Aðalráðstefna
Elska, miðla, bjóða
Aðalráðstefna apríl 2022


13:3

Elska, miðla, bjóða

Er við elskum, miðlum og bjóðum, tökum við þátt í hinu mikla og dýrðlega verki sem undirbýr jörðina fyrir endurkomu Messíasar.

Ímyndið ykkur með mér eitt augnablik að þið standið á fjalli í Galíleu og horfið á undur og dýrð þess að hinn endurreisti frelsari vitjar lærisveina sína. Hve mikilfengleg er sú hugsun að heyra persónulega orðin sem hann miðlaði þeim, hátíðlegt boð hans til þeirra: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda.“1 Vissulega myndu þessi orð veita kraft, innblása og snerta hvert og eitt okkar, á sama hátt og postula hans. Sannlega helguðu þeir sig einmitt því ævina á enda.

Áhugavert er að það voru ekki einungis postularnir sem tóku þessi orð til sín. Meðlimir kirkjunnar til forna, frá þeim óreyndasta til þess reyndasta, tóku þátt í þessu mikla verki, miðluðu gleðitíðindum fagnaðarerindisins með þeim sem þeir hittu og þekktu. Markmið þeirra að miðla vitnisburði sínum um Jesú Krist hjálpaði hinni nýstofnuðu kirkju að vaxa mikið.2

Okkur, sem erum lærisveinar Krists, er einnig boðið að hlýða þessu boði, líkt og við værum á fjallinu í Galíleu þegar hann lýsti þessu yfir fyrst. Þetta verkefni hófst aftur árið 1830, þegar Joseph Smith setti bróður sinn, Samuel í embætti sem einn af fyrstu trúboðum kirkju Jesú Krists.3 Síðan þá hafa meira en 1.5 milljón trúboða ferðast um heiminn, kennt öllum þjóðum og skírt þá sem taka á móti gleðitíðindum hins endurreista fagnaðarerindis.

Þetta er kenning okkar. Þrá okkar og yndi.

Allt frá ungum börnum okkar til þeirra elstu meðal okkar, þá þráum við þá stund er við getum hlýtt kalli frelsarans og miðlað fagnaðarerindinu með þjóðum heimsins. Ég er viss um að þið, piltar og stúlkur, skynjuðuð álíka eflandi áskorun frá spámanni okkar í gær, er hann bauð ykkur að búa ykkur undir fastatrúboð á sama hátt og frelsarinn gerði við postula sína.

Á sama hátt og spretthlauparar við rásmarkið, þá bíðum við í eftirvæntingu eftir hinu formlega boði, fullbúnu með undirritun spámannsins, sem markar upphaf keppninnar! Þessi þrá er virðingaverð og hvetjandi en hugleiðum hins vegar þessa spurningu: Hví hefjumst við ekki öll handa nú?

Þið gætuð spurt ykkur: „Hvernig get ég verið trúboði án nafnspjalds?“ Við gætum líka sagt við okkur sjálf: „Fastatrúboðar eru settir í embætti til að vinna þetta verk. Mig myndi langa til að hjálpa en kannski þegar lífið hefur róast aðeins niður.“

Bræður og systur, þetta er talsvert einfaldara en það! Sem betur fer er hægt að vinna hið mikla verk frelsarans með einföldum, auðskiljanalegum reglum sem okkur er öllum kennt frá barnæsku: að elska, miðla og bjóða.

Elska

Það fyrsta sem við getum gert er að elska eins og Kristur elskaði.

Okkur er þungt um hjarta vegna hinna mannlegu þjáninga og þeirrar spennu sem við sjáum um allan heim á þessum róstursömu tímum. Við getum hins vegar einnig verið innblásin af þeirri miklu samúð og mannkærleika sem fólk hvarvetna hefur auðsýnt með framtaki sínu við að liðsinna hinum jaðarsettu – þeim sem hafa misst heimili sín, verið aðskildir frá fjölskyldum sínum eða upplifa sorg og örvæntingu á annan hátt.

Nýlega hafa fréttamiðlar sagt frá því hvernig mæður í Póllandi, sem höfðu áhyggjur af örvæntingarfullum fjölskyldum á flótta, skildu eftir kerrur í beinni röð á lestarpalli, tilbúnar og fullar af vörum og biðu þar mæðra og barna á flótta, sem myndu þarfnast þeirra er þau færu yfir þessi landamæri og kæmu úr lestunum. Sannarlega brosir himneskur faðir við slíkum óeigingjörnum góðverkum, því við að bera hvers annars byrðar „[uppfyllum við] … lögmál Krists.“4

Hvenær sem við sýnum kristilegan kærleika gagnvart náunga okkar, kennum við fagnaðarerindið – jafnvel þó að við segjum ekki aukatekið orð.

Kærleikur til annarra er hin orðlausa tjáning annars boðorðsins um að elska náunga okkar5; hann sýnir fágunarferlið sem heilagur andi vinnur að í sálum okkar. Með því að sýna öðrum kristilegan kærleika, gætum við komið því til leiðar að þeir sem sjá góðverk okkar „vegsami föður [okkar] sem er á himnum.“6

Við gerum þetta án þess að vænta einhvers tilbaka.

Von okkar er að sjálfsögðu að þau munu meðtaka kærleika okkar og boðskap, jafnvel þó við stjórnum ekki viðbrögðum þeirra.

Við stjórnum sannarlega því hvað við gerum og hver við erum.

Með því að sýna öðrum kristilegan kærleika, prédikum við hina dýrðlegu, umbreytandi eiginleika fagnaðarerindis Krists og tökum þátt í að uppfylla hið mikla verk hans á mikilvægan hátt.

Miðla

Það sem við getum líka gert er að miðla.

Á fyrstu mánuðum Kóvid‑19 faraldursins fannst bróður Wisan frá Taílandi hann hvattur til að miðla tilfinningum sínum og hughrifum um það sem hann var að læra í námi sínu í Mormónsbók á samfélagsmiðlasíðu sinni. Í einum af póstum hans, sem var einkar persónulegur, miðlaði hann sögu af tveimur trúboðum í Mormónsbók, Amúlek og Alma.

Þetta snerti bróður hans, Winai, þó hann væri mjög sáttur við eigin trúarskoðanir og hann svaraði óvænt og spurði: „Get ég fengið þessa bók á taílensku?“

Wisan hagaði því þannig, skynsamlega, að tveir systurtrúboðar fóru með bókina til hans og byrjuðu að kenna bróður hans.

Wisan tók þátt í rafrænum lexíum þar sem hann miðlaði tilfinningum sínum um Mormónsbók. Winai lærði að biðja og leita með sannleiksleitandi anda, til að meðtaka og umfaðma sannleikann. Innan mánaðar var Winai skírður!

Wisan sagði seinna: „Við höfum þá ábyrgð að vera verkfæri í höndum Guðs og verðum ávallt að vera tilbúin til að leyfa honum að vinna verk sitt í gegnum okkur.“ Fjölskyldukraftaverk þeirra varð vegna þess að Wisan miðlaði fagnaðarerindinu á venjulegan og eðlilegan máta.

Við miðlum öll einhverju með öðrum. Við gerum það oft. Við miðlum því hvaða bíómyndir eða mat við kunnum að meta, fyndnum atburðum sem við sjáum, stöðum sem við heimsækjum, list sem við njótum, tilvitnunum sem innblása okkur.

Hvernig getum við einfaldlega bætti því við listann sem við þegar miðlum, hvað við kunnum að meta við fagnaðarerindi Jesú Krists?

Öldungur Dieter F. Uchtdorf sagði: „Ef einhver spyr um helgina, hikið þá ekki við að tala um upplifun ykkar í kirkjunni. Segið frá litlu börnunum sem af ákafa sungu frammi fyrir söfnuðinum um hvernig þau reyna að líkjast Jesú. Segið frá unglingunum sem gáfu sér tíma til að liðsinna eldri borgurum á dvalarheimilum við söfnun frásagna eigin lífs.7

Að miðla, hefur ekkert að gera með að „selja“ fagnaðarerindið. Þið þurfið ekki að skrifa ræðu eða leiðrétta ranghugmyndir annarra.

Þegar kemur að trúboðsstarfi, þá þarf Guð ekki á því að halda að þið séuð löggæslumenn hans; hann þarfnast þess hins vegar að þið verðið miðlarar hans.

Með því að miðla jákvæðri reynslu okkar í fagnaðarerindinu, erum við að taka þátt í að uppfylla hið mikla boð frelsarans.

Bjóða

Það þriðja sem við getum líka gert er að bjóða.

Systir Mayra er nýlegur trúskiptingingur frá Ekvador. Gleði hennar í fagnaðarerindinu rauk upp til skýja eftir skírn hennar, er hún bauð vinum og ástvinum í kringum sig, í gegnum samfélagsmiðlasíður. Margir fjölskyldumeðlimir og vinir sem sáu pósta hennar, svöruðu með spurningum. Mayra tengdist þeim og bauð þeim oft heim til að hitta trúboðana saman.

Foreldrar Mayru, systkini hennar, móðursystir hennar og tvö frændsystkini og nokkrir vinir hennar, skírðust því hún var hugrökk að bjóða þeim að „koma og sjá,“ „koma og þjóna,“ og „koma og tilheyra.“ Vegna venjulegra og eðlilegra boða hennar, hafa yfir 20 manns verið skírðir meðlimir í kirkjunni. Þetta gerðist vegna þess að systir Mayra einfaldlega bauð öðrum að upplifa þá gleði sem hún upplifði sem meðlimur kirkjunnar.

Systir Mayra og þeir sem hún hefur boðið að njóta gleði fagnaðarerindisins.

Það eru hundruð boða sem við getum miðlað öðrum. Við getum boðið fólki að „koma og sjá“ sakramentissamkomu, deildarviðburð, rafrænt myndband sem útskýrir fagnaðarerindi Jesú Krists. „Kom og sjá“ getur verið boð um að lesa Mormónsbók eða heimsækja nýtt musteri í opnu húsi áður en að vígslan fer fram. Stundum er boð eitthvað sem við bjóðum inn á við – boð til okkar sjálfra, um meðvitund og sýn á tækifærum umhverfis, sem hægt er að bregðast við.

Á rafrænni öld okkar þá miðla meðlimir skilaboðum oft á samfélagsmiðlum. Það eru hundruð, ef ekki þúsundir upplyftandi hluta sem ykkur gæti fundist þess virði að miðla. Þetta efni býður upp á að „koma og sjá,“ „koma og þjóna“ og „koma og tilheyra.“

Þegar við bjóðum öðrum að læra meira um fagnaðarerindi Jesú Krists, tökum við þátt í kalli frelsarans um að taka þátt í verki hans.

Lokaorð

Ástkæru bræður og systur, í dag höfum við talað um þrjá einfalda hluti – auðvelda hluti – sem allir geta tekið þátt í. Hluti sem þið getið gert! Kannski eruð þið þegar að gera það – jafnvel án þess að gera ykkur grein fyrir að þið eruð að því!

Ég býð ykkur að hugsa upp leiðir til að elska, miðla og bjóða. Þegar þið gerið svo, munið þið finna fyllingu gleði þess að þið séuð að hlýða orðum ástkærs frelsara okkar.

Það sem ég er að hvetja ykkur að gera er ekki ný áætlun. Þið hafið heyrt um þessar reglur áður. Þetta er ekki „nýr og stór hlutur“ sem kirkjan er að biðja ykkur að gera. Þessir þrír hlutir eru einfaldlega framlenging á því sem við erum þegar, sem lærisveinar Jesú Krists.

Það þarf ekkert nafnspjald eða bréf.

Það þarf enga formlega köllun.

Þetta þrennt verður eðlilegur þáttur af því hver við erum og hvernig við lifum, það verður sjálfkrafa, sjálfviljug tjáning einlægrar elsku.

Eins og lærisveinarnir sem söfnuðust saman til að læra af honum í Galíleu fyrir 2000 árum síðan, þá getum við líka umfaðmað boð frelsarans og farið um heiminn og kennt fagnaðarerindið.

Er við elskum, miðlum og bjóðum, tökum við þátt í hinu mikla og dýrðlega verki sem undirbýr jörðina fyrir endurkomu Messíasar.

Það er bæn mín að við megum hlýta kalli frelsarans og leggja okkur fram við að starfa í hinu mikla verki hans, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Matteus 28:19.

  2. Hver var ástæða vaxtar kirkjunnar til forna? Einn sagnfræðingur leggur til: „Hið fyrsta sem hefur kallað á einlægar fyrirspurnir um eðli trúarinnar var persónuleg tenging við aðra trúðaða. … Að búa og vinna hlið við hlið með þeim sem fylgdu Jesú, að verða vitni að hegðun þeirra í návígi og að hlusta á þá er þeir töluðu um fagnaðarerindið í daglegum verkum þeirra, var að standa frammi fyrir sönnunum á breyttu lifi. Í þessum skilningi hefur aðdráttarafl hinnar kristnu trúar oftar en ekki verið hljóðlátur vitnisburður hins venjulega tilbiðjanda Jesú, berandi vitni um trúverðugleika staðfestu þeirra með ráðvendni, staðfestu og einlægni gagnvart öðrum, frekar en opinberar yfirlýsingar þekktari fulltrúa þeirra“ (Ivor J. Davidson, The Birth of the Church: From Jesus to Constantine, 30–312 e.Kr., [2005], 108–9).

  3. Sjá Lucy Mack Smith, History, 1845, bls. 169, josephsmithpapers.org.

  4. Galatabréfið 6:2.

  5. Sjá Matteus 22:39.

  6. Matteus 5:16.

  7. Dieter F. Uchtdorf, „Trúboðsstarf: Gefa af hjartans list,“ aðalráðstefna apríl 2019.