Líahóna
Nelson forseti heldur upp á 100 ára afmælið
Nóvember 2024


„Nelson forseti heldur upp á 100 ára afmælið,“ Líahóna, nóv. 2024.

Kirkjutíðindi

Nelson forseti heldur upp á 100 ára afmælið

Leiðtogar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu komu saman með fjölskyldu og vinum 9. september 2024, til að heiðra spámanninn og forseta kirkjunnar Russell M. Nelson á 100 ára afmæli hans.

Viðburðurinn átti sér stað í Salt Lake City og var sendur út um allan heim. Á honum var lifandi tónlist, árnaðaróskir á myndbandi frá ýmsum trúarleiðtogum, ræður frá kirkjuleiðtogum og fjölskyldumeðlimum Nelsons forseta og myndbönd frá meðlimum kirkjunnar sem sögðu frá því hvernig þeir þjónuðu hinum eina.

Nelson forseti þakkaði fjölskyldu, vinum og Síðari daga heilögum fyrir vinsemd þeirra og stuðning. Hann lét í ljós þakklæti fyrir óteljandi afmæliskveðjur og heimslæg viðbrögð við „99+1“ boði sínu, þar sem hann hvatti fólk til að „liðsinna hinum ‚eina‘ í lífi okkar sem gæti fundið sig vegvilltan eða einmana“ (Facebook, 1. júní 2024, facebook.com/russell.m.nelson).

Spámaðurinn lagði áherslu á mikilvægi trúar, eilífrar sýnar á lífið og friðþægingarfórnar Jesú Krists. „Kæru bræður og systur, lengd lífs ykkar er ekki jafn mikilvæg og hvernig þið lifið lífi ykkar,“ sagði Nelson forseti. „Hvað okkur öll varðar, líður lífið hratt hjá, jafnvel fyrir 100 ára gamlan mann. Ég bið þess að þið látið Guð ríkja í lífi ykkar. Gerið sáttmála við hann. Haldið ykkur á sáttmálsveginum. Búið ykkur undir að snúa aftur til dvalar hjá honum.“

Dallin H. Oaks forseti og Henry B. Eyring forseti, ráðgjafar Nelsons forseta í Æðsta forsætisráðinu, miðluðu upplifunum sínum af því að hafa unnið við hlið spámannsins í sex og hálft ár. Þeir lögðu áherslu á hlýleika Nelsons forseta, virðingu fyrir öðrum og kristilega framkomu hans.

„Að vera í herbergi eða á fundi með eða í samtali við Nelson forseta, gerir ykkur einfaldlega mögulegt að upplifa hvernig það væri að vera með frelsaranum,“ sagði Oaks forseti. „Hann er fulltrúi frelsarans. Hann er fyrirmynd okkar.“