Aðalráðstefna
Jesús Kristur er styrkur ungmenna
Aðalráðstefna október 2022


14:11

Jesús Kristur er styrkur ungmenna

Leggið traust ykkar á Jesú Krist. Hann mun leiða ykkur í rétta átt. Hann er styrkur ykkar.

Í undirbúningi þessa boðskapar í dag, hef ég fundið sterka hvatningu til að tala til pilta og stúlkna.

Ég tala einnig til þeirra sem eitt sinn voru ungir, jafnvel til þeirra sem muna ekki eftir því lengur.

Ég tala líka til allra sem elska unga fólkið okkar og óska þess að það nái langt í lífinu.

Fyrir hina upprennandi kynslóð, þá hef ég boðskap sérstaklega fyrir ykkur frá frelsara ykkar, Jesú Kristi.

Boðskapur frelsarans til ykkar

Kæru ungu vinir, hvað myndi frelsarinn segja við ykkur ef hann væri hér einmitt núna?

Ég held að hann myndi byrja á því að tjá djúpa elsku sína til ykkar. Hann gæti tjáð hana með orðum, en hún myndi líka flæða svo sterkt – bara vegna nærveru hans – að hún væri greinileg, snerti ykkur djúpt í hjarta og fyllti sál ykkar!

Þrátt fyrir þetta, vegna þess að við erum öll þróttlítil og ófullkomin, gætu áhyggjur smeygt sér í huga ykkar. Þið gætuð munað eftir mistökum sem þið hafið gert, þau skipti sem þið létuð undan freistingum, eitthvað sem þið vilduð ekki hafa gert – eða óskið þess að að hafa gert betur.

Frelsarinn myndi skynja það og ég held að hann myndi fullvissa ykkur með orðum sem hann mælti í ritningunum:

„Óttist ekki.“1

„Efist ekki.“2

„Verið vonglöð.“3

„Hjarta yðar skelfist ekki.“4

Ég held ekki að hann myndi afsaka mistök ykkar. Hann myndi ekki gera lítið úr þeim. Nei, hann myndi bjóða ykkur að iðrast – að skilja syndir ykkar eftir, að breytast, svo hann geti fyrirgefið ykkur. Hann myndi minna ykkur á að fyrir 2.000 árum tók hann þessar syndir á sig svo þið gætuð iðrast. Þetta er hluti af sæluáætluninni sem ástríkur himneskur faðir gaf okkur.

Jesús gæti bent á að sáttmálar ykkar við hann – gerðir þegar þið voruð skírð og endurnýjaðir í hvert sinn sem þið meðtakið sakramentið – tengja ykkur við hann á sérstakan máta. Tenging sem ritningarnar lýsa á þann hátt að við tökum á okkur ok hans, svo að með hans hjálp getum við borið hvers kyns byrði.5

Ég held að frelsarinn Jesús Kristur myndi vilja að þið sæjuð, fynduð fyrir og vissuð að hann er styrkur ykkar. Að með hans hjálp eru engin takmörk fyrir því hverju þið getið fengið áorkað. Möguleikar ykkar eru takmarkalausir. Hann myndi vilja að þið sæjuð ykkur sjálf eins og hann sér ykkur. Það er afar frábrugðið því hvernig heimurinn sér ykkur.

Frelsarinn myndi segja á skýran hátt að þið séuð dætur og synir hins almáttuga Guðs. Himneskur faðir ykkar er dýrlegasta vera alheimsins, full af elsku, gleði, hreinleika, heilagleika, ljósi, náð og sannleika. Hann vill að þið erfið allt það sem hann á dag einn.6

Þetta er ástæða þess að þið eruð á jörðu – til að læra, vaxa, taka framförum og verða allt það sem faðir ykkar á himnum hefur gert ykkur mögulegt að verða.

Til að gera þetta mögulegt, sendi hann Jesú Krist til að vera frelsari ykkar. Þetta er tilgangur hinnar miklu sæluáætlunar hans, kirkju hans, prestdæmis hans, ritninganna – alls saman.

Þetta er hlutskipti ykkar. Þetta er framtíð ykkar. Þetta er val ykkar!

Sannleikur og ákvarðanir

Kjarni sæluáætlunar Guðs er máttur ykkar til að velja.7 Auðvitað vill himneskur faðir að þið veljið eilífa gleði með sér og hann mun hjálpa ykkur að ná því fram, en hann myndi aldrei þvinga ykkur til þess.

Hann gerir ykkur því kleift að velja: Ljós eða myrkur? Gott eða illt? Gleði eða eymd? Eilíft líf eða andlegan dauða?8

Þetta hljómar eins og einfalt val, ekki satt? Á einhvern hátt virðist það samt flóknara hér á jörðu en það ætti að vera.

Vandamálið er að við sjáum hlutina ekki alltaf eins skýrt og við vildum. Postulinn Páll líkti þessu við að líta „í skuggsjá, í ráðgátu.“9 Í heiminum er mikill ruglingur um hvað er rétt eða rangt. Sannleikanum er brenglað svo hið illa virðist gott og hið góða virðist illt.10

Þegar þið hins vegar leitið sannleikans einlæglega – eilífs, óbreytanlegs sannleika – verða valkostir ykkar mikið skýrari. Já, þið munið enn glíma við freistingar og raunir. Slæmir hlutir munu enn gerast. Óskiljanlegir hlutir. Hörmulegir hlutir. Þið getið þó þraukað þegar þið vitið hver þið eruð, af hverju þið eruð hér og þegar þið treystið Guði.

Hvar finnur maður sannleika?

Hann er að finna í fagnaðarerindi Jesú Krists. Fylling þessa fagnaðarerindis er kennd í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Jesús Kristur sagði: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.“11

Þegar þið hafið mikilvægar ákvarðanir að taka, eru Jesús Kristur og hið endurreista fagnaðarerindi hans besti valkosturinn. Þegar þið hafið spurningar, eru Jesús Kristur og hið endurreista fagnaðarerindi hans besta svarið. Þegar þið eruð þróttlítil, er Jesús Kristur styrkur ykkar.

Hann veitir þreyttum mátt og vanmáttugum eykur hann styrk.

Þeir sem vona á Drottin verða endurnýjaðir með styrk hans.12

Til styrktar ungmennum

Til að hjálpa ykkur að finna veginn og að gera kenningu Krists að leiðandi áhrifavaldi í lífi ykkar, hefur Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu útbúið nýtt úrræði, endurskoðaða útgáfu af Til styrktar æskunni.

Útgáfa Til styrktar æskunni frá 2011

Í yfir 50 ár hefur Til styrktar æskunni verið til leiðsagnar fyrir fjölda kynslóða ungmenna Síðari daga heilagra. Ég geymi alltaf eintak í vasanum og deili því með fólki sem er forvitið um staðlana okkar. Bæklingurinn hefur verið uppfærður og endurnýjaður til að betra sé að standast áskoranir og freistingar okkar tíma. Ný útgáfa Til styrktar ungmennum er fáanleg á netinu á yfir 50 tungumálum og verður einnig í boði útprentuð. Hún verður gagnleg við ákvarðanatöku í lífi ykkar. Takið henni vinsamlegast opnum örmum fyrir ykkur sjálf og miðlið henni með vinum ykkar.

Útgáfa Til styrktar ungmennum frá 2022

Þessi nýja útgáfa Til styrktar ungmennum hefur undirtitilinn Leiðarvísir til ákvarðanatöku.

Svo það sé á hreinu, þá er Jesús Kristurbesti leiðarvísir sem þið getið nokkurn tíma haft til að taka ákvarðanir. Jesús Kristur er styrkur ungmenna.

Tilgangur Til styrktar ungmennum er að beina ykkur til hans. Leiðarvísirinn kennir ykkur eilífan sannleika hins endurreista fagnaðarerindis hans – sannleika um hver þið eruð, hver hann er og hverju þið getið fengið áorkað með styrk hans. Hann kennir ykkur hvernig hægt er að taka réttlátar ákvarðanir með þennan eilífa sannleika til hliðsjónar.13

Einnig er mikilvægt að vita hvað Til styrktar ungmennum gerir ekki. Bæklingurinn tekur ekki ákvarðanir fyrir ykkur. Hann veitir ykkur ekki „já“ eða „nei“ um alla þá valkosti sem þið gætuð staðið frammi fyrir. Til styrktar ungmennum einblínir á þann grunn sem þið byggið ákvarðanir ykkar á. Hann einblínir á gildi, reglur og kenningar en ekki á ákveðna og afmarkaða breytni.

Drottinn hefur alltaf leiðbeint okkur á þann hátt með spámönnum sínum. Hann biður okkur að „efla andlegt atgervi [okkar] til að hljóta opinberun.“14 Hann býður okkur að „hlýða á [sig].“15 Hann kallar okkur til þess að fylgja sér á æðri og helgari hátt.16 Við erum að læra með þessum hætti í Kom, fylg mérí hverri viku.

Ég geri ráð fyrir að leiðarvísirinn hefði getað séð ykkur fyrir löngum lista af fatnaði sem þið ættuð ekki að klæðast, orðum sem þið ættuð ekki að segja og kvikmyndum sem þið ættuð ekki að horfa á. Hefði það samt í raun verið gagnlegt í alþjóðlegri kirkju? Myndi slík nálgun raunverulega búa ykkur undir ævilangt kristið líf?

Joseph Smith sagði: „Ég kenni þeim réttar reglur og þeir stjórna [sér] sjálfir.“17

Benjamín konungur sagði þjóð sinni í Mormónsbók: „Ekki er mér mögulegt að benda á allt, sem getur leitt yður í synd. Leiðirnar og aðferðirnar eru svo margvíslegar og svo margar, að ég get ekki komið á þær tölu.“18

Benjamín konungur sagði enn fremur: „En það get ég sagt yður, … gætið yðar… hugsana yðar, orða yðar og gjörða, og virðið … boðorð Guðs og haldið … áfram í trú á … [Drottin vorn], allt til enda yðar ævidaga.“19

Frelsarinn Jesús Kristur

Er rangt að hafa reglur? Auðvitað ekki. Við þörfnumst þeirra öll á hverjum degi. Það er samt rangt að einblína eingöngu á reglur, í stað þess að einblína á frelsarann. Þið þurfið að þekkja af hverju og hvernig og íhuga síðan afleiðingar ákvarðana ykkar. Þið þurfið að leggja traust ykkar á Jesú Krist. Hann mun leiða ykkur í rétta átt. Hann er styrkur ykkar.20

Máttur sannra kenninga

Til styrktar ungmennum kunngerir djarflega kenningu Jesú Krists. Leiðarvísirinn býður ykkur einarðlega að taka ákvarðanir byggðar á kenningu Krists. Hann lýsir djarflega þeim blessunum sem Jesús Kristur lofar þeim sem fylgja vegi hans.21

Russell M. Nelson forseti kenndi: „Þegar sterkasta þrá okkar verður að láta Guð ríkja [í lífi okkar], … munu svo margar ákvarðanir verða einfaldari. … Svo mörg vandamál leysast! Þið vitið hvernig best er að huga að útliti ykkar sjálfra. Þið vitið hvað má horfa á og lesa, hvar má verja tíma sínum og hverja má umgangast. Þið vitið hverju þið viljið fá áorkað. Þið vitið hvers konar manneskja þið viljið verða.“22

Æðri staðall

Jesús Kristur hefur afar háan staðal fyrir fylgjendur sína. Boðið um að leita vilja hans af einlægni og lifa eftir sannleika hans er hæsti mögulegi staðallinn!

Mikilvægar stundlegar og andlegar ákvarðanir ættu ekki aðeins að byggja á persónulegum óskum eða því sem er hentugt eða vinsælt.23 Drottinn er ekki að segja: „Gerið hvað sem þið viljið.“

Hann segir: „Látið Guð ríkja.“

Hann segir: „Kom, … fylg mér.“24

Hann segir: „Lifið á helgari, æðri, þroskaðri máta.“

Hann segir: „Haldið boðorð mín.“

Jesús Kristur er okkar fullkomna fordæmi og af öllum mætti sálar okkar reynum við að fylgja honum.

Kæru vinir, ég endurtek, ef frelsarinn stæði hér í dag, þá myndi hann tjá óendanlega elsku sína til ykkar, algjört traust sitt til ykkar. Hann myndi segja ykkur að þið gætuð náð takmarkinu. Þið getið byggt upp líf fullt af gleði og hamingju, vegna þess að Jesús Kristur er styrkur ykkar. Þið getið fundið traust, frið, öryggi, hamingju og að þið eigið samleið nú og að eilífu, því þið munið finna allt þetta í Jesú Kristi, í fagnaðarerindi hans og í kirkju hans.

Um það ber ég hátíðlegt vitni sem postuli Drottins Jesú Krists og veiti ykkur einlæga blessun mína af djúpu þakklæti og elsku til ykkar, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Lúkas 5:10; 8:50; 12:7; Kenning og sáttmálar 38:15; 50:41; 98:1.

  2. Kenning og sáttmálar 6:36.

  3. Matteus 14:27; Jóhannes 16:33; Kenning og sáttmálar 61:36; 68:6; 78:18.

  4. Jóhannes 14:1, 27.

  5. Sjá Matteus 11:28–30.

  6. Sjá Kenning og sáttmálar 84:38.

  7. Hægt væri að segja að áætlun föðurins sé hönnuð til að gera ykkur kleift að tjá þrár ykkar með því sem þið veljið, svo þið getið hlotið fyllingu þess sem þið þráið. Líkt og öldungur Dale G. Renlund kenndi: „Uppeldismarkmið föður okkar á himnum er ekki að láta börn sín gera það sem rétt er, heldur að láta börn sín velja að gera það sem rétt er og að lokum verða eins og hann er“ („Kjósið þá í dag,“ aðalráðstefna, október 2018).

  8. Sjá 2. Nefí 2:26–27.

  9. 1. Korintubréf 13:12.

  10. Sjá Jesaja 5:20.

  11. Jóhannes 14:6.

  12. Sjá Jesaja 40:29–31.

  13. Sem Síðari daga heilagir, þá erum við oft þekkt fyrir það sem við gerum og gerum ekki – atferli okkar. Þetta getur verið jákvætt, en það er jafnvel betra að vera þekkt fyrir það sem við vitum (sannleikann sem knýr okkur til þessa atferlis) og fyrir það hvern við þekkjum (frelsarann – og hvernig elska okkar til hans hvetur okkar til þessa atferlis).

  14. Russell M. Nelson, „Opinberun fyrir kirkjuna, opinberun fyrir eigið líf,“ aðalráðstefna, apríl 2018.

  15. Russell M. Nelson, „Hlýð þú á hann,“ aðalráðstefna, apríl 2020.

  16. Reglumiðuð nálgun nýja bæklingsins Til styrktar ungmennum er í samræmi við önnur nýleg verkefni sem kirkja frelsarans hefur kynnt, þar með talið Boða fagnaðarerindi mitt, hirðisþjónusta, heimilismiðað námsefni í Kom, fylg mér, áætlun barna og unglinga, Kenna að hætti frelsaransog nýja Almenna handbókin. Drottinn er greinilega að efla andlega getu okkar. Hann sýnir sáttmálslýð sínum á síðari dögum aukið traust.

  17. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 282.

  18. Mósía 4:29. Á ákveðinn hátt er þetta það sem farísearnir á dögum Jesú reyndu að gera. Í ákafa sínum að koma í veg fyrir að fólk bryti lögin, söfnuðu þeir saman mörg hundruð reglum byggðum á eigin skilningi á helgum ritum. Það sem farísearnir misskildu var að þeir héldu að reglur þeirra myndu bjarga sér. Svo, þegar frelsarinn birtist, þekktu þeir hann ekki.

  19. Mósía 4:30; skáletrað hér.

  20. Önnur ástæða fyrir því að þörf er fyrir reglumiðaða nálgun á okkar tíma er aukin menningarfjölbreytni í kirkju Drottins. Reglur eru eilífar og algildar. Ákveðnar reglur eða notkun þeirra reglna virka vel sums staðar en ekki annars staðar. Það sem sameinar okkur er Jesús Kristur og hin eilífu sannindi sem hann kenndi, jafnvel þótt ákveðin notkun sé mismunandi á mismunandi tíma og í mismunandi menningarheimum. Því er vandamálið við það að halda lista yfir allt sem má og má ekki gera, ekki aðeins að það er óhentugt og fallvalt. Vandamálið er að það beinir athygli okkar burt frá hinni sönnu uppsprettu styrks okkar, frelsara okkar, Jesú Kristi.

  21. Fyrir mörgum árum sagði Boyd K. Packer forseti þessi máttugu orð: „Sönn kenning, og skilningur á henni, breytir viðhorfi og hegðun. Nám á kenningum fagnaðarerindisins mun bæta hegðun hraðar en hegðunarnám mun bæta hegðun“ („Do Not Fear,“ Liahona, maí 2004, 79).

    Ezra Taft Benson forseti kenndi svipaðan sannleika: „Drottinn vinnur innan frá og út. Heimurinn vinnur utan frá og inn. … Heimurinn mótar hegðun manna, en Kristur megnar að breyta eðli manna“ („Born of God,“ Ensign, nóv. 1985, 6).

    Þegar spámaðurinn Alma í Mormónsbók sá hið illa í heiminum umhverfis, snéri hann sér að orði Guðs því hann vissi að það „hafði haft kröftugri áhrif á huga fólksins en sverðið eða nokkuð annað, sem fyrir það hafði komið – þá áleit Alma ráðlegast að … [láta] reyna á kraft Guðs orðs“ (Alma 31:5).

  22. Russell M. Nelson, „Lát Guð ríkja,“ aðalráðstefna, október 2020. Nelson forseti gaf dæmi um þessa nálgun þegar hann kenndi okkur um að virða hvíldardaginn: „Þegar ég var mikið yngri, þá ígrundaði ég verk þeirra sem höfðu búið til lista yfir það sem gera og gera ætti ekki á hvíldardegi. Það var svo síðar sem mér lærðist í ritningunum að breytni mín og viðhorf á hvíldardegi væri teikn á milli mín og himnesks föður. Þegar mér bættist sá skilningur, þá þurfti ég ekki lista yfir það sem á að gera og ekki gera. Þegar ég þurfti að taka ákvörðun um hvort eitthvað væri viðeigandi eða ekki á hvíldardegi, þá spurði ég einfaldlega sjálfan mig: „Hvaða teikn vil ég gefa Guði?“ Þessi spurning gerði mér kleift að greina glögglega á milli valkosta á hvíldardegi“ („Hvíldardagurinn er feginsdagur,“ aðalráðstefna, apríl 2015).

  23. Öldungur David A. Bednar kenndi að „reglur réttlætisins hjálpa okkur … að líta fram hjá eigin óskum og sjálfhyggjuþrám með því að gefa dýrmæta sýn á eilífan sannleika, er við tökumst á við mismunandi kringumstæður, áskoranir, ákvarðanir og reynslu jarðlífsins“ („Grundvallarreglur fagnaðarerindis míns,“ aðalráðstefna, apríl 2021).

  24. Lúkas 18:22.