Hugrekki til að boða sannleikann
Þegar við lærum sannleikann, mun Drottinn veita okkur tækifæri til að gera það sem hann myndi gera, væri hann hér í dag.
Árið 1982 var ég að klára tveggja ára gráðuna mína í staðfræði í tækniskóla.
Við lok annarinnar, bauð bekkjarbróðir minn mér að eiga smá spjall. Ég man að við yfirgáfum hina bekkjarfélagana og fórum á svæði við hliðina á íþróttavelli. Þegar við komum þangað, talaði hann við mig um trúarsannfæringu sína og sýndi mér ekki bara bók, heldur gaf hann mér bókina. Ég man í alvöru ekki allt sem hann sagði, en ég man þessa stund mjög vel og hvernig mér leið þegar hann sagði: „Mig langar að gefa þér vitnisburð minn um að þessi bók er sönn og að fagnaðarerindi Jesú Krists hefur verið endurreist.“
Eftir samtal okkar fór ég heim, fletti nokkrum síðum í bókinni og setti hana svo upp í hillu. Þar sem þetta var í lok árs og þetta var síðasta árið mitt áður en ég lauk staðfræðigráðunni, veitti ég hvorki bókinni mikla athygli né bekkjarbróður mínum, sem hafði gefið mér hana. Þið getið þegar getið upp á nafni bókarinnar. Já, það var Mormónsbók.
Fimm mánuðum seinna komu trúboðarnir heim til mín, þeir voru við það að fara þegar ég kom heim frá vinnu. Ég bauð þeim aftur inn. Við settumst niður á pallinn fyrir framan húsið mitt og þeir kenndu mér.
Í leit minni að sannleikanum, spurði ég þá hvaða kirkja væri sönn og hvernig ég gæti komist að því. Trúboðarnir kenndu mér að ég gæti öðlast svarið sjálfur. Með mikilli eftirvæntingu og þrá, tók ég áskorun þeirra um að lesa nokkra kapítula í Mormónsbók. Ég bað af einlægni og með einbeittum huga (sjá Moróní 10:4–5). Svarið við spurningu minni var skýrt og nokkrum dögum seinna – nánar tiltekið 1. maí 1983 – var ég skírður og staðfestur meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.
Þegar ég hugsa um þá atburðarrás sem átti sér stað, sé ég greinilega hve mikilvægt hugrekki bekkjarbróður míns var þegar hann gaf mér vitnisburð sinn um endurreisn fagnaðarerindisins og veitti mér áþreifanlega sönnun um endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists, já, Mormónsbók. Þessi einfaldi atburður, sem þó hafði djúpstæða merkingu fyrir mig, skapaði tengingu milli mín og trúboðanna þegar ég hitti þá.
Ég hafði verið kynntur fyrir sannleikanum og eftir skírn mína varð ég lærisveinn Jesú Krists. Næstu ár á eftir lærði ég, með aðstoð mjög sérstaks fólks, svo sem leiðtoga, kennara og vina og með því að læra sjálfur, að þegar ég ákvað að verða lærisveinn Jesú Krists, hefði ég meðtekið það hlutskipti að verja ekki bara sannleikann, heldur líka að boða hann.
Þegar við samþykkjum að trúa á sannleikann og fylgja honum og þegar við leggjum okkur fram við að verða sannir lærisveinar Jesú Krists, fáum við ekki tryggingu fyrir því að við munum ekki gera mistök, að við munum ekki freistast til að hverfa frá sannleikanum, að við verðum ekki gagnrýnd eða jafnvel að við munum ekki upplifa mótlæti. Hins vegar kennir þekkingin á sannleikanum að þegar við stígum inn á hinn krappa og þrönga veg, sem mun leiða okkur aftur í nærveru himnesks föður, að alltaf verður til leið fyrir okkur að standast þessi vandamál (sjá 1. Korintubréf 10:13), það verður alltaf mögulegt að efast um efasemdir okkar áður en við efumst um trú okkar (sjá Dieter F. Uchtdorf, „Komið og gangið til liðs við okkur,“ aðalráðstefna, október 2013); og að lokum höfum við tryggingu fyrir því að við verðum aldrei ein þegar við tökumst á við erfiðleika, því Guð vitjar fólks síns í þrengingum þess (sjá Mósía 24:14).
Þegar við lærum sannleikann, mun Drottinn veita okkur tækifæri til að gera það sem hann myndi gera, væri hann hér í dag. Hann sýndi okkur sannlega með kenningum sínum það sem við verðum að gera: „Og þér skuluð fara í krafti anda míns og boða fagnaðarerindi mitt, tveir og tveir saman, í mínu nafni, og hefja upp rödd yðar sem lúðurhljóm, og boða orð mitt sem englar Guðs“ (Kenning og sáttmálar 42:6). Tækifærin fyrir trúboðsþjónustu á unglingsárum okkar eru einstök!
Kæru piltar, frestið ekki undirbúningi ykkar fyrir þjónustu við Drottin sem trúboðar. Þegar þið standið frammi fyrir aðstæðum sem gætu gert ákvörðun ykkar um að þjóna í trúboði erfiða – eins og að fresta námi ykkar um stund, kveðja kærustu ykkar án neinnar tryggingar um að þið munið aftur fara á stefnumót með þeim eða þurfið jafnvel að segja skilið við starf – minnist þá fordæmis frelsarans. Í þjónustu sinni stóð hann einnig frammi fyrir erfiðleikum, svo sem gagnrýni, ofsóknum og að lokum hinum bitra kaleik friðþægingarfórnar hans. Samt leitaðist hann við að gera vilja föður síns undir öllum kringumstæðum og gefa honum dýrðina. (Sjá Jóhannes 5:30; 6:38–39; 3. Nefí 11:11; Kenning og sáttmálar 19:18–19.)
Stúlkur, ef þið þráið það, er ykkur velkomið að starfa í víngarði Drottins og þegar þið ákveðið að þjóna honum, þá munið þið ekki fara varhluta af þessum sömu áskorunum.
Öllum þeim sem ákveða að þjóna honum, lofa ég að þessir 24 eða 18 mánuðir í þjónustu á trúboðsakrinum munu ganga yfir á sama hátt og þeir myndu ganga yfir ef þið væruð heima, en tækifærin sem bíða hinna verðugu pilta og stúlkna í þessari kirkju á trúboðsakrinum eru einstök. Ekki er hægt að hunsa forréttindi þess að vera fulltrúi frelsarans Jesú Krists og kirkju hans. Þátttaka í óteljandi bænum, að þroska og gefa vitnisburð ykkar oft á dag, að stunda ritningarnám í margar klukkustundir og að hitta fólk sem þið mynduð aldrei hitta ef þið hefðuð verið heima, eru ólýsanlegar upplifanir. Sams konar reynsla bíður þeirra ungmenna sem Drottinn kallar í þjónustutrúboð. Þið eruð mjög velkomin og nauðsynleg. Gerið ekki lítið úr mikilvægi þjónustutrúboðs, því þjónustutrúboð veita einnig ólýsanlega upplifun. Virði sálna er mikið í augum Guðs, (Kenning og sáttmálar 18:10), þar með talið virði ykkar sálna.
Þegar þið snúið aftur af trúboði ykkar, er kærasta eða kærasti ykkar kannski ekki enn að bíða ykkar, en þið hafið lært mjög vel hvernig stofna á til áhrifaríkra sambanda. Nám ykkar mun vera ykkur skiljanlegra með þeirri innsýn sem þið hafið fengið við að undibúa ykkur vel fyrir vinnustaðinn og að lokum, þá munið þið hafa fullvissuna um að hafa boðað fagnaðarerindi friðar af hugrekki og borið vitni um hið endurreista fagnaðarerindi.
Þið ykkar sem eruð gift og á mismunandi stöðum í lífi ykkar, eruð mjög nauðsynleg í verki Drottins. Undirbúið ykkur. Lifið heilnæmu lífi og keppið að því að verða stundlega og andlega sjálfbjarga, því tækifærin til að gera það sem Drottinn myndi gera fyrir börn sín takmarkast ekki við einn aldurshóp. Yndislegustu upplifanir mínar og eiginkonu minnar á undanförnum árum hafa hlotnast okkur í þjónustu við hlið sérstakra hjóna, í þjónustu á sérstökum stöðum og við þjónustu sérstaks fólks.
Sú reynsla sem ég upplifði við lok staðfræðináms míns, kenndi mér að við verjum sannleikann ávallt þegar við boðum hann og að það er virkur hlutur að verja sannleikann. Það ætti aldrei að verja sannleikann með ágengni, heldur frekar með einlægum áhuga á að elska, miðla og bjóða því fólki sem við erum að gefa vitnisburð um sannleikann, einungis með stundlega og andlega velferð barna hins ástríka himneska föður í huga (sjá Mósía 2:41).
Á aðalráðstefnunni í október 2021, kenndi ástkær spámaður okkar, Russell M. Nelson forseti, að andstætt því sem sumir telja, þá er raunverulega til eitthvað sem við köllum rétt og rangt. Það er raunverulega til algjör sannleikur – eilífur sannleikur. (Sjá „Hreinn sannleikur, hrein kenning og hrein opinberun,“ aðalráðstefna, okt. 2021.)
Heilög ritning kennir okkur að „sannleikurinn er þekking á hlutum eins og þeir eru, eins og þeir voru og eins og þeir munu verða“ (Kenning og sáttmálar 93:24).
Þekkingin á sannleikanum gerir okkur ekki betri en annað fólk, en kennir okkur það sem við verðum að gera til að snúa aftur í návist Guðs.
Þegar þið haldið ákveðin áfram í Kristi og ekki aðeins með hugrekki til að boða sannleikann, heldur til að lifa eftir honum, þá munið þið finna huggun og frið í þeim glundroða sem þið standið frammi fyrir þessa daga.
Áskoranir lífsins geta fellt okkur en vitið að þegar við iðkum trú á Jesú Krist, munu „mótlæti [okkar] og þrengingar … aðeins vara örskamma stund“ (Kenning og sáttmálar 121:7) í eilífu sjónarmiði. Gætið þess að setja ekki tímamörk á endalok erfiðleika ykkar og áskorana. Treystið á himneskan föður og gefist ekki upp, því að ef við gefumst upp, munum við aldrei vita hvernig endir ferðar okkar hefði getað verið í ríki Guðs.
Haldið fast í sannleikann, lærið frá uppsprettu sannleikans.
-
Ritningunum (sjá 2. Nefí 32:3).
-
Orðum spámannanna (sjá Amos 3:7).
-
Heilögum anda (sjá Jóhannes 16:13).
Ég gef vitnisburð minn um Jesú Krist og að þetta er hans kirkja. Við erum með lifandi spámann og við munum ávallt finna frelsistilfinningu þegar við boðum sannleikann af hugrekki. Í nafni Jesú Krists, amen.