Líahóna
Leitið hans af öllu hjarta
Nóvember 2024


12:4

Leitið hans af öllu hjarta

Ef Jesús Kristur sóttist eftir kyrrlátri stund til að eiga samskipti við Guð og fá styrk frá honum, væri skynsamlegt af okkur að gera slíkt hið sama.

Fyrir nokkrum árum þjónuðum við hjónin sem trúboðsleiðtogar í Tókýó, Japan. Í heimsókn þá öldungs Russells M. Nelson, spurði einn trúboðanna hann hvernig best væri að bregðast við þegar einhver segðist of upptekinn til að hlusta á þá. Öldungur Nelson sagði án nokkurs hiks: „Ég myndi spyrja hvort þau væru of önnum kafin til að borða hádegismat þann dag og kenna þeim síðan að þau séu bæði með líkama og anda og rétt eins og líkami þeirra deyr ef hann er ekki nærður, þannig mun andi þeirra einnig deyja, ef hann er ekki nærður hinu góða orði Guðs.“

Það er athyglisvert að japanska orðið fyrir „upptekinn“, isogashii, samanstendur af tvískiptu tákni (). Það vinstra megin þýðir „hjarta“ eða „andi“ og það til hægri þýðir „dauði“ – sem bendir ef til vill til, eins og Nelson forseti kenndi, að of mikið annríki á kostnað þess að næra anda okkar, geti leitt til andlegs dauða.

Drottinn vissi – í þessum hraða heimi, fullum af truflunum og ringulreið – að það yrðiein helsta áskorun okkar að finna gæðastundir fyrir hann. Þegar hann talaði fyrir munn spámannsins Jesaja, mælti hann þessi leiðsagnar- og aðvörunarorð, sem líkja má við hina róstursömu tíma sem við lifum á:

„Fyrir afturhvarf og rósemi munuð þér frelsast. Í þolinmæði og trausti skal styrkur ykkar verða, en þér vilduð það ekki.

„[Þér] sögðuð: „Nei, vér viljum þeysa fram á hestum. Þess vegna munuð þér flýja. Vér viljum ríða fráum fákum, og þess vegna munu þeir fráir sem elta yður.“

Með öðrum orðum, jafnvel þótt sáluhjálp okkar sé háð því að koma oft til hans og hvílast frá áhyggjum heimsins, þá gerum við það ekki. Jafnvel þótt traust okkar muni koma frá styrk sem þróast á hljóðum tímum, sitjandi með Drottni í hugleiðslu og íhugun, þá gerum við það ekki. Hvers vegna ekki? Því að við segjum: „Nei, við erum upptekin við annað“ – að flýja á fákunum, ef svo mætti segja. Þess vegna fjarlægjumst við Guð sífellt meira. Við munum krefjast þess að fara hraðar og hraðar og því hraðar sem við förum, því hraðar mun Satan elta.

Ef til vill er það ástæða þess að Nelson forseti hefur ítrekað beðið okkur um að helga Drottni tíma í lífi okkar – „hvern einasta dag“. Hann minnir okkur á að „hljóðlátur tími er helgur tími – tími sem býður upp á persónulega opinberun og veitir frið.“ Til að heyra kyrrláta rödd Drottins, ráðlagði hann: „[þið] verðið … líka að vera [hljóðlát].“

Að halda ró, krefst hins vegar meira en einungis að helga Drottni tíma – það krefst þess að sleppa taki á efasemdum og óttafylltum hugsunum okkar og að beina hjarta okkar og huga að honum. Öldungur David A. Bednar kenndi: „Boð Drottins um að ‚halda ró‘ [felur] í sér miklu meira en bara að tala ekki og hreyfa sig ekki.“ Að halda ró, lagði hann til, „gæti verið leið til að minna okkur á að einblína ávallt á frelsarann.“

Að halda ró er trúariðkun og krefst átaks. Í Lectures on Faith segir: „Þegar maðurinn starfar með trú vinnur hann af huglægri áreynslu.“ Nelson forseti sagði: „Við verðum að einblína á frelsarann og fagnaðarerindi hans. Það er erfitt fyrir hugann að reyna að líta til hans í sérhverri hugsun. Efi okkar og ótti munu þó hverfa ef við gerum það.“ David O. McKay forseti talaði um þessa þörf að vera einbeitt í huga okkar og sagði: „Ég held að við gefum hugleiðslu allt of litla athygli, en hún er regla guðrækni. … Hugleiðsla er ein af … helgustu dyrunum sem við förum um inn til návistar Drottins.“

Það er til orð á japönsku, mui, sem mér finnst ná þessari trúarfylltu, ígrundandi tilfinningu um merkingu þess að halda ró. Það samanstendur af tveimur táknum (無為). Þetta vinstra megin þýðir „ekkert“ eða „tóm“ og það til hægri þýðir „að gera“. Saman þýða þau „að gera ekkert.“ Ef þetta er tekið bókstaflega gæti orðið verið rangtúlkað þannig að það þýddi „að gera ekkert“ á sama hátt og „að vera kyrr“ getur verið rangtúlkað sem „að tala hvorki eða hreyfa sig.“ Hins vegar, eins og setningin „að halda ró“, hefur það dýpri merkingu. Fyrir mér er það áminning um að hægja á og lifa með aukinni andlegri vitund.

Þegar ég þjónaði í svæðisforsætisráði Norður-Asíu með öldungi Takashi Wada komst ég að því að eiginkona hans, systir Naomi Wada, er fær japanskur skrautskrifari. Ég spurði systur Wada hvort hún myndi teikna fyrir mig japanska táknið fyrir orðið mui. Mig langaði að hengja skrautskriftina á vegginn minn til að minna mig á að sýna ró og einblína á frelsarann. Það kom mér á óvart að hún samþykkti ekki fúslega þessa einföldu bón.

Daginn eftir, vitandi að ég hefði líklega misskilið hik hennar, útskýrði öldungur Wada að það krefðist töluverðar vinnu að skrifa þessi tákn. Hún þyrfti að ígrunda og hugleiða hugmyndina og táknin þar til hún fengi skilið merkinguna djúpt í sál sinni og gæti tjáð þessi hjartnæmu hughrif með hverri pensilstroku. Ég fyrirvarð mig fyrir að hafa beðið hana svo frjálslega um að gera nokkuð svo krefjandi. Ég bað hann að biðja hana afsökunar á fáfræði minni og láta hana vita að ég drægi beiðni mína til baka.

Japönsk tákn á skrifstofu Budge biskups.

Þið getið rétt ímyndað ykkur undrun mína og þakklæti þegar systir Wada gaf mér þetta fallega skrautskrifaða verk með japönskum stöfum yfir orðið mui þegar ég yfirgaf Japan. Það hangir nú á áberandi stað á skrifstofuveggnum mínum og minnir mig á að halda ró og leita Drottins dag hvern, af öllu mínu hjarta, mætti, huga og styrk. Hún hafði fangað, í þessu óeigingjarna verki, merkingu hugtaksins mui, eða kyrrðar, betur en nokkur orð gátu. Frekar en að teikna táknin hugsunarlaust og af skyldurækni nálgaðist hún skrautskriftarverk sitt af fyllstu hjartans einlægni og einbeittum huga.

Sömuleiðis þráir Guð að við nálgumst tíma okkar með honum af sams konar guðrækni hjartans. Þegar við gerum svo, verður tilbeiðsla okkar kærleikstjáning til hans.

Hann þráir að við eigum samskipti við sig. Eitt sinn, eftir að ég flutti inngangsbæn á fundi með Æðsta forsætisráðinu, snéri Nelson forseti sér að mér og sagði: „Meðan þú baðst fyrir, hugsaði ég með mér hve mikið Guð hlyti að meta það þegar við gefum okkur tíma frá annasamri dagskrá okkar til að meðtaka hann.“ Það var einföld en áhrifamikil áminning um hversu mikilvægt það hlýtur að vera fyrir himneskan föður þegar við stöldrum við til að eiga samskipti við hann.

Hversu heitt sem hann þráir athygli okkar, þá mun hann ekki neyða okkur til að koma til sín. Hinn upprisni Drottinn sagði við Nefítana: „Hversu oft hefði ég viljað safna yður saman, eins og hæna safnar saman ungum sínum, en þér vilduð það ekki“ Hann hélt áfram með þessu vonarfyllta boði sem á einnig við okkur í dag: „Hversu oft mun ég safna yður saman, eins og hæna safnar ungum sínum undir vængi sína, ef þér viljið iðrast og snúa til mín af einlægu hjarta.“

Fagnaðarerindi Jesú Krists gefur okkur kost á að snúa oft aftur til hans. Þessi tækifæri eru meðal annars daglegar bænir, ritningarnám, helgiathöfn sakramentisins, hvíldardagurinn og musteristilbeiðsla. Hvað ef við tækjum þessi helgu tækifæri af „aðgerðarlistanum“ okkar og settum þau á listann okkar yfir „gera ekki“ – með þeirri hugsun að nálgast þau af sömu alúð og með sömu áherslu og systir Wada notar við skrautskriftir sínar?

Þið gætuð verið að hugsa: „Ég hef engan tíma fyrir það.“ Ég hef oft hugsað eins. Leyfið mér þó að leggja til að það er ekki endilega spurningin um meiri tíma, heldur aukna meðvitund um og einbeitingu að Guði á þeim tíma sem við höfum þegar tekið frá fyrir hann.

Hvað ef við myndum til dæmis verja minni tíma í að tala í bænum okkar og verja bara meiri tíma í samveru með Guði? og þegar við svo tölum, að við tjáum hjartnæmari og skýrari þakklætisvott og kærleika?

Nelson forseti hefur ráðlagt okkur að við lesum ekki bara ritningarnar, heldur njótum þeirra. Hverju myndi það breyta ef við myndum lesa minna og njóta meira?

Hvað ef við gerðum meira til að búa huga okkar undir að meðtaka sakramentið og ígrunduðum af gleði blessanir friðþægingar Jesú Krists í þessari helgiathöfn?

Á hvíldardeginum, sem á hebresku þýðir „hvíld,“ hvað ef við hvíldumst frá öðrum áhyggjum og gæfum okkur tíma til að sitja hljóð með Drottni og votta honum hollustu okkar?

Hvað ef við reyndum að sýna meiri aga meðan á musteristilbeiðslu okkar stendur eða stöldruðum örlítið lengur við í himneska herberginu í hljóðri íhugun?

Þegar við einbeitum okkur minna að því að gera og meira að því að styrkja sáttmálssamband okkar við himneskan föður og Jesú Krist, þá ber ég vitni um að hver þessara helgu stunda mun vera innihaldsríkari og við munum hljóta nauðsynlega leiðsögn í persónulegu lífi okkar. Við, líkt og Marta í frásögninni í Lúkasi, erum oft „áhyggjufull og mæðumst í mörgu“. Þegar við eigum hins vegar dagleg samskipti við Drottin, mun hann hjálpa okkur að vita hvað skiptir mestu máli.

Jafnvel frelsarinn tók sér tíma frá þjónustu sinni til kyrrðar. Ritningarnar eru uppfullar af dæmum um að Drottinn hafi dregið sig í hlé á óbyggðum stöðum – á fjalli, í eyðimörkinni, á óbyggðum stað eða farið „spölkorn frá“ – til að biðja til föðurins. Ef Jesús Kristur sóttist eftir kyrrlátri stund til að eiga samskipti við Guð og fá styrk frá honum, væri skynsamlegt af okkur að gera slíkt hið sama.

Þegar við beinum hjarta okkar og huga að himneskum föður og Jesú Kristi og hlustum á hina lágu, hljóðlátu rödd heilags anda, munum við fá betri skilning á því hvað skiptir mestu, þróa dýpri samúð og finna hvíld og styrk í honum. Það er þversagnakennt, en það að hjálpa Guði við að hraða verki hans til sáluhjálpar og upphafningar, kann að krefjast þess að við hægjum á okkur. Að vera alltaf á hreyfingu gæti aukið á óróleikann í lífi okkar og rænt okkur þeim friði sem við leitum að.

Ég ber vitni um að þegar við snúum ítrekað til Drottins með einlægum ásetningi, munum við í og trausti kynnast honum og skynja óendanlega sáttmálselsku hans til okkar.

Drottinn lofaði:

„Nálgist mig og ég mun nálgast yður. Leitið mín af kostgæfni og þér munuð finna mig.“

„Og þér munuð leita mín og finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta.“

Ég ber vitni um að þetta loforð er sannleikur. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Eter 2:14–15.

  2. Jesaja 30:15–16; skáletrað hér.

  3. 2. Nefí 10:24 býður okkur að laga vilja okkar (re-con-cile) að vilja Guðs. „Re“ þýðir „aftur“, „con“ þýðir „með“, og „cile“ er stóll eða hásæti. Að laga vilja okkar að Guðs, getur bókstaflega þýtt að sitja aftur hjá Guði.

  4. Russell M. Nelson, „Helga Drottni tíma,“ aðalráðstefna, október 2021.

  5. Russell M. Nelson, „Það sem við lærum og munum aldrei gleyma,“ aðalráðstefna, apríl 2021.

  6. Russell M. Nelson, „Það sem við lærum og munum aldrei gleyma.“

  7. David A. Bednar, „Haldið ró yðar og vitið að ég er Guð,“ aðalráðstefna, apríl 2024.

  8. Sjá Hebreabréfið 11:6.

  9. Lectures on Faith (1985), 72.

  10. Russell M. Nelson, „Að færa kraft Jesú Krists inn í líf okkar,“ aðalráðstefna, apr. 2017.

  11. David O. McKay, „Consciousness of God: Supreme Goal of Life,“ Improvement Era, júní 1967, 80.

  12. Sjá Kenning og sáttmálar 4:2.

  13. Sjá Mósía 7:33; Eter 2:14

  14. „Heilbrigt og starfhæft hjarta er lykilatriði í heilsu og vellíðan okkar allra. Það sem mér hefur hins vegar lærst sem þjónn og vitni um Jesú Krist, er að heilbrigt líkamlegt hjarta er aðeins helmingur áskorunar okkar. Ég tek það boð alvarlega að elska Guð af öllu hjarta, því það heldur okkur þróttmiklum að elska hann“ (Russell M. Nelson, The Heart of the Matter: What 100 Years of Living Have Taught Me [2023], 8; leturbreyting hér).

  15. Sjá Sálmarnir 14:2; Opinberunarbókin 3:20.

  16. 3. Nefí 10:5; skáletrað hér.

  17. Öldungur Dale G. Renlund kenndi: „Að breyta eigin hegðun og snúa aftur á „rétta veginn“ er hluti af iðrun, en þó aðeins hluti hennar. Raunveruleg iðrun felur líka í sér að fela Guði hjarta okkar og huga og að hafna syndinni“ („Iðrun: Gleðilegur kostur,“ aðalráðstefna, október 2016; skáletrað hér).

  18. 3. Nefí 10:6; skáletrað hér.

  19. Öldungur Neal A. Maxwell kenndi: „Aukin helgun er ekki bara krafa um fleiri klukkustundir af kirkjustarfi, heldur að vera meðvitaðri um hvers verk þetta raunverulega er!“ („Settle This in Your Hearts,“ Ensign, nóv. 1992, 67.)

  20. Desmond Tutu tjáði sig um hvernig bænir hans hafa þróast í tímans rás og sagði: „Ég held að [ég sé] að reyna að vaxa í því að vera bara á staðnum. Eins og þegar þú situr fyrir framan eld á veturna – þá ertu bara til staðar fyrir framan eldinn. Maður þarf ekki að vera klár eða neitt. Eldurinn vermir þig“ („Desmond Tutu, Insisting We Are ‚Made for Goodness‘“ [NPR-viðtal við Renee Montagne, 11. mars 2010], npr.org).

  21. Sjá Russell M. Nelson, „Hugsið himneskt!aðalráðstefna, október 2023.

  22. Sjá Russell M. Nelson, „Lifa eftir leiðsögn ritningannaaðalráðstefna, október 2001; sjá einnig Russell M. Nelson, „Jesús Kristur er alltaf svarið,“ aðalráðstefna, apríl 2023.

  23. Sjá 3. Nefí 17:3. David O. McKay forseti sagði:

    „Ég trúi því að sá stutti tími sem sakramentið er þjónustað sé eitt besta tækfærið sem gefst til slíkrar hugleiðslu og það ætti ekkert að vera á þeim helga tíma sem dregur athygli okkar frá tilgangi þessarar helgiathafnar. …

    Ég hvet eindregið til þess að þessari helgiathöfn verði umlukin meiri lotningu og fullkominni reglu; svo að allir sem koma í hús Guðs megi hugleiða og í hljóði og í bænaranda tjá þakklæti sitt fyrir gæsku Guðs. … Leyfum sakramentisstundinni að vera eina upplifun dagsins þar sem tilbiðjandinn reynir hið minnsta að gera sér grein fyrir því innra með sér að hann geti átt samskipti við Guð sinn“ („Consciousness of God: Supreme Goal of Life,“ Improvement Era, júní 1967, 80–81).

  24. Sjá Kenning og sáttmálar 59:10.

  25. „Þegar þið komið í hús Drottins með musterismeðmæli ykkar, sundurkramið hjarta og leitandi huga, mun hann kenna ykkur“ (Russell M. Nelson, „Musterið og ykkar andlega undirstaða,“ aðalráðstefna, október 2021).

  26. „Hann mun leiða ykkur í ykkar persónulega lífi, ef þið helgið honum tíma í lífi ykkar – hvern einasta dag“ (Russell M. Nelson, „Helga Drottni tíma“).

  27. Sjá Lúkas 10:40–42.

  28. 3. Nefí 19:19; sjá einnig Þýðing Joseph Smith, Matteus 4:1 (í Matteus 4:1, neðanmálstilvísun a); Matteus 5:1; 14:13, 23; Markús 1:35; 6:46; Lúkas 5:16; 6:12.

  29. Sjá 3. Nefí 21:29.

  30. Kenning og sáttmálar 88:63.

  31. Jeremía 29:13; sjá einnig Harmljóðin 3:25.