Líahóna
„Þetta er fagnaðarerindi mitt“ – „Þetta er mín kirkja“
Nóvember 2024


13:49

„Þetta er fagnaðarerindi mitt“ – „Þetta er mín kirkja“

Þetta er fagnaðarerindi frelsarans og þetta er kirkja hans (sjá 3. Nefí 27:21; Mósía 26:22; 27:13). Samsetning þessara tveggja þátta er kröftug og olli gerbreytingu.

Öldum saman var svart púður öflugasta sprengiefnið sem völ var á. Það gat skotið fallbyssukúlum, en það var ekki árangursríkt fyrir flestar námuvinnslu- og vegaframkvæmdir. Það var bara of kraftlítið til að brjóta grjót.

Árið 1846 bjó ítalskur efnafræðingur að nafni Ascanio Sobrero til nýtt sprengiefni, nítróglýserín. Þessi olíukenndi vökvi var að minnsta kosti þúsund sinnum öflugri en svarta duftið. Það gat auðveldlega splundrað bergi. Því miður var nítróglýserín óstöðugt. Ef maður missti það úr lítilli hæð þá sprakk það. Ef það hitnaði of mikið þá sprakk það. Ef það varð of kalt þá sprakk það. Jafnvel þó það væri sett í kalt, dimmt herbergi og skilið þar eftir, myndi það að lokum springa. Flest lönd bönnuðu flutning þess og mörg bönnuðu framleiðslu þess.

Árið 1860, hóf sænskur vísindamaður að nafni Alfred Nobel tilraunir við að koma á stöðugleika í nítróglýseríni. Eftir sjö ár af tilraunum náði hann markmiði sínu með því að fá næstum verðlaust efni sem kallast kísilgúr til að drekka í sig nítróglýserínið. Kísilgúr er gljúpt steinefni sem hægt er að mylja í fínt duft. Þegar kísilgúr er blandað með nítróglýseríni, drekkur kísilgúrinn nítróglýserínið í sig og myndar mauk sem hægt er að móta í „stangir“. Í þessu formi var nítróglýserínið mikið stöðugra. Það var hægt að geyma það örugglega, flytja og nota með óskertum sprengikrafti. Nobel nefndi samsetningu nítróglýseríns og kísilgúrs „dýnamít“.

Dýnamít breytti heiminum. Það gerði Nobel einnig auðugan. Án stöðugleikaefnis var nítróglýserín hreinlega of hættulegt til að vera fjárhagslega verðmætt eins og Ascanio Sobrero komst að. Eitt og sér, eins og ég nefndi, hafði kísilgúr takmarkað verðgildi. En samsetning þessara tveggja þátta gerði dýnamít stökkbreytt og dýrmætt.

Á svipaðan hátt veitir samsetning fagnaðarerindis Jesú Krists og Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu okkur áhrifamikinn og umbreytandi ávinning. Fagnaðarerindið er fullkomið, en guðlega skipuð kirkja er nauðsynleg til að prédika það, viðhalda hreinleika þess og framkvæma helgiathafnir þess með krafti og valdi frelsarans.

Íhugið samsetningu fagnaðarerindis frelsarans og kirkju hans, eins og það var sett fram af spámanninum Alma í Mormónsbók. Kirkjan bar ábyrgð á að „prédika [ekkert annað] en iðrun og trú á Drottin, sem [myndi endurleysa] fólk [hans]“. Kirkjan notaði valdsumboð Guðs og bar ábyrgð á framkvæmd helgiathafnar skírnar „í nafni Drottins til að vitna [um inngöngu í] sáttmála við hann um að þjóna honum og halda boðorð hans“. Fólkið sem skírðist tók á sig nafn Jesú Krists, gekk í kirkju hans og var lofað miklum krafti með úthellingu andans.

Fólk flykktist að Mormónsvötnum til að hlýða á Alma prédika fagnaðarerindið. Þótt þau bæru mikla virðingu fyrir þessum vötnum og skógunum í kring, þá var kirkja Drottins hvorki staðsetning né bygging, né er hún það í dag. Kirkjan er einfaldlega venjulegt fólk, lærisveinar Jesú Krists sem koma saman og skipuleggja sig í guðlega tilnefndu skipulagi sem hjálpar Drottni að framfylgja tilgangi sínum. Kirkjan er verkfærið sem við notum til að læra um meginhlutverk Jesú Krists í áætlun himnesks föður. Kirkjan býður einstaklingum upp á áreiðanlega leið til að taka þátt í helgiathöfnum og gera varanlega sáttmála við Guð. Að halda þessa sáttmála, færir okkur nær Guði, veitir okkur aðgang að krafti hans og breytir okkur í það sem hann ætlar okkur að verða.

Rétt eins og dýnamít án nítróglýseríns er ómerkilegt, þá er kirkja frelsarans einungis sérstæð ef hún er byggð á fagnaðarerindi hans. Án fagnaðarerindis frelsarans og valdsins til að framkvæma helgiathafnir þess er kirkjan ekkert einstök.

Án stöðugleikaáhrifa kísilgúrs hafði nítróglýserín takmarkað gildi sem sprengiefni. Eins og sagan hefur sýnt, var skilningur mannkyns á fagnaðarerindi hans sömuleiðis óstöðugur án kirkju Drottins – hætt var á kenningarlegu fráhvarfi og hann háður áhrifum ólíkra trúarbragða, menningarheima og heimspeki. Sambland þessara áhrifa hefur sýnt sig á öllum ráðstöfunartímum fram að þessari síðustu. Þó að fagnaðarerindið hafi upphaflega verið opinberað í hreinleika sínum, þá tók túlkun og beiting þess smám saman á sig mynd guðleika sem skorti kraft, vegna þess að hin guðlega heimilaða umgjörð var ekki til staðar.

Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu tryggir aðgang að krafti Guðs, því hún hefur valdsumboð frá honum, bæði til að kenna kenningu Krists og til að framkvæma frelsandi og upphefjandi helgiathafnir fagnaðarerindisins. Frelsarinn þráir að fyrirgefa syndir okkar, hjálpa okkur að fá aðgang að krafti sínum og umbreyta okkur. Hann þjáðist fyrir syndir okkar og þráir að leysa okkur undan þeirri refsingu sem við annars myndum verðskulda. Hann vill að við verðum heilög og fullkomnumst í sér.

Jesús Kristur hefur máttinn til að gera þetta. Hann hafði ekki bara samúð með ófullkomleika okkar og harmaði eilífa fordæmingu okkar af völdum syndar. Nei, hann gekk lengra en það, óendanlega lengra en það, og endurreisti kirkju sína til að veita aðgang að krafti sínum.

Kjarni þess fagnaðarerindis sem kirkjan kennir, er að Jesús Kristur bar „vorar þjáningar … og vor harmkvæli“. Hann „lét synd vor allra koma niður á [sér]“. Hann „leið með þolinmæði á krossi“, rauf „helsi dauðans“, „[steig] upp til himins og [settist] til hægri handar Guði, til að krefja föðurinn um rétt sinn til miskunnar“. Frelsarinn gerði allt þetta vegna þess að hann elskar föður sinn og hann elskar okkur. Hann hefur þegar greitt hið óendanlega gjald, svo hann geti „[krafist] allra þeirra, sem á hann trúa [og talað máli]“ þeirra – okkar. Jesús Kristur þráir ekkert heitar en að við iðrumst og komum til hans, svo að hann geti réttlætt okkur og helgað. Í þeirri þrá er hann óþreytandi og óhagganlegur.

Aðgangurinn að sáttmálskrafti Guðs og sáttmálselsku hans hlýst i gegnum kirkju hans. Samsetning fagnaðarerindis frelsarans og kirkju hans umbreytir lífi okkar. Hún umbreytti móðurömmu minni og afa. Afi minn, Oskar Andersson, vann í skipasmíðastöð á Högmarsö, eyju í eyjaklasanum við Stokkhólm. Eiginkona hans, Albertina, og börn þeirra bjuggu á meginlandi Svíþjóðar. Einu sinni á tveggja vikna fresti, á laugardegi, reri Oskar bát sínum heim fyrir helgina áður en hann sneri aftur til Högmarsö á sunnudagskvöldið. Dag einn, meðan hann var á Högmarsö, heyrði hann tvo bandaríska trúboða prédika hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists. Oskar fann að það sem hann heyrði væri hreinn sannleikur og fylltist ólýsanlegri gleði.

Næst þegar hann kom heim, sagði Oskar Albertinu allt um trúboðana. Hann sagðist trúa því sem þeir kenndu. Hann bað hana að lesa bæklingana sem þeir höfðu afhent honum og hann sagði henni einnig að honum fyndist að ekkert tilvonandi barna þeirra ætti að skírast ungbarnaskírn. Albertina varð bálreið og henti bæklingunum á ruslahauginn. Ekki fór mikið á milli þeirra áður en Oskar snéri aftur til vinnu á sunnudagskvöldið.

Um leið og hann var farinn sótti Albertina þessa bæklinga. Hún bar kenningar þeirra vandlega saman við kenningarnar í hinni vel notuðu Biblíu sinni. Hún var furðulostin að komast að því að það sem hún las væri sannleikur. Næst þegar Oskar kom heim, var honum vel tekið, sem og eintakinu af Mormónsbók sem hann hafði meðferðis. Albertina las af ákefð og bar kenninguna aftur saman við kenninguna í Biblíunni. Líkt og Oskar þekkti hún hreinan sannleika og fylltist ólýsanlegri gleði.

Oskar, Albertina og börn þeirra fluttu til Högmarsö til að vera nálægt þeim fáu kirkjumeðlimum sem þar voru. Viku eftir að Oskar og Albertina voru skírð árið 1916 var Oskar kallaður til að vera leiðtogi hópsins á Högmarsö. Líkt og margir trúskiptingar, þá urðu Oskar og Albertina fyrir gagnrýni vegna sinnar nýju trúar. Bændur á svæðinu neituðu að selja þeim mjólk og því reri Oskar yfir fjörðinn á hverjum degi til að kaupa mjólk af umburðarlyndari bónda.

Næstu árin jókst þó meðlimafjöldi kirkjunnar á Högmarsö, að hluta til vegna sterks vitnisburðar Albertinu og brennandi trúboðskostgæfni. Þegar hópurinn varð að grein, var Oskar kallaður sem greinarforsetinn.

Eyjan var meðlimum Högmarsö-greinarinnar mjög kær. Hún var þeirra Mormónsvötn. Þar hlutu þau þekkingu á lausnara sínum.

Þegar þau héldu skírnarsáttmála sinn í áranna rás, þá umbreyttust Oskar og Albertina fyrir kraft Jesú Krists. Þau þráðu að gera fleiri sáttmála og fá musterisblessanir sínar. Til að hljóta þessar blessanir, fluttu þau búferlum frá heimili sínu í Svíþjóð til Salt Lake City árið 1949. Oskar hafði þá verið leiðtogi meðlimanna á Högmarsö í 33 ár.

Samsetning nítróglýseríns og kísilgúrs gerði dýnamít dýrmætt. Samsetning fagnaðarerindis Jesú Krists og kirkju hans verður ekki metin til fjár. Oskar og Albertina heyrðu um hið endurreista fagnaðarerindi vegna þess að spámaður Guðs hafði kallað trúboða, falið þeim verkefni og sent þá til Svíþjóðar. Trúboðarnir kenndu kenninguna um Krist með guðlegri skipan og með prestdæmisvaldi skírðu þeir Oskar og Albertinu. Sem meðlimir, héldu Oskar og Albertina áfram að læra, þroskast og þjóna öðrum. Þau urðu Síðari daga heilög vegna þess að þau héldu sáttmálana sem þau gerðu.

Frelsarinn vísar til Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu sem „[sinnar] kirkju“ vegna þess að hann hefur falið henni að uppfylla tilgang sinn, boða fagnaðarerindi sitt, bjóða helgiathafnir sínar og sáttmála og gera krafti sínum mögulegt að réttlæta og helga okkur. Án kirkju hans er ekkert valdsumboð, engin prédikun á opinberuðum sannleika í hans nafni, engar helgiathafnir eða sáttmálar, engin birtingarmynd kraftar guðleikans, engin umbreyting yfir í það sem Guð vill að við verðum og áætlun Guðs fyrir börn hans verður til einskis. Kirkjan á þessum ráðstöfunartíma er óaðskiljanlegur þáttur í áætlun hans.

Ég býð ykkur að skuldbinda ykkur frelsaranum, fagnaðarerindi hans og kirkju hans enn frekar. Þegar þið gerið það, munið þið finna að samsetning fagnaðarerindis frelsarans og kirkju hans færir kraft inn í líf ykkar. Þessi kraftur er miklu kraftmeiri en dýnamít. Það mun sundra grjótinu á vegi ykkar, breyta ykkur í erfingja í ríki Guðs. Og þið verðið „[full] ólýsanlegrar gleði og [full] dýrðar.“ Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Svart púður er blanda af kalíumnítrati (saltpétur), brennisteini og kolum. Það er flokkað sem dauft sprengiefni eða afkastalítið sprengiefni vegna tiltölulega hægs niðurbrotshraða þess, sem brennur undir hljóðhraða. Kraftmikið sprengiefni eða afkastamikið sprengiefni springur frekar en að brenna og myndar hljóðfráa höggbylgju.

  2. Dýnamít gerði „fordæmalausa aukningu í gerð járnbrautarganga, fráveitukerfa og neðanjarðarlesta mögulega um allan heim – stórtæk verkfræðiverkefni sem ómögulegt hefði verið að [framkvæma] án stýrðra sprenginga [sem það gerði mögulegt]. Næstum allir mikilsverðir verkfræðisigrar [seint á 19. öld og snemma á þeirri 20.] – neðanjarðarlestin í London, Brooklyn-brúin, meginlandslestarkerfið [og] Panamaskurðurinn – reiddu sig að miklu leyti á nýja sprengiefnið“ (Steven Johnson, The Infernal Machine: A True Story of Dynamite, Terror, and the Rise of the Modern Detective [2024], 24).

  3. Vegna þess að nítróglýserín sjálft var ekki viðskiptalega hagkvæmt varð Ascanio Sobrero ekki ríkur vegna uppfinningar sinnar. Þegar Alfred Nobel hins vegar byggði dýnamítverksmiðju í Avigliana á Ítalíu árið 1873 var Sobrero settur í stöðu sem vel launaður ráðgjafi í viðurkenningarskyni fyrir uppgötvun hans á nítróglýseríni. Sobrero gegndi því embætti til dauðadags árið 1888. (Sjá G. I. Brown, The Big Bang: A History of Explosives [1998], 106.)

  4. Fyrir sögu svarts púðurs, nítróglýseríns og dýnamíts, sjá Brown, The Big Bang, 1–121.

  5. Fagnaðarerindi Jesú Krists er samheiti fyrir kenningu Krists.

  6. Sjá Mósía 18:7, 20; 25:15, 22.

  7. Mósía 18:10.

  8. Sjá 2. Nefí 31:13.

  9. Sjá Mósía 18:17; 25:18, 23; Alma 4:4–5; Helaman 3:24–26; 3. Nefí 28:18, 23.

  10. Sjá 2. Nefí 31:12–14; Mósía 18:10.

  11. Kirkjan er lykillinn að því að bjóða börnum himnesks föður helga sáttmála. Það er ástæða þess að meðlimir gera sáttmála við musterisgjöfina um að halda helgunarlögmálið. Í því felst að þeir „tileinka tíma sinn, hæfileika og allt sem Drottinn hefur blessað þá með, því að byggja upp kirkju Jesú Krists á jörðunni“ (Almenn handbók: Þjónusta í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, 27.2, Gospel Library).

  12. Sjá Russell M. Nelson, „Andlegir fjársjóðir,“ aðalráðstefna, október 2019.

  13. Sjá Mósía 18:22; HDP Móse 6:68; Leiðarvísir að ritningunum, „Synir og dætur Guðs,“ Gospel Library.

  14. Sjá 3. Nefí 27:13–21.

  15. Sjá Trúaratriðin 1:5.

  16. Sjá Russell M. Nelson, „Gleðjumst yfir gjöf prestdæmislykla,“ aðalráðstefna, apríl 2024; 3. Nefí 27:9–11.

  17. Frá frelsaranum er gefið að „sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar“ svo að „við [gætum öll verið] einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, … [að] við eigum ekki að halda áfram að vera börn sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi og tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar“ (Efesusbréfið 4:11, 13–14).

  18. Syncretism er tæknilegt hugtak fyrir sameiningu mismunandi trúarbragða, menningarheima eða hugsunarskóla.

  19. Sjá Joseph Smith – Saga 1:19.

  20. Sjá „Endurreisn fyllingar fagnaðarerindis Jesú Krists: Tvö hundruð ára afmælisyfirlýsing til heimsins,“ Gospel Library. Yfirlýsinguna las Russell M. Nelson forseti sem hluta af boðskap sínum á 190. fyrri aðalráðstefnu, 5. apríl 2020, í Salt Lake City, Utah (sjá „Hlýð þú á hann,“ aðalráðstefna, apríl, 2020).

  21. Við höfum aðgang að krafti Guðs með því að iðka trú á Jesú Krist, iðrast synda okkar og halda sáttmálana sem við gerum við himneskan föður og Jesú Krist í helgiathöfnum eins og skírn, musterisgjöfinni og sakramentinu.

  22. Sjá Leiðarvísir að ritningunum, „Réttlæting, réttlæta,“ Gospel Library.

  23. Sjá Leiðarvísir að ritningunum, „Helgun,“ Gospel Library.

  24. Sjá Moróní 10:32–33.

  25. Sjá Hebreabréfið 4:15, sjá einnig neðanmálstilvísuna.

  26. Sjá Kenning og sáttmálar 19:15–18.

  27. Sjá Jesaja 53:4–12.

  28. Hebreabréfið 12:2.

  29. Mósía 15:23.

  30. Moróní 7:27–28; sjá einnig Kenning og sáttmálar 45:3–5.

  31. Sjá Mósía 18:30.

  32. Sjá Inger Höglund og Caj-Aage Johansson, Steg i Tro: Jesu Kristi Kyrka av Sista Dagars Heliga i Sverige 1850–2000 (2000) 66–67.

  33. Kenning og sáttmálar 115:4.

  34. Sjá Kenning og sáttmálar 84:19–21.

  35. Ef þið meðtakið það sem kirkja Drottins býður upp á, getið þið orðið fullkomin í Kristi áður en kirkja hans verður fullkomin, ef hún verður það nokkurn tíma. Markmið hans er að fullkomna ykkur, ekki kirkju hans. Markmið hans hefur aldrei verið að breyta kísilgúr myndrænt í demant. Markmið hans hefur verið að fága ykkur í skírt gull, að frelsa ykkur og upphefja sem samarfa hans í ríki himnesks föður. En það þarf líka að verða markmið ykkar. Þetta er ykkar val.

  36. Helaman 5:44.