Líahóna
Leita svara við andlegum spurningum
Nóvember 2024


12:27

Leita svara við andlegum spurningum

Einlægar spurningar frá okkur um fagnaðarerindið geta veitt himneskum föður og Jesú Kristi tækifæri til þess að hjálpa okkur að vaxa.

Ég veit að það kann að koma á óvart en ég er nógu gömul til að muna þegar okkur var kennt að það væru níu plánetur í sólkerfinu okkar. Einni þessara plánetna, Plútó, var gefið nafn af hinni 11 ára gömlu Venetiu Barney frá Oxford á Englandi, eftir að hún uppgötvaðist 1930. Og alveg til ársins 1992 var Plútó talin vera fjærsti hluturinn í sólkerfinu. Á þessum tíma var algengt að finna pappírslíkön af sólkerfinu í skólastofum og á vísindahátíðum þar sem hvert þeirra sýndi Plútó sem ystu þekktu mörkin. Margir vísindamenn trúðu að handan við mörk sólkerfisins væri eingöngu tómarúm.

Samt sem áður var spurning um uppruna ákveðinnar tegundar halastjörnu sem stjörnufræðingar fylgdust reglulega með innan vísindasamfélagsins. Og þessi spurning var viðvarandi í áratugi áður en annað fjarlægt svæði í sólkerfi okkar fannst. Með þessa takmörkuðu þekkingu nýttu vísindamenn þessa áratugi til þess að vinna að tækniframförum sem leyfðu frekari rannsóknir og könnun. Endanlegur árangur þeirra endurskipulagði reikistjörnusvæðið okkar og leiddi til þess að Plútó var endurflokkað í þetta nýja svæði í geimnum og sólkerfið okkar samanstendur nú af átta reikistjörnum.

Einn leiðandi reikistjörnufræðingur og aðal rannsakandi fyrir New Horizons geimleiðangursins sem fékk það verkefni að kanna Plútó í návígi hafði þetta að segja um þessa reynslu: „Við héldum að við skildum landafræði sólkerfisins okkar. Við gerðum það ekki. Við héldum að við skildum fjölda plánetanna í sólkerfinu okkar. Við höfðum rangt fyrir okkur.“

Það sem er sláandi fyrir mig við þetta tímabil geimkönnunarsögunnar eru nokkrar hliðstæður og lykilgreinarmunur á þeirri myndlíkingu að víkka út vísindalegan sjóndeildarhring okkar og ferðalaginu sem við sem börn Guðs tökum á okkur til að leita svara við andlegum spurningum okkar. Sérstaklega hvernig við getum brugðist við takmörkunum á okkar andlega skilningi og búið okkur undir næsta stig persónulegs vaxtar – og hvar getum við leitað eftir hjálp.

Orð á orð ofan

Að spyrja spurninga og leita að merkingu er náttúrlegur og eðlilegur hluti af lífsreynslu okkar. Stundum getur það farið með okkur að ystu mörkum skilnings okkar og þær takmarkanir geta valdið gremju og verið yfirþyrmandi. Með undursamlegum hætti er hamingjuáætlun okkar himneska föður hönnuð til þess að hjálpa okkur að ná framförum þrátt fyrir takmarkanirnar okkar og afreka það sem við getum ekki afrekað ein á báti, jafnvel án þess að hafa fullkomna þekkingu á öllum hlutum. Áætlun Guðs er miskunnsöm gagnvart takmörkunum mannlegrar tilveru okkar; sér okkur fyrir frelsara okkar, Jesú Kristi, til að vera okkar góði hirðir og hvetur okkur til að nota sjálfræði okkar til að velja hann.

Öldungur Dieter F. Uchtdorf sagði: „Að spyrja spurninga er ekki merki um veikleika,“ heldur fremur „undanfari vaxtar.“ Spámaður okkar, Russell M. Nelson forseti, talandi um persónulega viðleitni okkar sem leitendur sannleikans, hefur sagt að við verðum að hafa „djúpa þrá“ og „spyrja í hjartans einlægni, með einbeittum huga og í trú á [Jesú] Krist.“ Hann hefur ennfremur sagt að „einbeittur hugur“ þýðir að við ætlum í raun að fylgja þeim himnesku leiðbeiningum sem gefnar verða.“

Persónuleg viðleitni okkar við að vaxa í visku getur leitt til þess að við skoðum spurningar okkar, flóknar eða ekki, í gegnum linsu orsaka og afleiðinga, leitum að og berum kennsl á mynstur og myndum síðan frásagnir til að móta skilning okkar og fylla upp í þær eyður sem við finnum í þekkingu okkar. Þegar við hugum að leit okkar að andlegri þekkingu, gæti þetta ígrundaða ferli hins vegar stundum verið gagnlegt, en eitt og sér getur það verið ófullkomið þegar við leitumst að því að greina hluti sem snerta himneskan föður og frelsara okkar, Jesú Krist, fagnaðarerindi þeirra, kirkju þeirra, og áætlun þeirra fyrir okkur öll.

Leið Guðs föður og sonar hans til að miðla visku sinni til okkar leggur áherslu á að bjóða krafti heilags anda að vera persónulegur kennari okkar þegar við gerum Jesú Krist að þungamiðju í lífi okkar og í trúfastri leit okkar að svörum þeirra og merkingu þeirra. Þeir bjóða okkur að uppgötva sannleika með því að verja tíma í að rannsaka heilaga ritningu og leita að síðari daga opinberuðum sannleika fyrir okkar daga og tíma, miðluðum af spámönnum og postulum nútímans. Þeir hvetja okkur til að eyða reglulegum, tilbeiðslustundum í húsi Drottins og að krjúpa á kné í bæn fyrir „aðgengi … að upplýsingum beint frá himnum.“ Loforð Jesú til þeirra sem heyrðu fjallræðuna er alveg jafn mikill sannleikur fyrir okkur í dag eins og í hans jarðnesku þjónustu: „Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða.“ Frelsarinn fullvissar okkur um að „faðir yðar á himnum [mun] gefa þeim góðar gjafir sem biðja hann.“

Kennsluaðferð Drottins er „orð á orð ofan og setning á setning ofan.“ Við gætum þurft að „vona á Drottin“ í því tómarúmi sem er á milli þess sem við skiljum núna og þess skilnings sem við eigum eftir að öðlast. Þetta helga rými getur verið staður þar sem besta andlega mótun okkar á sér stað – staðurinn þar sem við getum „[borið] með þolinmæði“ okkar einlægu leit og endurnýjað styrk okkar til að halda áfram að halda heilög loforð sem við höfum gefið Guði með sáttmála.

Sáttmálssamband okkar við himneskan föður og Jesú Krist gefur til kynna ríkjandi þegnrétt okkar í ríki Guðs. Og búseta okkar þar krefst þess að við samræmum líf okkar að guðlegum grundvallarreglum og leggjum okkur fram um að vaxa andlega.

Hlýðni

Ein lykilregla sem kennd er í Mormónsbók er þegar börn Guðs velja að sýna hlýðni og halda sáttmála sína fá þau stöðuga andlega leiðsögn og leiðbeiningar. Drottinn hefur sagt okkur að fyrir kostgæfni okkar og hlýðni getum við hlotið þekkingu og vitsmuni. Lögmál Guðs og boðorð eru ekki hönnuð til þess að vera hindrun í lífi okkar heldur öflugt hlið að persónulegum opinberunum og andlegri menntun. Nelson forseti hefur kennt hin mikilvæga sannleika að „opinberun frá Guði er ætíð í samræmi við eilíf lögmál hans“ og að hún „[stangist] aldrei á við kenningar hans.“ Vilji ykkar til hlýðni við boðorð Guðs, þrátt fyrir að hafa ekki fullkomna þekkingu á ástæðunum hans, færir ykkur í félagsskap spámanna hans. HDP Móse 5 segir okkur frá sérstökum samskiptum milli Adams og engils Drottins.

Eftir að Drottinn gaf Adam og Evu „boðorð um að tigna Drottin Guð sinn og fórna frumburðum hjarða sinna og færa Drottni þá fórn,“ segja ritningarnar að „Adam [hafi verið] hlýðinn boðorðum Drottins.“ Við lesum áfram að „eftir marga daga birtist engill Drottins Adam og sagði: Hvers vegna færir þú Drottni fórnir? Og Adam svaraði honum: Ég veit það ekki, aðeins að Drottinn bauð mér það.

Hlýðni Adams kom á undan skilningi hans og bjó hann undir að taka á móti þeirri helgu þekkingu að hann væri að taka þátt í helgu tákni um friðþægingu Jesú Krists. Auðmjúk hlýðni okkar mun sömuleiðis ryðja brautina fyrir andlegri dómgreind okkar á vegum Guðs og guðdómlegum tilgangi hans fyrir hvert og eitt okkar. Að ná að auka hlýðni okkar færir okkur nær frelsara okkar, Jesú Kristi, vegna þess að hlýðni við lög hans og boðorð er í raun að ná til hans.

Auk þess er tryggð okkar við þá þekkingu og visku sem við höfum þegar erft með trúfastri fylgni við reglur fagnaðarerindisins og heilaga sáttmála afgerandi undirbúningur fyrir okkur til að taka á móti og vera ráðsmenn samskipta frá heilögum anda.

Himneskur faðir og Jesús Kristur eru uppspretta alls sannleika og miðla visku sinni örlátlega. Einnig, skilningur á því að við höfum enga persónulega þekkingu sem óháð er Guði getur hjálpað okkur að vita hvert við eigum að snúa okkur og hvar við eigum fyrst og fremst að setja traust okkar.

Djúpstætt traust

Frásögn Gamla testamentisins af Naaman, herforingjanum sem Elísa spámaður læknaði af holdsveiki, er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Þessi saga sýnir hvernig trúfesti „lítillar þjónustustúlku“ breytti lífshlaupi eins manns og opinberaði öllum trúuðum náð Guðs til þeirra sem treysta honum og spámanni hans. Þó hún væri nafnlaus, hjálpaði þessi litla stúlka við að ýta skilningi okkar fram á við. Og trú Naamans á vitnisburði hennar hvatti hann til að biðja útvalinn þjón Guðs um lækningu.

Viðbrögð Naamans við boðum Elísa að lauga sig í ánni Jórdan voru í fyrstu viðbrögð efasemda og reiði. En boð til hans um að vera hlýðinn leiðsögn spámannsins opnaði leið fyrir lækningu hans og áhrifamikinn skilning á að Guð væri raunverulegur.

Við gætum komist að því að sumar af okkar andlegu beiðnum hafa þokkalega auðskiljanleg svör og valda okkur kannski ekki verulegum óþægindum. Eða, eins og Naaman, gætum við uppgötvað að aðrar þarfir okkar eru erfiðari og geta skapað erfiðar og flóknar tilfinningar innra með okkur. Eða, líkt og í lýsingunni á fyrstu niðurstöðum stjörnufræðinga um sólkerfið okkar, gætum við í leit okkar að andlegum sannleika, komist að ónákvæmari túlkunum ef við treystum eingöngu á okkar eigin takmarkaða skilning, sorgleg og óviljandi afleiðing sem getur leitt okkur burt frá sáttmálsveginum. Og þar að auki geta sumar spurningar verið viðvarandi þar til Guð, sem hefur „allt vald, alla visku og allan skilning,“ sem „skilur alla hluti“ í miskunn sinni, veitir uppljómun í gegnum trú okkar á nafn hans.

Ein mikilvæg viðvörun í frásögn Naamans er að það getur dregið á langinn eða tafið vöxt okkar að þráast við að hlýða lögmálum Guðs. Við erum blessuð að hafa Jesú Krist sem okkar lækningameistara. Hlýðni okkar við lög og boðorð Guðs getur opnað leið fyrir frelsara okkar til að sýna skilning og veita lækningu sem hann veit að við þurfum, í samræmi við fyrirskipaða meðferðaráætlun hans fyrir okkur.

Öldungur Richard G. Scott kenndi að „þetta líf er reynsla í djúpstæðu trausti – trausti á Jesú Krist, trausti á kenningar hans, trausti á getu okkar undir leiðsögn heilags anda til að hlýða þessum kenningum fyrir hamingju núna og fyrir markvissa, gleðilega eilífa tilveru. Að treysta merkir að hlýða sjálfviljuglega án þess að þekkja endalokin frá upphafinu (sjá Orðskviðirnir 3:5–7). Til að bera ávöxt verður traust þitt á Drottni að vera öflugra og varanlegra en traust þitt á eigin persónulegum tilfinningum og reynslu.

Að iðka trú er að treysta því að Drottinn viti hvað hann er að gera með þig og að hann geti framkvæmt það þér góðs í eilífðinni þó að þú skiljir ekki hvernig hann getur mögulega framkvæmt það.“

Lokavitnisburður

Kæru vinir, ég ber þess vitni að einlægar spurningar um fagnaðarerindið geta veitt himneskum föður og Jesú Kristi tækifæri til þess að hjálpa okkur að vaxa. Persónuleg viðleitni mín til að leita svara frá Drottni við mínum eigin andlegu spurningum – í fortíð og nútíð – hefur gert mér kleift að nota bilið milli skilnings míns og Guðs til að iðka hlýðni við hann og trúmennsku við þá andlegu þekkingu sem ég bý yfir núna.

Ég ber þess vitni að það að setja traust ykkar á himneskan föður og spámenn hans sem hann hefur sent, mun hjálpa ykkur að lyfta ykkur upp andlega og ýta ykkur áfram að útvíkkuðum sjóndeildarhring Guðs. Sjónarhorn ykkar mun breytast, því þið munið breytast. Guð veit að því hærra sem þið eruð, því lengra sjáið þið. Frelsari okkar býður ykkur að ganga upp á við. Í nafni Jesú Krists, amen.