Líahóna
Ó, ungmenni göfugs fæðingarréttar
Nóvember 2024


12:33

Ó, ungmenni göfugs fæðingarréttar

Guð treystir ykkur, börnum sáttmálans, til að hjálpa við það verk sitt að koma öllum börnum sínum heilu og höldnu heim til sín.

Öldungur Stevenson, þetta er ógleymanleg ráðstefna.

Fjölskyldan okkar hefur alltaf haft yndi af lítilli bók sem heitir Children’s Letters to God [Bréf barna til Guðs]. Hér eru nokkur:

„Kæri Guð, í stað þess að láta fólk deyja og þurfa að búa til nýtt, af hverju heldurðu ekki bara þeim sem þú hefur núna?“

„Af hverju ertu bara með tíu reglur, en skólinn okkar hefur milljónir?“

„Af hverju settirðu kirtlana í ef þú ætlar bara að taka þá út aftur?“

Í dag gefst mér ekki tími til að svara öllum þessum spurningum en mig langar að svara annarri spurningu sem ég heyri oft frá ungu fólki. Frá Úlan Bator í Mongólíu til Thomas, Idaho, er spurningin sú sama: „Af hverju? Af hverju þurfa Síðari daga heilagir að lifa öðruvísi en aðrir?“

Ég veit að það er erfitt að vera öðruvísi – sérstaklega þegar maður er ungur og þráir svo heitt að öðrum líki við mann. Allir vilja falla í hópinn og sú löngun magnast upp í óheilbrigðum hlutföllum í hinum stafræna heimi nútímans, fylltum samfélagsmiðlum og neteinelti.

Af hverju lifa Síðari daga heilagir öðruvísi undir öllum þessum þrýstingi? Það eru mörg góð svör: Vegna þess að þið eruð börn Guðs. Vegna þess að þið hafið verið varðveitt fyrir síðustu daga. Vegna þess að þið eruð lærisveinar Jesú Krists.

En þessi svör aðgreina ykkur ekki alltaf. Allir eru börn Guðs. Allir sem eru hér á jörðu einmitt núna voru sendir hingað á síðari dögum. Samt lifa ekki allir eftir Vísdómsorðinu eða skírlífislögmálinu eins og þið keppið að. Það eru margir hugdjarfir lærisveinar Krists sem ekki eru meðlimir þessarar kirkju. Þeir þjóna þó ekki í trúboði og framkvæma helgiathafnir í húsi Drottins í þágu áa, eins og þið gerið. Það hlýtur að búa meira að baki – og þannig er það.

Í dag ætla ég að ræða um aðra ástæðu sem hefur verið þýðingarmikil í lífi mínu. Árið 1988 flutti ungur postuli að nafni Russell M. Nelson ræðu í Brigham Young-háskóla sem nefndist „Takk fyrir sáttmálann“. Í ræðunni útskýrði Nelson, sem þá var öldungur, að þegar við notum siðferðislegt sjálfræði okkar til að gera og halda sáttmála við Guð, verðum við erfingjar þess ævarandi sáttmála sem Guð hefur gert við áa okkar á öllum ráðstöfunartímum. Með öðrum orðum, þá verðum við „börn sáttmálans“. Það aðgreinir okkur. Það veitir okkur aðgang að sömu blessunum og forfeður okkar og formæður hlutu, þar með talið fæðingarrétt.

Fæðingarréttur! Mögulega hafið þið heyrt þetta orð. Við syngjum jafnvel sálma um þetta efni: „Ó, ungmenni göfugs fæðingarréttar, sækið fram, sækið fram, sækið fram!“ Þetta er sannfærandi orð. En hvað þýðir það?

Ef faðir andaðist á tímum Gamla testamentisins, var sonur hans með fæðingarréttinn ábyrgur fyrir umönnun móður sinnar og systra. Bræður hans fengu arf sinn og fóru á brott til að finna sinn veg í heiminum, en sonurinn með fæðingarréttinn fór hvergi. Hann myndi giftast og eignast eigin fjölskyldu en yrði til staðar til æviloka, til að stjórna málum hvað varðar eignir föður síns. Vegna þessarar auknu ábyrgðar, var honum gefinn aukinn hluti arfsins. Var farið fram á of mikið með leiðtoga- og umönnunarhlutverkinu? Ekki þegar litið er til viðbótararfsins sem hann fékk.

Í dag erum við ekki að tala um fæðingarröð ykkar í jarðneskum fjölskyldum eða kynjahlutverk Gamla testamentisins. Við erum að tala um arfinn sem þið hljótið sem samarfar Krists, vegna þess sáttmálssambands sem þið hafið valið að ganga í við hann og föður ykkar á himnum. Býst Guð við of miklu af ykkur, að þið lifið öðruvísi en önnur börn hans, svo þið getið betur leitt þau og þjónað þeim? Ekki þegar þið hugleiðið blessanirnar – bæði stundlegar og andlegar – sem ykkur hafa verið gefnar.

Þýðir fæðingarréttur ykkar að þið séuð betri en aðrir? Nei, en hann þýðir að búist er við af ykkur að þið hjálpið öðrum að verða betri. Merkir fæðingarréttur ykkar að þið séuð útvalin? Já, en ekki útvalin til að ríkja yfir öðrum; þið eruð útvalin til að þjóna þeim. Er fæðingarréttur ykkar til vitnis um elsku Guðs? Já, en mikilvægara er að hann er til vitnis um traust hans.

Það er eitt að vera elskuð og allt annað að vera treyst. Í leiðarvísinum Til styrktar ungmennum lesum við: „Faðir ykkar á himnum treystir ykkur. Hann hefur veitt ykkur miklar blessanir, þar á meðal fyllingu fagnaðarerindisins og helgiathafnir og sáttmála sem binda ykkur honum og færa kraft hans í líf ykkar. Þessum blessunum fylgir aukin ábyrgð. Hann veit að þið getið skipt sköpum í heiminum og það krefst í mörgum tilfellum þess að vera öðruvísi en heimurinn.“

Jarðneskri reynslu okkar væri hægt að líkja við skemmtiferðaskip sem Guð hefur sent öll börn sín á, er þau ferðast frá einni strönd til annarrar. Ferðin er full af tækifærum til að læra, vaxa, vera hamingjusöm og taka framförum, en hún er einnig full af hættum. Guð elskar öll börn sín og lætur sér annt um velferð þeirra. Hann vill ekki missa neitt af þeim, svo hann býður þeim sem eru fús að verða meðlimir í áhöfn sinni – það eruð þið. Vegna þess að þið hafið valið að gera og halda sáttmála, býður hann ykkur traust sitt. Hann treystir ykkur til að vera öðruvísi, sérstæð og aðgreind vegna þess mikilvæga verks sem hann treystir ykkur fyrir að vinna.

Hugleiðið það! Guð treystir ykkur – af öllum íbúum jarðar, börnum sáttmálans, áhafnarmeðlimum sínum – til að hjálpa við það verk sitt að koma öllum börnum sínum heilu og höldnu heim til sín. Engin furða að Brigham Young forseti hafi eitt sinn sagt: „Allir englar himins eru að fylgjast með þessum litla hópi fólks.“

Þegar maður horfir í kringum sig á þessu skemmtiferðaskipi, sem kallast jörð, gæti maður rekið augun í annað fólk sem situr í hægindastólum og drekkur, spilar fjárhættuspil í spilavítum, klæðist fötum sem eru of afhjúpandi, skrunar endalaust í farsímum og eyðir of miklum tíma í að spila tölvuleiki. Í stað þess að velta fyrir þér „af hverju get ég ekki gert það?“ geturðu munað að þú ert ekki venjulegur farþegi. Þú ert áhafnarmeðlimur. Þú hefur ábyrgð sem farþegar hafa ekki. Eins og systir Ardeth Kapp sagði eitt sinn: „Þú getur ekki verið líf[vörður] ef þú lítur út eins og allir hinir sundkapparnir á ströndinni.“

Og áður en þið fyllist vonleysi af öllum þessum aukaskyldum, munið þá að áhafnarmeðlimir hljóta nokkuð sem aðrir farþegar fá ekki: Umbun. Öldungur Neil L. Andersen hefur sagt: „Það er til andlega umbunandi máttur fyrir hina réttlátu,“ sem felur í sér „meiri fullvissu, meiri staðfestingu og aukið sjálfstraust.“ Þið hljótið, líkt og Abraham til forna, meiri hamingju og frið, meira réttlæti og meiri þekkingu. Umbun ykkar eru ekki aðeins höfðingjasetur á himnum og götur lagðar gulli. Það væri auðvelt fyrir himneskan föður að gefa ykkur einfaldlega allt sem hann á. Þrá hans er að hjálpa ykkur að verða allt það sem hann er. Því krefjast skuldbindingar ykkar meira af ykkur, því það er þannig sem Guð gerir meira úr ykkur.

„Til mikils er mælst, en þið eruð ekki bara hver sem er!“ Þið eruð ungmenni göfugs fæðingarréttar. Sáttmálssamband ykkar við Guð og Jesú Krist er samband elsku og trausts, þar sem þið hafið aðgang að náð þeirra í ríkari mæli – guðlegri aðstoð þeirra, gjöf styrks og virkjandi mætti. Sá máttur er ekki bara óskhyggja, lukkugripur eða sjálfuppfyllandi spádómur. Hann er raunverulegur.

Þegar þið uppfyllið ábyrgð ykkar varðandi fæðingarréttinn eruð þið aldrei einsömul. Herra víngarðsins vinnur með ykkur. Þið starfið hönd í hönd með Jesú Kristi. Með hverjum nýjum sáttmála – og eftir því sem samband ykkar við hann dýpkar – haldið þið ykkur stöðugt fastar að honum og hann að ykkur, þar til þið eruð tryggilega bundin saman. Í þessu helga tákni náðar hans, munið þið finna bæði þrá og styrk til að lifa nákvæmlega eins og frelsarinn lifði – öðruvísi en heimurinn. Þið getið þetta, því Jesús Kristur er með ykkur!

Í 2. Nefí 2:6 lesum við: „Vegna þessa felst endurlausnin í heilögum Messíasi og kemur með honum, því að hann er fullur náðar og sannleika.“ Vegna þess að hann er fullur sannleika, sér hann ykkur eins og þið í raun eruð – galla, veikleika, eftirsjá og allt saman. Vegna þess að hann er fullur náðar, sér hann ykkur eins og þið í raun getið orðið. Hann tekur á móti ykkur þar sem þið standið og hjálpar ykkur að iðrast og bæta ykkur, að yfirstíga og verða.

„Ó, ungmenni göfugs fæðingarréttar, sækið fram, sækið fram, sækið fram!“ Ég ber vitni um að þið eruð elskuð – og að ykkur er treyst – í dag, eftir 20 ár og að eilífu. Ekki selja fæðingarrétt ykkar fyrir baunakássu. Ekki skipta á öllu fyrir ekkert. Ekki láta heiminn breyta ykkur þegar þið fæddust til að breyta heiminum. Í nafni Jesú Krists, amen.