Líahóna
Ógleymanlegir dagar
Nóvember 2024


14:19

Ógleymanlegir dagar

Komandi stundir veita meðlimum kirkjunnar hvarvetna aukin tækifæri til að miðla gleðitíðindum fagnaðarerindis Jesú Krists.

Aðfaraorð

Kæru bræður og systur, saga Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu á þessari ráðstöfun er prýdd guðlegum upplifunum sem sýna hvernig Drottinn hefur leitt kirkju sína. Það er þó einn áratugur í sögu okkar sem stendur áberandi ofar öllum öðrum – áratugurinn frá 1820 til 1830. Hann hófst með upplifun spámannsins Josephs Smith í Lundinum helga, vorið 1820, þegar hann sá Guð föðurinn og son hans, Jesú Krist, og síðan áfram, með fleirum fram að 6. apríl 1830, er þessi áratugur ólíkur öllum öðrum.

Moróní afhendir gulltöflurnar.
Endurreisn Melkísedeksprestdæmisins.
Oliver Cowdery.

Hugleiðið þessa merku atburði! Spámaðurinn ungi ræddi við engilinn Moróní, þýddi gulltöflurnar og gaf út Mormónsbók! Hann var verkfærið sem Aronsprestdæmið og Melkísedeksprestdæmið voru endurreist með og síðan skipulagði hann kirkjuna! Oliver Cowdery lýsti þessu tímabili vel: „Þetta voru ógleymanlegir dagar.“ Undursamlegir atburðir hafa haldið áfram allt til þessa dags.

Mætti ég gerast svo djarfur að gefa í skyn að á þessu ári hefst áratugur sem gæti orðið jafn örlagaríkur og hver annar áratugur frá stofnáratugnum fyrir tæpum tveimur öldum.

Áratugur okkar

Leyfið mér að útskýra. Á þessum tíma, frá 2024 til 2034, munum við upplifa þýðingarmikla viðburði sem leiða af sér einstæð tækifæri til að þjóna, sameinast meðlimum og vinum og kynna Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu fyrir fleira fólki en nokkru sinni fyrr.

Hundrað ára afmælisfagnaður Nelsons forseta.

Við urðum vitni að áhrifamætti sannlega sögulegrar stundar, er við fögnuðum með tugum milljóna 100 ára afmæli Russells M. Nelson forseta.

Newsweek skrifaði fyrirsögn í tilefni af afmæli Nelsons forseta: „Elsti trúarleiðtogi heims verður 100 ára.“ Þessu næst voru þar tilgreindir tíu elstu trúarleiðtogar heims – og var Nelson forseti efstur á lista sem á voru Frans páfi og Dalai Lama.

Þessi yfirlýsing úr grein í New York Times er lýsandi fyrir anda mikillar alþjóðlegrar umfjöllunar: „Í framvindu forsetakosninga [Bandaríkjanna], sem leitt hafa af sér ítarlega umfjöllun um öldrun og leiðtogahæfni, bendir þessi þriggja stafa afmælisáfangi herra Nelsons til þess að ekki sé þörf fyrir slíka umfjöllun, hið minnsta í hans kirkju. Hann heldur vinsældum sínum meðal kirkjumeðlima, sem líta ekki aðeins á forseta sinn sem framkvæmdastjóra, heldur sem ,spámann, sjáanda og opinberara‘.“

Hve þakklát við erum fyrir að tímamótaafmæli Nelsons forseta hafi veitt okkur tækifæri til að kynna spámann Guðs fyrir áheyrendum um allan heim á ógleymanlegri afmælishátið.

Hið endurnýjaða torg stjórnsýslubyggingarinnar.

Fyrr í vor var torg á Musteristorginu endurnýjað og afhjúpað – með alþjóðlegum fánum sem táknuðu löndin þar sem kirkjan er viðurkennd. Torg þetta er auðkennt með granítminnismerki með þessum spámannlegu orðum: „Það skal verða á komandi dögum að fjallið, sem hús Drottins stendur á, bifast ekki, það ber yfir hæstu fjallstinda og gnæfir yfir allar hæðir. Þangað munu allar þjóðir streyma.“

Vissulega eru hinir stórbrotnu atburðir sem verða munu á næstu tíu árum ein birtingarmynd þess að þessi spádómur Jesaja er að uppfyllast.

Salt Lake-musterið.

Hugleiðið hinn fordæmislausa fjölda opinna húsa og vígslna mustera, sem ráðgert er að eigi sér stað á næsta áratug, mögulega 164 mustera og þeim fer fjölgandi. Ímyndið ykkur tugi milljóna ykkar og vina ykkar á gangi gegnum hús Drottins. Táknrænn miðpunktur þessara viðburða verður endurvígsla Salt Lake-musterisins og viðburðirnir sem því tengjast. Þetta verða vissulega ógleymanlegir dagar.

Stofnun kirkjunnar.

Árið 2030 mun veita okkur tækifæri til að minnast tveggja alda afmælis stofnunar kirkjunnar um allan heim. Þótt of snemmt sé að segja til um það hvernig kirkjan muni minnast þessa áfanga, mun hann vissulega gera okkur mögulegt að bjóða fjölskyldu, vinum, samstarfsfólki og nafntoguðum gestum að „koma og sjá“ og skilja betur hin miklu áhrif sem kirkjan hefur á líf kirkjumeðlima.

Vetrarólympíuleikarnir 2002 í Salt Lake City.

Árið 2034 munu þúsundir tignarmanna, gesta og íþróttamanna hvaðanæva að úr heimi flæða yfir götur Salt Lake City, vettvang Vetrarólympíuleikanna. Það er ef til vill ekkert annað sem sýnir heimseiningu betur en þá sem birtist á Ólympíuleikunum. Augu heimsins munu hvíla á kirkjunni og meðlimum hennar og ótal tækifæri munu veitast til sjálfboðastarfs, þjónustu og miðlunar gleðitíðindum með góðum verkum – á ógleymanlegum atburði.

Þessar komandi stundir munu veita meðlimum kirkjunnar hvarvetna aukin tækifæri til að miðla gleðitíðindum fagnaðarerindis Jesú Krists í orði og verki, á ógleymanlegum áratug.

Gleðitíðindi

Á fundi nokkrum vikum fyrir afmælisdag sinn, greindi Nelson forseti frá ástæðu þess að hann ann orðinu „gleðitíðindi“. Að ytri merkingu, tók hann fram, ber orðið með sér gleði og hamingju. En „gleðitíðindi“ segja svo miklu meira en það. Hann útskýrði að þetta orðtak væri dregið af upprunalega gríska orðinu euangelion, sem þýðir bókstaflega „góðu tíðindin“ eða „fagnaðarerindið“. Hamingja og gleði í þessu lífi og hinu næsta eru alltaf tengd fagnaðarerindi Jesú Krists. Þannig fangar orðið „gleðitíðindi“ þessa tvöföldu merkingu á dásamlegan hátt.

„[Karlar og konur] lifa, svo að [þau] megi gleði njóta.“ Himneskur faðir hefur séð okkur fyrir sæluáætlun sem gerir gleði mögulega með blessunum hans. Í því felst að lifa í návist hans að eilífu sem fjölskyldur. Friðþæging Jesú Krists er þungamiðjan í áætlun Guðs til að endurleysa okkur. Við verðum að koma til Krists til að hljóta eilíft líf. Þegar við gerum það „og hjálpum öðrum að gera hið sama, þá tökum við þátt í verki Guðs til sáluhjálpar og upphafningar“.

Þessi gleðitíðindi fagnaðarerindis Jesú Krists eru mikilvægasti boðskapurinn á jörðu. Þar koma ungmennin og unga fullorðna fólkið í kirkjunni að málum.

Til styrktar ungmennum

Þótt næsti áratugur kunni að vera uppfullur af ógleymanlegum dögum fyrir hvern meðlim kirkjunnar, þá getur það einkum átt við ykkur sem eruð af hinni upprennandi kynslóð. Þið eruð hér á jörðu núna vegna þess að þið voruð útvalin til að vera hér núna. Þið hafið styrk og getu til að vera lærisveinar Krists á fordæmislausan hátt.

George Q. Cannon forseti kenndi: „Guð hefur haldið til baka öndum fyrir þessa ráðstöfun, sem hafa það hugrekki og staðfestu að takast á við heiminn og alla krafta hins illa … og byggja upp Síon Guðs okkar, óhrædd við allar afleiðingar.“

Í þeim tilgangi vil ég tala til ykkar um hina upprennandi kynslóð og biðja ykkur að ímynda ykkur hve spennandi næsti ógleymanlegi áratugur getur verið fyrir ykkur. Ég legg einnig fram fáein einföld orð leiðsagnar og hvatningar, sem gætu styrkt ykkur á þessum komandi áratug.

Eins og mörg ykkar, þá á ég snjallsíma sem stundum, fyrirvaralaust, dregur saman myndasyrpu sem sýnir hvað ég var að gera ákveðinn dag. Það kemur alltaf á óvart að sjá hversu mikið hlutirnir hafa breyst fyrir mig og fjölskyldu mína á aðeins nokkrum árum.

Sjáið fyrir ykkur myndirnar sem síminn ykkar mun sýna eftir 10 ár frá þessum tíma! Þið gætuð séð ykkur sjálf útskrifast úr menntaskóla eða háskóla, hljóta musterisgjöf ykkar, fara í trúboð, giftast og eignast ykkar fyrsta barn. Fyrir ykkur persónulega mun þetta vera ógleymanlegur áratugur. Hann mun þó tvöfaldast sem slíkur ef þið vinnið ötullega að því að verða ljós fyrir heiminn og sýnið hvernig gleðitíðindin um fagnaðarerindi Jesú Krists geta auðgað og bætt, ekki aðeins líf ykkar sjálfra, heldur líka fjölskyldu ykkar, vina og fylgjenda á samfélagsmiðlum.

Þið gætuð velt fyrir ykkur hvernig á að gera þetta.

Spámenn Guðs hafa kennt okkur að þetta er gert með fjórum einföldum athöfnum, sem vísað er til sem guðlega tilskipaðra ábyrgðarskyldna: Í fyrsta lagi, að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists; í öðru lagi, að annast hina þurfandi; í þriðja lagi, að bjóða öllum að taka á móti fagnaðarerindinu; og í fjórða lagi, að sameina fjölskyldur um eilífð. Það merkilega er að hægt er að gera þetta á afar eðlilegan hátt.

Guðlega tilskipaðar ábyrgðarskyldur

Ég lofa að þetta mun verða ykkur ógleymanlegur áratugur, ef þið takist á við þessi fjögur guðlega tilnefndu ábyrgðarverk. Við skulum íhuga hvað í þessu gæti falist.

Fjórar guðlega tilskipaðar ábyrgðarskyldur.
Stúlka á bæn.

Í fyrsta lagi, lifið eftir fagnaðarerindi Jesú Krists. Lærið orð spámannanna og lærið að elska föður ykkar á himnum. Snúið hjörtum ykkar að honum og reynið að ganga hans veg. Látið „sáttmálsfullvissuna lyfta ykkur“, eins og öldungur Ulisses Soares útskýrði. Sú fullvissa hlýst af því að gera sáttmála um að fylgja Jesú Kristi, vitandi að frelsarinn mun á móti styrkja ykkur og styðja.

Leyfið vinum ykkar að sjá gleðina sem þið finnið í því að lifa eftir fagnaðarerindinu og þið munið verða besti boðskapur fagnaðarerindisins sem þeir mun nokkru sinni taka á móti.

Í öðru lagi, liðsinnið af samkennd og annist hina þurfandi. Ykkar kynslóð er óvenju umhyggjusöm gagnvart hinum ógæfusömu. Alltaf þegar hörmungar dynja yfir og kirkjumeðlimir hraða sér til að hreinsa burtu brak og hugga hrjáða, virðist meirihluti þeirra sem klæðast bolum „Hjálparhanda“ vera táningar og fólk á þrítugsaldri. Það er ykkur eðlislægt að „bera hver annars byrðar“ og „hugga þá, sem huggunar þarfnast“. Ef við gerum það, þá „[uppfyllum við] lögmál Krists“.

Börn safna sultu fyrir þau sem eru þurfandi.

Evan, ungur drengur á Barnafélagsaldri, ákvað að verja sumarfríinu sínu frá skólanum við að safna birgðum til að gera samlokur með sultu og hnetusmjöri til að gefa í matarbankann á svæðinu sínu. Hann fann þetta verkefni á vefsíðu JustServe. Hinn ungi Evan fékk allan bekkinn sinn til liðs við sig til að safna yfir 700 krukkum af sultu! Látið fólkið sem þið þjónið vita að umhyggja ykkar fyrir því á rætur í elsku ykkar til Guðs og þrá ykkar til að koma fram við náungann eins og ykkur sjálf.

Trúboðar í Brasilíu.

Í þriðja lagi, bjóðið öllum að taka á móti fagnaðarerindinu. Á þessu ári opnuðum við 36 ný trúboð um allan heim, til að koma á móts við alla sem þrá að þjóna í fastatrúboði. Á tímum þegar margt ungt fólk afþakkar alfarið formlega trúariðkun, er þetta eftirtektarvert og lýsir stórkostlegu eðli vitnisburða ykkar. Hvort sem þið þjónið í fastatrúboði eða ekki, gerið ykkur þá grein fyrir gríðarlegri getu ykkar til að hafa áhrif á jafnaldra ykkar og bjóða þeim að kanna fagnaðarerindi Jesú Krists.

Ungmenni í Preston-musterinu í Englandi.

Í fjórða lagi, sameinið fjölskyldur um eilífð. Þegar ég heimsæki musteri víða um heim, furða ég mig á fjölda ungs fólks sem bíður standandi í skírnarsalnum og auknum fjölda unga fólks sem þjónar sem musterisþjónar. Nýlega ferðaðist hópur 600 ungmenna frá Skotlandi og Írlandi til Preston-musterisins í Englandi og framkvæmdi yfir 4000 helgiathafnir, sem margar voru fyrir látna áa þeirra sjálfra! Ég hvet ykkur til að helga ykkur ættarsögu, verja tíma í musterinu og búa ykkur vandlega undir að vera þess konar karl eða kona sem reiðubúin er að giftast jafn verðugum félaga í musterinu. Komið á þeirri venju í lífi ykkar núna að gera musterið að reglubundnum hluta lífs ykkar.

Lokaorð

Kæru bræður og systur, kæru ungu vinir, það verða eflaust erfiðleikar á vegi okkar allra á komandi dögum. En þegar við höldum inn í komandi áratug fordæmislausra stunda, megum við þá samt miðla gleðitíðindum gegnum einfaldar athafnir með lífshætti okkar, umhyggju og bjóðandi og sameinandi viðmóti. Þegar við gerum það, mun Drottinn blessa okkur með ógleymanlegum upplifunum.

Ég ber vitni um að þau sem koma til Drottins af einlægu hjarta og einbeittum huga, þau sem hafa nafn frelsarans á vörum sér og heilagan anda í sálum sér, þau sem leggja upp í þessa miklu og dýrðlegu pílagrímsferð, munu upplifa ríkulegar himneskar blessanir og hljóta vitnisburð um að Guð heyrir í þeim, þekkir þau og elskar þau. Þið munuð upplifa ógleymanlega daga. Í nafni Jesú Krists, amen.