Eftirlæti Guðs
Að vera fyllt elsku Guðs verndar okkur í stormum lífsins en gerir líka gleðistundirnar enn gleðilegri.
Áður en ég byrja vil ég segja ykkur að liðið hefur yfir tvö barna minna við ræðupúltið og ég hef aldrei fundið sterkari tengingu við þau en á þessari stundu. Ég þarf að gæta mín á fleiru en bara fallhleranum.
Í fjölskyldunni okkar eru sex börn, sem stundum stríða hvert öðru með því að segjast vera uppáhaldsbarnið. Hvert og eitt hefur mismunandi ástæður fyrir því að vera í uppáhaldi. Elska okkar til sérhvers barna okkar er hrein, uppfyllandi og algjör. Við gætum ekki elskað eitt þeirra meira en annað – hverri fæðingu fylgdi hin fallegasta aukning á elsku okkar. Ég tengi mest við elsku himnesks föður til mín með elskunni sem ég ber til barna minna.
Þar sem þau hvert um sig segjast vera mest elskaða barnið, gætuð þið haldið að í fjölskyldu okkar hafi aldrei verið ósnyrtilegt svefnherbergi. Tilfinning fyrir göllum í sambandi foreldris og barns minnkar með því að einblína á elsku.
Á einhverjum tímapunkti, kannski vegna þess að ég sé að við stefnum í óumflýjanlegar fjölskylduóeirðir, segi ég stundum eitthvað eins og: „Allt í lagi, þið hafið gert mig úrvinda, en ég ætla ekki að lýsa því yfir; þið vitið hvert ykkar er í uppáhaldi hjá mér.“ Markmið mitt er að hverju og einu hinna sex finnist þau hafa unnið sigur og að okkur sé forðað frá allsherjarstríði – að minnsta kosti þangað til næst!
Í guðspjalli sínu lýsir Jóhannes sjálfum sér sem „[lærisveininum sem Jesús elskaði]“, eins og það fyrirkomulag væri á einhvern hátt einstakt. Ég tel að það hafi verið vegna þess að Jóhannes upplifði sig fullkomlega elskaðan af Jesú. Ég fékk álíka tilfinningu fyrir Nefí þegar hann ritaði: „[Ég] miklast í Jesú mínum.“ Auðvitað er frelsarinn ekki Nefís frekar en Jóhannesar, en samt leiddi persónulegt eðli sambands Nefís við „sinn“ Jesú hann að þessari ljúfu lýsingu.
Er ekki yndislegt að við finnum stundum fyllilega og persónulega fyrir athygli og elsku? Nefí getur kallað hann „sinn“ Jesú og það getum við líka. Elska frelsara okkar er „æðsta, göfugasta, sterkasta tegund ástar“, og hann veitir hana þar til við erum „mett“. Guðleg elska verður aldrei uppurin og hvert okkar er í miklu uppáhaldi. Elska Guðs er eins og hlutmengi í Venn-línuriti þar sem við öll skörumst. Hvaða hlutar af okkur sem virðast mismunandi, þá finnum við samlyndi í elsku hans.
Er nokkuð skrítið að æðstu boðorðin séu að elska Guð og þá sem umhverfis eru? Þegar ég sé fólk sýna hvert öðru kristilegan kærleika, finnst mér sú elska innihalda meira en bara elsku þess; þetta er kærleikur sem felur einnig í sér guðleika. Þegar við elskum hvert annað á þennan hátt, eins fullkomlega og fyllilega og við getum, tekur himinninn líka þátt.
Ef einhver sem okkur er kær virðist fjarlægur tilfinningu guðlegs kærleika, getum við fylgt þessari forskrift – með því að gera það sem færir okkur sjálf nær Guði og síðan það sem færir okkur nær þeim – ósögð ábending um að koma til Krists.
Ég vildi að ég gæti sest niður með ykkur og spurt í hvaða aðstæðum þið skynjið elsku Guðs. Í hvaða ritningarversi, í hvaða tiltekna þjónustuverki? Hvar væruð þið? Í hvaða tónlist? Með hverjum? Aðalráðstefna er góður staður til að læra um það hvernig tengjast má kærleika himins.
En kannski finnst ykkur þið vera víðsfjarri kærleika Guðs. Ef til vill er það kór vonleysisradda og myrkurs sem hefur áhrif á hugsanir ykkar, boðskapur sem segir ykkur að þið séuð of særð og ráðvillt, of veikburða og lítilsvirt, of ólík eða áttavillt til að réttlæta himneska elsku á nokkurn hátt. Ef þið heyrið þessar hugmyndir, heyrið þá þetta: Þessar raddir fara einfaldlega með rangt mál. Við getum full sjálfstrausts virt að vettugi þá bresti sem gera okkur á nokkurn hátt vanhæf þess að hljóta himneska elsku – í hvert sinn sem við syngjum sálminn sem minnir okkur á að ástkær og gallalaus frelsari okkar valdi að vera „[marinn, brotinn og sundurtættur okkar vegna]“, í hvert sinn sem við meðtökum brotið brauð. Jesús fjarlægir vissulega alla skömm frá þeim sem brotnir eru. Með því að verða brotinn fullkomnaðist hann og hann getur fullkomnað okkur, hvernig sem við erum brotin. Hann var brotinn, einmana, tættur og marinn – og okkur kann að finnast við vera það – en aðskilin kærleika Guðs erum við ekki. „Brotið fólk, fullkominn kærleikur,“ eins og segir í laginu.
Þið gætuð vitað eitthvað sem enginn veit um ykkur, sem veldur því að ykkur líður eins og ekki sé hægt að elska ykkur. Hversu rétt sem þið kunnið að hafa fyrir ykkur varðandi það sem þið vitið um ykkur sjálf, þá er rangt að halda að þið hafið gert ykkur viðskila við kærleika Guðs. Við erum stundum grimmari og óþolinmóðari gagnvart okkur sjálfum en við gætum nokkurn tíma ímyndað okkur að við værum gagnvart öðrum. Við höfum margt fyrir stafni í þessu lífi, en sjálfsfyrirlitning og skammarleg sjálfsfordæming eru ekki á listanum. Hversu afmynduð sem okkur kann að finnast við vera, þá er hönd hans ekki of stutt. Nei. Hún er alltaf nægilega löng til að „ná til okkar“ og faðma hvert og eitt okkar að sér.
Þegar við finnum ekki hlýju guðlegrar elsku, þá hefur hún ekki horfið. Orð Guðs sjálfs eru: „Því að þótt fjöllin bifist og hæðirnar haggist mun kærleikur [hans] til [okkar] ekki bifast.“ Svo það sé á hreinu, þá ætti hugmyndin um að Guð sé hættur að elska að vera svo aftarlega á lista mögulegra skýringa í lífinu að við komumst ekki að henni fyrr en eftir að fjöllin eru farin og hæðirnar horfnar!
Ég hef mjög gaman af þessari táknmynd um að fjöll séu staðfesting á fullvissunni um elsku Guðs. Þetta áhrifamikla tákn fléttast í frásagnir um þá sem fara á fjöll til að meðtaka opinberun og í lýsingu Jesaja á því að „fjallið, sem hús Drottins stendur á … [beri] yfir hæstu fjallstinda“. Hús Drottins er heimili okkar dýrmætustu sáttmála og staður fyrir okkur öll til að hvílast og sökkva djúpt í vísbendingarnar um elsku föður okkar til okkar. Ég hef líka notið þeirrar huggunar sem veitist sál minni þegar ég vef mig betur inn í skírnarsáttmálann minn og finn einhvern sem syrgir missi eða er hryggur yfir vonbrigðum og ég reyni að hjálpa slíkum að halda í og vinna úr tilfinningum sínum. Getum við á einhvern hátt sokkið okkur betur niður í hinn dýrmæta sáttmálskærleika, hesed?
En ef elska Guðs yfirgefur okkur ekki, af hverju finnum við hana þá ekki alltaf? Bara til að slá á væntingar ykkar: Ég veit það ekki. En að vera elskaður er tvímælalaust ekki það sama og að finnast maður vera elskaður og ég hef nokkrar hugsanir sem gætu hjálpað ykkur við að leita svara við þeirri spurningu.
Kannski glímið þið við sorg, þunglyndi, svik, einmanaleika, vonbrigði eða aðra áhrifamikla truflun á getu ykkar til að skynja elsku Guðs til ykkar. Ef svo er, geta þessir hlutir sljóvgað eða stöðvað getu okkar til að skynja eins og við myndum annars skynja. Ef til vill getið þið um nokkurn tíma ekki skynjað kærleika hans og vitneskjan verður að nægja. Ég velti samt fyrir mér hvort þið gætuð gert tilraun – af þolinmæði – með mismunandi leiðir til að tjá og taka á móti guðlegum kærleika. Getið þið tekið skref aftur á bak frá því sem er fyrir framan ykkur og kannski eitt skref til viðbótar, þar til þið sjáið víðara landslag, víðara og víðara ef nauðsyn krefur, þar til þið bókstaflega „hugsið himneskt“ vegna þess að þið eruð að horfa á stjörnurnar og minnist ótal heima og þar með skapara þeirra?
Fuglasöngur, að finna fyrir sólinni eða andvaranum eða rigningunni á húð minni og þau skipti þegar náttúran fyllir mig lotningu gagnvart Guði – hvert um sig hefur átt sinn þátt í að veita mér himneska tengingu. Ef til vill getur huggun trúfastra vina hjálpað. Kannski tónlist? Eða þjónusta? Hafið þið haldið skrá eða dagbók yfir þau skipti þegar samband ykkar við Guð varð ykkur skýrara? Kannski getið þið boðið þeim sem þið treystið að deila þeirra uppsprettum guðlegra tengsla með ykkur, er þið sækist eftir líkn og skilningi.
Ég velti fyrir mér, ef Jesús myndi velja stað þar sem þið og hann gætuð hist, afvikinn stað þar sem þið gætuð einbeitt ykkur eingöngu að honum, myndi hann þá velja sérstakan stað þjáninga ykkar, stað ykkar innilegustu þarfa, þangað sem enginn annar getur farið? Einhvers staðar sem þið eruð svo einmana að þið hljótið sannarlega að vera alein en samt ekki alveg, staðar sem kannski aðeins hann hefur ferðast til en hefur í raun þegar undirbúið að hitta ykkur þar, þegar þið komið. Ef þið bíðið þess að hann komi, gæti hann þá þegar verið þar og innan seilingar?
Ef ykkur finnst þið fyllt elsku á þessu tímabili lífs ykkar, reynið þá að halda jafn vel í hana og sigti heldur vatni. Skvettið því hvert sem þið farið. Eitt af kraftaverkum hins guðlega hagkerfis er að þegar við reynum að miðla kærleika Jesú, finnum við okkur sjálf fyllast hinni margþættu reglu um að „hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun finna það“.
Að vera fylltur elsku Guðs verndar okkur í stormum lífsins en gerir líka gleðistundirnar enn gleðilegri – hamingjudagar okkar, þegar sólin skín á himni, verða enn bjartari af sólskini í sálum okkar.
Við skulum verða „rótfest og grundvölluð“ í Jesú okkar og kærleika hans. Við skulum leita að og varðveita upplifanir þess að finna kærleika hans og kraft í lífi okkar. Gleði fagnaðarerindisins stendur öllum til boða, ekki aðeins hinum hamingjusömu, ekki aðeins hinum niðurlútu. Gleði er tilgangur okkar, ekki gjöf aðstæðna okkar. Við höfum gilda ástæðu til að „fyllast fögnuði og elsku til Guðs og allra manna“. Látum okkur uppfyllast. Í nafni Jesú Krists, amen.