110. Kafli
Sýn, sem birtist spámanninum Joseph Smith og Oliver Cowdery í musterinu í Kirtland, Ohio, 3. apríl 1836. Tilefnið var hvíldardagssamkoma. Í sögu Josephs Smith segir„Um miðjan dag aðstoðaði ég aðra forseta við að deila út kvöldmáltíð Drottins til safnaðarins, en við henni tókum við af hinum tólf, sem nutu þeirra forréttinda þann dag að þjóna við hið heilaga borð. Eftir að hafa veitt bræðrum mínum þessa þjónustu fór ég aftur að ræðustólnum, fyrir luktum tjöldum, og laut ásamt Oliver Cowdery í helgri og hljóðri bæn. Eftir að við risum upp frá bæninni, birtist eftirfarandi sýn okkur báðum.“
1–10, Drottinn Jehóva birtist í dýrð og veitir Kirtland musterinu viðtöku sem húsi sínu; 11–12, Móse og Elías birtast báðir og afhenda lykla sína og ráðstafanir; 13–16, Elía kemur til baka og afhendir lykla sinnar ráðstöfunar eins og Malakí lofaði.
1 Hulunni var svipt frá hugum okkar og augu skilnings okkar lukust upp.
2 Við sáum Drottin standa á brjósthlíf prédikunarstólsins, frammi fyrir okkur, og undir fótum hans var stétt úr skíru gulli, rauðgullin á lit.
3 Augu hans voru sem eldslogi, hárið á höfði hans var hvítt sem nýfallin mjöll, ljóminn frá svip hans bar af ljóma sólarinnar og rödd hans var sem dynur mikilla vatnsfalla, já, rödd Jehóva, sem sagði:
4 Ég er hinn fyrsti og hinn síðasti. Ég er sá, sem lifir. Ég er sá, sem deyddur var. Ég er málsvari yðar hjá föðurnum.
5 Sjá, syndir yðar eru yður fyrirgefnar. Þér eruð hreinir fyrir mér, lyftið því höfði og fagnið.
6 Lát hjörtu bræðra yðar fagna og lát hjörtu alls míns fólks fagna, sem af mætti sínum hafa reist nafni mínu þetta hús.
7 Því að sjá, ég hef veitt þessu húsi viðtöku og nafn mitt skal vera hér. Og af miskunn mun ég opinbera mig fólki mínu í þessu húsi.
8 Já, ég mun birtast þjónum mínum og mæla til þeirra eigin röddu, ef fólk mitt heldur boðorð mín og vanhelgar ekki þetta heilaga hús.
9 Já, hjörtu þúsunda og tugþúsunda skulu fagna ákaft yfir þeim blessunum, sem úthellt verður, og þeirri gjöf, sem þjónum mínum hefur verið veitt í þessu húsi.
10 Og frægð þessa húss mun breiðast til annarra landa, og þetta er upphaf þeirra blessana, sem úthellt verður yfir fólk mitt. Já, vissulega. Amen.
11 Eftir að sýn þessari lauk, lukust himnarnir enn upp fyrir okkur og Móse birtist okkur og fól okkur lyklana að samansöfnun Ísraels frá hinum fjórum heimshlutum og að leiða ættkvíslirnar tíu úr landinu í norðri.
12 Eftir það birtist Elías og fól okkur ráðstöfun fagnaðarboðskapar Abrahams, sagði að með okkur og niðjum okkar verði allar kynslóðir eftir okkur blessaðar.
13 Eftir að þeirri sýn lauk, birtist okkur önnur mikil og dýrðleg sýn, því að spámaðurinn Elía, sem hrifinn var til himins án þess að smakka dauðann, stóð frammi fyrir okkur og sagði:
14 Sjá, sá tími er nú að fullu kominn, sem talað var um fyrir munn Malakís — er vitnaði að hann [Elía] yrði sendur, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kæmi —
15 Til að snúa hjörtum feðranna til barnanna og barnanna til feðranna, til þess að öll jörðin verði ekki lostin banni —
16 Þess vegna eru lyklar þessara ráðstafana seldir yður í hendur, og með því skuluð þér vita, að hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins er í nánd, já, fyrir dyrum.