Líahóna
Takið á móti iðrunargjöf Drottins
Nóvember 2024


11:35

Takið á móti iðrunargjöf Drottins

Við skulum ekki bíða eftir því að hlutirnir verði erfiðir áður en við snúum okkur til Guðs. Við skulum ekki bíða eftir endalokum jarðlífs okkar til að iðrast einlæglega.

Ég ber vitni um kærleiksríkan himneskan föður. Á aðalráðstefnu í apríl 2019, augnabliki eftir að ég hafði verið studdur í hinni nýju ábyrgð minni sem aðalvaldhafi Sjötíu, söng kórinn sálminn „Um Jesú ég hugsa“, sem smaug inn í sál mína og hjarta.

Mig furðar að hann kom til jarðar frá himins dýrð,

svo hrokafull sál mín til frelsunar yrði skírð.

Að ástin hans víðfeðma veraldar leiðum á,

hún veitir mér lausnina syndunum mínum frá.

Þegar ég heyrði þessi orð, fann ég að mig furðaði. Mér fannst Drottinn blessa mig með vitneskju um að „með hans styrk get ég gjört allt“.

Hin almenna tilfinning vanmáttar, veikleika eða jafnvel óverðugleika, er nokkuð sem mörg okkar eiga stundum erfitt með að takast á við. Ég tekst enn á við þetta; ég fann hana daginn sem ég var kallaður. Ég hef oft fundið hana og finn hana einmitt nú þegar ég tala til ykkar. Mér hefur þó lærst að ég er ekki einn um slíkar tilfinningar. Reyndar eru margar frásagnir í ritningunum um þau sem virðast hafa upplifað svipaðar tilfinningar. Við minnumst til dæmis Nefís sem trúfasts og hugdjarfs þjóns Drottins. Stundum tókst hann jafnvel á við tilfinningar um óverðugleika, veikleika og vanmátt.

Hann sagði: „En þrátt fyrir hina miklu gæsku Drottins, er hann sýndi mér mikil og undursamleg verk sín, hrópar hjarta mitt. Ó, ég aumur maður! Já, hjarta mitt hryggist vegna holds míns, og sál mín harmar misgjörðir mínar.“

Spámaðurinn Joseph Smith talaði um að honum hefði oft fundist hann vera „fordæmdur“ í æsku „vegna veikleika [síns] og ófullkomnunar“. Vanmáttartilfinningar Josephs og áhyggjur voru hluti af því sem fékk hann til að íhuga, læra og biðjast fyrir. Eins og þið kannski munið, þá fór hann til að biðjast fyrir í lundinum nærri heimili sínu, til að finna sannleika, frið og fyrirgefningu. Hann heyrði Drottin segja: „Joseph, sonur minn, syndir þínar eru þér fyrirgefnar. Far þína leið, gakk í lögmáli mínu og hald boðorð mín. Sjá, ég er Drottinn dýrðar. Ég var krossfestur fyrir heiminn, svo allir sem á nafn mitt trúa megi öðlast eilíft líf.“

Einlæg þrá Josephs til að iðrast og leita hjálpræðis fyrir sál sína hjálpaði honum að koma til Jesú Krists og hljóta fyrirgefningu synda sinna. Þessi stöðuga viðleitni lauk upp dyrum að áframhaldandi endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists.

Þessi merkilega upplifun spámannsins Josephs Smith sýnir hvernig tilfinningar veikleika og vanmáttarkenndar geta hjálpað okkur að bera kennsl á fallið eðli okkar. Ef við erum auðmjúk, getur þetta auðveldað okkur að skilja að við erum háð Jesú Kristi og vakið einlæga þrá í hjarta okkar til að snúa okkur til frelsarans og iðrast synda okkar.

Vinir mínir, iðrun er gleðirík! Ljúf iðrun er hluti af daglegu ferli, þar sem Drottinn kennir okkur, „setning á setning ofan og orð á orð ofan“, að lifa með kenningar hans að þungamiðju. Eins og Joseph og Nefí getum við „[ákallað Guð] um miskunn. Því að hann hefur máttinn til að frelsa“. Hann getur uppfyllt allar réttlátar þrár eða langanir og læknað öll sár í lífi okkar.

Í Mormónsbók: Öðru vitni um Jesú Krist, getum við fundið óteljandi frásagnir um einstaklinga sem lærðu hvernig koma á til Krists gegnum einlæga iðrun.

Mig langar að deila með ykkur dæmi um milda miskunn Drottins, sem var upplifun sem gerðist á minni ástkæru heimaeyju, Púertó Ríkó.

Það var í heimabæ mínum, Ponce, sem systir í kirkjunni, Célia Cruz Ayala, ákvað að gefa vinkonu sinni Mormónsbók. Hún pakkaði henni inn og fór til að færa henni þessa gjöf, sem var henni dýrmætari en demantar eða rúbínar, að hennar sögn. Á leiðinni nálgaðist þjófur hana, greip veskið hennar og hljóp á brott með þessa sérstöku gjöf sem í því var.

Þegar hún sagði þessa sögu í kirkju, sagði vinkona hennar: „Hver veit? Ef til vill var þetta þitt tækifæri til að miðla fagnaðarerindinu!“

Vitið þið svo hvað gerðist nokkrum dögum síðar? Célia fékk bréf. Ég er með bréfið, sem Célia deildi með mér, í hendi minni í dag. Þar segir:

„Frú Cruz:

Fyrirgefðu mér, fyrirgefðu mér. Þú munt aldrei vita hvað mér þykir leitt að hafa ráðist á þig. Vegna þess hefur líf mitt þó breyst og mun halda áfram að breytast af þeim sökum.

Þessi bók [Mormónsbók] hefur hjálpað mér í lífi mínu. Draumur þessa manns Guðs hefur hrist við mér. … Ég skila þér fimm [dölunum,] því ég get ekki eytt þeim. Ég vil að þú vitir að þú virtist bera ljóma af þér. Það ljós virtist halda aftur af mér [frá því að skaða þig, svo] ég flúði þess í stað.

Ég vil að þú vitir að þú munt sjá mig aftur, en þegar þú gerir það, munt þú ekki þekkja mig, því ég verð þá bróðir þinn. … Hérna, þar sem ég bý, verð ég að finna Drottin og fara í kirkjuna sem þú tilheyrir.

Boðskapurinn sem þú skrifaðir í bókina knúði fram tár í augum mér. Frá því á miðvikudagskvöldið hef ég ekki getað hætt að lesa hana. Ég hef beðið Guð að fyrirgefa mér [og] bið þig að fyrirgefa mér. … Ég hélt að ég gæti selt innpökkuðu gjöfina þína. [Þess í stað] hefur hún fengið mig til að vilja [breyta] lífi mínu. … Fyrirgefðu, fyrirgefðu mér, ég grátbið þig.

Þinn fjarstaddi vinur.“

Bræður og systur, ljós frelsarans getur náð til okkar allra, hverjar sem aðstæður okkar eru. „Þið getið ekki sokkið svo djúpt að geislar hins óendanlega ljóss friðþægingar Krists nái ekki til ykkar,“ sagði Jeffrey R. Holland forseti.

Hvað varðar hinn óviljandi viðtakanda gjafar Céliu, Mormónsbók, þá varð þessi bróðir vitni að aukinni miskunn Drottins. Þótt það hafi tekið tíma fyrir þennan bróður að fyrirgefa sjálfum sér, fann hann gleði í iðrun. Hve dásamlegt kraftaverk! Ein trúföst systir, ein Mormónsbók, einlæg iðrun og máttur frelsarans leiddi til gleðilegrar fyllingar blessana fagnaðarerindisins og helgra sáttmála í húsi Drottins. Aðrir fjölskyldumeðlimir fylgdu á eftir og tóku á móti helgum ábyrgðarskyldum í víngarði Drottins, þar á meðal fastatrúboði.

Þegar við komum til Jesú Krists, mun vegur einlægrar iðrunar að lokum leiða okkur að hinu helga musteri frelsarans.

Hve réttlátur ásetningur til að keppa að hreinleika – að vera verðug fyllingar þeirra blessana sem himneskur faðir og sonur hans gera mögulegar með heilögum musterissáttmálum! Að þjóna reglubundið í húsi Drottins og kappkosta að halda þá helgu sáttmála sem við gerum þar, mun auka bæði þrá okkar og getu til að upplifa þá breytingu hjarta, máttar, huga og sálar, sem nauðsynleg er til að við getum orðið líkari frelsaranum. Russell M. Nelson forseti hefur vitnað: „Ekkert mun ljúka upp himnunum meira [en tilbeiðsla í musterinu]. Alls ekkert!“

Kæru vinir, finnst ykkur þið vera vanmáttug? Finnst ykkur þið vera óverðug? Eruð þið að efast um ykkur sjálf? Ef til vill hafið þið áhyggjur og spyrjið: Er ég að standa mig? Er orðið of seint fyrir mig? Af hverju held ég áfram að gera mistök þegar ég reyni mitt besta?

Bræður og systur, vissulega munum við gera mistök á lífsleið okkar. Hafið þó hugfast, eins og öldungur Gerrit W. Gong kenndi: „Friðþæging frelsara okkar er algjör og eilíf. Sérhvert okkar getur villst frá og brugðist. Við getum misst áttir um stund. Guð fullvissar okkur ástúðlega, [um að] hvar sem við erum, þá getum við alltaf snúið til baka, hvað svo sem það er sem við höfum gert. Hann bíður okkar opnum örmum.“

Eins og kær eiginkona mín, Cari Lu, hefur einnig kennt mér, þá þurfum við öll að iðrast, spóla til baka og „núllstilla“ tímann á hverjum einasta degi.

Erfiðleikar munu koma. Við skulum ekki bíða eftir því að hlutirnir verði erfiðir áður en við snúum okkur til Guðs. Við skulum ekki bíða eftir endalokum jarðlífs okkar til að iðrast einlæglega. Þess í stað skulum við nú, sama á hvaða hluta sáttmálsvegarins við erum stödd, einblína á endurleysandi kraft Jesú Krists og þrá himnesks föður um að við snúum aftur til hans.

Hús Drottins, heilagar ritningar hans, heilagir spámenn hans og postular, innblása okkur til að reyna að persónulegum heilagleika í gegnum kenningu Krists.

Og Nefí sagði: „Og sjá nú, ástkæru bræður mínir. Þetta er vegurinn, og enginn annar vegur er til og ekkert annað nafn gefið undir himninum, sem frelsað getur manninn í Guðs ríki. Og sjá nú. Þetta er kenning Krists, og hin eina sanna kenning föðurins og sonarins og hins heilaga anda, sem eru einn Guð, óendanlega.“

Vera má að ferli okkar til að vera eitt með Guði sé krefjandi. En þið og ég getum staldrað við, sýnt rósemd, litið til frelsarans og reynt að finna það sem hann vill að við bætum og breyta því með hans hjálp. Ef við gerum það af einlægum ásetningi, munum við verða vitni að lækningu hans. Hugsið um hvernig afkomendur okkar verða blessaðir þegar við tökum á móti iðrunargjöf Drottins!

Hinn mikli leirkerasmiður, kenndi faðir minn, mun móta okkur og betrumbæta, sem getur reynst erfitt. Og samtímis mun hinn mikli læknir líka hreinsa okkur. Ég hef upplifað og held áfram að upplifa þennan lækningarmátt. Ég ber vitni um að hann hlýst fyrir trú á Jesú Krist og daglega iðrun.

Ó, hvílík dásemd að hann skyldi hugsa‘ um mig.

Og hann dó fyrir mig!

Ég ber vitni um elsku Guðs og óendanlegan kraft friðþægingar sonar hans. Við getum fundið það djúpt þegar við iðrumst einlæglega og heils hugar.

Vinir mínir, ég er vitni um hina dýrðlegu endurreisn fagnaðarerindisins fyrir tilverknað spámannsins Josephs Smith og núverandi guðlegrar handleiðslu frelsarans með spámanni hans og talsmanni, Russells M. Nelson forseta. Ég veit að Jesús Kristur lifir og að hann er hinn mikli læknir sálna okkar. Ég veit og ber vitni um að þetta er sannleikur, í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. „Um Jesú ég hugsa,“ Sálmar, nr. 65.

  2. Alma 26:12.

  3. 2. Nefí 4:17; sjá einnig vers 18–19.

  4. Joseph Smith – Saga 1:29.

  5. Joseph Smith, „History, circa Summer 1832,“ 3, josephsmithpapers.org; stafsetning og greinarmerki færð í nútímahorf.

  6. Sjá Mósía 4:11–12.

  7. Russell M. Nelson forseti kenndi: „Þegar við veljum að iðrast, veljum við að breytast! Við leyfum frelsaranum að breyta okkur í bestu útgáfu okkar sjálfra. Við veljum að vaxa andlega og meðtaka gleði – gleði endurlausnar hans. Þegar við veljum að iðrast, veljum við að líkjast Jesú Kristi meira!“ („Við getum gert betur og verið betri,“ aðalráðstefna, apríl 2019).

  8. 2. Nefí 28:30.

  9. Alma 34:18.

  10. „Bræður mínir og systur, hver dýrmæt er Mormónsbók ykkur? Ef ykkur væri boðnir demantar og rúbínar eða Mormónsbók, hvort mynduð þið velja? Af fullri hreinskilni, hvort er ykkur dýrmætara?“ (Russell M. Nelson, „Mormónsbók: Hvernig væri líf þitt án hennar?aðalráðstefna, október 2017).

  11. Í F. Burton Howard, „Missionary Moments: ‚My Life Has Changed‘,“ Church News, 6. jan. 1996, thechurchnews.com; sjá einnig Saints: The Story of the Church of Jesus Christ in the Latter Days, bindi 4, Sounded in Every Ear, 1955–2020 (2024), 472–74, 477–79.

  12. Jeffrey R. Holland, „Verkamenn í víngarðinum,“ aðalráðstefna, apríl 2012.

  13. Getum við staldrað aðeins við og hugsað um afkomendur okkar? Vegna nærsýni okkar, fáum við ekki séð það nú, en fúsleiki okkar til að snúa okkur til Drottins af einlægum ásetningi hjartans – að breytast, iðrast og meðtaka fagnaðarerindi Jesú Krists – getur haft áhrif á kynslóðir! Ímyndið ykkur enn frekar þær blessanir sem gætu sprottið vegna auðmýktar, lítillætis og trúar einnar sálar á Jesú Krist, jafnvel við óþægilegustu aðstæður!

  14. Þessi orð voru endursögð af systur Céliu Cruz í einkasamtali við öldung Jorge M. Alvarado, 10. september 2024.

  15. Russell M. Nelson, „Gleðjumst yfir gjöf prestdæmislykla,“ aðalráðstefna, apríl 2024.

  16. Þegar við erum að spyrja slíkra spurninga, er mikilvægt að hafa í huga orð Páls postula:

    „Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? …

    Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur.

    Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar,

    hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum“ (Rómverjabréfið 8:35, 37–39).

  17. Gerrit W. Gong, „Trúarvarðeldur okkar,“ aðalráðstefna, október 2018.

  18. Nefí er gott dæmi um þetta. Hann útskýrði:

    „Vakna, sál mín! Lát ei framar vanmegnast í synd. Fagna, ó hjarta mitt, og ljá ei framar óvini sálar minnar rúm. …

    Ó Drottinn, vilt þú endurleysa sál mína? Vilt þú bjarga mér úr höndum óvina minna? Vilt þú sjá um, að mig hrylli, þegar syndin birtist?“ (2. Nefí 4:28, 31).

  19. Dallin H. Oaks forseti kenndi: „Þegar einstaklingur hefur farið í gegnum iðrunarferlið, … gerir frelsarinn meira en að hreinsa hann af synd. Hann gefur honum eða henni líka nýjan styrk. Sú styrking er okkur nauðsynleg til að átta okkur á tilgangi hreinsunarinnar, sem er að snúa aftur til himnesks föður. Til að fá inngöngu í návist hans, verðum við að vera meira en hrein. Við verðum líka að breytast úr siðferðislega veikri manneskju, sem hefur syndgað, í sterka manneskju með þann andlega þroska að geta dvalið í návist Guðs“ („The Atonement and Faith,“ Ensign, apríl 2010, 33–34).

  20. 2. Nefí 31:21.

  21. Við heiðrum fjölskyldu okkar og himneskan föður með því að taka iðrun opnum örmum og leitast við að lifa góðu lífi.

  22. Sálmar, nr. 65.