Ritningar
Kenning og sáttmálar 31


31. Kafli

Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith til Thomasar B. Marsh í september 1830. Þetta átti sér stað strax eftir ráðstefnu kirkjunnar (sjá formála að kafla 30). Thomas B. Marsh hafði verið skírður fyrr í mánuðinum og hafði þegar verið vígður öldungur í kirkjunni, er opinberun þessi var gefin.

1–6, Thomas B. Marsh er kallaður til að boða fagnaðarerindið og er fullvissaður um velfarnað fjölskyldu sinnar; 7–13, Honum er ráðlagt að vera þolinmóður, biðja stöðugt og fylgja huggaranum.

1 Thomas, sonur minn, blessaður ert þú vegna trúar þinnar á verk mitt.

2 Sjá, þú hefur liðið margskonar þrengingar vegna fjölskyldu þinnar. Engu að síður mun ég blessa þig og fjölskyldu þína, já, börn þín, og sá dagur kemur er þau munu trúa og þekkja sannleikann og sameinast þér í kirkju minni.

3 Lyft upp hjarta þínu og fagna, því að stund ætlunarverks þíns er upp runnin og tunga þín skal losuð og þú skalt boða þessari kynslóð gleðitíðindi og mikinn fögnuð.

4 Þú skalt boða það, sem opinberað hefur verið þjóni mínum, Joseph Smith yngri. Frá þessari stundu skalt þú byrja að prédika, já, að uppskera akur minn, sem þegar er hvítur til brennunnar.

5 Beit sigð þinni því af allri sálu þinni og syndir þínar eru þér fyrirgefnar og bak þitt skal hlaðið kornbindum, því að verður er verkamaðurinn launa sinna. Fjölskylda þín skal þess vegna lifa.

6 Sjá, sannlega segi ég þér, far aðeins frá henni stutta hríð og boða orð mitt, og ég mun búa henni stað.

7 Já, ég mun opna hjörtu fólksins og það mun taka á móti þér. Og ég mun stofna kirkju með hendi þinni —

8 Og þú skalt styrkja það og búa það undir þann tíma, er því mun safnað saman.

9 Ver þolinmóður í þrengingum og lasta ekki lastmælendur. Stjórna húsi þínu með hógværð og ver staðfastur.

10 Sjá, ég segi þér, að þú skalt verða kirkju minni læknir, en ekki heiminum, því að hann mun ekki taka við þér.

11 Far hvert sem ég vil, og huggarinn mun segja þér hvað gjöra skal og hvert fara skal.

12 Bið án afláts, svo að þú fallir ekki í freistni og glatir launum þínum.

13 Ver trúr allt til enda og tak eftir, ég er með þér. Þetta er ekki orð manns né manna, heldur mín orð, sjálfs, Jesú Krists, lausnara þíns, fyrir vilja föðurins. Amen.