Fylgja Jesú Kristi í trú við hvert fótmál
Hann getur borið okkur í dag í gegnum erfiða tíma. Hann gerði það fyrir fyrstu brautryðjendurna og hann gerir það núna fyrir hvert og eitt okkar.
Ég þakka kórnum fyrir að syngja „Trú við hvert fótmál.“ Lag og texti þessa söngs voru samin árið 1996 af bróður Newell Dayley,1 í því tilefni að 150 ár voru liðin frá komu fyrstu brautryðjendanna til Saltvatnsdalsins árið 1847.
Þótt þessi söngur hafi verið saminn í tilefni þeirrar hátíðar, þá á boðskapur hans við um allan heiminn.
Ég hef alltaf kunnað vel við viðlagið:
Við fylgjum Kristi, Drottni, í trú við hvert fótmál.
Með sælli kærleiks sigurvon vér syngjum lofgjörð hans.2
Bræður og systur, ég ber vitni um að þegar við fylgjum Jesú Kristi í trú við hvert fótmál, þá er von. Það er von í Drottni Jesú Kristi. Það er von fyrir alla í þessu lífi. Það er von til að fá sigrast á mistökum okkar, sorgum okkar og baráttu og raunum okkar og erfiðleikum. Það er von í iðrun og fyrirgefningu og í því að fyrirgefa öðrum. Ég ber vitni um að það er von og friður í Kristi. Hann getur borið okkur í dag í gegnum erfiða tíma. Hann gerði það fyrir fyrstu brautryðjendurna og hann gerir það núna fyrir hvert og eitt okkar.
Á þessu ári eru 175 ár liðin frá komu fyrstu brautryðjendanna til Saltvatnsdalsins, sem hefur fengið mig til að hugsa um forfeður mína, sem sumir hverjir gengu frá Nauvoo til Saltvatnsdalsins. Ég á langafa og langömmu sem í æsku gengu yfir slétturnar. Henry Ballard var 20 ára;3 Margaret McNeil var 13 ára;4 og Joseph F. Smith, sem síðar varð sjötti forseti kirkjunnar, var aðeins 9 ára þegar hann kom til Saltvatnsdalsins.5
Þau stóðu frammi fyrir alls kyns skorti á slóðinni, svo sem köldum vetrum, veikindum og skorti á fullnægjandi fötum og mat. Þegar Henry Ballard kom til að mynda í Saltvatnsdalinn, gladdist hann yfir því að sjá „fyrirheitna landið“ en lifði í ótta við að einhver gæti séð hann, vegna þess að fötin sem hann klæddist voru svo slitin að þau huldu ekki líkama hans. Hann faldi sig á bak við runna daginn á enda, þar til dimmt var orðið. Hann gekk síðan í hús og bað um föt, svo hann gæti haldið ferð sinni áfram og fundið foreldra sína. Hann var Guði þakklátur fyrir að komast öruggur til síns framtíðarheimilis.6
Langafi minn og langamma fylgdu Jesú Kristi í trú við hvert fótmál, í gegnum allar raunir sínar. Ég er þakklát þeim fyrir að gefast aldrei upp. Trúarfótmál þeirra hefur blessað mig og komandi kynslóðir, eins og trúarfótmál ykkar í dag munu blessa afkomendur ykkar.
Orðin brautryðjandi og ryðja eru nafnorð og sagnorð. Nafnorðið getur þýtt einstakling sem er meðal þeirra fyrstu til að kanna landsvæði og setjast þar að. Sögnin getur þýtt að opna öðrum leið sem á eftir koma.7
Þegar ég hugsa um brautryðjendur sem hafa opnað öðrum leið, hugsa ég fyrst um spámanninn Joseph Smith. Joseph var brautryðjandi, vegna þess að trúarfótspor hans leiddu hann að trjálundi, þar sem hann kraup í bæn og opnaði okkur leið til að hljóta fyllingu fagnaðarerindis Jesú Krists. Trú Josephs til að „[spyrja Guð]“8 þennan vormorgun, árið 1820, opnaði leiðina fyrir endurreisn fyllingar fagnaðarerindis Jesú Krists, þar á meðal spámanna og postula, sem voru kallaðir til að þjóna á jörðu á ný.9 Ég veit að Joseph Smith er spámaður Guðs. Ég veit að trúarfyllt fótmál hans leiddi til þess að hann kraup í návist Guðs föður og ástkærs sonar hans, Jesú Krists.
Trúarfótmál spámannsins Josephs gerði honum mögulegt að vera verkfæri Drottins við að leiða fram Mormónsbók, sem er annað vitni um Jesú Krist og friðþægingarnáð hans.
Ég ber vitni um að með trú og þrautseigju, andspænis ótrúlegum erfiðleikum og andstöðu, gat Joseph Smith verið verkfæri í höndum Drottins við að stofna kirkju Jesú Krists aftur á jörðu.
Á síðustu aðalráðstefnu ræddi ég um það hvernig fastatrúboðsþjónusta mín hefði blessað mig. Ég var blessaður þegar ég kenndi um hina dýrðlegu sáluhjálparáætlun himnesks föður, fyrstu sýn Josephs Smith og þýðingu hans á Mormónsbók. Þessar endurreistu kenningar leiddu mig í trú við hvert fótmál, við að kenna þeim sem voru fúsir til að hlusta á boðskap hins endurreista fagnaðarerindis.
Trúboðar okkar í dag eru nútíma brautryðjendur, því þeir miðla þessum dýrðlega boðskap með fólki um allan heim og opna þannig leið fyrir börn himnesks föður til að þekkja hann og son hans, Jesú Krist. Með því að meðtaka fagnaðarerindi Jesú Krists, opnast leið fyrir alla til að búa sig undir og taka á móti helgiathöfnum og blessunum kirkjunnar og musterisins.
Á síðustu aðalráðstefnu staðfesti Russell M. Nelson forseti: „Drottinn hefur beðið sérhvern verðugan, hæfan ungan mann að búa sig undir og þjóna í trúboði“ og að „trúboð er líka máttugt, en valfrjálst, tækifæri“ fyrir „ungar og hæfar systur.“10
Kæru piltar og stúlkur, trúarfótmál ykkar munu hjálpa ykkur að fylgja boði Drottins um að þjóna í trúboði – að verða nútíma brautryðjendur – með því að opna börnum Guðs leið til að finna og vera á sáttmálsveginum, sem leiðir aftur til dýrðar hans.
Nelson forseti hefur verið brautryðjandi í kirkjunni. Sem postuli, hefur hann ferðast til margra landa og opnað þau fyrir boðun fagnaðarerindisins. Skömmu eftir að hann varð spámaður og forseti kirkjunnar bað hann okkur að auka andlega getu okkar til að taka á móti opinberun.11 Hann heldur áfram að kenna okkur að styrkja vitnisburð okkar. Á trúarsamkomu fyrir ungt fullorðið fólk, sagði hann:
„Ég bið ykkur að axla ábyrgð á vitnisburði ykkar. Vinnið fyrir honum. Gerið hann að ykkar eigin. Hlúið að honum. Endurnærið hann, svo hann styrkist. …
Fylgist [síðan] með kraftaverkunum gerast í lífi ykkar.“12
Hann er að kenna okkur hvernig verða á andlega sjálfstæðari. Hann hefur sagt: „Á komandi tíð verður hins vegar ekki mögulegt að komast af andlega, án þess að njóta handleiðslu og huggunar og stöðugra áhrifa heilags anda.“13
Ég ber vitni um að Russell M. Nelson forseti er spámaður Guðs á jörðu á okkar tíma.
Frelsari okkar, Jesús Kristur, er fullkominn brautryðjandi í því að fyrirbúa veginn. Vissulega er hann „vegurinn“14 sem uppfyllir sáluhjálparáætlunina, svo við getum iðrast og í trú á hann snúið aftur til himnesks föður.
„Jesús sagði: ‚Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.‘15 Hann hefur lofað að skilja okkur ekki eftir munaðarlaus; Hann mun koma til okkar í raunum okkar.16 Hann hefur boðið okkur að „[koma] til [sín] í einlægum ásetningi, og [hann] mun gjöra [okkur heil].“17
Ég ber vitni um að Jesús Kristur er frelsari okkar og lausnari, málsvari okkar hjá föðurnum. Himneskur faðir hefur opnað okkur leið til að snúa aftur til sín, með því að við fylgjum ástkærum syni hans, Jesú Kristi, í trú við hvert fótmál.
Langafar mínir og langömmur, og aðrir fyrritíðar brautryðjendur, stóðu frammi fyrir mörgum hindrunum er þeir komu í Saltvatnsdalinn á vögnum, handkerrum og gangandi. Við munum líka takast á við áskoranir í okkar eigin ferðum í lífi okkar. Við ýtum ekki handvögnum á undan okkur eða ökum yfirbyggðum vögnum yfir brött fjöll og í gegnum djúpa snjóskafla; við erum að reyna, eins og þeir gerðu, að sigrast andlega á freistingum og áskorunum okkar tíma. Við höfum slóðir að fara; við höfum hæðir – og stundum fjöll – til að klífa. Þótt prófraunirnar í dag séu aðrar en fyrritíðar brautryðjendanna, eru þær ekki síður krefjandi fyrir okkur.
Það er mikilvægt að fylgja spámanninum og standa tryggum fótum á sáttmálsvegi trúfestis, eins og það var fyrir fyrritíðar brautryðjendur.
Fylgjum Jesú Kristi í trú við hvert fótmál. Við þurfum að þjóna Drottni og þjóna hvert öðru. Við þurfum að styrkja okkur andlega með því að halda og virða sáttmála okkar. Við ættum ekki að glata þeirri tilfinningu að brýnt sé að halda boðorðin. Satan reynir að draga úr skuldbindingu okkar og kærleika okkar til Guðs og Drottins Jesú Krists. Hafið þó hugfast, að ef einhver skyldi villast af leið, mun frelsarinn aldrei missa sjónar af okkur. Með blessun iðrunar, getum við snúið til hans. Hann mun hjálpa okkur að læra, vaxa og breytast þegar við reynum að halda okkur á sáttmálsveginum.
Megum við alltaf feta í fótspor Jesú Krists og einblína á hann í trú við hvert fótmál og standa föstum fótum á sáttmálsveginum. Það er auðmjúk bæn mín, í nafni Jesú Krists, amen.