Líahóna
Á nokkrum árum
Nóvember 2024


16:16

Á nokkrum árum

Ef við erum ekki trúföst og hlýðin, getum við umbreytt blessunarlegri guðsgjöf velmegunar í bölvun hrokans, sem dregur athygli okkar frá mikilvægum andlegum forgangsatriðum.

Kæru bræður og systur, þar sem ég sit á pallinum í dag hef ég horft á þessa Ráðstefnuhöll fyllast þrisvar sinnum, í fyrsta sinn eftir Kóvid. Þið eruð trúfastir lærisveinar Jesú Krists sem óðfúsir vilja læra. Ég hrósa ykkur fyrir trúfesti ykkar. Og ég elska ykkur.

Ezra Taft Benson var forseti Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu frá nóvember 1985 til maí 1994. Ég var 33 ára þegar Benson forseti varð forseti kirkjunnar og 42 ára þegar hann lést. Kennsla hans og vitnisburður höfðu djúp og öflug áhrif á mig.

Eitt af einkennum þjónustu Bensons forseta var áhersla hans á tilgang og mikilvægi Mormónsbókar. Hann lagði síendurtekið áherslu á að „Mormónsbók væri burðarsteinn trúar okkar – burðarsteinn vitnisburðar okkar, burðarsteinn kenninga okkar og burðarsteinn í vitnisburði Drottins okkar og frelsara“. Hann lagði líka oft áherslu á kenningar og aðvaranir um synd hrokans sem finna má í þessu síðari daga vitni um Jesú Krist.

Ákveðin kennsla Bensons forseta hafði mikil áhrif á mig og heldur áfram að hafa áhrif á nám mitt í Mormónsbók. Hann sagði:

„Mormónsbók … var rituð fyrir okkar tíma. Nefítarnir höfðu aldrei bókina til forna; ekki heldur Lamanítarnir. Hún var ætluð okkur. Mormón ritaði þegar dró að lokum siðmenningar Nefíta. Undir innblæstri Guðs, sem sér alla hluti frá upphafi, gerði [Mormón] útdrátt á aldagömlum heimildum og valdi sögur, ræður og atburði sem yrðu okkur gagnlegastar.“

Benson forseti sagði ennfremur: „Hver helstu höfunda Mormónsbókar vitnaði um að hann hefði ritað fyrir komandi kynslóðir. … Ef þeir sáu okkar tíma og völdu það sem væri okkur mikilvægast, ættum við þá ekki að læra Mormónsbók á þann hátt? Við ættum stöðugt að spyrja okkur sjálf: ‚Hvers vegna hvatti Drottinn Mormón … til að hafa [þessa frásögn] með í heimild sinni? Hvaða lærdóm get ég dregið af þessu mér til hjálpar í lífinu á þessum tíma?‘“

Orð Bensons forseta hjálpa okkur að skilja að Mormónsbók er ekki aðallega sagnfræðileg heimild sem fjallar um liðinn tíma. Þessi ritning horfir fremur til framtíðar og hefur að geyma mikilvægar reglur, aðvaranir og lexíur fyrir aðstæður og áskoranir okkar tíma. Mormónsbók er því bók um framtíð okkar og þá tíma sem við lifum nú á og munum lifa á.

Ég bið um liðsinni heilags anda er við íhugum viðeigandi lexíur fyrir okkur í dag úr Bók Helamans í Mormónsbók.

Nefítar og Lamanítar

Heimildin um Helaman og syni hans lýsir fólki sem vænti fæðingar Jesú Krists. Hin hálfa öld, sem sagt er frá í ritningunum, sýnir trúarumbreytingu og réttlæti Lamaníta og ranglæti, fráhvarf og viðurstyggð Nefíta.

Röð samanburðar og andstæðna á milli Nefíta og Lamaníta í þessum fornu heimildum, er mest upplýsandi fyrir okkur í dag.

„Lamanítar höfðu að meirihluta orðið að réttlátri þjóð, jafnvel réttlátari en Nefítar, vegna þess hve ákveðnir og staðfastir þeir voru í trúnni.

[Og] margir Nefítanna voru orðnir svo harðir, þverúðarfullir og ranglátir, að þeir höfnuðu orði Guðs og öllum prédikunum og spádómum meðal þeirra.“

„Og þannig sjáum við, að Nefítum tók að hnigna í eigin vantrú og ranglæti og viðurstyggð óx, meðan Lamanítar uxu mjög í þekkingu á Guði sínum. Já, og þeir tóku að halda reglur hans og boð og ganga í sannleika og grandvarleika frammi fyrir honum.

Og þannig sjáum við, að andi Drottins tók að draga sig í hlé frá Nefítum vegna ranglætis þeirra og hjartahörku.

Og þannig sjáum við, að Drottinn tók að úthella anda sínum yfir Lamaníta, vegna þess að þeir voru fúsir til og áttu auðvelt með að trúa orðum hans.“

Ef til vill er það merkilegasta og alvarlegasta við þessa hnignun Nefíta í fráhvarf er sú staðreynd að „allar þessar misgjörðir þróuðust meðal þeirra á nokkrum árum“.

Nefítarnir sneru sér frá Guði

Hvernig gat áður réttlátt fólk orðið forhert og ranglátt á svona stuttum tíma? Hvernig gat fólk gleymt svo fljótt þeim Guði sem hafði blessað það svo ríkulega?

Hið neikvæða fordæmi Nefítanna er lærdómsríkt fyrir okkur í dag á áhrifamikinn og djúpstæðan hátt.

„Hroka .… tók að bera á … í hjörtum þeirra, sem töldu sig til kirkju Guðs … en hann stafaði af hinum miklu auðæfum þess og velgengni í landinu.“

„Hjörtu [þeirra] voru helguð auðæfum og hégóma þessa heims“ „vegna hrokans, sem [þau höfðu] látið ná tökum á hjörtum [sínum] … sem [hreykti þeim] upp yfir það, sem gott er, vegna mikilla auðæfa [þeirra]!“

Fornar raddir úr duftinu biðja okkur í dag að læra þessa ævarandi lexíu: Velsæld, eignir og vellíðan er máttug blanda sem getur leitt jafnvel hina réttlátu til að innbyrða hið andlega eitur hrokans.

Þegar við leyfum að hroki nái tökum á hjörtum okkar, getum við farið að hæðast að því sem heilagt er, hætt að trúa á anda spádóms og opinberunar, fótumtroðið boðorð Guðs, afneitað orði Guðs, hafnað, hæðst að og lastmælt spámönnunum og gleymt Drottni Guði okkar og „[hætt að þrá] að Drottinn Guð [okkar], sem skapaði [okkur], stjórni og ríki yfir [okkur]“.

Ef við erum ekki trúföst og hlýðin, getum við umbreytt blessunarlegri guðsgjöf velmegunar í bölvun hrokans, sem dregur athygli okkar frá eilífum sannleika og mikilvægum andlegum forgangsatriðum. Við verðum ætíð að vera á varðbergi gagnvart hroka sem knúinn er af ýktri tilfinningu sjálfsmikilvægis, röngu mati á eigin sjálfsnægtum og því að vera sjálfmiðuð í stað þess að þjóna öðrum.

Þegar við einblínum hrokafull á okkur sjálf, erum við samtímis haldin andlegri blindu og missum af miklu, af flestu eða ef til vill af öllu sem á sér stað hið innra og umhverfis okkur. Við getum ekki litið til og einblínt á Jesú Krist sem „markið“ okkar ef við aðeins sjáum okkur sjálf.

Slík andleg blinda getur líka valdið því að við villumst af vegi réttlætis, villumst á forboðnar slóðir og glötumst. Þegar við blinduð „[göngum] eigin veg“ og förum skaðlegar hjáleiðir, reiðum við okkur á eigið hyggjuvit, stærum okkur af eigin styrk og látum leiðast af eigin visku.

Lamanítinn Samúel lýsti á hnitmiðaðan hátt fráhvarfi Nefítanna frá Guði: „Já, því að þér hafið alla yðar daga sóst eftir því, sem þér gátuð ekki öðlast. Og þér hafið leitað hamingjunnar í misgjörðum, sem andstæðar eru eðli þess réttlætis, sem felst í vorum mikla og eilífa leiðtoga.“

Spámaðurinn Mormón sagði: „Meiri hluti þjóðarinnar hélt fast við hroka sinn og ranglæti, en minni hlutinn gekk af meiri gætni frammi fyrir Guði.“

Lamanítarnir sneru sér til Guðs

Í Bók Helamans er hið aukna réttlæti Lamaníta sterk andstæða við hina hröðu andlegu hnignun Nefíta.

Lamanítarnir sneru sér til Guðs og öðluðust þekkingu á sannleikanum með því að trúa kenningum heilagra ritninga og spámanna, iðka trú á Drottin Jesú Krist, iðrast synda sinna og upplifa gjörbreytingu hjartans.

„Þeir sem [þess vegna] svo langt komast, eru ákveðnir og staðfastir í trúnni og því, sem gjört hefur þá frjálsa.“

„Og ég vildi, að þér sæjuð, að meiri hluti [Lamaníta] fylgir vegi skyldunnar og gengur gætilega frammi fyrir Guði, og þeir gæta þess að halda boðorð hans, reglur og ákvæði. …

Þeir kappkosta af óþreytandi elju að leiða aðra bræður sína til þekkingar á sannleikanum.“

Af því leiddi að „[Lamanítar urðu] réttlátari en Nefítar, vegna þess hve ákveðnir og staðfastir þeir voru í trúnni“.

Viðvörun og fyrirheit

Moróní lýsti yfir: „Sjá, Drottinn hefur sýnt mér mikla og undursamlega hluti varðandi það, sem brátt hlýtur að verða, á þeim degi, þegar þetta mun koma fram meðal yðar.

Ég ávarpa yður eins og væruð þér nærstaddir, og þó eruð þér það ekki. En sjá. Jesús Kristur hefur sýnt mér yður, og ég veit um gjörðir yðar.“

Hafið vinsamlega hugfast að Mormónsbók horfir til framtíðar og hefur að geyma mikilvægar reglur, aðvaranir og lexíur sem ætlaðar eru mér og ykkur í aðstæðum og áskorunum okkar tíma.

Fráhvarf getur átt sér stað á tveimur grunnstigum – stofnanabundið og einstaklingsbundið. Sem stofnun mun Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu ekki glatast vegna fráhvarfs eða verða tekin frá jörðu.

Spámaðurinn Joseph Smith lýsti yfir: „Merki sannleikans hefur verið reist; engin vanheilög hönd fær stöðvað framrás verksins … sannleikur Guðs mun sækja fram óháður, ákveðinn og göfugur, þar til hann hefur farið um hvert meginland, vitjað hvers lands, þrætt hvert hérað og hljómað í hverju eyra, þar til tilgangi Guðs er náð og hinn mikli Jehóva segir að verkinu sé lokið.“

Einstaklingsbundið verður hvert okkar að „[vera] á verði gegn ofurdrambi, svo að [við verðum] ekki eins og Nefítar til forna“.

Ég legg til að ef ég og þið trúum því að við séum nægilega sterk og djörf til að forðast hroka og dramb, þá gætum við ef til vill þegar þjáðst af þessum banvæna andlega sjúkdómi. Einfaldlega sagt, ef ég eða þið trúum ekki að hroki gæti þjakað okkur, erum við berskjölduð og í andlegri hættu. Á aðeins nokkrum dögum, vikum, mánuðum eða árum gætum við fyrirgert andlegum fæðingarrétti okkar fyrir eitthvað sem er minna en baunakássa.

Ef við hins vegar trúum að hroki gæti þjakað okkur, munum við stöðugt gera hið smáa og einfalda sem mun vernda og hjálpa okkur að verða „[sem barn, undirgefin, hógvær, auðmjúk, þolinmóð, elskurík og reiðubúin að axla allt, sem Drottni þóknast á okkur að leggja]“. „Blessaðir eru … þeir, sem auðmýkja sig án þess að vera neyddir til auðmýktar.“

Þegar við fylgjum leiðsögn Bensons forseta og spyrjum okkur sjálf hvers vegna Drottinn innblés Mormón að hafa með í útdrætti sínum í Bók Helamans frásagnirnar, áminningarnar og aðvaranirnar sem hann gerði, lofa ég að við munum átta okkur á mikilvægi þessara kenninga við ákveðnar aðstæður lífs okkar sjálfra og fjölskyldna á okkar tíma. Þegar við lærum og hugleiðum þessa innblásnu heimild, verðum við blessuð með augum til að sjá, eyrum til að heyra og huga og hjarta til að skilja lexíurnar sem við ættum að læra til að „[gæta okkur] á ofurdrambi, svo að [við föllum] ekki í freistni“.

Af gleði ber ég vitni um að Guð hinn eilífi faðir er faðir okkar. Jesús Kristur er hans eingetni og elskaði sonur. Hann er frelsari okkar. Ég ber vitni um að ef við göngum í hógværð anda Drottins, munum við forðast og sigrast á hroka og eiga frið í honum. Um það vitna ég í hinu heilaga nafni Drottins Jesú Krists, amen.