Orð Krists og heilagur andi munu leiða okkur í sannleikann
Að þekkja þessa ótrúlegu áætlun mun hjálpa okkur að vita að við erum börn Guðs og við getum orðið eins og hann.
Guð er faðir okkar á himnum. Við erum andabörn hans og við erum sköpuð í hans mynd. Þess vegna hefur hvert okkar, sem barn Guðs, guðlega möguleika til að verða eins og hann.
Við lifðum með honum sem andar áður en við komum til þessarar jarðar. Himneskur faðir, sem andaforeldri okkar, elskar okkur, vill það besta fyrir okkur og útbjó áætlun fyrir okkur til að hljóta stærstu blessanir hans, sem eru ódauðleiki og eilíft líf. Samkvæmt áætluninni myndum við, sem andabörn, fá sjálfræði til að velja áætlun hans. Með því að koma til jarðar myndum við yfirgefa nærveru Guðs, gleyma fortilveru okkar, hljóta líkama af holdi og beinum, öðlast eigin reynslu og þróa trú. Með líkama okkar af holdi og beinum, sem náttúrlegir menn, myndum við falla fyrir freistingum, verða óhrein og fjarlæg Guði og ekki geta snúið aftur í hans heilögu nærveru. Vegna óendanlegrar elsku himnesks föður til okkar, sendi hann frumgetinn son sinn Jesú Krist til að leysa okkur frá synd og dauða. Með fórn sinni, friðþægingunni, gerði Jesús Kristur okkur kleift að verða endurleyst frá syndum okkar og rísa upp og hljóta eilíft líf.
Ég er ákaflega þakklátur fyrir þennan dýrlega sannleika – það sem við köllum sáluhjálparáætlun föðurins, miskunnaráætlun hans eða hina miklu sæluáætlun hans. Að læra þessi mikilvægu sannindi hefur hjálpað mér að þekkja mitt sanna auðkenni og þær miklu blessanir upphafningar og eilífs lífs sem Guð hefur búið okkur. Spámaðurinn Nefí kenndi okkur aðferðina: „Endurnærist [þess vegna] af orðum Krists. Því að sjá. Orð Krists munu segja yður að fullu, hvað yður ber að gjöra.“ Hann bætti við: „Ef þér viljið fara inn um hliðið og taka við heilögum anda, þá mun hann sýna yður allt, sem yður ber að gjöra.” Í dag langar mig að deila því hvernig orð Krists og heilagur andi hjálpuðu mér að finna þessi mikilvægu sannindi snemma á unglingsárunum.
Orð Krists munu segja okkur að fullu, hvað okkur ber að gjöra
Rétt eins og Nefí sagði í upphafsversi 1. bókar Nefi var ég líka „af góðum foreldrum kominn“. Ég ólst upp í Nagano í Japan, á heimili þar sem eindregið var hvatt til heiðarleika, dugnaðar og auðmýktar og farið var stranglega eftir gömlu siðunum. Faðir minn var mjög trúaður maður. Hann baðst fyrir, fyrir framan Shinto- og Búddaltarin á hverjum morgni og hverju kvöldi. Jafnvel þó ég hefði ekki hugmynd um til hvers hann væri að biðja og hverju hann bæði fyrir, þá trúði ég að einhvers konar óséður kraftur eða Guð hefði „máttinn til að frelsa“ eða hjálpa okkur ef við bæðumst einlæglega fyrir.
Eins og aðrir unglingar upplifði ég mikla erfiðleika. Ég átti erfitt, fannst lífið vera ósanngjarnt og átti margar hæðir og lægðir. Mér fannst ég vera glataður að finnast ég ekki hafa stefnu í mínu lífi. Lífið virtist svo hverfult, því það myndi taka enda við dauðann. Líf án þess að þekkja sáluhjálparáætlunina var ruglingslegt fyrir mig.
Ekki löngu eftir að ég byrjaði að læra ensku í menntaskóla fengu allir nemendur í skólanum okkar eintak af Nýja testamentinu. Þó að við værum varla byrjuð að læra ensku, sagði kennarinn okkur að við ættum að læra ensku með því að lesa það. Ég opnaði það og fór yfir efnið. Orðin í Nýja testamentinu voru mér mjög erfið. Á japönsku voru orðin jafn erfið. Hins vegar laðaðist ég að lista með fullyrðingum og spurningum sálarinnar sem hafði verið settur inn rétt á undan biblíutextanum í þessari Gídeonsbiblíu – spurningar um einmanaleika, að skorta sjálfstraust, finnast maður vera ruglaður, standa frammi fyrir prófraunum lífsins og svo framvegis. Hverju atriði listans fylgdi tilvísun í ritningarvers og blaðsíður í Nýja testamentinu. Ég laðaðist sérstaklega að fullyrðingunni „þegar þú ert örmagna“. Tilvísunin leiddi mig til að opna Matteus 11:28–30, þar sem Jesús sagði við lærisveina sína:
„Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.
Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.
Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“
Þetta var fyrsta sinn sem ég man eftir að lesa orð Jesú Krists. Þó að ég hafi ekki skilið öll orðin sem hann sagði, hugguðu orð hans mig, lyftu sál minni og gáfu mér von. Því meira sem ég las orð hans, því meira fannst mér að ég ætti að reyna dyggð orða hans. Mér hafði aldrei liðið eins og mér leið þennan dag. Ég fann að ég var elskaður. Ég fann að Jesús Kristur var einhver sem ég þekkti.
Þegar ég las áfram, fannst mér sem hann talaði beint til mín, þegar hann sagði: „Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því að þeir munu saddir verða.“
Orð hans fylltu hjarta mitt, jafnvel þó ég gæti ekki lýst tilfinningum mínum vel á þessum tíma. Þrátt fyrir að Jesús Kristur hafi lifað fyrir mörgum öldum í ókunnugu landi, fannst mér ég geta treyst orðum hans af öllu mínu hjarta. Ég vonaði að einhvern daginn í framtíðinni myndi ég læra meira um Jesú Krist.
Heilagur andi mun sýna yður allt, sem yður ber að gjöra
Sá dagur kom aðeins nokkrum árum síðar. Ég hitti mjög staðfasta, unga fastatrúboða Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Og ég hitti fljótlega lítinn hóp góðviljaðra og glaðværra Síðari daga heilagra, sem leituðust við að fylgja Jesú Kristi. Þrátt fyrir að það hafi tekið mig nokkurn tíma að treysta þeim að fullu, fann ég í hinu endurreista fagnaðarerindi það sem ég þráði þegar ég lærði um Nýja testamentið – orð Jesú Krists og vonina og friðinn sem kemur frá þeim.
Sérstaklega helg reynsla var þegar trúboðarnir kenndu mér að biðja. Ég lærði að við ættum að ávarpa Guð með nafni. Þegar við bæðumst fyrir ættum við að tala frá hjartanu, tjá þakklæti okkar og segja frá vonum okkar og þrám. Þegar við hefðum sagt allt sem við vildum segja, lykjum við bæninni á því að segja: „Í nafni Jesú Krists, amen.“ Við gerðum þetta, því Jesús bauð okkur að biðja í sínu nafni. Að biðja til himnesks föður hjálpaði mér að vita hver hann væri og hvert samband mitt við hann er – að ég væri elskaður andasonur hans. Ég lærði að vegna þess að himneskur faðir þekkir mig og elskar mig, myndi hann tala til mín persónulega, einstaklega og á þann hátt sem við skiljum gegnum heilagan anda.
Um tíma gat ég í raun ekki þekkt heilagan anda. Ég misskildi og hélt að allt sem ég þyrfti að gera væri að fylgja bænasporunum og þá myndi eitthvað dramatískt gerast. Dag nokkurn, í trúboðslexíu, gerði ég hlé á lexíunni og brá mér frá. Ég var enn óviss um hvað ég ætti að gera við líf mitt ef endurreist fagnaðarerindi Jesú Krists væri í raun og veru sannleikur.
Þegar ég ætlaði að snúa aftur í herbergið þar sem trúboðarnir biðu, heyrði ég rödd eins trúboðans. Ég heyrði nafn mitt. Í stað þess að opna hurðina, hlustaði ég á röddina hinum megin við hurðina. Ég varð hissa. Þeir voru einfaldlega að biðja til himnesks föður. Sá sem fór með bænina var að biðja Guð um að heyra bæn mína. Þó að japanskan hans væri ekki fullkomin, þá mildaði það hjarta mitt að heyra þessa einlægu bæn. Ég velti því fyrir mér, hví var þeim svo umhugað um mig. Þá áttaði ég mig á því að bæn þeirra fyrir mína hönd endurspeglaði ást himnesks föður og frelsarans á mér. Sá kærleikur gaf mér von og eftir á spurði ég Guð í trú og með einbeittum huga. Þegar ég gerði það fann ég fyrir gleðilegri og friðsælli tilfinningu að ég væri sannarlega barn Guðs og að ég hefði guðlega möguleika og örlög. Sáluhjálparáætlunin smaug djúpt inn í hjarta mitt.
Nelson forseti hefur sagt: „Hvernig þú hugsar um það hver þú ert, hefur áhrif á … sérhverja ákvörðun sem þú munt taka.“ Það er svo satt fyrir mig. Sú ákvörðun að fylgja frelsaranum Jesú Kristi með því að láta skírast og taka á móti gjöf heilags anda blessaði líf mitt meira en ég hafði nokkurn tíma ímyndað mér. Þegar við gerum skírnarsáttmálann við Guð lofum við því að við séum fús til að taka á okkur nafn Jesú Krists, halda boðorð Guðs og þjóna honum það sem eftir er ævinnar. Himneskur faðir lofar okkur aftur á móti að við getum alltaf haft anda hans með okkur – áframhaldandi leiðsögn frá heilögum anda.
Ég býð ykkur að trúa boðskapnum sem Nefí kenndi okkur, að orð Krists og heilagur andi munu sýna ykkur „að fullu, hvað yður ber að gjöra”. Að fullu! Þetta er ótrúleg gjöf frá Guði.
Bræður og systur, ég er þakklátur fyrir sæluáætlun himnesks föður okkar. Vegna þess að hann elskar okkur, undirbjó hann leiðina til að snúa aftur til nærveru sinnar í gegnum eingetinn son sinn, Jesú Krist. Að þekkja þessa ótrúlegu áætlun mun hjálpa okkur að vita að við erum börn Guðs og við getum orðið eins og hann. Ég er þakklátur fyrir þennan mikilvæga sannleika. Ég ber ykkur vitni um að orð Jesú Krists og heilags anda munu leiða okkur til þess að hljóta eilíft líf. Ég veit að þetta er sannleikur. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.