Varanleg hamingja
Að sönnu er varanleg gleði og eilífð með þeim sem við elskum kjarninn í hamingjuáætlun Guðs.
Vinir, kæru bræður og systur, munið þið eftir því að hafa trúað, eða viljað trúa, á varanlega hamingju?
Svo byrjar lífið. Við „fullorðnumst.“ Sambönd verða flóknari. Þessi heimur er hávær, fjölmennur, ýtinn, tilgerðarlegur og með látalæti. Samt trúum við „djúpt í hjarta“1 eða viljum trúa að varanleg hamingja sé möguleg og raunveruleg einhvers staðar og einhvern veginn.
„Varanleg hamingja“ er ekki ímyndað efni í ævintýrum. Að sönnu er varanleg gleði og eilífð með þeim sem við elskum kjarninn í hamingjuáætlun Guðs. Hin kærleiksríka fyrirbúna leið hans, getur gert okkur varanlega hamingjusöm á eilífri ferð okkar.
Við höfum margt til að gleðjast yfir og vera þakklát fyrir. Samt er ekkert okkar fullkomið, né nokkur fjölskylda. Sambönd okkar hafa að geyma elsku, félagsskap og persónuleika, en oft einnig núning, sársauka, stundum djúpan sársauka.
„Eins og allir deyja vegna sambands síns við Adam, svo munu allir lífgaðir verða vegna sambands síns við Krist.“2 Að vera lifandi í Jesú Kristi, felur í sér ódauðleika – gjöf hans um líkamlega upprisu okkar. Þegar við lifum í trú og hlýðni, getur líf í Kristi líka falið í sér gleðiríkt eilíft líf með Guði og þeim sem við elskum.
Á eftirtektarverðan hátt, leiðir spámaður Drottins okkur nær frelsaranum, meðal annars með helgiathöfnum og sáttmálum musterisins, sem eru okkur nærtækari á fleiri stöðum. Við höfum þýðingarmikil tækifæri og gjöf til að uppgötva nýjan andlegan skilning, kærleika, iðrun og fyrirgefningu með hvert öðru og fjölskyldum okkar, um tíma og eilífð.
Með leyfi, ætla ég að miðla tveimur helgum upplifunum sem vinir hafa sagt um það hvernig Jesús Kristur sameinar fjölskyldur með því að lækna jafnvel ágreining á milli kynslóða.3 Friðþæging Jesú Krists sem er „algjör og eilíf,“4 „sterkari en bönd dauðans,“5 megnar að hjálpa okkur að sættast við fortíð okkar og vekja von um framtíðina.
Þegar vinkona mín og eiginmaður hennar gengu í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, lærðu þau að fjölskyldusambönd þyrftu ekki að vara „þar til dauðinn aðskilur.“ Í húsi Drottins geta fjölskyldur sameinast að eilífu (innsiglast).
Vinkona mín vildi þó ekki vera innsigluð föður sínum. „Hann var ekki góður eiginmaður við móður mína. Hann var ekki góður pabbi við börnin sín,“ sagði hún. „Pabbi verður að bíða. Ég hef enga löngun til að vinna musterisverk hans og vera innsigluð honum í eilífðinni.“
Í eitt ár fastaði hún, baðst fyrir, talaði mikið við Drottin um föður sinn. Loks var hún tilbúin. Musterisverki föður hennar var lokið. Hún sagði síðar: „Í svefni birtist faðir minn mér í draumi, allur hvítklæddur. Hann hafði breyst. Hann sagði: ,Sjáðu mig. Ég er allur hreinn. Þakka þér fyrir að vinna verkið fyrir mig í musterinu.‘“ Faðir hennar bætti við: „Stattu upp og farðu aftur í musterið; bróðir þinn bíður eftir skírn.“
Vinkona mín segir: „Forfeður mínir og þeir sem eru farnir bíða óþreyjufullir eftir því að verk þeirra verði unnið.“
„Hvað mig varðar,“ segir hún, „er musterið staður til að lækna, læra og viðurkenna friðþægingu Jesú Krists.
Önnur upplifun. Annar vinur rannsakaði ættarsögu sína af kostgæfni. Hann vildi bera kennsl á langafa sinn.
Snemma einn morgun, sagði vinur minn að hann fyndi andlega nærveru manns í herberginu sínu. Maðurinn vildi finnast og vera þekktur í fjölskyldu sinni. Maðurinn fann fyrir eftirsjá vegna mistaka sem hann hafði nú iðrast fyrir. Maðurinn hjálpaði vini mínum að skilja að vinur minn hefði engin erfðafræðileg tengsl við þann sem vinur minn taldi vera langafi sinn. „Með öðrum orðum,“ sagði vinur minn, „ég hafði uppgötvað langafa minn og komst að því að hann var ekki sú persóna sem ættarheimildir okkar staðhæfðu að væri langafi okkar.
Ættartengsl mín skýrðust, vinur minn sagði: „Mér finnst ég vera frjáls, sáttur. Það skiptir öllu máli að vita hver fjölskyldan mín er.“ Vinur minn veltir fyrir sér: „Undin grein merkir ekki slæmt tré. Hvernig við komum inn í þennan heim skiptir minna máli en hver við erum þegar við yfirgefum hann.“
Helg ritning og helg upplifun af persónulegri lækningu og friði, þar á meðal með þeim sem lifa í andaheiminum, undirstrika fimm kenningarlegar reglur.
Í fyrsta lagi: Þungamiðjan í áætlun Guðs um endurlausn og hamingju, er loforð Jesú Krists, fyrir friðþægingu hans, að sameina anda okkar og líkama, svo þeir verði „aldrei framar aðskildir, svo að þeir gætu hlotið fyllingu gleðinnar.“6
Í öðru lagi: Friðþæging – eining í Kristi – verður að veruleika þegar við iðkum trú og berum ávöxt til iðrunar.7 Sem í dauðleika, svo í ódauðleika. Helgiathafnir musterisins einar sér breyta ekki okkur sjálfum eða þeim sem eru í andaheiminum. Þessar guðlegu helgiathafnir gera hins vegar mögulegt að gerðir séu sáttmálar við Drottin, sem geta leitt til samhljóms við hann og við hvert annað.
Gleði okkar verður full þegar við finnum náð Jesú Krists og fyrirgefningu fyrir okkur. Þegar við svo bjóðum hverju öðru kraftaverk náðar hans og fyrirgefningar, getur miskunnin sem við hljótum og miskunnin sem við veitum gert óréttvísi lífsins að réttvísi.8
Í þriðja lagi: Guð þekkir okkur fullkomlega. „Guð lætur ekki að sér hæða,“9 né er hægt að blekkja hann. Með fullkominni miskunn og réttlæti umvefur hann auðmjúka og iðrandi í öruggum faðmi sínum.
Í Kirtland musterinu sá spámaðurinn Joseph Smith í sýn bróður sinn Alvin frelsaðan í himneska ríkinu. Spámaðurinn Joseph undraðist, því Alvin hafði dáið áður en hann hlaut hina frelsandi helgiathöfn skírnarinnar.10 Drottinn útskýrði hughreystandi af hverju: Drottinn „mun dæma [okkur] samkvæmt verkum [okkar], samkvæmt því, sem hjörtu [okkar] þrá.“11 Sál okkar ber vitni um verk okkar og þrár.
Sem betur fer, þá vitum við að „hinir dánu, sem iðrast, munu endurleystir fyrir hlýðni við helgiathafnir Guðs húss“12 og friðþægingu Krists. Í andaheiminum gefst jafnvel þeim sem eru í synd og brotum tækifæri til að iðrast.13
Aftur á móti, munu þeir sem velja illsku af ásettu ráði, sem meðvitað fresta iðrun, eða sem á einhvern hátt brjóta boðorðin yfirvegað eða viljandi og gera ráð fyrir auðveldri iðrun, verða dæmdir af Guði með „ljósa [endurminningu] um alla sekt [sína].“14 Við getum ekki vísvitandi syndgað á laugardegi og síðan vænst þess að fyrirgefning hljótist sjálfkrafa með viðtöku sakramentis á sunnudegi. Við trúboða eða aðra sem segja ekki nauðsynlegt að hlíta trúboðsreglum til að geta fylgt andanum, segi ég: Hafið hugfast að það laðar að andann að hlíta trúboðsreglum. Ekkert okkar ætti að fresta iðrun. Blessanir iðrunar koma í ljós þegar við hefjum iðrun.
Í fjórða lagi: Drottinn veitir okkur guðlegt tækifæri til að verða líkari sér þegar við bjóðum fram endurleysandi staðgengilshelgiathafnir í musterinu, sem aðrir þurfa en geta ekki framkvæmt á eigin spýtur. Við verðum fullgerðari og fullkomnari15 er við verðum „sem bjargvættir … [á Síonarfjalli].“16 Þegar við þjónum öðrum, getur heilagur andi fyrirheitsins vottað helgiathafnirnar og helgað bæði gefanda og þiggjanda. Bæði gefandi og þiggjandi geta gert og auðgað umbreytandi sáttmála og með tímanum hlotið hinar fyrirheitnu blessanir Abrahams, Ísaks og Jakobs.
Að lokum, í fimmta lagi: Líkt og gullna reglan17 kennir, býður helgandi samstilling iðrunar og fyrirgefningar okkur öllum að færa öðrum það sem við sjálf þörfnumst og þráum.
Stundum gerir fúsleiki okkar til að fyrirgefa einhverjum, bæði viðkomandi og okkur sjálfum mögulegt að trúa því að við getum iðrast og hlotið fyrirgefningu. Stundum hljótum við fúsleika til að iðrast og getu til að fyrirgefa á mismunandi tíma. Frelsarinn er meðalgangari okkar við Guð, en hann hjálpar líka við að koma okkur til okkar sjálfa og hvers annars, þegar við komum til hans. Einkum þegar særindi og sársauki eru djúp, er erfitt að lagfæra sambönd okkar og lækna hjörtu okkar, ef til vill okkur sjálfum ómögulegt. Himinninn getur þó veitt okkur styrk og visku umfram okkar eigin getu, til að vita hvenær við eigum að halda fast og hvernig á að sleppa takinu.
Við erum minna ein, þegar við gerum okkur grein fyrir að við erum ekki ein. Frelsari okkar skilur alltaf.18 Með hjálp frelsara okkar, getum við falið Guði dramb okkar, sársauka okkar, syndir okkar. Hvernig sem okkur kann að líða þegar við byrjum, verðum við heil þegar við treystum honum fyrir því að gera sambönd okkar heil.
Drottinn, sem sér og skilur fullkomlega, fyrirgefur hverjum sem hann vill; við (sem erum ófullkomin) eigum að fyrirgefa öllum. Þegar við komum til frelsara okkar, einblínum við minna á okkur sjálf. Við dæmum minna og fyrirgefum meira. Að treysta á verðleika hans, miskunn og náð,19 getur leyst okkur frá deilum, reiði, misnotkun, afskiptaleysi, ósanngirni og líkamlegum og sálrænum áskorunum, sem stundum fylgja líkamanum í jarðneskum heimi. Varanleg hamingja merkir ekki að í hverju sambandi ríki eilíf hamingja. Í þúsund ára ríkinu, þegar Satan er bundinn,20 gæti okkur þó veist nauðsynlegur tími og óvæntar leiðir til að elska, skilja og vinna úr hlutunum, er við búum okkur undir eilífðina.
Við finnum samfélag himins í hvert öðru.21 Verk Guðs og dýrð felur í sér að gera varanlega hamingju mögulega.22 Eilíft líf og upphafning er að þekkja Guð og Jesú Krist, svo að við munum verða, fyrir guðlegan kraft, þar sem þeir eru.23
Kæru bræður og systur, Guð, okkar himneski faðir og hans elskaði sonur lifa. Þeir bjóða frið, gleði og lækningu fyrir hverja kynkvísl og tungu, fyrir hvert okkar. Spámaður Drottins leiðir veginn. Síðari daga opinberun heldur áfram. Megum við nálgast frelsara okkar í hinu heilaga húsi, Drottins og megi hann færa okkur nær Guði og hvert öðru, þegar við samtengjum hjörtu okkar kristilegri samúð, sannleika og miskunn í öllum okkar kynslóðum – um tíma og eilífð, varanlega hamingjusöm. Það er mögulegt í Jesú Kristi; það er sannleikur í Jesú Kristi. Um það vitna ég í hans heilaga nafni, Jesú Krists, amen.