Líahóna
Treysta föður okkar
Nóvember 2024


10:20

Treysta föður okkar

Guð treystir okkur til að taka margar mikilvægar ákvarðanir og í öllum málum biður hann okkur að treysta sér.

Þann 1.júní 1843, fór Addison Pratt frá Nauvoo, Illinois, til þess að prédika fagnaðarerindið á Havaíeyjum og skildi eiginkonu sína, Louisu Barnes Pratt, eftir eina til að hugsa um ung börn þeirra.

Þegar ofsóknirnar í Nauvoo urðu ofsafengnari og neyddu meðlimi til að fara, og síðar við Vetrarstöðvarnar, er þeir bjuggu sig undir til að flytja til Salt Lake-dalsins, stóð Louisa frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort hún ætti að fara. Auðveldara hefði verið að vera um kyrrt og bíða þess að Addison kæmi aftur, frekar en að ferðast ein.

Í báðum tilvikum fékk hún leiðsögn frá spámanninum Brigham Young sem hvatti hana til að fara. Þrátt fyrir mikla erfiðleika og eigin tregðu, komst hún klakklaust í hvort skiptið á leiðarenda.

Upphaflega fann Louisa enga gleði í því að ferðast. Hún tók þó fljótlega að fagna græna sléttugrasinu, litríku villtu blómunum og umhverfinu meðfram árbökkunum. „Myrkrið í huga mínum fór smám saman í burtu,“ skráði hún, „og það var ekki til glaðlegri kona í öllum hópnum.“

Saga Louisu veitti mér mikinn innblástur. Ég dáist að vilja hennar til að víkja eigin óskum til hliðar, hæfni hennar til að treysta Guði og hvernig trú hennar hjálpaði henni að sjá aðstæðurnar öðruvísi.

Hún hefur minnt mig á að við eigum kærleiksríkan föður á himnum sem hugsar um okkur hvar sem við erum og að við getum treyst honum meira en nokkrum eða nokkru öðru.

Uppspretta sannleikans

Guð treystir okkur til að taka margar mikilvægar ákvarðanir og í öllum málum biður hann okkur að treysta sér. Þetta er einkar erfitt þegar dómgreind okkar eða almannaálit er annað en vilji hans fyrir börn sín.

Sumir halda því fram að við ættum að endurstrika línurnar á milli þess sem er rétt og rangt, því þeir segja að sannleikurinn sé afstæður, að raunveruleiki sé skilgreining hvers og eins eða að Guð sé svo gæskuríkur að honum sé í raun sama um hvað við gerum.

Þegar við leitumst við að skilja og samþykkja vilja Guðs er gagnlegt að hafa hugfast að það er ekki okkar að skilgreina mörkin milli rétts og rangs. Guð hefur sjálfur sett þessi mörk, byggð á eilífum sannleika okkur til góðs og blessunar.

Þráin til að breyta eilífum sannleika Guðs á sér langa sögu. Hún varð til áður en veröldin varð til, þegar Satan gerði uppreisn gegn áætlun Guðs og leitaðist í sjálfselsku við að eyðileggja sjálfræði mannsins. Menn eins og Serem, Nehor og Kóríhor, fylgdu slíku fordæmi með því að staðhæfa að trú væri flónska, opinberanir kæmu málinu ekki við og hvaðeina sem við viljum gera væri rétt. Því miður hafa þessi fráhvörf frá sannleika Guðs margoft leitt til mikillar sorgar.

Þetta veltur oft á samhenginu, en þó ekki alltaf. Russell M. Nelson forseti hefur stöðugt kennt að hinn frelsandi sannleikur Guðs sé algjör, sjálfstæður og skilgreindur af Guði sjálfum.

Okkar val

Hverjum við ákveðum að treysta er ein af mikilvægu ákvörðunum lífsins. Benjamín konungur sagði fólki sínu: „Trúið á Guð, trúið, að hann sé til … ; trúið, að hans sé öll viska … ; trúið, að maðurinn geti ekki haft skilning á öllu, sem Drottinn skilur.“

Sem betur fer höfum við ritningarnar og leiðsögn frá lifandi spámönnum til þess að hjálpa okkur að skilja sannleika Guðs. Ef skýringa er þörf umfram það sem við höfum, mun Guð gefa þær með spámönnum sínum. Og hann mun bregðast við einlægum bænum okkar með heilögum anda, er við leitumst við að skilja sannleika sem við skiljum enn ekki fyllilega.

Öldungur Neil L. Andersen sagði eitt sinn: „Látið það ekki setja ykkur út af laginu þótt einhverjar skoðanir ykkar kunni í upphafi að stangast á við kennslu spámanns Drottins. Það eru tímar lærdóms og auðmýktar, er við krjúpum í bæn. Við sækjum fram í trú, treystum Guði, í þeirri vissu að við munum í rás tímans fá aukinn andlegan skilning frá föður okkar á himnum.“

Á öllum stundum er hjálplegt að hafa hugfast að Alma kenndi að Guð gefur orð sitt í samræmi við þann gaum og þá kostgæfni sem við sýnum því. Ef við meðtökum orð Guðs fáum við meira, ef við hlítum ekki leiðsögn hans fáum við minna og minna, uns við höfum ekkert. Slík glötun þekkingar merkir ekki að sannleikurinn hafi verið rangur, hún sýnir að við höfum glatað getunni til að skilja hann.

Lítum til frelsarans

Í Kapernaúm kenndi frelsarinn hver hann væri og hvert verk hans væri. Mörgum þótti erfitt að heyra orð hans, sem varð til þess að þeir hurfu frá og „voru ekki framar með honum“.

Hvers vegna hurfu þeir frá?

Vegna þess að þeim líkaði ekki það sem hann sagði. Þeir treystu sinni eigin dómgreind og hurfu frá og neituðu sér þannig um blessanir sem hefðu komið hefðu þeir verið um kyrrt.

Það er auðvelt að láta stoltið okkar koma á milli okkar og eilífs sannleika. Þegar við skiljum ekki, getum við dokað við, leyft tilfinningum okkar að róast og ákveðið hvernig við bregðumst við. Frelsarinn brýnir fyrir okkur: „Beinið öllum hugsunum yðar til mín. Efist ekki, óttist ekki.“ Þegar við einblínum á frelsarann getur trú okkar tekið að yfirstíga áhyggjur okkar.

Eins og Dieter F. Uchtdorf forseti hefur sagt við okkur: „[Efið] efasemdir ykkar áður en þið efið trú ykkar. Við megum aldrei láta efann halda okkur í gíslingu frá guðlegum kærleika, friði og hinum dýrmætu gjöfum sem hlotnast fyrir trú á Drottin Jesú Krist.“

Blessanir berast þeim sem verða um kyrrt

Þegar lærisveinarnir hurfu frá frelsaranum þennan dag, spurði hann hina Tólf: „Ætlið þið að fara líka?“

Pétur svaraði honum:

„Drottinn, til hvers ættum við að fara? Þú hefur orð eilífs lífs

og við trúum og vitum að þú ert hinn heilagi Guðs.“

Postularnir lifðu í sama heimi og voru undir sama samfélagslega þrýstingi og lærisveinarnir sem hurfu frá. Á þessari stundu völdu þeir að vera trúfastir og treystu Guði og varðveittu þannig þær blessanir sem Guð gefur þeim sem dvelja áfram.

Ef til vill finnst ykkur, eins og mér, þið stundum vera tvístígandi við þessa ákvörðun. Þegar við eigum í erfiðleikum með að skilja eða sætta okkur við vilja Guðs, er hughreystandi að minnast þess að hann elskar okkur eins og við erum, hvar sem við erum. Og hann hefur nokkuð sem er betra fyrir okkur. Ef við leitum til hans, mun hann aðstoða okkur.

Þótt erfitt geti verið meðan við leitum til hans, eins og hjá föðurnum sem leitaði lækningar fyrir son sinn var sagt af frelsaranum: „Sá getur allt sem trúir.“ Á baráttustundum getum við líka hrópað: „Hjálpa þú vantrú minni.“

Samræma okkar vilja að hans vilja

Öldungur Neal A. Maxwell kenndi: „Að gefa upp eigin vilja er í raun það eina sem er okkur einmuna persónulegt og við getum sett á altari Guðs.“ Engin furða að Benjamín konungur vildi óðfús að fólk sitt yrði „sem barn, undirgefið, hógvært, auðmjúkt, þolinmótt, elskuríkt og reiðubúið að axla allt, sem Drottni þóknast á [það] að leggja, á sama hátt og barn, sem beygir sig fyrir föður sínum“.

Eins og ávallt sýndi frelsarinn hið fullkomna fordæmi fyrir okkur. Íþyngdur í hjarta og vitandi um hið sársaukafulla verk sem hann þurfti að vinna, laut hann vilja föður síns, uppfyllti ætlunarverk sitt sem Messías og gerði fyrirheitið um eilífð að veruleika fyrir mig og ykkur.

Ákvörðun okkar um að lúta vilja Guðs, er trúarbreytni sem nær að innstu hjartarótum lærisveinsdóms okkar. Þegar við tökum þá ákvörðun, uppgötvum við að það dregur ekki úr sjálfræði okkar, heldur eykst það að magni og umbun með nærveru heilags anda, sem færir okkur tilgang, gleði og von sem við finnum hvergi annars staðar.

Fyrir nokkrum mánuðum heimsóttu ég og stikuforseti systur í stiku hans og ungan, fullorðinn son hennar. Eftir áralanga fjarveru frá kirkjunni, fetandi erfiða og óvinveitta stigu, hafði hún snúið til baka. Á meðan heimsókn okkar stóð, spurðum við hana af hverju hún hefði komið til baka.

„Líf mitt var komið í óefni“ sagði hún „og ég vissi hvar ég þurfti að vera.“

Ég spurði hana þá hvað hún hefði lært á vegferð sinni.

Af nokkurri tilfinningasemi, deildi hún því sem hún hafði lært, að hún þyrfti að ástunda kirkjusókn nógu lengi til þess að rjúfa þann vana að hafa ekki komið og að hún þyrfti að vera um kyrrt, þangað til að þetta væri þar sem hún vildi vera. Það var ekki auðvelt fyrir hana að snúa aftur, en þegar hún sýndi trú á áætlun föðursins, fann hún aftur fyrir andanum.

Síðan bætti hún við: „Ég hef lært það sjálf að Guð er góður og að hans vegir eru betri en mínir.“

Ég ber vitni um Guð, okkar eilífa föður, sem elskar okkur og son hans, Jesú Krist, sem frelsaði okkur. Þeir þekkja særindi okkar og áskoranir. Þeir munu aldrei yfirgefa okkur og vita fullkomlega hvernig á að liðsinna okkur. Við getum verið vongóð er við treystum þeim meira en nokkrum eða nokkru öðru. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.