130. Kafli
Leiðbeiningaratriði, sem spámaðurinn Joseph Smith gaf í Ramus, Illinois, 2. apríl 1843.
1–3, Faðirinn og sonurinn geta birst mönnum í eigin persónu; 4–7, Englar búa á himneskum hnetti; 8–9, Hin himneska jörð mun verða mikilfenglegur Úrim og Túmmím; 10–11, Öllum sem koma inn í hið himneska ríki er gefinn hvítur steinn; 12–17, Spámaðurinn fær ekki að vita um tíma síðari komunnar; 18–19, Þeir vitsmunir, sem við öðlumst í þessu lífi, munu fylgja okkur í upprisunni; 20–21, Allar blessanir fást með hlýðni við lögmálin; 22–23, Faðirinn og sonurinn hafa líkama af holdi og beinum.
1 Þegar frelsarinn birtist, munum við sjá hann eins og hann er. Við munum sjá, að hann er maður eins og við sjálf.
2 Og að sama félagslyndi og ríkir meðal okkar hér mun ríkja meðal okkar þar, en þar við bætist eilíf dýrð, dýrð, sem við njótum ekki nú.
3 Jóhannes 14:23 — Opinberun föðurins og sonarins í þessu versi er persónuleg opinberun. Og sú hugmynd, að faðirinn og sonurinn dvelji í hjarta mannsins, er gamall sértrúnaður og falskur.
4 Sem svar við spurningunni — Reiknast ekki tímatal Guðs, engla, spámanna og manna, eftir þeirri plánetu sem þeir búa á?
5 Ég svara, jú. En engir englar þjóna hér á þessari jörðu aðrir en þeir sem tilheyra henni eða hafa tilheyrt henni.
6 Englarnir búa ekki á plánetu eins og þessari jörð —
7 Þeir búa í návist Guðs, á hnetti sem líkist hafi úr gleri og eldi, þar sem allt þeim til dýrðar er augljóst, bæði fortíð, nútíð og framtíð, og er stöðugt fyrir augliti Drottins.
8 Staðurinn, sem Guð býr á, er stór Úrim og Túmmím.
9 Þessi jörð, helguð og ódauðleg, mun verða lík krystalli og verður íbúum sínum Úrim og Túmmím, þar sem allt er tilheyrir lægra ríki eða öll óæðri ríki verða augljós þeim, sem á henni dvelja, og þessi jörð verður Krists.
10 Og hvíti steinninn, sem talað er um í Opinberunarbókinni 2:17, verður Úrim og Túmmím hverjum einstökum sem meðtekur hann, og með honum mun það sem tilheyrir æðri ríkjum kunnugt verða —
11 Og öllum, sem koma í hið himneska ríki, er gefinn hvítur steinn og á hann er letrað nýtt nafn, sem enginn maður þekkir nema sá sem meðtekur hann. Hið nýja nafn er lykilorðið.
12 Ég spái, í nafni Drottins Guðs, að upphaf þeirra erfiðleika, sem valda munu miklum blóðsúthellingum fyrir komu mannssonarins, verði í Suður-Karólínu.
13 Kveikja þeirra verður sennilega þrælamálið. Þetta sagði mér rödd meðan ég í heitri bæn spurðist fyrir um þetta efni þann 25. desember 1832.
14 Eitt sinn, er ég bað heitt um að fá að vita komutíma mannssonarins, heyrði ég rödd endurtaka eftirfarandi orð:
15 Joseph, sonur minn, ef þú lifir það að verða áttatíu og fimm ára gamall, munt þú sjá ásjónu mannssonarins. Lát þetta því nægja og ónáða mig ekki framar varðandi þetta mál.
16 Þannig varð mér ómögulegt að ákveða, hvort með þessari komu væri átt við upphaf þúsund ára ríkisins eða einhverja birtingu fyrir þann tíma, eða hvort ég myndi deyja og þannig sjá ásjónu hans.
17 Ég trúi að koma mannssonarins verði ekki fyrir þann tíma.
18 Hvert það vitsmunastig, sem við öðlumst í þessu lífi, mun fylgja okkur í upprisunni.
19 Og hljóti einhver, fyrir kostgæfni sína og hlýðni, meiri þekkingu og vitsmuni í þessu lífi en annar, mun hann standa sem því nemur betur að vígi í komandi heimi.
20 Það óafturkallanlega lögmál gildir á himni, ákvarðað áður en grundvöllur þessa heims var lagður, sem öll blessun er bundin við —
21 Að þegar við öðlumst einhverja blessun frá Guði, þá er það fyrir hlýðni við það lögmál, sem sú blessun er bundin.
22 Faðirinn hefur líkama af holdi og beinum, jafn áþreifanlegan og mannslíkaminn er, sonurinn einnig, en heilagur andi hefur ekki líkama af holdi og beinum, heldur er hann andavera. Væri ekki svo, gæti heilagur andi ekki dvalið í okkur.
23 Maðurinn getur meðtekið heilagan anda, og hann getur komið yfir hann, án þess að vera áfram í honum.