„3. kafli: Lexía 4 – Verða lærisveinar Jesú Krists til æviloka,“ Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að miðlun fagnaðarerindis Jesú Krists (2023)
„3. kafli: Lexía 4,“ Boða fagnaðarerindi mitt
3. kafli: Lexía 4
Verða lærisveinar Jesú Krists til æviloka
Kenna þessa lexíu
Skírn er gleðileg helgiathöfn vonar. Þegar við erum skírð sýnum við þrá okkar til að fylgja Guði og fara inn á veginn sem leiðir til eilífs lífs. Við sýnum líka skuldbindingu um að verða ævilangir lærisveinar Jesú Krists.
Þessi lexía er sett fram í samræmi við sáttmálana sem við gerum við skírn. Hún hefur að geyma eftirfarandi meginhluta, sem hver um sig hefur undirkafla:
Hjálpið fólki að skilja að reglurnar og boðorðin sem þið kennið séu hluti af sáttmálanum sem það mun gera við skírn. Sýnið því hvernig hver hluti þessarar lexíu mun hjálpa því að „[koma] til Krists … og [taka] við hjálpræði hans“ (Omní 1:26; sjá einnig 1. Nefí 15:14).
Þið munuð vilja kenna þessa lexíu í nokkrum heimsóknum. Kennsluheimsókn ætti sjaldnast að fara yfir 30 mínútur. Yfirleitt er betra að fara í stuttar og tíðari heimsóknir sem ná yfir smærri hluta efnis.
Ráðgerið hvað þið hyggist kenna, hvenær þið hyggist kenna það og hversu mikinn tíma þið hyggist taka. Íhugið þarfir fólksins sem þið kennið og leitið leiðsagnar andans. Þið hafið sveigjanleika til að kenna lexíurnar á þann hátt sem best hjálpar fólki að búa sig undir skírn og staðfestingu.
Sumir hlutar í þessari lexíu hafa að geyma sérstök boð. Leitið innblásturs til að ákveða hvernig og hvenær setja skal fram boð. Verið meðvituð um skilningsstig hvers og eins. Hjálpið viðkomandi að lifa eftir fagnaðarerindinu eitt skref í einu.
Sáttmáli okkar um að vera fús til að taka á okkur nafn Jesú Krists
Þegar við erum skírð gerum við sáttmála um að fylgja Jesú Kristi „af hjartans einlægni“. Við vitnum líka um að við „[séum fús] til að taka á [okkur] nafn Krists“ (2. Nefí 31:13; sjá einnig Kenning og sáttmálar 20:37).
Að taka á okkur nafn Jesú Krists þýðir að við höfum hann í huga og leitumst við að lifa alla ævi sem lærisveinar hans. Við leyfum ljósi hans að skína gegnum okkur til annarra. Við lítum svo á að við séum hans og höfum hann í fyrirrúmi í lífi okkar.
Eftirfarandi hlutar tilgreina hvernig við getum minnst og fylgt Jesú Kristi á tvennan hátt.
Biðjast fyrir oft
Bæn getur verið einfalt samtal við himneskan föður sem kemur frá hjartanu. Í bæn tölum við opinskátt og ærlega við hann. Við tjáum elsku til hans og þakklæti fyrir blessanir okkar. Við biðjum líka um hjálp, vernd og leiðsögn. Þegar við ljúkum bænum okkar ættum við að gefa okkur tíma til að staldra við og hlusta.
Jesús kenndi: „Þér [verðið] ávallt að biðja til föðurins í mínu nafni“ (3. Nefí 18:19, skáletrað hér; sjá einnig HDP Móse 5:8). Þegar við biðjum í nafni Jesú Krists minnumst við bæði hans og himnesks föður.
Jesús gaf okkur fordæmi til að fylgja þegar við biðjum. Við getum lært mikið um bæn með því að læra bænir frelsarans í ritningunum (sjá Matteus 6:9–13; Jóhannes 17).
Bænir okkar geta falið í sér eftirfarandi þætti:
-
Byrjið á því að ávarpa föður ykkar á himnum.
-
Tjáið hjartans tilfinningar ykkar, svo sem þakklæti fyrir þær blessanir sem þið hafið hlotið.
-
Spyrjið spurninga, leitið leiðsagnar og biðjið um blessanir.
-
Ljúkið með því að segja: „Í nafni Jesú Krists, amen.“
Ritningarnar hvetja okkur til að biðja á morgnana og á kvöldin. Hins vegar getum við beðið hvenær sem er og í hvaða umhverfi sem er. Fyrir persónulegar bænir okkar og fjölskyldubænir getur verið þýðingarmikið að krjúpa þegar við biðjum. Við ættum alltaf að hafa bæn í hjörtum okkar. (Sjá Alma 34:27; 37:36–37; 3. Nefí 17:13; 19:16.)
Bænir okkar ættu að vera ígrundaðar og frá hjartanu. Þegar við biðjum ættum við að forðast að segja sömu hlutina á sama hátt.
Við biðjum af trú, einlægni og raunverulegum ásetningi til að bregðast við svörunum sem við fáum. Þegar við gerum það mun Guð leiðbeina okkur og hjálpa okkur að taka góðar ákvarðanir. Við finnum nálægð hans. Hann mun veita okkur skilning og sannleika. Hann mun blessa okkur með huggun, friði og styrk.
Læra ritningarnar
Nefí kenndi: „Endurnærist af orðum Krists. [Þau] munu segja yður að fullu, hvað yður ber að gjöra“ (2. Nefí 32:3; sjá einnig 31:20).
Að læra ritningarnar er nauðsynlegt til að muna eftir og fylgja Jesú Kristi. Í ritningunum lærum við um líf hans, þjónustu og kenningar. Við lærum líka um loforð hans. Þegar við lesum ritningarnar upplifum við kærleika hans. Sál okkar útvíkkast, trú okkar á hann eykst og hugur okkar er upplýstur. Vitnisburður okkar um guðlegt hlutverk hans verður sterkari.
Við minnumst og fylgjum Jesú þegar við tileinkum okkur orð hans í lífi okkar. Við ættum að læra ritningarnar daglega, einkum Mormónsbók.
Ritningar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu eru Biblían, Mormónsbók, Kenning og sáttmálar og Hin dýrmæta perla. Þær eru líka kallaðar „helgiritin“.
Sáttmáli okkar um að halda boðorð Guðs
Athugið: Það eru margar leiðir til að kenna boðorðin í þessum hluta. Þið gætuð t.d. kennt þau í nokkrum heimsóknum. Þið gætuð líka kennt sum þeirra sem hluta af fyrstu þremur lexíunum. Þegar þið kennið boðorðin, verið þá viss um að tengja þau við skírnarsáttmálann og sáluhjálparáætlunina.
Þegar við erum skírð gerum við sáttmála við Guð um að „halda boðorð hans“ (Mósía 18:10; Alma 7:15).
Guð hefur gefið okkur boðorð af því að hann elskar okkur. Hann vill okkur það besta, bæði nú og um eilífð. Sem himneskur faðir okkar, veit hann hvers við þörfnumst fyrir andlega og líkamlega velferð okkar. Hann veit líka hvað mun veita okkur mesta hamingju. Hvert boðorð er guðleg gjöf, gefið til að hjálpa okkur að taka ákvarðanir, vernda okkur og stuðla að vexti okkar.
Ein ástæða þess að við komum til jarðar er að við lærum og vöxum með því að nota sjálfræði okkar skynsamlega (sjá Abraham 3:25). Að velja að hlýða boðorðum Guðs – og iðrast þegar okkur mistekst – hjálpar okkur að takast á við þessa oft svo krefjandi jarðnesku ferð.
Boðorð Guðs eru uppspretta styrks og blessana (sjá Kenning og sáttmálar 82:8–9). Þegar við höldum boðorðin lærum við að þau eru ekki íþyngjandi reglur sem takmarka frelsi okkar. Hið sanna frelsi hlýst af því að hlýða boðorðunum. Hlýðni er uppspretta styrks sem færir okkur ljós og þekkingu með heilögum anda. Hún veitir okkur meiri hamingju og hjálpar okkur að ná okkar guðlegu möguleikum sem börn Guðs.
Guð lofar að blessa okkur þegar við höldum boðorð hans. Sumar blessanir eiga sérstaklega við um ákveðin boðorð. Æðstu blessanir hans eru friður í þessu lífi og eilíft líf í komandi heimi. (Sjá Mósía 2:41; Alma 7:16; Kenning og sáttmálar 14:7; 59:23; 93:28; 130:20–21.)
Blessanir Guðs eru bæði andlegar og stundlegar. Stundum þurfum við að vera þolinmóð og bíða eftir þeim, treysta því að þær hljótist í samræmi við vilja Guðs og tímasetningu (sjá Mósía 7:33; Kenning og sáttmálar 88:68). Til að bera kennsl á sumar blessanir, þurfum við að vera andlega næm og athugul. Það á einkum við um blessanir sem koma á einfaldan og að því er virðist venjulegan hátt.
Sumar blessanir gætu aðeins verið augljósar er við lítum yfir farinn veg. Aðrar gætu ekki hlotist fyrr en eftir þetta líf. Óháð tímasetningu eða eðli blessana Guðs, getum við verið viss um að þær hljótast þegar við reynum að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists (sjá Kenning og sáttmálar 82:10).
Guð elskar öll börn sín fullkomlega. Hann er þolinmóður gagnvart veikleikum okkar og hann fyrirgefur þegar við iðrumst.
Æðstu boðorðin tvö
Jesús var eitt sinn spurður: „Hvert er hið æðsta boðorð?“ Hann svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“
Jesús sagði síðan að annað æðsta boðorðið væri líkt hinu æðsta: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“ (Matteus 22:36–39). „Ekkert annað boðorð er þessum meira“ (Markús 12:31).
Sem andabörn Guðs höfum við mikla hæfni til að elska. Það er hluti af andlegri arfleifð okkar. Að lifa eftir æðstu boðorðunum tveimur – að elska Guð ofar öllu og elska náunga okkar – er einkennandi eiginleiki lærisveina Jesú Krists.
Elska Guð
Við getum sýnt að við elskum Guð á marga vegu. Við getum haldið boðorð hans (sjá Jóhannes 14:15, 21). Við getum haft hann fremstan í lífi okkar, lotið vilja hans. Við getum beint þrám okkar, hugsunum og hjarta að honum (sjá Alma 37:36). Við getum lifað í þakklæti fyrir þær blessanir sem hann hefur veitt okkur – og miðlað öðrum þeim blessunum af örlæti (sjá Mósía 2:21–24; 4:16–21). Með bæn og þjónustu við aðra getum við tjáð og dýpkað kærleika okkar til hans.
Eins og önnur boðorð er boðorðið um að elska Guð okkur til farsældar. Það sem við elskum ákvarðar hvers við leitum. Það sem við leitum ræður því hvað við hugsum og gerum. Og það sem við hugsum og gerum ákvarðar hver við erum – og hver við verðum.
Elska aðra
Að elska aðra er framlenging á elsku okkar til Guðs. Frelsarinn kenndi okkur margar leiðir til að elska aðra (sjá t.d. Lúkas 10:25–37 og Matteus 25:31–46). Við náum til þeirra og bjóðum þau velkomin í hjarta okkar og líf. Við elskum með því að þjóna – með því að gefa af okkur sjálfum, jafnvel í smáum efnum. Við elskum aðra með því að nota gjafir sem Guð hefur gefið okkur til að blessa þau.
Að elska aðra felur í sér að vera þolinmóður, góður og heiðarlegur. Það felur í sér að fyrirgefa fúslega. Það felur í sér að koma fram við allt fólk af virðingu.
Þegar við elskum einhvern erum við sjálf og viðkomandi manneskja bæði blessuð. Hjörtu okkar stækka, líf okkar verður innihaldsríkara og gleði okkar eykst.
Blessanir
Æðstu boðorðin tvö – að elska Guð og elska náunga okkar – eru undirstaða allra boðorða Guðs (sjá Matteus 22:40). Þegar við elskum Guð ofar öllu og elskum líka aðra, mun allt í lífi okkar falla í réttar skorður. Þessi elska mun hafa áhrif á lífssýn okkar, hvernig við verjum tíma okkar, áhugamál okkar og forgangsröðun okkar.
Fylgið spámanninum
Guð kallar spámenn til að vera fulltrúar hans á jörðinni. Fyrir tilstilli spámanna sinna opinberar hann sannleikann og veitir leiðsögn og aðvaranir.
Guð kallaði Joseph Smith til að vera fyrsti spámaður síðari daga (sjá lexíu 1). Eftirmenn Josephs Smith hafa sömuleiðis verið kallaðir af Guði til að leiða kirkju hans, þar á meðal spámaðurinn sem leiðir hana á okkar tíma. Við ættum að öðlast sannfæringu um guðlega köllun hins lifandi spámanns og fylgja kenningum hans.
Kenningar lifandi spámanna og postula eru akkeri eilífs sannleika í heimi breytilegra gilda. Þegar við fylgjum spámönnum Guðs munu ringulreið og deilur heimsins ekki yfirbuga okkur. Við munum finna aukna hamingju í þessu lífi og hljóta leiðsögn fyrir þennan hluta eilífrar ferðar okkar.
Halda boðorðin tíu
Guð opinberaði boðorðin tíu fornum spámanni að nafni Móse til að leiðbeina fólki sínu. Þessi boðorð eiga jafn mikið við á okkar tíma. Þau kenna okkur að tilbiðja og sýna Guði lotningu. Þau kenna okkur líka hvernig koma á fram við hvert annað.
-
„Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig“ (2. Mósebók 20:3). Aðrir „guðir“ geta falið í sér ýmislegt, svo sem eignir, völd eða frama.
-
„Þú skalt hvorki gera þér líkneski né neina eftirlíkingu“ (2. Mósebók 20:4).
-
„Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma“ (2. Mósebók 20:7).
-
„Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan“ (2. Mósebók 20:8).
-
„Heiðra föður þinn og móður“ (2. Mósebók 20:12).
-
„Þú skalt ekki morð fremja“ (2. Mósebók 20:13).
-
„Þú skalt ekki drýgja hór“ (2. Mósebók 20:14).
-
„Þú skalt ekki stela“ (2. Mósebók 20:15).
-
„Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum“ (2. Mósebók 20:16).
-
„Þú skalt ekki girnast“ (2. Mósebók 20:17).
Lifa eftir skírlífislögmálinu
Skírlífislögmálið er nauðsynlegur þáttur í áætlun Guðs okkur til sáluhjálpar og upphafningar. Kynferðisleg nánd milli eiginmanns og eiginkonu er vígð af Guði til að skapa börn og tjá ást í hjónabandi. Þessari nánd, og kraftinum til að skapa mannlegt líf, er ætlað að vera falleg og heilög.
Skírlífislögmál Guðs kveður á um ekkert kynferðissamband utan löglegs hjónabands karls og konu. Í þessu lögmáli felst líka algjör tryggð við maka sinn eftir að gengið er í hjónaband.
Til að hjálpa okkur að halda skírlífislögmálið, hafa spámenn hvatt okkur til að vera hrein í huga og máli. Við ættum að forðast klám í hvaða mynd sem er. Eins og skírlífislögmálið kveður á um, þá ættum við að vera hógvær í hegðun og útliti.
Skírnþegum ber að lifa eftir skírlífislögmálinu.
Iðrun og fyrirgefning
Í augum Guðs er mjög alvarlegt að brjóta skírlífislögmálið (sjá 2. Mósebók 20:14; Efesusbréfið 5:3). Það er misnotkun á hinum helga krafti sem hann hefur gefið til að skapa líf. Guð elskar okkur þó áfram þótt við höfum brotið þetta lögmál. Hann býður okkur að iðrast og verða hrein með friðþægingarfórn Jesú Krists. Örvæntingu syndar má skipta út fyrir ljúfan frið fyrirgefningar Guðs (sjá Kenning og sáttmálar 58:42–43).
Blessanir
Guð hefur gefið skírlífislögmálið til að blessa okkur og andabörnin sem hann sendir til jarðar. Að hlýða þessu lögmáli er nauðsynlegt fyrir persónulegan frið og til að ást, traust og eining ríki í fjölskyldusamböndum okkar.
Þegar við lifum eftir skírlífislögmálinu munum við vernduð gegn andlegum skaða sem stafar af kynferðislegri nánd utan hjónabands. Við munum líka forðast tilfinningalegan og líkamlegan vanda sem oft fylgja slíkum samböndum. Við munum vaxa að trausti frammi fyrir Guði (sjá Kenning og sáttmálar 121:45). Við verðum næmari fyrir áhrifum heilags anda. Við verðum betur undir það búin að gera helga sáttmála í musterinu sem sameina fjölskyldur okkar um eilífð.
Lifa eftir tíundarlögmálinu
Það eru mikil forréttindi kirkjuaðildar að hljóta tækifæri til að greiða tíund. Þegar við greiðum tíund erum við að hjálpa við að efla starf Guðs og blessa börn hans.
Tíundarlögmálið á sér uppruna á tímum Gamla testamentisins. Dæmi: Spámaðurinn Abraham galt tíund af öllu því sem hann átti (sjá Alma 13:15; 1. Mósebók 14:18–20).
Orðið tíund merkir bókstaflega einn tíundi. Þegar við greiðum tíund gefum við einn tíunda af tekjum okkar til kirkjunnar (sjá Kenning og sáttmálar 119:3–4; ábati hefur verið skilinn sem tekjur). Allt sem við höfum er gjöf frá Guði. Þegar við greiðum tíund sýnum við honum þakklæti með því að gefa til baka hluta af því sem hann hefur gefið okkur.
Að greiða tíund er trúartjáning. Það er líka leið til að heiðra Guð. Jesús kenndi að okkur bæri að „[leita] … fyrst ríkis [Guðs]“ (Matteus 6:33) og tíund er leið til að gera það.
Notkun tíundarsjóðs
Tíundarsjóður er heilagur. Við afhendum meðlim biskupsráðsins tíund okkar, eða á mörgum svæðum getum við greitt á netinu. Þegar biskupsráðið fær tíund afhenta senda þeir hana til höfuðstöðva kirkjunnar.
Ráð sem samanstendur af Æðsta forsætisráðinu, Tólfpostulasveitinni og Yfirbiskupsráðinu ákveður hvernig nota á tíundarsjóði í verki Guðs (sjá Kenning og sáttmálar 120:1). Sú notkun er meðal annars:
-
Bygging og viðhald mustera og samkomuhúsa.
-
Þýðing og útgáfa ritninga.
-
Stuðningur við starfsemi og rekstur heimasöfnuða kirkjunnar.
-
Stuðningur við trúboðsstarf um allan heim.
-
Stuðningur við ættarsögustarf.
-
Fjármögnun skóla og menntunar.
Tíund er ekki notuð til að greiða staðarleiðtogum kirkjunnar. Þeir þjóna af fúsum og frjálsum vilja án nokkurrar greiðslu.
Blessanir
Þegar við greiðum tíund lofar Guð blessunum sem eru langt umfram það sem við gefum. Hann mun „[ljúka] upp flóðgáttum himins og [hella] yfir [okkur] óþrjótandi blessun“ (Malakí 3:10; sjá einnig vers 7–12). Þessar blessanir geta bæði verið andlegar og stundlegar.
Hlýðið Vísdómsorðinu
Heilbrigðislögmál Drottins
Líkami okkar er helg gjöf frá Guði. Við þurfum öll efnislíkama til að verða líkari honum. Líkami okkar er svo mikilvægur að ritningarnar leggja hann að jöfnu við musteri (sjá 1. Korintubréf 6:19–20).
Drottinn vill að við hirðum og virðum líkama okkar. Til að hjálpa okkur að gera það, opinberaði hann heilbrigðislögmál sem nefnt er Vísdómsorðið. Sú opinberun kennir okkur að borða hollan mat og að nota ekki efni sem skaða líkama okkar – einkum áfengi, tóbak og heita drykki (sem merkir te og kaffi).
Í anda Vísdómsorðsins hafa nútíma spámenn varað við því að nota önnur efni sem eru skaðleg, ólögleg eða ávanabindandi. Spámenn hafa líka varað við misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja. (Trúboðsforseti ykkar mun svara spurningum um hvort ekki eigi að nota önnur efni á ykkar landsvæði.)
Blessanir
Drottinn gaf Vísdómsorðið okkur til líkamlegrar og andlegrar velferðar. Guð lofar miklum blessunum þegar við höldum boðorð hans. Þessar blessanir eru meðal annars góð heilsa, vísdómur, þekkingarauður og vernd (sjá Kenning og sáttmálar 89:18–21).
Að hlýða Vísdómsorðinu mun gera okkur mögulegt að vera móttækilegri fyrir hughrifum heilags anda. Þótt við upplifum öll heilsufarslegar áskoranir, mun hlýðni við þetta lögmál stuðla að heilbrigðari líkama, huga og anda.
Skírnþegum ber að hlýða Vísdómsorðinu.
Fyrir leiðbeiningar til að hjálpa fólki sem glímir við fíkn, sjá þá kafla 10.
Halda hvíldardaginn heilagan
Dagur til hvíldar og tilbeiðslu
Hvíldardagurinn er helgur dagur sem Guð hefur útnefnt okkur í hverri viku til hvíldar frá okkar daglegu striti og til að tilbiðja hann. Eitt af boðorðunum tíu sem Móse var gefið er að „[minnast] þess að halda hvíldardaginn heilagan“ (2. Mósebók 20:8; sjá einnig vers 9–11).
Í nútíma opinberun staðfestir Drottinn að hvíldardagurinn sé „dagur … útnefndur [okkur] til hvíldar frá erfiði [okkar] og til að votta hinum æðsta hollustu“ (Kenning og sáttmálar 59:10). Hann sagði líka að hvíldardagurinn ætti að vera dagur gleði, bænar og þakkargjörðar (sjá vers 14–15).
Hluti af tilbeiðslu okkar á hvíldardegi er að sækja sakramentissamkomu í hverri viku. Á þeirri samkomu tilbiðjum við Guð og meðtökum sakramentið til að minnast Jesú Krists og friðþægingar hans. Þegar við meðtökum sakramentið endurnýjum við sáttmála okkar við Guð og sýnum að við erum fús til að iðrast synda okkar. Helgiathöfn sakramentisins er miðpunktur hvíldardagstilbeiðslu okkar.
Í kirkjunni tökum við líka þátt í kennslubekkjum þar sem við lærum meira um fagnaðarerindi Jesú Krists. Trú okkar vex þegar við lærum saman ritningarnar. Elska okkar vex þegar við þjónum og styrkjum hvert annað.
Auk þess að hvíla okkur frá erfiði okkar á hvíldardegi, ættum við að forðast að versla og annað sem myndi gera hann líkari venjulegum degi. Við leggjum athafnir heimsins til hliðar og beinum hugsunum okkar og gjörðum að andlegum efnum.
Dagur til að gera gott
Að gera gott á hvíldardegi er hið minnsta jafn mikilvægt og það sem við forðumst að gera til að halda hann heilagan. Við lærum fagnaðarerindið, styrkjum trú, byggjum upp tengsl, veitum þjónustu og tökum þátt í öðrum uppbyggjandi verkefnum með fjölskyldu og vinum.
Blessanir
Að halda hvíldardaginn heilagan er tjáning á hollustu okkar við himneskan föður og Jesú Krist. Þegar við lögum athafnir okkar á hvíldardegi að ásetningi Guðs fyrir daginn, munum við finna fyrir gleði og friði. Við munum hljóta andlega næringu og líkamlega endurnýjun. Við munum líka finna aukna nálægð við Guð og dýpka samband okkar við frelsara okkar. Við munum halda okkur „óflekkuðum frá heiminum“ (Kenning og sáttmálar 59:9). Hvíldardagurinn verður „feginsdagur“ (Jesaja 58:13; sjá einnig vers 14).
Hlýða og virða landslög
Síðari daga heilagir hafa trú á mönnum beri að hlýða lögunum og vera góðir borgarar (sjá Kenning og sáttmálar 134; Trúaratriðin 1:12). Kirkjumeðlimir eru hvattir til að inna af hendi þjónustu til að bæta samfélög sín og þjóðir. Þeir eru líka hvattir til að hafa áhrif á heilbrigð siðferðisgildi í samfélagi og hjá stjórnvöldum.
Kirkjumeðlimum er boðið að taka þátt í landsstjórn og stjórnmálum í samræmi við lög. Meðlimir sem gegna opinberum embættum starfa í slíkum hlutverkum sem samfélagsborgarar, en ekki sem fulltrúar kirkjunnar.
Sáttmáli okkar um að þjóna Guði og öðrum
Þjónustu
Þegar við erum skírð gerum við sáttmála um að þjóna Guði og öðrum. Að þjóna öðrum er ein meginleiðin til að þjóna Guði (sjá Mósía 2:17). Spámaðurinn Alma kenndi að þau sem þrá að láta skírast, skuli vera „fús til að bera hver annars byrðar, … syrgja með syrgjendum … og hugga þá, sem huggunar þarfnast“ (Mósía 18:8–9).
Fljótlega eftir skírn fá nýir meðlimir yfirleitt köllun til að þjóna í kirkjunni. Þær kallanir eru sjálfboðavinna og ólaunaðar. Þegar við tökum á móti þeim og þjónum af kostgæfni, vöxum við í trú, þroskum hæfileika og blessum aðra.
Annar hluti af þjónustu okkar í kirkjunni er að vera „þjónandi bróðir“ eða „þjónandi systir“. Í þeirri ábyrgð þjónum við tilnefndum einstaklingum og fjölskyldum.
Sem lærisveinar Jesú Krists leitum við tækifæra til að þjóna á hverjum degi. Við gerum líkt og hann sem „gekk um [og] gjörði gott“ (Postulasagan 10:38). Við þjónum náunga okkar og öðrum í samfélagi okkar. Við getum tekið þátt í tækifærum til þjónustu gegnum JustServe, þar sem það er til staðar. Við getum stutt mannúðarverkefni kirkjunnar og tekið þátt í hamfaraverkefnum.
Miðla fagnaðarerindinu
Hluti af skírnarsáttmála okkar er að við lofum að „standa sem vitni Guðs“ (Mósía 18:9). Eitt af því sem við getum gert til að standa sem vitni er að miðla fagnaðarerindi Jesú Krists. Að hjálpa öðrum að meðtaka fagnaðarerindið er ein gleðilegasta þjónustan sem við getum veitt (sjá Kenning og sáttmálar 18:15–16). Hún er máttug kærleikstjáning okkar.
Þegar við upplifum blessanir þess að lifa eftir fagnaðarerindinu viljum við eðlilega miðla þeim blessunum. Fjölskyldumeðlimir, vinir og kunningjar verða oft áhugasamir þegar við sýnum trúfast fordæmi og þeir sjá hvernig fagnaðarerindið blessar líf okkar. Við getum miðlað fagnaðarerindinu á eðlilegan og venjulegan hátt (sjá Almenna handbók, kafli 23).
Við bjóðum öðrum að taka þátt með okkur í þjónustu, samfélaginu, afþreyingu og kirkjustarfi. Við getum boðið þeim á kirkjusamkomu eða skírnarathöfn. Við getum boðið þeim að horfa á myndband á netinu sem útskýrir fagnaðarerindi Jesú Krists, lesa Mormónsbók eða fara á opið hús í musterinu. Boðin eru mörg hundruð sem við getum sett fram. Oft þýðir það einfaldlega að bjóða fjölskyldu okkar, vinum og nágrönnum að taka þátt í því sem við þegar gerum.
Guð mun hjálpa okkur, ef við biðjum hann, að bera kennsl á tækifæri til að miðla fagnaðarerindinu og segja öðrum frá því hvernig það blessar líf okkar.
Frekari upplýsingar um hvernig tileinka á sér reglurnar um að elska, miðla og bjóða eru að finna í „Takið höndum saman með meðlimum“ í kafla 9.
Fasta og föstufórnir
Guð setti föstulögmálið til að við gætum þróað andlegan styrk og hjálpað þeim sem þurfa á því að halda.
Fasta þýðir að vera án matar og drykkjar í ákveðinn tíma. Kirkjan tilnefnir venjulega fyrsta sunnudag hvers mánaðar sem dag til að fasta. Föstusunnudagur felur venjulega í sér að vera án matar og drykkjar í 24 klukkustundir ef við erum líkamlega fær til þess. Aðrir mikilvægir þættir föstunnar eru meðal annars bæn og vitnisburður. Við erum líka hvött til að fasta á öðrum tímum þegar okkur finnst þörf á því.
Byggja upp andlegan styrk
Fasta getur hjálpað okkur að verða auðmjúk, nálgast Guð og upplifa andlega endurnýjun. Áður en Jesús Kristur hóf þjónustu sína fastaði hann (sjá Matteus 4:1–2). Ritningarnar segja frá mörgum frásögnum um spámenn og aðra sem fasta til að auka andlegan styrk sinn og leita sérstakra blessana fyrir sig sjálfa eða aðra.
Fasta og bæn fara saman. Þegar við föstum og biðjum í trú erum við betur stillt inn á að hljóta persónulega opinberun. Við erum líka móttækilegri fyrir því að bera kennsl á sannleikann og skilja vilja Guðs.
Hjálpa þeim sem eru þurfandi
Þegar við föstum gefum við kirkjunni fé til að hjálpa fólki í neyð. Það er kallað föstufórn. Okkur er boðið að leggja fram peningafórn sem er að minnsta kosti jafnvirði máltíðanna sem við neytum ekki. Við erum hvött til að vera gjafmild og gefa meira en jafnvirði þessara máltíða ef við getum. Að gefa föstufórn er ein leið til að þjóna öðrum.
Föstufórnir eru notaðar til að útvega nauðstöddu fólki mat og aðrar nauðsynjar, bæði á heimasvæðum og á öllum heimssvæðum. Fyrir upplýsingar um hvernig gefa á föstufórnir, sjá þá „Gefa tíund og aðrar fórnir“ í þessari lexíu.
Sáttmáli okkar um að standast allt til enda
Þegar við erum skírð gerum við sáttmála við Guð um að „[standa stöðug] allt til enda“ í því að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists (2. Nefí 31:20; sjá einnig Mósía 18:13). Við keppum að því að vera lærisveinar Jesú Krists allt til æviloka.
Spámaðurinn Nefí í Mormónsbók sagði skírnina sem hliðið þar sem við förum inn á veg fagnaðarerindisins (sjá 2. Nefí 31:17). Eftir skírn höldum við áfram að „sækja fram, [staðföst] í Kristi“ (2. Nefí 31:20).
Þegar við „sækjum fram“ á vegi lærisveinsins, búum við okkur undir að fara í musterið. Þar munum við gera sáttmála við Guð þegar við tökum á móti helgiathöfnum musterisins. Í musterinu verðum við gædd krafti og getum verið innsigluð sem fjölskyldur um eilífð. Að halda sáttmálana sem við gerum í musterinu mun opna dyrnar að öllum andlegum forréttindum og blessunum sem Guð geymir okkur.
Þegar við höldum áfram trúfastlega á vegi fagnaðarerindisins munum við að lokum hljóta stærstu gjöf Guðs – gjöf eilífs lífs (sjá 2. Nefí 31:20; Kenning og sáttmálar 14:7).
Eftirfarandi hlutar útskýra nokkra þætti sem Guð hefur séð okkur fyrir til að hjálpa okkur að standast allt til enda jarðlífsferðar okkar – og finna gleði í henni.
Prestdæmið og kirkjusamtök
Prestdæmið er vald og kraftur Guðs. Fyrir tilstilli prestdæmisins framkvæmir himneskur faðir það verk sitt „að gjöra ódauðleika og eilíft líf [barna sinna] að veruleika“ (HDP Móse 1:39). Guð veitir sonum sínum og dætrum valdsumboð og mátt á jörðu til að hjálpa við að framkvæma þetta verk.
Prestdæmið blessar okkur öll. Helgiathafnir eins og skírn og sakramenti eru meðteknar gegnum þá sem gegna embætti prestdæmisins. Við hljótum líka blessanir til lækningar, huggunar og leiðsagnar.
Prestdæmið og kirkjuleiðtogar og kallanir
Kirkjan er leidd af Jesú Kristi með spámönnum og postulum. Þessir leiðtogar eru kallaðir af Guði, vígðir og þeim er veitt prestdæmisvald til að starfa í nafni frelsarans.
Til forna gaf Kristur postulum sínum þetta sama prestdæmisvald, sem gerði þeim kleift að leiða kirkju hans eftir að hann steig upp til himna. Að lokum glataðist það vald þegar fólk hafnaði fagnaðarerindinu og postularnir dóu.
Himneskir sendiboðar endurreistu prestdæmið árið 1829 fyrir tilstilli spámannsins Josephs Smith og Drottinn stofnaði aftur kirkju sína með postulum og spámönnum. (Sjá lexíu 1.)
Á staðarstigi hafa biskupar og stikuforsetar prestdæmisvald til að leiða kirkjusöfnuði.
Þegar karlar og konur eru kölluð og sett í embætti til að þjóna í kirkjunni er þeim veitt valdsumboð frá Guði til að starfa í þeirri köllun. Þetta valdsumboð er veitt trúboðum, leiðtogum, kennurum og öðrum, þar til þau eru leyst frá köllun sinni. Því er úthlutað undir handleiðslu þeirra sem hafa prestdæmislykla.
Einungis er hægt að nota prestdæmisvald í réttlæti (sjá Kenning og sáttmálar 121:34–46). Þetta vald er heilagt traust til að vera fulltrúi frelsarans og starfa í hans nafni. Því er alltaf ætlað að blessa og til að þjóna öðrum.
Aronsprestdæmið og Melkísedeksprestdæmið
Í kirkjunni felur prestdæmið í sér Aronsprestdæmið og Melkísedeksprestdæmið. Undir handleiðslu þeirra sem hafa prestdæmislykla, er Aronsprestdæmið og Melkísedeksprestdæmið veitt verðugum karlkyns kirkjumeðlimum. Eftir að viðeigandi prestdæmi hefur verið veitt er viðkomandi vígður til embættis í því prestdæmi, svo sem djákni eða öldungur. Hann verður að vera vígður af einhverjum sem hefur nauðsynlegt valdsumboð.
Þegar karlmaður eða piltur meðtekur prestdæmið gerir hann sáttmála við Guð um að framfylgja helgum skyldum, þjóna öðrum og hjálpa við að byggja upp kirkjuna.
Piltar geta hlotið Aronsprestdæmið og verið vígðir sem djáknar í byrjun janúar á því ári sem þeir verða 12 ára. Þeir geta verið vígðir kennarar árið sem þeir verða 14 ára og prestar árið sem þeir verða 16 ára. Karlkyns trúskiptingar sem eru fullorðnir geta hlotið Aronsprestdæmið fljótlega eftir skírn og staðfestingu. Aronsprestdæmishafar þjónusta helgiathafnir eins og sakramentið og skírn.
Eftir að hafa þjónað um tíma sem prestur í Aronsprestdæminu, getur verðugur karlmaður sem hið minnsta er 18 ára hlotið Melkísedeksprestdæmið og verið vígður öldungur. Karlmenn sem hljóta Melkísedeksprestdæmið geta framkvæmt helgiathafnir prestdæmisins, eins og að veita fjölskyldumeðlimum og öðrum blessanir lækninga og huggunar.
Sjá Almenn handbók, 38.2.9.1, fyrir upplýsingar um nýja meðlimi sem hljóta prestdæmið.
Sveitir og kirkjusamtök
Prestdæmissveitir. Sveit er skipulagður hópur prestdæmishafa. Í hverri deild er öldungasveit fyrir fullorðna karlmenn. Sveitir djákna, kennara og presta eru fyrir pilta.
Líknarfélagið. Í Líknarfélaginu eru konur 18 ára og eldri. Meðlimir Líknarfélagsins styrkja fjölskyldur, einstaklinga og samfélagið.
Stúlknafélagið. Stúlkur fara í námsbekk Stúlknafélagsins í byrjun janúar á því ári sem þær verða 12 ára.
Barnafélagið. Börn 3 til 11 ára fara í Barnafélagið.
Sunnudagaskóli. Allir fullorðnir og ungmenni sækja sunnudagaskóla, þar sem komið er saman til ritningarnáms.
Fyrir frekari upplýsingar um prestdæmið, sjá Almenn handbók, kafli 3.
Fyrir frekari upplýsingar um prestdæmisveitir og kirkjusamtök, sjá Almenn handbók, kaflar 8–13.
Hjónaband og fjölskyldur
Hjónaband
Hjónaband milli karls og konu er vígt af Guði. Það er kjarninn í áætlun skaparans fyrir eilífa framþróun barna hans.
Sameining eiginmanns og eiginkonu í hjónabandi ætti að vera allra dýrmætasta jarðneska samband þeirra. Þau bera þá helgu ábyrgð að vera trygg hvort öðru og trú hjónabandssáttmála sínum.
Eiginmaður og eiginkona eru jöfn í augum Guðs. Annað ætti ekki að ráða yfir hinu. Ákvarðanir þeirra ættu að vera teknar í einingu og kærleika, með fullri þátttöku beggja.
Þegar eiginmaður og eiginkona elska hvort annað og vinna saman getur hjónaband þeirra verið uppspretta þeirra mestu hamingju. Þau geta hjálpað hvort öðru og börnum sínum að þróast í átt að eilífu lífi.
Fjölskyldan
Eins og hjónabandið, er fjölskyldan vígð af Guði og er kjarninn í áætlun hans um eilífa hamingju okkar. Fjölskyldur okkar eru líklegastar til að verða hamingjusamar þegar við lifum eftir kenningum Jesú Krists. Foreldrar kenna börnum sínum fagnaðarerindi Jesú Krists og eru fordæmi í því að lifa eftir því. Fjölskyldur gefa okkur tækifæri til að elska og þjóna hvert öðru.
Foreldrar ættu að hafa fjölskyldu sína í fyrirrúmi. Það eru helg forréttindi og ábyrgð foreldra að annast um þau börn sem þau geta alið af sér eða ættleitt.
Allar fjölskyldur hafa áskoranir. Þegar við leitum stuðnings Guðs og höldum boðorð hans, geta fjölskylduáskoranir hjálpað okkur að læra og vaxa. Stundum hjálpa þessar áskoranir okkur að læra að iðrast og fyrirgefa.
Kirkjuleiðtogar hafa hvatt meðlimi til að halda vikulegt heimiliskvöld. Foreldrar nota þann tíma til að kenna börnum sínum fagnaðarerindið, styrkja fjölskyldutengslin og njóta samverunnar. Kirkjuleiðtogar hafa líka gefið út yfirlýsingu sem kennir mikilvægan sannleika um fjölskylduna (sjá „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ KirkjaJesuKrists.is).
Aðrar leiðir til að styrkja fjölskylduna eru fjölskyldubænir, ritningarnám og sameiginleg tilbeiðsla í kirkju. Við getum líka rannsakað ættarsögu okkar, safnað ættarsögum og þjónað öðrum.
Margir hafa takmarkaða möguleika á hjónabandi eða kærleiksríkum fjölskyldusamböndum. Margir hafa upplifað skilnað og aðrar erfiðar fjölskylduaðstæður. Fagnaðarerindið blessar okkur þó hvert fyrir sig, óháð fjölskylduaðstæðum okkar. Þegar við erum trúföst mun Guð sjá okkur fyrir leið til að hljóta blessanir kærleiksríkra fjölskyldna, hvort heldur í þessu lífi eða komandi lífi.
Musteris- og ættarsögustarf fyrir látna áa
Himneskur faðir elskar öll börn sín og þráir sáluhjálp þeirra og upphafningu. Samt hafa milljarðar manna dáið án þess að hafa heyrt um fagnaðarerindi Jesú Krists eða meðtekið frelsandi helgiathafnir fagnaðarerindisins. Þessar helgiathafnir fela í sér skírn, staðfestingu, prestdæmisvígslu fyrir karlmenn, musterisgjöfina og eilíft hjónaband.
Með náð sinni og miskunn hefur Drottinn séð þessu fólki fyrir öðrum leiðum til að meðtaka fagnaðarerindið og helgiathafnir þess. Í andaheiminum er fagnaðarerindið prédikað þeim sem hafa dáið án þess að hafa meðtekið það (sjá Kenning og sáttmálar 138). Í musterum getum við framkvæmt helgiathafnirnar fyrir hönd látinna áa okkar og annarra. Þetta látna fólk í andaheiminum getur þá tekið á móti eða hafnað fagnaðarerindinu og helgiathöfnum sem framkvæmdar eru fyrir það.
Áður en við getum framkvæmt þessar helgiathafnir, þurfum við að bera kennsl á áa okkar sem ekki hafa meðtekið þær. Að bera kennsl á skyldmenni okkar svo þau geti tekið á móti helgiathöfnum er megintilgangur ættarsögustarfs okkar. Þegar við finnum upplýsingar um þau, bætum við þeim við kirkjugagnasafnið á FamilySearch.org. Þá getum við (eða aðrir) framkvæmt staðgengilshelgiathafnir fyrir þau í musterinu.
Þegar við auðkennum áa okkar og framkvæmum helgiathafnir fyrir þá geta fjölskyldur okkar sameinast um eilífð.
Musteri, musterisgjöfin, eilíft hjónaband og eilífar fjölskyldur
Musteri
Musterið er hús Drottins. Það er helgur staður þar sem við getum gert sáttmála við Guð er við meðtökum helgiathafnir hans. Þegar við höldum þessa sáttmála mun kraftur guðleikans staðfestast í lífi okkar (sjá Kenning og sáttmálar 84:19–22; 109:22–23).
Musterisgjöfin
Ein af þeim helgiathöfnum sem við meðtökum í musterinu er nefnd musterisgjöf. Orðið musterisgjöf þýðir „gjöf“. Þessi gjöf þekkingar og máttar er frá Guði. Meðan á musterisgjöfinni stendur, gerum við sáttmála við Guð sem binda okkur honum og syni hans Jesú Kristi (sjá kafla 1).
Fullorðnir geta meðtekið eigin musterisgjöf eftir hið minnsta eins árs kirkjuaðild. Fyrir frekari upplýsingar um musterisgjöf, sjá Almenn handbók, kafli 27.2.
Eilíft hjónaband og eilífar fjölskyldur
Áætlun Guðs um hamingju gerir fjölskylduböndin varanleg handan grafar. Í musterinu getum við gift okkur um tíma og eilífð. Það gerir fjölskyldum mögulegt að vera saman að eilífu.
Eftir að hjón hafa meðtekið musterisgjöf sína, geta þau verið innsigluð eða gift um eilífð. Börn þeirra geta verið innsigluð þeim.
Eiginmaður og eiginkona sem hafa verið innsigluð í musterinu verða að halda sáttmálana sem þau hafa gert til að hljóta blessanir eilífs hjónabands.