Líahóna
Hönd hans reiðubúin til að hjálpa okkur
Nóvember 2024


10:13

Hönd hans reiðubúin til að hjálpa okkur

Þegar við komum til Jesú Krists í trú, mun hann ávallt vera til staðar.

Þegar ég var barn, fórum við fjölskyldan í ferðalag á ströndina við strandlengju föðurlands míns, Síle. Ég hlakkaði til að verja nokkrum dögum með fjölskyldu minni, að njóta sumarsins. Ég var líka í sjöunda himni, því ég hélt að ég gæti loksins tekið þátt og gert það sem tveir eldri bræður mínir gerðu vanalega sér til skemmtunar úti á sjó.

Dag einn fóru bræður mínir að leika sér í öldubrotinu og mér fannst ég nógu stór og þroskaður til að fylgja þeim. Þegar ég fór nær þessu svæði, varð mér ljóst að öldurnar voru stærri en þær virtust frá ströndinni. Allt í einu nálgaðist alda mig óðfluga og kom mér á óvart. Mér fannst sem náttúruöflin hefðu yfirtekið mig og ég dróst niður í djúp sjávar. Ég gat ekki séð eða skynjað neinn viðmiðunarpunkt er ég veltist til. Á þeirri stundu, er ég hélt að ævintýri mitt á jörðu væri senn á enda, fann ég hönd toga mig upp á yfirborðið. Loksins gat ég séð sólina og náð andanum.

Bróðir minn, Claudio, hafði séð tilraunir mínar við að þykjast vera fullorðinn og hafði komið mér til bjargar. Ég var ekki langt frá ströndinni. Jafnvel þótt vatnið væri grunnt var ég áttavilltur og hafði ekki gert mér grein fyrir því að ég hefði getað bjargað mér sjálfur. Claudio sagði mér að ég þyrfti að fara varlega og ef ég vildi gæti hann kennt mér. Þrátt fyrir vatnslítrana sem ég hafði gleypt, var stolt mitt og þrá eftir því að verða stór yfirsterkari og ég sagði: „Endilega.“

Claudio sagði að ég þyrfti að ráðast á öldurnar. Ég sagði sjálfum mér að ég myndi örugglega tapa þeirri orrustu gegn því sem virtist vera risastór vatnsveggur.

Þegar ný stór alda nálgaðist sagði Claudio fljótt: „Horfðu á mig. Svona gerirðu þetta.“ Claudio hljóp í átt að öldunni og stakk sér í hana áður en hún brotnaði. Ég var svo hrifinn af því hvernig hann stakk sér að ég missti sjónar á næstu öldu. Svo aftur var ég sendur niður í djúp sjávar og kastað til og frá af náttúruöflunum. Nokkrum sekúndum síðar tók hönd í mína hönd og ég var aftur dreginn upp á yfirborðið og í súrefnið. Stolt mitt var að við það að slokkna.

Í þetta sinn bauð bróðir minn mér að kafa með sér. Ég fylgdi honum samkvæmt boði hans og við stungum okkur saman. Mér fannst ég vera að sigrast á hinni flóknustu áskorun. Vissulega var það ekki mjög auðvelt, en ég gerði það, þökk sé hjálpinni og fordæminu sem bróðir minn sýndi. Hönd hans bjargaði mér tvisvar, fordæmi hans sýndi mér hvernig takast ætti á við áskorun mína og vera sigursæll þann dag.

Russell M. Nelson forseti hefur boðið okkur að hugsa himneskt og ég vil fylgja leiðsögn hans og heimfæri hana upp á sumarleyfisfrásögn mína.

Vald frelsarans yfir andstæðingnum

Ef við hugsum himneskt, munum við skilja að í lífi okkar munum við standa frammi fyrir áskorunum sem virðast meiri en við sjálf getum sigrast á. Í jarðlífi okkar verðum við fyrir árásum óvinarins. Eins og öldurnar sem höfðu vald yfir mér þennan sumardag, getum við fundið fyrir vanmætti og viljað gefast upp fyrir sterkari örlögum. Þessar „meinfýsnu öldur“ gætu velt okkur fram og til baka. En gleymið ekki hver hefur vald yfir þessum öldum og í raun yfir öllu. Það er frelsari okkar, Jesús Kristur. Hann hefur máttinn til að hjálpa okkur út úr öllum ömurlegum eða erfiðum aðstæðum. Burtséð frá því hvort okkur finnst við vera náin honum, þá getur hann samt náð til okkar þar sem við erum, eins og við erum.

Þegar við komum til hans í trú, mun hann ávallt vera til staðar og á sínum tíma verður hann tilbúinn og fús til að grípa í hendur okkar og draga okkur upp á öruggan stað.

Frelsarinn og þjónustufordæmi hans

Ef við hugsum himneskt, munum við bera kennsl á Jesú Krist sem gallalaust dæmi um þjónustu. Í ritningunum felst forskrift að því þegar hann eða lærisveinar hans rétta fram hönd sína til þeirra sem þarfnast hjálpar, björgunar eða blessunar. Eins og í sögu minni, þá vissi ég að bróðir minn væri þarna, en það var ekki nóg að vera til staðar fyrir mig. Claudio vissi að ég var í vandræðum og fór til að lyfta mér upp úr vatninu.

Stundum höldum við að við þurfum bara að vera til staðar fyrir einhvern í neyð og oft er meira sem við getum gert. Eilífðar yfirsýn getur hjálpað okkur að hljóta opinberun til að geta veitt öðrum þurfandi aðstoð tímanlega. Við getum reitt okkur á leiðsögn og innblástur heilags anda til að greina hvers konar hjálpar er þörf, hvort sem það er stundlegur stuðningur, líkt og tilfinningaleg huggun, matur eða aðstoð við dagleg verkefni eða andleg leiðsögn til að hjálpa öðrum í ferð þeirra við að undirbúa sig og gera og heiðra helga sáttmála.

Frelsarinn er reiðubúinn að koma okkur til bjargar

Þegar Pétur, æðsti postulinn, „sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans … varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: ‚Drottinn, bjarga þú mér.‘“ Jesús þekkti trúna sem Pétur hafði sýnt til að koma til hans á vatninu. Hann var líka meðvitaður um ótta Péturs. Samkvæmt frásögninni „rétti [Jesús] þegar út höndina, tók í hann“ og sagði eftirfarandi orð: „Trúlitli maður, hví efaðist þú?“ Orð hans voru ekki til að ávíta Pétur, heldur til að minna hann á að hann, Messías, væri með honum og lærisveinunum.

Ef við hugsum himneskt, munum við hljóta staðfestingu í hjörtum okkar um að Jesús Kristur er vissulega bjargvættur okkar, málsvari okkar hjá föðurnum og lausnari okkar. Þegar við iðkum trú á hann, mun hann frelsa okkur frá föllnu ástandi okkar, sem nær lengra áskorunum okkar, vanmætti og þörfum í þessu stundlega lífi og gefa okkur æðstu gjöf allra, sem er eilíft líf.

Frelsarinn gefst ekki upp á okkur

Bróðir minn gafst ekki upp á mér þennan dag, heldur hélt ótrauður áfram svo ég gæti lært að gera þetta sjálfur. Hann hélt ótrauður áfram, jafnvel þótt það krefðist þess að mér yrði bjargað tvisvar. Hann hélt ótrauður áfram, þótt ég hafi ekki skilið þetta í fyrstu. Hann hélt ótrauður áfram, svo ég gæti sigrast á þessari áskorun og náð árangri. Ef við hugsum himneskt, munum við gera okkur grein fyrir því að frelsarinn mun vera til staðar eins oft og nauðsynlegt er, til að veita aðstoð ef við viljum læra, breytast, sigrast á, takast á við eða ná árangri í hverju því sem færir sanna og ævarandi hamingju í líf okkar.

Hendur frelsarans

Ritningarnar gera tákn og merkingu handa frelsarans ódauðleg. Í friðþægingarfórn hans voru hendur hans negldar með nöglum til að festa hann á krossinn. Eftir upprisu sína, birtist hann lærisveinum sínum í fullkomnum líkama, en förin í lófum hans eru enn til áminningar um altæka fórn hans. Hönd hans mun ávallt vera til staðar fyrir okkur, jafnvel þótt við sjáum hana ekki í fyrstu eða skynjum hana, því himneskur faðir útvaldi hann til að vera frelsari okkar, lausnari alls mannkyns.

útréttar hendur frelsarans

Innan okkar seilingar, eftir Jay Bryant Ward

bjargandi hendur frelsarans

Hönd Guðs, eftir Yongsung Kim

Ef ég hugsa himneskt, þá veit ég að við erum ekki skilin eftir ein í þessu lífi. Þótt við þurfum að takast á við áskoranir og raunir, þá þekkir himneskur faðir getu okkar og veit að við fáum borið erfiðleika okkar eða sigrast á þeim. Við verðum að gera okkar hluta og koma til hans í trú. Hans ástkæri sonur, Jesús Kristur, er bjargvættur okkar og mun alltaf vera til staðar. Í nafni hans, hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Russell M. Nelson, „Hugsið himneskt!aðalráðstefna, október 2023:

    „Þegar þið veljið, býð ég ykkur að horfa á stóru myndina – hafa eilífa yfirsýn. Setjið Jesú Krist í forgang, því eilíft líf ykkar er háð trú ykkar á hann og friðþægingu hans. …

    Þegar þið eruð í ógöngum, hugsið þá himneskt! Þegar ykkar er freistað, hugsið þá himneskt! Þegar lífið eða ástvinir valda ykkur vonbrigðum, hugsið þá himneskt! Þegar einhver deyr ótímabært, hugsið þá himneskt. Þegar einhver dregur fram líftóruna í átakanlegum veikindum, hugsið þá himneskt. Þegar álag lífsins er óbærilegt, hugsið þá himneskt! Þegar þið náið heilsu eftir slys eða meiðsli, eins og ég geri núna, hugsið þá himneskt!“

  2. Sjá Markús 4:35–41.

  3. Þótt við trúum því að himneskur faðir og Jesús Kristur geti hjálpað okkur þegar þörf krefur, þá berst hjálp þeirra ekki alltaf á þann hátt sem við væntum. Það er mikilvægt að treysta því að þeir þekki okkur betur en við þekkjum okkur sjálf og muni veita okkur þann stuðning og aðstoð sem best er fyrir okkur á réttum tíma: „Vita skaltu þá, sonur minn, að allt mun þetta veita þér reynslu og verða þér til góðs“ (Kenning og sáttmálar 122:7).

    Þær raunir og áskoranir sem við tökumst á við, hjálpa okkur að byggja upp styrk og persónuleika til að standast freistingar og sigrast á hinum náttúrlega manni.

  4. Sjá Matteus 14:31; Markús 1:31; 5:41; 9:27; Postulasagan 3:7; 3. Nefí 18:36.

  5. Þegar Russell M. Nelson forseti bauð okkur að þjóna á nýrri og helgari hátt (sjá „Þjónusta,“ aðalráðstefna, apríl 2018), þá bað hann okkur líka að skilja að þessi nýja leið til að þjóna snýst ekki um okkur og það sem við viljum bjóða upp á, heldur þarfir annarra. Jesús Kristur er að veita okkur tækifæri til að elska náunga okkar (sjá Lúkas 10:27) á æðri og helgari hátt.

  6. Matteus 14:29–30.

  7. Matteus 14:31.

  8. Til að skilja hamingjuna til hlítar, þurfum við að skilja hlutverk blessana í lífi okkar. Skilgreining hugtaksins blessanir hjálpar við að skýra þetta hugtak: „Blessun er að veita einhverjum guðlega náð. Sérhvað sem leiðir til sannrar hamingju, vellíðunar eða velmegunar er blessun.“ (Leiðarvísir að ritningunum, „Blessa, blessaður, blessun,“ Gospel Library). Heimurinn ruglar oft saman sannri hamingju og stundlegri ánægju, sem líkir eftir skammvinnri „hamingju“.

  9. Sjá Jesaja 49:16.