Í heilagleika Drottins í daglegu lífi
Heilagleiki í Drottni helgar daglegt líf. Hann leiðir okkur hamingjusamari nær Drottni og hvert öðru.
Á nýlegu ættarmóti Gong-fjölskyldunnar var haldin skemmtileg hæfileikasýning ásamt pabbabrandarakeppni.
En þessi keppni var óvenjuleg. Í öðru liðinu var afi (ég) og tvö barnabarnanna, 12 og 11 ára. Í hinu liðinu var gervigreindarforrit (AI) sem frændi minn fékk til að segja pabbabrandara að skapi Gerrits W. Gong. Gerrit Gong afi gegn gervigreindar-Gerrit Gong.
Barnabörnin og ég byrjuðum.
Hvað kallar maður risaeðlu sem klessir bílinn sinn? Risaklessu.
Gervigreindar-Gerrit Gong fékk leiðbeiningarnar: Hugsaðu eins og Gerrit W. Gong. Talaðu eins og hann.
Gervigreindar-Gerrit Gong: „Hér er pabbabrandari líkt og Gerrit W. Gong segði hann, með sínu hlýja, hugulsama og upplífgandi viðmóti: Af hverju fékk auðmjúka tréð fólk til að brosa? Vegna þess að það átti rætur í kærleika og náði til þeirra með greinum góðvildar. Við getum, líkt og þetta tré, fundið styrk í rótum okkar og gleði í því að sýna öðrum góðvild.“
Jæja, hvað finnst ykkur? Þess vegna eru þeir kallaðir pabbabrandarar.
Allt í kringum okkur gefast tækifæri til að hlæja, gleðjast, sjá með þakklátum augum. Fagnaðarerindi okkar er erindi gleði og heilagleika í daglegu lífi. Heilagleiki aðgreinir hluti í helgum tilgangi. Heilagleiki býður okkur líka að fylla daglegt líf með hinu heilaga – að gleðjast yfir daglegu brauði, mitt í þyrnum og þistlum þessa heims. Til að ganga með Drottni, verðum við að verða heilög, því hann er heilagur, og til að hjálpa okkur að verða heilög, býður Drottinn okkur að ganga með sér.
Öll eigum við okkur sögu. Þegar við systir Gong hittum ykkur – meðlimi kirkjunnar og vini á ýmsum stöðum og við mismunandi aðstæður – fáum við innblástur frá sögum ykkar um að lifa daglega í heilagleika Drottins. Þið lifið samkvæmt fimm essum: Í Samneyti við Guð, í samfélagi og samkennd við hvert annað, í skuldbindingu og sáttmála við Guð, fjölskyldu og vini –með Jesú Krist að þungamiðju.
Sífellt fleiri gögn undirstrika þessa eftirtektarverðu staðreynd: Trúaðir eru að meðaltali hamingjusamari, heilbrigðari og ánægðari en þeir sem eru án andlegrar skuldbindingar eða sambands. Hamingja og lífsánægja, andleg og líkamleg heilsa, merking og tilgangur, eðlisfar og dyggð, náin félagsleg tengsl, jafnvel fjárhagslegur og efnislegur stöðugleiki – í hverjum þessara flokka blómstra trúariðkendur.
Þeir njóta betri líkamlegrar og andlegrar heilsu og meiri lífsánægju á öllum aldri og meðal allra lýðfræðilegra hópa.
Það sem vísindamenn kalla „kerfislægan trúarlegan stöðugleika“ býður upp á skýrleika, tilgang og innblástur mitt í veðrum og vindum lífsins. Heimilishald byggt á trú og samfélag heilagra berjast gegn einangrun og einmanalegu fjölmenni. Heilagleiki í Drottni segir nei við hinu vanhelga, nei við virðingarlausum klókindum á kostnað annarra, nei við reikniritum sem skapa tekjur úr reiði og skautun. Heilagleiki í Drottni segir já við hinu helga og lotningarfulla, já við því að verða okkar frjálsasta, hamingjusamasta, falslausasta, besta sjálf þegar við fylgjum honum í trú.
Hvernig lítur heilagleiki í Drottni út í daglegu lífi?
Heilagleiki í Drottni í daglegu lífi er eins og tveir trúfastir ungir, fullorðnir einstaklingar, giftir í eitt ár, sem deila einlæglega og berskjaldað sáttmálum fagnaðarerindisins, fórna og þjóna í lífi sínu sem er að þróast.
Hún hefur mál sitt: „Í menntaskóla var ég á myrkum stað. Mér fannst eins og Guð væri ekki til staðar fyrir mig. Kvöld eitt komu skilaboð frá vinkonu sem sögðu: ‚Heyrðu, hefur þú einhvern tíma lesið Alma 36?‘
„Þegar ég byrjaði að lesa,“ sagði hún, „kom yfir mig friður og elska. Mér leið eins og mér væri gefið stórt faðmlag. Þegar ég las Alma 36:12, vissi ég að himneskur faðir sá mig og vissi nákvæmlega hvernig mér leið.“
Hún heldur áfram: „Áður en við giftumst, var ég heiðarleg við unnusta minn um að ég hefði ekki sterkan vitnisburð um tíund. Af hverju þurfti Guð á því að halda að við létum peninga af hendi þegar aðrir höfðu svo mikið að gefa? Unnusti minn hjálpaði við að útskýra að þetta snerist ekki um peninga heldur að fylgja boðorði sem okkur var gefið. Hann skoraði á mig að byrja að greiða tíund.
„Ég sá sannarlega vitnisburð minn vaxa,“ sagði hún. „Stundum er lítið um peninga en við sáum svo margar blessanir og einhvern veginn dugðu launin.“
„Í hjúkrunarnáminu mínu,“ sagði hún líka, „var ég eini meðlimur kirkjunnar og sú eina sem var gift. Oft yfirgaf ég kennslustund vonsvikin eða grátandi, því mér fannst bekkjarfélagar mínir taka mig fyrir og tala svo neikvætt um trú mína, að ég klæddist musterisklæðum eða að ég væri gift svona ung.“
Hún hélt áfram: „Á síðustu önn lærði ég hvernig ég get tjáð trú mína betur og verið gott fordæmi um fagnaðarerindið. Þekking mín og vitnisburður óx vegna þess að reynt var á getu mína til að standa ein og vera sterk í trú minni.“
Ungi eiginmaðurinn bætir við: „Áður en ég fór í trúboð fékk ég tilboð um að spila hafnabolta í háskóla. Þegar ég tók þessa erfiðu ákvörðun, lagði ég tilboðin til hliðar og fór að þjóna Drottni. Ég myndi ekki skipta á neinu og þessum tveimur árum.
„Þegar ég kom heim,“ sagði hann, „bjóst ég við erfiðum umskiptum en fann að ég var sterkari, hraðari og heilbrigðari. Ég kastaði hraðar en þegar ég fór. Ég fékk fleiri tilboð til að spila heldur en áður en ég fór, þar á meðal frá draumaskólanum. Og það sem mikilvægast er,“ sagði hann, „þá reiði ég mig meira á Drottin en nokkru sinni fyrr.“
Niðurstaða hans er: „Sem trúboði kenndi ég að himneskur faðir lofar okkur krafti í bænum okkar, en stundum gleymi ég því fyrir sjálfan mig.“
Trúboðafjársjóður okkar í heilagleika Drottins er mikill og ríkulegur. Fjármál, tímasetning og aðrar aðstæður eru oft ekki auðveldar. En þegar trúboðar á öllum aldri og af mismunandi bakgrunni helga sig Drottni í heilagleika, getur allt gengið upp að tíma og hætti Drottins.
Nú, með 48 ára yfirsýn, miðlar eldri trúboði: „Pabbi minn vildi að ég gengi í háskóla í stað þess að fara í trúboð. Stuttu síðar fékk hann hjartaáfall og lést, 47 ára að aldri. Ég fann til sektarkenndar. Hvernig gat ég komið á sátt við föður minn?
„Síðar,“ hélt hann áfram, „eftir að ég ákvað að þjóna í trúboði, sá ég föður minn í draumi. Hann var friðsæll og sáttur við að ég myndi þjóna.“
Þessi eldri trúboði heldur áfram: „Eins og Kenning og sáttmálar, kafli 138 kennir, þá trúi ég að faðir minn geti þjónað sem trúboði í andaheiminum. Ég ímynda mér að faðir minn hjálpi langafa mínum, sem yfirgaf Þýskaland 17 ára og glataðist fjölskyldunni, að finnast aftur.“
Eiginkona hans bætti við: „Af fimm bræðrum í fjölskyldu eiginmanns míns, eru það þeir fjórir sem þjónuðu í trúboði sem eru með háskólagráðu.“
Heilagleiki í Drottni í daglegu lífi sýnir sig í ungum heimkomnum trúboða sem lærði að láta Guð ríkja í lífi sínu. Áður fyrr, þegar trúboðinn var beðinn að blessa einhvern sem var mjög veikur, sagði hann: „Ég hef trú; ég mun blessa hann svo hann nái bata. Þó lærði ég á þessari stundu,“ sagði hinn heimkomni trúboði, „að biðja ekki um það sem ég vildi, heldur um það sem Drottinn vissi að viðkomandi þarfnaðist. Ég blessaði bróðurinn með friði og huggun. Hann lést síðar friðsællega.“
Heilagleiki í Drottni í daglegu lífi er sem ljósglampi sem brýst gegnum huluna til að tengjast, hugga og styrkja. Stjórnandi við stóran háskóla segist finna fyrir einstaklingum sem hann þekki aðeins af afspurn, sem biðja fyrir honum. Þessir einstaklingar helguðu háskólanum líf sitt og láta sér áfram annt um hlutverk hans og nemendur.
Systir nokkur gerir sitt besta dag hvern, eftir að eiginmaður hennar var ótrúr henni og börnunum. Ég dáist innilega að henni og öðrum eins og henni. Dag einn, þegar hún var að brjóta saman þvott, með hönd á stafla af musterisklæðum, andvarpaði hún með sjálfri sér: „Til hvers er þetta allt saman?“ Hún fann ljúfa rödd fullvissa hana: „Sáttmálar þínir eru við mig.“
Í 50 ár þráði önnur systir samband við föður sinn. „Á uppvaxtarárunum,“ segir hún, „voru það annars vegar bræður mínir og pabbi og hins vegar ég – einkadóttirin. Það eina sem ég vildi var að vera ‚nógu góð‘ fyrir pabba.
Svo dó mamma! Hún var eini tengiliður minn milli mín og föður míns.
Dag einn,“ sagði systirin, „heyrði ég rödd segja: ‚Bjóddu pabba þínum með þér í musterið.‘ Þetta var upphafið að stefnumóti tvisvar í mánuði með pabba mínum í húsi Drottins. Ég sagði pabba að ég elskaði hann. Hann sagðist líka elska mig.
Að dvelja í húsi Drottins hefur læknað okkur. Mamma gat ekki hjálpað okkur á jörðinni. Hún þurfti að vera hinum megin hulunnar til að geta hjálpað við að laga það sem var brotið. Musterið fullkomnaði ferð okkar til að verða heil sem eilíf fjölskylda.“
Faðirinn segir: „Vígsla musterisins var mér og einkadóttur minni mikil andleg reynsla. Nú komum við saman og finnum elsku okkar styrkjast.“
Heilagleiki í Drottni í daglegu lífi felur í sér ljúfar stundir þegar ástvinir andast. Fyrr á þessu ári hélt ástkær móðir mín, Jean Gong, á vit næsta lífs nokkrum dögum fyrir 98 ára afmælisdaginn sinn.
Ef þið spyrðuð móður mína: „Má bjóða þér hnetu- og sykurpúðaís, engiferís með hvítu súkkulaði eða jarðarberjaís?“ myndi mamma segja: „Já, takk, má ég smakka þá alla?“ Hver gæti sagt nei við móður sína, sérstaklega þegar hún elskaði allar bragðtegundir lífsins?
Ég spurði mömmu eitt sinn hvaða ákvarðanir hefðu mest mótað líf hennar.
Hún sagði: „Að skírast sem meðlimur í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og að flytja frá Havaí til meginlandsins, þar sem ég kynntist föður þínum.“
Móðir mín, sem skírðist 15 ára og var eini meðlimur stórrar fjölskyldu sinnar sem gekk í kirkjuna okkar, hafði sáttmálsbundna trú og setti traust sitt á Drottin sem blessaði líf hennar og alla ættliði skyldmenna okkar. Ég sakna móður minnar, líkt og þið saknið fjölskyldumeðlima ykkar. En ég veit að móðir mín er ekki farin. Hún er bara ekki hér núna. Ég heiðra hana og alla þá sem deyja sem hugdjarfar fyrirmyndir um daglegan heilagleika í Drottni.
Heilagleiki í Drottni í daglegu lífi felur auðvitað í sér að koma oftar til Drottins í hans heilaga húsi. Það er tilfellið, hvort sem við erum meðlimir kirkjunnar eða vinir.
Þrír vinir fóru í opið hús Bangkok-musterisins í Taílandi.
„Þetta er staður ofurlækningar,“ sagði einn þeirra.
Í skírnarsalnum sagði annar: „Þegar ég er hér langar mig að verða laugaður hreinn og syndga aldrei aftur.“
Sá þriðji sagði: „Finnið þið andlega kraftinn?“
Með fimm helgum orðum bjóða musteri okkar og lýsa yfir:
„Í heilagleika Drottins.
Heilagleiki í Drottni helgar daglegt líf. Hann leiðir okkur hamingjusamari nær Drottni og hvert öðru og býr okkur undir að dvelja með Guði föður okkar, Jesú Kristi og ástvinum okkar.
Þið veltið ef til vill fyrir ykkur, eins og vinur minn, hvort himneskur faðir elskar ykkur. Svarið er afgerandi, algjörlega já! Við getum fundið elsku hans er við tileinkum okkur heilagleika í Drottni dag hvern, ævarandi hamingjusöm. Ég bið þess að við verðum það, í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.