„Meira en góður æfingadagur,“ Barnavinur, nóv. 2023, 14–15.
Meira en góður æfingadagur
Konan var ekki í góðu skapi. Gæti Ismael hjálpað?
Þessi saga gerðist í Bólivíu.
Ismael brosti þegar hann gekk út í sólskinið. Hann og pabbi voru að fara í garðinn. Ismael og pabbi gengu saman og Ismael hélt í hönd pabba og hélt á fótboltanum hans. Ismael fannst gaman að verja tíma með pabba – sérstaklega þegar þeir spiluðu fótbolta!
Þegar þeir komu í garðinn leit Ismael í kringum sig. Kona var að reita illgresi nálægt fótboltavellinum. Fjölskylda gekk á gangstéttinni. En enginn var að spila á fótboltavellinum. Ismael og pabbi höfðu nóg pláss til að æfa!
„Tilbúinn að spila?“ spurði pabbi.
„Já!“ Ismael hljóp eins hratt og hann gat inn á völlinn. Hann gerði sikksakkæfingar, tók vítaspyrnur og hornspyrnur.
Pabbi sparkaði fast í boltann. Hann flaug beint yfir höfuðið á Ismael!
„Ég skal ná í hann,“ sagði Ismael. Hann hljóp út í hornið á vellinum og sótti boltann. Hann sá konuna enn róta í moldinni. Hún virtist þreytt.
„Nú verð ég markvörður,“ kallaði pabbi. „Sjáðu hvort þú getur skorað!“
Ismael hljóp til baka og spyrnti boltanum í átt að markinu. Pabbi teygði sig til að verja boltann en rétt missti af honum.
„Maaark!“ Ismael fagnaði þegar boltinn fór í netið.
Brátt var heill klukkutími liðinn. „Tími til að fara heim,“ sagði pabbi.
Ismael horfði aftur á konuna tína illgresið. Að vinna í sólinni er ekki eins skemmtilegt og að spila fótbolta, hugsaði hann. Hann vildi hughreysta hana. Þá fékk hann hugmynd.
„Pabbi, finnst þér þessi kona ekki gera þarflegt verk?“ spurði hann.
„Hvað?“ Pabbi leit á konuna fyrir handan. „Ah, jú.“
„Ég held að við ættum að fara til hennar og segja henni það!“ sagði Ismael.
„Já, en við þurfum að flýta okkur heim. Mamma bíður eftir okkur,“ sagði pabbi.
Ismael horfði á konuna þurrka sér um ennið. Tilfinningin að tala við hana varð sterkari. „Mér finnst eins og við ættum að gera það,“ sagði hann. Hann tók í hönd pabba og gekk til hennar.
„Góðan daginn, frú,“ sagði Ismael og veifaði.
Konan leit ekki upp. „Hvað viltu?“
Ismael fann að hún var ekki mjög glöð. Það hélt þó ekki aftur af honum. „Mig langar að segja þér að þú ert að gera frábært verk!“
Þegar hér var komið leit konan upp og á hann.
Ismael brosti. „Þakka þér fyrir að hugsa um garðinn!“
Konan brosti til baka. „Þakka þér fyrir,“ sagði hún. Brosið varð jafnvel enn breiðara. „Þakka þér innilega fyrir.“
Ismael var glaður þegar hann gekk heim með pabba.
„Ég held að það sem þú sagðir hafi verið henni mikilvægt,“ sagði pabbi. „Það er gott að þú hlustaðir á tilfinninguna sem þú hlaust.“
„Ég líka.“ Ismael varð hugsi eitt augnablik. Hann spurði síðan: „Heldurðu að þetta hafi verið heilagur andi?“
Pabbi jánkaði. „Stundum vekur heilagur andi okkur hugsun um að hjálpa einhverjum. Það er einmitt það sem þú gerðir.“
Ismael brosti. Það var lítið viðvik að tala við konuna en hann hafði gert daginn hennar betri. Að hlusta á heilagan anda hafði líka gert daginn hans betri!