Líahóna
Maðurinn sem átti samskipti við Jehóva
Nóvember 2024


11:8

Maðurinn sem átti samskipti við Jehóva

Hann var „blessaður með því að ljúka upp síðustu ráðstöfuninni“ og við erum blessuð fyrir að hann gerði það.

Tilgangur minn í dag og alltaf er að vitna um Jesú Krist, að hann er sonur Guðs, skapari og frelsari heimsins, bjargvættur okkar og lausnari. Þar sem „grundvallarreglur trúar okkar eru vitnisburður postulanna og spámannanna um Jesú Krist“, miðla ég ykkur í dag þekkingu minni og vitnisburði um frelsarann, sem hefur styrkst og eflst vegna lífs og kenninga eins lykilpostula og spámanns.

Upphaf visku

Að morgni fallegs, heiðskírs dags, snemma vors árið 1820, fór hinn 14 ára gamli Joseph Smith í trjálund nærri heimili fjölskyldu sinnar til að biðjast fyrir varðandi syndir sínar og spyrja hvaða kirkju hann ætti að ganga í. Einlæg bæn hans, beðin í óhagganlegri trú, vakti athygli öflugustu afla alheims, þar með talið föðurins og sonarins. Og djöfulsins. Hver þeirra hafði brennandi áhuga á þessari bæn og þessum dreng.

Það sem við nú köllum Fyrstu sýnina, markaði upphaf endurreisnar allra hluta á þessum síðasta ráðstöfunartíma. Þessi reynsla var þó líka persónuleg fyrir Joseph og var honum undirbúningur. Það eina sem hann vildi var fyrirgefning og leiðsögn. Drottinn veitti honum hvort tveggja. Boðið um að „ganga ekki í neina [kirknanna]“ var leiðbeinandi. Orðin „syndir þínar eru fyrirgefnar“ voru endurleysandi.

Þrátt fyrir allan þann fallega sannleika sem við gætum lært af þessari Fyrstu sýn, þá var helsta atriði Josephs kannski einfaldlega: „Ég hafði komist að raun um, að vitnisburður Jakobs væri sannur – að maður, sem skorti visku, gæti beðið Guð ásjár.“

Eins og einn fræðimaður sagði: „Hin raunverulega skírskotun Fyrstu sýnarinnar á okkar tíma er að vita að það er eðli Guðs að veita þeim sem skortir visku. … Sá Guð sem opinberaði sig Joseph Smith í lundinum helga, er Guð sem svarar ungmennum á erfiðum tímum.“

Reynsla Josephs í lundinum veitti honum sjálfstraust til að biðja um fyrirgefningu og leiðsögn það sem eftir var ævi sinnar. Reynsla hans hefur líka veitt mér sjálfstraust til að biðja um fyrirgefningu og leiðsögn það sem eftir er ævi minnar.

Reglubundin iðrun

Þann 21. september 1823 bað Joseph einlæglega um fyrirgefningu, fullviss um að vegna reynslu sinnar í lundinum þremur árum áður, myndi himinninn svara aftur. Og það gerði hann. Drottinn sendi engil, Moróní, til að leiðbeina Joseph og upplýsa hann um forna heimild sem hann myndi síðar þýða með gjöf og krafti Guðs – Mormónsbók.

Næstum 13 árum síðar krupu Joseph og Oliver Cowdery í hátíðlegri, hljóðri bæn í nývígðu Kirtland-musterinu. Við vitum ekki um hvað þeir báðu, en bænir þeirra innihéldu líklega beiðni um fyrirgefningu, því þegar þeir risu á fætur, birtist frelsarinn og sagði: „Sjá, syndir yðar eru yður fyrirgefnar. Þér eruð hreinir fyrir mér.“

Mánuðina og árin eftir þessa upplifun syndguðu Joseph og Oliver aftur. Og aftur. En á þeirri stundu, fyrir þá stund, gerði Jesús þá syndlausa, sem svar við bæn þeirra og til undirbúnings fyrir hina dýrðlegu endurreisn prestdæmislykla sem var í þann mund að gerast.

Líf Josephs, helgað reglubundinni iðrun, veitir mér sjálfstraust til að „[ganga] með djörfung að hásæti náðarinnar, til þess að [ég öðlist] miskunn“. Ég hef komist að því að Jesús Kristur er sannlega „fús til að fyrirgefa“. Það er hvorki ætlunarverk hans né eðli að fordæma. Hann kom til að frelsa.

Leita svara hjá Drottni

Sem hluti af fyrirheitinu um „endurreisn allra hluta“, leiddi Drottinn fram Mormónsbók fyrir tilstilli Josephs Smith og aðrar opinberanir sem geyma fyllingu fagnaðarerindis hans. Mikilvægur sannleikur var gæddur skýrleika og fullkomnun, er Joseph leitaði leiðsagnar hjá Drottni. Athugið eftirfarandi:

  1. Faðirinn og sonurinn hafa „jafn áþreifanlegan líkama og mannsins“.

  2. Jesús tók ekki aðeins á sig syndir okkar, heldur líka sjúkdóma, þrengingar og veikleika.

  3. Friðþæging hans var svo kvalafull að hún olli því að það blæddi úr hverri svitaholu.

  4. Við erum frelsuð fyrir náð hans „að afloknu öllu sem við getum gert“.

  5. Skilyrði eru fyrir miskunn Krists.

  6. Þegar við komum til Krists, mun hann ekki aðeins fyrirgefa syndir okkar, heldur mun hann einnig breyta eðli okkar, „svo við hneigjumst ekki lengur til illra verka“.

  7. Kristur býður fólki sínu alltaf að reisa musteri, þar sem hann opinberar sig því og veitir því kraft frá upphæðum.

Ég vitna um að þetta allt er sannleikur og nauðsynlegt. Þetta eru aðeins brot af þeirri fyllingu sem Jesús Kristur endurreisti með Joseph Smith til að svara stöðugum beiðnum Josephs um leiðsögn.

Velta þessu ríki áfram

Árið 1842 ritaði Joseph um undursamlega hluti sem áttu eftir að gerast á þessari síðustu ráðstöfun. Hann lýsti yfir að á okkar tíma „[verður] hið himneska prestdæmi … sameinað hinu jarðneska, til að gera þennan mikla tilgang að veruleika. Og er við erum þannig sameinuð í einum málstað, við að leiða fram ríki Guðs, verður hið himneska prestdæmi ekki iðjulaust“.

Við vin sinn, Benjamin Johnson, sagði Joseph: „Benjamin, [ef ég dey] væri ég ekki langt í burtu frá þér og ef ég væri hinum megin hulunnar, þá væri ég enn að vinna með þér og af miklu meiri krafti, við að velta þessu ríki áfram.“

Þann 27. júní 1844, voru Joseph Smith og bróðir hans, Hyrum, myrtir. Líkami Josephs var lagður til hinstu hvílu, en vitnisburður hans bergmálar enn um allan heim og í sál minni:

„Ég hafði séð sýn. Ég vissi það, og ég vissi að Guð vissi það, og ég gat ekki neitað því.“

„Ég hef aldrei sagst vera fullkominn, en enga villu er að finna í opinberununum sem ég hef kennt.“

„Grundvallarreglur trúar okkar eru vitnisburður postulanna og spámannanna um Jesú Krist, að hann dó, var grafinn og reis upp á þriðja degi og sté upp til himins, og allt annað í trúarbrögðum okkar er aðeins viðauki við það.“

Það sem sagt var um Jóhannes skírara mætti einnig segja um Joseph Smith: „Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét [Joseph]. … Hann var ekki ljósið, heldur sendur til að vitna um það ljós,“ … „svo að allir menn megi trúa fyrir hann.“

Ég trúi. Ég trúi og er fullviss um að Jesús er Kristur, sonur hins lifandi Guðs. Ég ber vitni um að hinn lifandi Guð er ástríkur faðir okkar. Ég veit það vegna þess að rödd Drottins hefur talað það til mín og það hefur rödd þjóna hans, postulanna og spámannanna, einnig gert og það hófst með Joseph Smith.

Ég ber vitni um að Joseph Smith var og er spámaður Guðs, vitni og þjónn Drottins Jesú Krists. Hann var „blessaður með því að ljúka upp síðustu ráðstöfuninni“ og við erum blessuð fyrir að hann gerði það.

Drottinn bauð Oliver og okkur öllum: „Stattu með þjóni mínum Joseph, af trúfestu.“ Ég ber vitni um að Drottinn stendur með þjóni sínum Joseph og endurreisninni sem var unnin fyrir tilverknað hans.

Joseph Smith er nú hluti af því himneska prestdæmi sem hann talaði um. Eins og hann lofaði vini sínum, þá er hann ekki langt frá okkur og hinum megin hulunnar vinnur hann enn með okkur og af miklu meiri krafti við að velta þessu ríki áfram. Með gleði og þakklæti hef ég upp rödd mína í „lofgjörð til mannsins sem átti samskipti við Jehóva“. Og umfram allt, lofsyng ég Jehóva sem átti samskipti við þennan mann! Í nafni Jesú Krists, amen.