginlega hið eina ófrávíkjanlega, fullkomlega áreiðanlega viðfangefni trausts okkar.

Vitnisburður er ekki eitthvað sem við byggjum upp í eitt skipti og hann stendur að eilífu. Hann er meira eins og tré sem þið nærið stöðugt. Að gróðursetja orð Guðs í hjarta ykkar er aðeins fyrsta skrefið. Þegar vitnisburður ykkar tekur að vaxa, þá hefst hin raunverulega vinna! Það er þá sem þið „nærið það af mikilli umhyggju, svo að það skjóti rótum, vaxi upp og beri ykkur ávöxt“. Það þarf „mikla kostgæfni“ og „þolinmæði við að næra orðið“. En loforð Drottins eru örugg: „Þið munuð uppskera laun trúar ykkar, kostgæfni, þolinmæði og langlundargeðs við að bíða eftir, að tréð færði ykkur ávöxt.“

Kæru bræður mínir og systur, kæru vinir, hluti af mér saknar gömlu Zwickau-kapellunnar og steindu glugganna. Undanfarin 75 ár hefur Jesús Kristur leitt mig í lífsferð sem er meira spennandi en ég hefði getað ímyndað mér. Hann hefur huggað mig í þrengingum mínum, hjálpað mér að sjá veikleika mína, læknað andleg sár mín og nært mig í vaxandi trú minni.

Það er einlæg bæn mín og blessun að við munum stöðugt næra rætur trúar okkar á frelsarann, kenningu hans og kirkju hans. Um það ber ég vitni, í hinu helga nafni frelsara okkar og lausnara, meistara okkar – í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Árið 2024 eru líka 30 ár frá köllun minni sem aðalvaldhafi og 25 ár frá því að fjölskyldan mín þurfti að flytja frá Þýskalandi til Bandaríkjanna sökum þeirrar köllunar. Fyrir næstum nákvæmlega 20 árum – 2. október 2004 – var ég studdur sem meðlimur Tólfpostulasveitarinnar og sérstakt vitni „nafns Krists um allan heim“ (Kenning og sáttmálar 107:23).

  2. Á vissan hátt líkjast tilfinningar mínar gagnvart þeirri byggingu tilfinningum fólks Alma gagnvart Mormónsvötnum – þau voru þeim fallegur staður, því „þar fengu [þau] vitneskju um lausnara sinn“ (Mósía 18:30).

  3. Matteus 24:35; sjá einnig Joseph Smith – Matteus 1:35.

  4. Jesaja 54:10; sjá einnig 3. Nefí 22:10.

  5. Thomas S. Monson forseti kenndi þennan sama sannleika með þessum orðum: „Ég trúi að meðal mikilvægustu lexíanna sem okkur ber að læra á þessari stuttu dvöl hér á jörðu eru lexíur sem hjálpa okkur að greina á milli þess sem er mikilvægt og þess sem er það ekki. Ég bið ykkur að láta það ekki fara fram hjá ykkur sem skiptir mestu“ („Gleðjumst á ferð okkar,“ aðalráðstefna, okt. 2008). Á svipaðan hátt, þegar Russell M. Nelson forseti hvatti okkur nýlega til að „hugsa himneskt“, sagði hann: „Jarðlífið er meistarakúrs í að læra að velja það sem hefur mesta eilífa vægið“ („Hugsið himneskt!,“ aðalráðstefna, okt. 2023).

  6. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 262; sjá einnig Teachings of Presidents of the Church: Brigham Young (1997), 16–18.

  7. Kenningar: Joseph Smith, 49.

  8. Jóhannes 15:4.

  9. Matteus 23:23.

  10. Er áhugavert að gæta að fornleifafræðilegum líkindum milli fornrar amerískrar menningar og þjóða í Mormónsbók? Það getur verið það. Er gagnlegt að læra af frásögnum ritara og annarra um smáatriði þess hvernig Joseph Smith þýddi Mormónsbók? Fyrir suma er það svo. Ekkert af þessu er þó varanlegur vitnisburður um að Mormónsbók sé orð Guðs. Til þess þurfið þið að finna frelsarann í Mormónsbók, að heyra rödd hans tala til ykkar. Þegar það hefur gerst, skiptir ykkur engu hvar hin forna borg Sarahemla var í raun staðsett eða hvernig Úrím og Túmmím litu út. Þetta eru greinar sem hægt er að sniðla af trénu ykkar, ef þörf krefur, en tréð lifir áfram.

  11. Sjá Kenningu og sáttmála 84:19–20.

  12. Sjá Joy D. Jones, „Fyrir hann,“ aðalráðstefna, október 2018.

  13. Sjá 1. Mósebók 3:18.

  14. Nelson forseti hefur boðið öllum að „axla ábyrgð á vitnisburði [okkar] um Jesú Krist og fagnaðarerindi hans. Vinnið fyrir honum. Nærið hann svo hann vaxi“ („Sigrast á heiminum og finna hvíld,“ aðalráðstefna, okt. 2022).

  15. Kólossubréfið 2:7.

  16. Alma 30:3.

  17. Sjá Alma 30:12–16, 31.

  18. Alma 30:18.

  19. Áhugavert er að rök Kóríhors voru með öllu ósannfærandi meðal Lamaníta, fólks Ammons (sjá Alma 30:19–20), sem fylgdi Kristi, ekki vegna erfikenninga feðra sinna.

    Mormónsbók segir hins vegar líka frá kynslóð ungs fólks sem skildi sig frá kirkju Drottins vegna þess að „það trúði ekki erfikenningum feðra sinna“ (sjá Mósía 26:1–4). Það er gott fyrir fjölskyldur að koma á réttlátum hefðum. En það er jafn mikilvægt fyrir fjölskyldur að skilja vel ástæðurnar að baki þessum hefðum. Hvers vegna biðjum við alltaf kvölds og morgna? Hvers vegna lærum við ritningarnar með fjölskyldunni? Hvers vegna höldum við vikuleg heimiliskvöld, fjölskylduviðburði, þjónustuverkefni o.s.frv.? Ef börn okkar skilja hvernig þessar hefðir færa okkur nær himneskum föður og Jesú Kristi, eru þau líklegri til að viðhalda þeim – og efla þær – í eigin fjölskyldu.

  20. Alma 32:21. Trú er máttug, ekki vegna þess sem hún veit heldur vegna þess sem hún gerir.

  21. Sjá Hebreabréfið 10:23.

  22. Alma 32:37, 41–43.