Að þeir megi þekkja þig
Einlæg þrá mín er sú að þið munið þekkja Jesú fyrir tilstilli hinna mörgu nafna hans og að þið verðið eins og hann er.
Fyrir nokkrum árum upplifði ég nokkuð á sakramentissamkomu í heimadeild minni í Arisóna, sem breytti lífi mínu. Þegar minnst var á fúsleika okkar til að „taka á [okkur] nafn [Jesú Krists] í sakramentisbæninni,“1 minnti heilagur andi mig á að Jesús hefur mörg nöfn. Þessi spurning kom svo í hjarta mér: „Hvaða af nöfnum Jesú ætti ég að taka á mig í þessari viku?“
Þrjú nöfn komu í hugann og ég skrifaði þau niður. Hvert þessara nafna fólu í sér kristilega eiginleika sem ég vildi tileinka mér betur. Í vikunni sem lá fyrir höndum, einblíndi ég á þessi þrjú nöfn og reyndi að tileinka mér eiginleika og einkenni þeirra. Allt frá því hef ég haldið áfram að spyrja þessarar spurningar, sem hluta af persónulegri tilbeiðslu minni: „Hvaða af nöfnum Jesú ætti ég að taka á mig í þessari viku?“ Það hefur blessað líf mitt að svara þessari spurningu og keppa að því að þróa viðeigandi kristilega eiginleika.
Í hinni miklu fyrirbæn Jesú, tjáði hann þennan mikilvæga sannleika: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“2 Í dag vil ég miðla ykkur þeim blessunum og krafti sem fylgja því að þekkja Jesú Krist með hans mörgu nöfnum.
Ein einföld leið til að kynnast einhverjum er að komast að því hvað viðkomandi heitir. Sagt hefur verið að „nafn einstaklings sé ljúfasta og mikilvægasta hljóð sem hann heyrir á hvaða tungumáli sem er.“3 Hafið þið einhvern tíma kallað einhverja röngu nafni eða gleymt nafni þeirra? Ég og eiginkona mín, Alexis, höfum stundum kallað eitt barna okkar „Lola.“ Því miður, eins og þið gætuð hafa giskað á, er Lola hundurinn okkar! Hvort heldur er til góðs eða ills, þá gefur það einstaklingi til kynna að við þekkjum hann ekki mjög vel, ef við gleymum nafni hans.
Jesús þekkti fólk og ávarpaði það með nafni. Drottinn sagði við Ísrael til forna: „Óttast þú ekki því að ég frelsa þig, ég kalla á þig með nafni, þú ert minn.“4 Á páskadagsmorgni styrktist vitnisburður Maríu um hinn upprisna Krist þegar Jesús ávarpaði hana með nafni.5 Guð ávarpaði Joseph Smith á sama hátt með nafni, til að svara trúarbæn hans.6
Í sumum tilfellum, gaf Jesús lærisveinum sínum ný nöfn sem gáfu til kynna eðli þeirra, hlutverk og möguleika. Jehóva gaf Jakobi nýja nafnið Ísrael, sem merkir „sá sem ríkir með Guði“ eða „lætur Guð ríkja.“7 Jesús gaf Jakobi og Jóhannesi nafið Boanerges, sem þýðir „þrumusynir.“8 Jesús sá framtíðarleiðtoga sinn í Símoni og gaf honum nafnið Kefas eða Pétur, sem þýðir klettur.9
Alveg eins og Jesús þekkir nafn sérhvers okkar, þá getum við kynnst Jesú betur með því að læra hin mörgu nöfn hans. Eins og nöfnin Ísrael og Pétur, þá eru mörg nöfn Jesú titlar sem geta hjálpað okkur að skilja ætlunarverk hans, tilgang, eðli og eiginleika. Þegar við kynnumst hinum mörgu nöfnum Jesú, munum við skilja betur guðlegt ætlunarverk hans og óeigingjarnt eðli hans. Þekking á hans mörgu nöfnum hvetur okkur líka til að verða líkari honum – að þróa kristilega eiginleika sem veita lífi okkar gleði og tilgang.
Fyrir nokkrum árum rannsakaði Russell M. Nelson forseti allar ritningargreinar um Jesú Krist í Leiðarvísi að ritningunum.10 Hann bauð síðan ungu fullorðnu fólki að rannsaka þessar sömu ritningargreinar. Um hin mörgu nöfn Jesú, sagði Nelson forseti: „Lærið um allt sem Jesús Kristur er með því að leita kostgæfið og ákaft eftir að skilja hvað hver og einn hinna ýmsu titla og nafna þýða fyrir ykkur persónulega .“11
Eftir boð Nelsons forseta, tók ég að byggja upp minn eigin lista með hinum mörgu nöfnum Jesú. Á listanum mínum eru nú yfir 300 nöfn og ég er viss um að eiga eftir að uppgötva mörg til viðbótar.
Þótt einhver nöfn Jesú eigi aðeins við um hann,12 þá vil ég miðla fimm nöfnum og titlum sem gilda fyrir hvert okkar. Ég býð ykkur að búa til ykkar eigin lista, er þið kynnist Jesú í gegnum hans mörgu nöfn. Þegar þið gerið það, munið þið komast að því að til eru fleiri nöfn – ásamt þeim kristilegu eiginleikum sem tengjast þeim – sem þið komið til með að vilja tileinka ykkur sem sáttmálslærisveinar Jesú.13
Í fyrsta lagi, þá er Jesús góði hirðirinn.14 Sem slíkur, þekkir Jesús sauði sína,15 „kallar á sína sauði með nafni“16 og sem Guðslambið, lagði hann líf sitt í sölurnar fyrir sauði sína.17 Á líkan hátt vill Jesús að við séum góðir hirðar, sérstaklega í fjölskyldum okkar og sem þjónandi bræður og systur. Ein leið til að sýna Jesú elsku okkar, er með því að gæta sauða hans.18 Varðandi þá sauði sem eru villuráfandi, þá fer góður hirðir út í óbyggðirnar til að finna týndu sauðina og dvelur síðan hjá þeim, þar til þeir snúa aftur í öryggið.19 Sem góðir hirðar og miðað við hvað aðstæður leyfa á hverjum stað, ættum við að reyna að verja meiri tíma við að þjóna fólki á heimili þess. Í hirðisþjónustu okkar ættu textaskilaboð og tæknin að vera notuð til að auka samskipti, en ekki koma í stað þeirra.20
Í öðru lagi er Jesús æðsti prestur þeirra gæða sem komin eru.21 Jesús sagði, vitandi af krossfestingu sinni að fáeinum stundum liðnum: „Þetta hef ég talað við yður svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“22 Á okkar tíma, þegar heimurinn er einatt klofinn og ósammála, er mikil þörf á því að við prédikum og sýnum jákvæðni, bjartsýni og vongleði. Þrátt fyrir áskoranir í fortíðinni, þá beinist trú alltaf að framtíðinni23 og er fyllt von, sem gerir okkur kleift að uppfylla boð Jesú um að vera vonglöð.24 Að lifa af gleði eftir fagnaðarerindinu, hjálpar okkur að verða lærisveinar þeirra gæða sem komin eru.
Annar titill Jesú er að hann er í gær og í dag hinn sami og um aldir.25 Stöðugleiki er kristilegur eiginleiki. Jesús gerði ætíð það sem föður hans þóknaðist26 og armur hans er stöðugt útréttur til að bjarga, hjálpa og lækna okkur.27 Þegar við lifum sífellt meira samkvæmt fagnaðarerindinu, verðum við líkari Jesú.28 Þótt heimurinn muni upplifa stórar sveiflur vinsældarpendúlsins, er fólk hrekst og berst fram og aftur af hverjum kenningarvindi,29 þá hjálpar stöðugt líf fagnaðarerindisins okkur að vera staðföst og óbifanleg í stormum lífsins.30 Við getum einnig sýnt stöðugleika með því að taka við boði Nelsons forseta um að „helga Drottni tíma.“31 Mikill andlegur styrkur hlýst af hinu smá og einfalda,32 líkt og að þróa með sér „helgar hefðir og réttlátar venjur“33 daglegrar bænagjörðar, iðrunar, ritningarnáms og þjónustu.
Í fjórða lagi, þá er Jesús hinn heilagi Ísraels.34 Líf Jesú var forskrift að heilagleika. Þegar við fylgjum Jesú, getum við orðið hin heilögu í Ísrael.35 Við aukumst að heilagleika þegar við sækjum musterið reglulega, þar sem ofan við hvern inngang er ritað: „Heilagleiki til Drottins.“ Í hvert sinn sem við tilbiðjum í musterinu, förum við þaðan gædd meiri krafti til að gera heimili okkar að stöðum heilagleika.36 Hverjum þeim sem ekki hafa gild meðmæli til að fara í heilagt musteri, býð ég að hitta biskup sinn og búa sig undir að fara eða fara aftur til þess helga staðar. Að verja tíma í musterinu, mun auka heilagleika í lífi okkar.
Að lokum er enn eitt nafn Jesú Trúr og Sannur.37 Alveg eins og Jesús var ávallt trúr og sannur, þá er einlæg þrá hans að við sýnum þessa eiginleika í lífi okkar. Þegar trú okkar brestur, getum við hrópað til Jesú „Drottinn, bjarga þú mér,“ líkt og Pétur þegar hann tók að sökkva í Galíleuvatnið í storminum.38 Á þeim degi beygði Jesús sig niður til að bjarga drukknandi lærisveininum. Hann hefur gert það sama fyrir mig og hann mun gera það sama fyrir ykkur. Gefist aldrei upp á Jesú – hann mun aldrei gefast upp á ykkur!
Þegar við erum trú og sönn, fylgjum við kalli Jesú um að „[vera í honum],“ sem getur einnig þýtt að „dvelja með honum.“39 Þegar við stöndum frammi fyrir spurningum, þegar við erum smáð vegna trúar okkar, þegar á okkur er bent með fyrirlitningu, af þeim sem dvelja í hinum stóru og rúmmiklu byggingum heimsins, þá verðum við áfram trúföst og sönn. Minnumst á þeim augnablikum tilmæla Jesú: „Beinið öllum hugsunum yðar til mín. Efist ekki, óttist ekki.“40 Þegar við gerum þetta, veitir hann okkur þá trú, von og styrk sem við þurfum til að dvelja með honum að eilífu.41
Kæru bræður og systur, Jesús vill að við þekkjum hann, því ekkert annað nafn er gefið undir himninum, sem getur frelsað okkur.42 Jesús er vegurinn, sannleikurinn og lífið – enginn kemur til föðurins nema fyrir hann.43 Jesús er eini vegurinn! Af þeirri ástæðu, gefur Jesús ljósmerkið: „Komið til mín,“44 „[fylgið] mér,“45 „[gangið] með mér“46 og „lærið af mér.“47
Ég ber vitni um Jesú Krist af öllu hjarta – að hann lifir, að hann elskar ykkur og að hann þekkir ykkur með nafni. Hann er sonur Guðs,48 hinn eingetni föðurins.49 Hann er bjarg okkar, skjöldur okkar, hæli okkar og bjargvættur okkar.50 Hann er ljósið sem skín í myrkrinu.51 Hann er frelsari okkar52 og lausnari.53 Hann er upprisan og lífið.54 Einlæg þrá mín er sú að þið munið þekkja Jesú fyrir tilstilli hinna mörgu nafna hans og að þið verðið eins og hann er, þegar þið sýnið guðlega eiginleika hans í lífi ykkar. Í nafni Jesú Krists, amen.