Líahóna
Einblína á Jesú Krist og fagnaðarerindi hans
Nóvember 2024


10:50

Einblína á Jesú Krist og fagnaðarerindi hans

Þegar við leiðum hjá okkur truflanir heimsins og einblínum á Krist og fagnaðarerindi hans, er okkur tryggður árangur.

Árið 1996 vann nígeríska karlalandsliðið í knattspyrnu gull á Ólympíuleikunum, sem haldnir voru í Atlanta í Bandaríkjunum. Þegar úrslitaleiknum lauk, streymdi fagnandi mannfjöldi út á götur allra borga og bæja Nígeríu; í þessu 110 milljón manna landi brutust þegar í stað út mikil fagnaðarlæti klukkan tvö að nóttu! Smitandi gleðin, hamingjan og fögnuðurinn var allsráðandi er fólkið borðaði, söng og dansaði. Á því augnabliki var Nígería sameinuð og sérhver Nígeríumaður var sáttur við að vera Nígeríumaður.

Fyrir Ólympíuleikana stóð liðið frammi fyrir fjölmörgum áskorunum. Þegar mótið hófst var endi bundinn á fjárhagslegan stuðning þess. Liðið tók þátt án viðeigandi búninga, æfingaaðstöðu, matar eða þvottaþjónustu.

Nígeríska knattspyrnuliðið með gullmedalíur.

Jerome Prevost/Getty Images

Á einum tímapunkti voru þeir nokkrum mínútum frá því að falla úr keppni, en nígeríska liðið vann sigur, þvert á allar líkur. Þetta mikilvæga augnablik breytti því hvernig þeir sáu sjálfa sig. Með nýfundnu sjálfstrausti og mikilli vinnusemi hvers og eins og liðsins í heild og þrautseigri ákveðni, leiddu þeir í sameiningu hjá sér hinar mörgu truflanir og einbeittu sér að því að sigra. Þessi einbeiting ávann þeim gullverðlaun og Nígeríumenn gáfu þeim nafnið „Draumaliðið“. Áfram er vísað til Draumaliðsins á Ólympíuleikunum í Atlanta 1996 í nígerískum íþróttum.

Draumalið Nígeríu.

David Cannon/Allsport/Getty Images

Þegar knattspyrnuliðið lærði að leiða hjá sér þær mörgu truflanir sem það stóð frammi fyrir og einbeitti sér að markmiði sínu, náði það lengra en það hélt að væri mögulegt og upplifði mikla gleði. (Það gerðu líka allir aðrir í Nígeríu!)

Á svipaðan hátt, þegar við leiðum hjá okkur truflanir heimsins og einblínum á Krist og fagnaðarerindi hans, er okkur tryggður árangur umfram það sem við fáum ímyndað okkur og við getum upplifað mikla gleði. Russell M. Nelson kenndi: „Þegar við einblínum á … Jesú Krist og fagnaðarerindi hans, þá getum við fundið gleði, í öllu sem gerist – eða gerist ekki – í lífi okkar.“

Ég bið þess að heilagur andi hjálpi hverju okkar að hlíta boði Nelsons forseta um að einblína á „Jesú Krist og fagnaðarerindi hans“ svo við getum upplifað gleði í Kristi, „í öllu sem gerist – eða gerist ekki – í lífi okkar“.

Nokkrar frásagnir í Mormónsbók lýsa einstaklingum sem gerðu breytingar á lífi sínu með því að einblína á Jesú Krist og fagnaðarerindi hans.

Hugleiðið Alma yngri. Hann gerði uppreisn og barðist gegn kirkjunni. Faðir hans, Alma, baðst fyrir og fastaði. Engill birtist og kallaði Alma yngri til iðrunar. Á því augnabliki tók Alma að upplifa „kvalir dæmdrar sálar“. Á hans myrkustu stundum minntist hann þess sem faðir hans hafði kennt, að Kristur myndi koma til að friðþægja fyrir syndir heimsins. Þegar hugur hans náði tökum á þessari hugsun, ákallaði hann Guð um miskunn. Gleði var niðurstaðan, gleði sem hann lýsti sem óviðjafnanlegri! Miskunn og gleði komu til Alma vegna þess að hann og faðir hans einblíndu á frelsarann.

Þið foreldrar barna sem hafa villst frá, látið hughreystast! Í stað þess að velta því fyrir ykkur hvers vegna engill kemur ekki til að hjálpa barni ykkar til iðrunar, vitið þá að Drottinn hefur sett jarðneskan engil á veg þess: biskupinn, annan kirkjuleiðtoga eða þjónandi bróður eða systur. Ef þið haldið áfram að fasta og biðja, ef þið setjið Guði ekki tímaáætlun eða tímamörk og ef þið treystið því að hann réttir fram hönd sína til hjálpar, getið þið – fyrr eða síðar – fundið Guð snerta hjarta barns ykkar þegar barnið ykkar ákveður að hlusta. Svona er það vegna þess að Kristur er gleði – Kristur er von; hann er fyrirheit um þau „gæði sem komin eru“. Treystið því Jesú Kristi fyrir barni ykkar, því hann er styrkur hvers foreldris og hvers barns.

Þegar Alma yngri hafði upplifað gleði í Kristi, lifði hann í þeirri gleði. En hvernig viðhélt hann svo slíkri gleði, jafnvel í erfiðleikum og raunum? Hann sagði:

„Frá þeirri stundu og til þessa dags hef ég erfiðað viðstöðulaust til að geta leitt sálir til iðrunar, til að geta gefið þeim hlutdeild í hinni yfirþyrmandi gleði, sem ég kynntist …

[og] Drottinn færir mér mikla gleði yfir ávöxtum erfiðis míns. …

Og ég hef notið stuðnings í raunum mínum og hvers konar erfiðleikum.“

Gleði Alma í Kristi hófst þegar hann iðkaði trú á hann og ákallaði hann um miskunn. Alma iðkaði trú sína á Krist með því að erfiða til að hjálpa öðrum að upplifa þessa sömu gleði. Þetta stöðuga erfiði vakti mikla gleði hjá Alma, jafnvel í hvers kyns raunum og erfiðleikum. Sjáið til, „Drottinn ann erfiði“ og það að leggja sig fram við að einblína á hann færir blessanir. Jafnvel miklar þrengingar geta „horfið í fögnuði Krists“.

Annar hópur í Mormónsbók sem gerði Jesú Krist og fagnaðarerindi hans að miðpunkti lífs síns og fann gleði, er sá sem stofnaði Helamsborg – stað þar sem fólkið gat alið upp börn sín og notið þess að iðka trú sína frjáls. Þetta réttláta fólk sem lifði góðu lífi, var hneppt í ánauð af ræningjahópi og svipt þeim grundvallarmannréttindum að iðka trú. Stundum koma slæmir hlutir fyrir gott fólk.

„Engu að síður þóknaðist Drottni að aga fólk sitt og reyna þolgæði þess og trú.

En hver, sem setur traust sitt á hann, honum mun lyft upp á efsta degi. Já, það átti einnig við um þetta fólk.“

Hvernig þraukaði þetta fólk raunir sínar og þjáningar? Með því að einblína á Krist og fagnaðarerindi hans. Vandamál þess skilgreindi það ekki; þess í stað sneri hvert og eitt þeirra sér til Guðs og skilgreindi sig að öllum líkindum sem barn Guðs, barn sáttmálans og lærisvein Jesú Krists. Þegar þau minntust þess hver þau voru og ákölluðu Guð, hlutu þau frið, styrk og að lokum gleði í Kristi:

„Alma og fólk hans … opnaði hjörtu sín fyrir [Guði], og hann þekkti hugsanir hjartna þeirra.

Og svo bar við, að rödd Drottins barst til þeirra í þrengingum þeirra og sagði: Lyftið höfðum yðar og látið huggast, því að mér er kunnugt um sáttmálann, sem þér hafið gjört við mig. Og ég mun gjöra sáttmála við fólk mitt og leysa það úr ánauð.“

Drottinn svaraði með því að „létta byrðarnar … á [öxlum þeirra]. … Já, Drottinn gaf þeim svo mikinn styrk, að þeir gátu borið byrðar sínar léttilega og lutu vilja Guðs með gleði og þolinmæði“. Gætið að því að þessir heilögu létu erfiðleika sína, þjáningar og raunir hverfa í fögnuði Krists! Síðan, á tilsettum tíma, sýndi hann Alma undankomuleið og Alma – spámaður Guðs – leiddi þá í öryggi.

Þegar við einblínum á Krist og fylgjum spámanni hans, verðum við líka leidd til Krists og til gleði fagnaðarerindis hans. Nelson forseti hefur kennt: „Gleði er máttug og með því að einblína á gleði, munum við virkja mátt Guðs í lífi okkar. Í þessu, líkt og í öllu, þá er Jesús Kristur okkar mesta fyrirmynd, því ,vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi‘ [Hebreabréfið 12:2].“

Móðir öldungs Egbo.
Öldungur Egbo með móður sinni.

Móðir mín lést nýlega; það var áfall. Ég elska móður mína og gerði ekki ráð fyrir að missa hana svona ungur. Í gegnum fráfall hennar höfum ég og fjölskylda mín upplifað bæði sorg og gleði. Ég veit, sökum hans, að hún er ekki dáin – hún lifir! Ég veit að sökum Krists og prestdæmislyklanna sem endurreistir voru fyrir tilstilli spámannsins Josephs Smith, mun ég sameinast henni aftur. Sorgin yfir því að missa mömmu hefur horfið í gleði Krists! Ég er að læra að það að „hugsa himneskt“ og „láta Guð ríkja“ felur í sér að einblína á gleðina sem er fyrir hendi í Kristi.

Hann býður okkur ástúðlega: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.“ Í nafni Jesú Krists, amen.