Heilagar ritningar – undirstaða trúar
Við getum ekki vanmetið mikilvægi heilagrar ritningar, bæði hvað varðar trúarumbreytingu og trúfesti í fagnaðarerindinu.
Ég og eiginkona mín, Mary, sáum nýlega stuttermabol með mynd af bók og skilaboðum framan á sem sögðu: „Bækur, hin upprunalega lófatölva.“
Ég hugleiddi þessi áhugaverðu skilaboð og hve mikilvæg ýmiss konar handhæg tæki hafa orðið. Þegar ég hugleiddi þetta frekar, gerði ég mér grein fyrir því að sama hvaða tæki það er, jafnvel tæki með gervigreind, þá verður það aldrei eins mikilvægt eða þýðingarmikið og sú andlega leiðsögn sem kemur frá guðlegri opinberun.
Hvort sem þær eru í lófa eða stafrænar, þá veita Biblían og Mormónsbók: Annað vitni um Jesú Krist, andlega leiðsögn og kennslu frá Jesú Kristi, frelsara heimsins. Við metum þessar bækur mikils fyrir það mikilvæga hlutverk þeirra að skrásetja leiðsögn Guðs til fornra spámanna og fólks og einnig leiðsögnina sem þær veita fyrir okkar eigið persónulega líf.
Þessar helgu ritningar, ásamt kenningum lifandi spámanna, veita okkur kenningarlega leiðsögn í heiminum í dag. Þessar ritningar eru áhrifaríkastar þegar þær veita þeim einstaklingum og fjölskyldum sem leita leiðsagnar Drottins fyrirmæli, leiðréttingu, hughreystingu og huggun.
Ritningarnar, ásamt andlegum innblæstri heilags anda, halda áfram að vera meginheimildin sem auðveldar trúarumbreytingu þeirra sem hafa sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda og þrá að fylgja Jesú Kristi. Ritningarnar hjálpa til við að byggja grunn sem getur staðist stöðugar tilraunir andstæðingsins til að grafa undan trú.
Nýir trúskiptingar hafa blessað kirkjuna og verið lífæð hennar í gegnum sögu hennar. Eitt dæmi er mér einkar dýrmætt. Þegar ég var ungur biskup voru tveir stórkostlegir systurtrúboðar að kenna fjölskyldu William Edward Mussman. Faðirinn, sem var afar fær lögfræðingur, var yfirlögmaður í stórfyrirtæki. Ástkær eiginkona hans, Janet, var að hjálpa fjölskyldunni að lifa kristilegra lífi.
Einnig var verið að kenna syni þeirra og dóttur, sem voru afburða einstaklingar og rétt á tvítugsaldri. Öll fjögur höfðu meðtekið lexíurnar og voru farin að sækja kirkju. Systurtrúboðarnir höfðu lagt áherslu á að lesa Mormónsbók og biðja fyrir vitnisburði um þá helgu ritningu. Það merkilega er að fjölskyldan las alla Mormónsbók í bænaranda á stuttum tíma.
Stikutrúboðarnir, sem báðir voru fyrrverandi Líknarfélagsforsetar deildar, fylgdu þeim á sakramentissamkomur.
Þegar draga tók að skírn fjölskyldunnar, barst þeim aragrúi af ritum sem gagnrýndu kirkjuna. Þetta var fyrir tíma alnetsins, en efnið fyllti stóran pappakassa.
Systurtrúboðarnir buðu mér, sem nýlega kölluðum 34 ára gömlum biskupi, að hjálpa til við að svara spurningunum sem vöknuðu. Þegar við komum saman í stofunni þeirra, var stóri kassinn af bæklingum sem gagnrýndu kirkjuna í miðju herberginu. Ég hafði nálgast þetta verkefni með bæn í huga. Í upphafsbæninni hvíslaði andinn að mér: „Hann veit nú þegar að þetta er satt.“ Þetta var mikilvægt. Systurnar töldu að hinir í fjölskyldunni hefðu þegar hlotið vitnisburð. Þær voru óvissar um föðurinn.
Ég sagði honum strax að andinn hefði blásið mér í brjóst, að hann hefði þegar hlotið vitnisburð. „Var það satt?“ Hann horfði á mig einbeittur og sagði að andinn hefði staðfest sannleika Mormónsbókar og kirkjunnar fyrir sér.
Ég spurði síðan hvort nauðsynlegt væri að skoða bæklingana, ef þau hefðu þegar hlotið andlega staðfestingu.
Faðirinn svaraði að þess væri ekki þörf. Hinir í fjölskyldunni voru sammála svari hans.
Hann sagðist vera með áríðandi spurningu: Ein ástæða þess að þeim hafði borist svo mikið af ritum gegn kirkjunni var sú að þau tilheyrðu annarri trú. Auk þess hafði hann gefið loforð um mikinn styrk til að hjálpa við að byggja nýja kapellu fyrir þá trú. Hann upplýsti mig um að systurtrúboðarnir hefðu kennt honum um mikilvægi tíundar, sem hann samþykkti af þakklæti, en velti fyrir sér hvort það væri rangt að standa einnig við loforðið sem hann hafði gefið. Ég fullvissaði hann um að greiðsla áheitsins yrði bæði sæmandi og viðeigandi.
Öll fjölskyldan var svo skírð. Einu ári síðar voru þau innsigluð sem fjölskylda í Oakland–musterinu í Kaliforníu. Ég fékk þann heiður að vera viðstaddur. Sonurinn lauk laganámi, náði lögmannsprófi í Kaliforníu og þjónaði því næst trúfastlega í trúboði í Japan. Ég hef í áranna rás fylgst með því hvernig nýjar kynslóðir hafa verið trúfastar fagnaðarerindinu. Ég naut þeirra forréttinda að framkvæma innsiglun eins barnabarnanna.
Trúarumbreytingin sem er að eiga sér stað á okkar tíma er jafn merkileg. Í júní síðastliðnum vorum við Andy Reid þjálfari, yfirþjálfari ameríska-fótboltaliðsins Kansas City Chiefs, ásamt öðrum fulltrúum trúar okkar og annarra trúarbragða, á fjöltrúarviðburði í Riverside-kirkjunni í New York-borg og ávörpuðum fólk. Reid þjálfari lagði áherslu á mikilvægi annars tækifæris og að bregðast við boðum og tækifærum, sem er það sem fagnaðarerindi Jesú Krists snýst um. Næsta morgun fórum við á sakramentissamkomu í 2. deild Manhattan, ásamt eiginkonum okkar, Tammy Reid og Mary. Það var andleg samkoma. Það voru margir nýir trúskiptingar í söfnuðinum. Fimm nýlega skírðir meðlimir, fjórir karlmenn og einn piltur, voru meðal þeirra meðlima Aronsprestdæmisins sem útdeildu sakramentinu. Það gleður mig að geta greint frá því að álíka straumur nýrra meðlima á sér stað víðsvegar í kirkjunni.
Við erum þakklát fyrir merkjanlega aukningu þeirra sem bregðast við heilögum boðum, breyta lífi sínu og þiggja tækifærið að fylgja Jesú Kristi. Þau fara inn á sáttmálsveginn fyrir trú, iðrun, skírn og staðfestingu, eins og kennt er í hinni helgu Biblíu og Mormónsbók.
Við getum ekki vanmetið mikilvægi heilagrar ritningar, bæði hvað varðar trúarumbreytingu og trúfesti í fagnaðarerindinu. Hinir fornu spámenn sem talað er um í Mormónsbók vissu um hlutverk Jesú Krists og kenndu fagnaðarerindi hans. Mormónsbók hjálpar okkur að koma nær Guði, er við lærum, skiljum og tileinkum okkur kenningar hennar. Spámaðurinn Joseph Smith sagði að „maðurinn [eða konan] kæmist nær Guði með því að fara eftir kenningum [bókarinnar], fremur en nokkurrar annarrar bókar“.
Til að komast að því hvort Mormónsbók sé orð Guðs, þurfum við að lesa, ígrunda og biðjast fyrir varðandi hana og breyta síðan í samræmi við reglur hennar. Spámaðurinn Moróní lofaði að Guð muni opinbera okkur sannleika bókarinnar þegar við biðjumst fyrir af einlægu hjarta og einlægum ásetningi og í trú á Krist. Nám í Mormónsbók er nauðsynlegt til varanlegrar trúarumbreytingar.
Þegar við íhugum samband Biblíunnar og Mormónsbókar sem lófatæki, mætti spyrja einnar spurningar. Hversu gagnlegar og samhæfðar teljið þið að tvær bækur væru, ef Drottinn lýsti því yfir að þær yrðu skeyttar saman og „[yrðu] einn stafur í hendi þér“? Þetta er það sem Drottinn lýsti yfir varðandi „staf Júda“, Biblíuna og „staf Jósefs“, Mormónsbók.
Á margan markverðan hátt kemur Mormónsbók fram með grundvallarkenningu sem auðgar Biblíuna og byggir á henni. Kenningin um friðþægingu Jesú Krists er djúpstætt dæmi.
Biblían veitir nákvæma frásögn af jarðneskri þjónustu Jesú Krists, þar á meðal dauða hans og upprisu. Mormónsbók er afdráttarlausari um friðþægingu Jesú Krists, nokkuð sem spámenn útskýrðu ítarlega fyrir dauða hans.
Fyrirsögn 42. kapítula Alma endurspeglar kenningarlegt mikilvægi friðþægingar Jesú Krists.
Þar segir: „Jarðlífið er reynslutími sem gjörir manninum mögulegt að iðrast og þjóna Guði – Fallið leiddi stundlegan og andlegan dauða yfir allt mannkyn – Endurlausn fæst með iðrun – Guð sjálfur friðþægði fyrir syndir heimsins – Miskunnin er ætluð þeim sem iðrast – Allir aðrir eiga allt undir réttvísi Guðs – Miskunnin er möguleg vegna friðþægingarinnar – Aðeins þeir sem sannlega iðrast eru hólpnir.“
Russell M. Nelson forseti hefur sagt: „Ef þið lesið Mormónsbók með bæn í huga daglega, þá munið þið taka betri ákvarðanir – daglega.“ Hann lofaði því einnig: „Er þið sökkvið ykkur daglega í Mormónsbók, þá getið þið verið vernduð gegn vonsku þessara tíma.“
Eins og ég nefndi, þá var ég hrifinn af hugmyndinni um upprunalegu lófatölvuna – bók. Hins vegar kannast ég við ótrúlegt mikilvægi alnetsins í heiminum í dag. Eitt nútíma lófatæki getur veitt þær upplýsingar sem sögulega hefur fyllt stórt bókasafn. Við erum þakklát fyrir að lifa á slíkum tímum. Ég er einkar þakklátur fyrir að helgar bækur og kirkjuefni sé aðgengilegt á stafrænu formi. Alnetið er öflugt verkfæri til að læra fagnaðarerindið. Í dag miðla margir vinum sínum ritningum með hjálp tækninnar. Til dæmis er Mormónsbókarappið dásamleg leið til að kynna vini fyrir Mormónsbók og auðvelt er að miðla því á venjulegan og eðlilegan hátt, hvar sem þið kunnið að vera.
Þótt alnetið veiti margar blessanir, þá hefur það því miður líka verið notað til að skapa efasemdir og grafa undan trú á dýrmætar reglur fagnaðarerindisins, líkt og rituðu bæklingarnir sem gagnrýna kirkjuna sem ég minntist á áðan. Það getur verið hluti af „vonsku þessara tíma“ sem Nelson forseti minntist á.
Andstæðingurinn og þeir sem aðstoða hann, hafa vitandi eða óafvitandi, búið til á alnetinu ígildi kassans sem ég lýsti hér áðan, fullan af rituðu efni sem gagnrýnir kirkjuna, í þeim tilgangi að beina ykkur frá sannleika Guðs.
Málin sem komið hafa upp til að skapa efasemdir í gegnum árin hafa verið ótrúlega svipuð. Þetta á sérstaklega við þegar þið berið saman okkar tíma og sjöunda áratuginn, þegar ég var á þrítugsaldri.
Ritningarnar kenna okkur að nota dómgreind og vera skynsöm í öllu. Hægt er að nota alnetið á jákvæðan eða eyðileggjandi hátt.
Bæði meðlimir til langs tíma og þeir sem nýlega hafa lært fagnaðarerindið, þurfa að taka meðvitaðar ákvarðanir um hvað þeir skoða. Verjið ekki tímanum í ósiðlegt, ósæmandi eða óréttlátt efni. Ef þið gerið það, þá geta reiknirit leitt ykkur inn á braut sem eyðileggur trú og skerðir eilífa framþróun ykkar. Þið getið orðið fyrir jákvæðum eða neikvæðum áhrifum. Leitið réttlætis og forðist að villast í netheimum og forðist glötunarskrun. Fyllið líf ykkar af jákvæðum, réttlátum hugmyndum, gleðjist, skemmtið ykkur, en forðist heimskupör. Það er munur þar á. Þrettánda trúaratriðið er dásamlegur leiðarvísir. Framar öllu, sökkvið ykkur reglulega niður í Mormónsbók, sem mun laða andann inn í líf ykkar og hjálpa ykkur að greina sannleika frá villu.
Leiðsögn mín til þeirra sem hafa á einhvern hátt vikið af sáttmálsveginum, er að snúa sér aftur að hinum heilögu ritningum, spámannlegri leiðsögn, trúariðkun á heimilinu og tónlist trúar. Sérhver sál er dýrmæt í augum Drottins. Við þörfnumst ykkar! Drottinn þarfnast ykkar og þið þarfnist hans. Þið verðið alltaf velkomin. Á þeim mörgu árum sem ég hef þjónað í kirkjunni, hef ég kunnað að meta það dásamlega fólk sem sneri aftur á sáttmálsveginn og þjónaði síðan og blessaði alla sem því þótti vænt um eða þá sem það komst í samband við.
Hinar helgu ritningar og lifandi spámenn eru mikilvæg leið fyrir kærleiksríkan himneskan föður til að gera sæluáætlun sína tiltæka fyrir öll börn sín.
Ég ber mitt örugga vitni um guðleika Jesú Krists og raunveruleika friðþægingar hans, í nafni Jesú Krists, amen.