Aðalráðstefna
Látum góðverk verða okkur eðlileg
Aðalráðstefna október 2022


9:28

Látum góðverk verða okkur eðlileg

Ef við erum staðföst og óbifanleg í því að gera gott, munu siðir okkar samræmast reglum fagnaðarerindisins.

Ég mun alltaf vera þakklátur fyrir verkefni mín í kirkjunni, sem hafa leitt mig til að búa í mismunandi löndum. Í hverju þessara landa höfum við upplifað mikinn fjölbreytileika og einstakt fólk með mismunandi siði og hefðir.

Við höfum öll eigin siði og hefðir, frá fjölskyldu okkar eða samfélaginu sem við búum í, og við vonumst til að halda öllum þeim sem samræmast reglum fagnaðarerindisins. Uppbyggjandi siðir og hefðir eru grundvallaratriði í viðleitni okkar til að halda okkur á sáttmálsveginum, en þeim sem eru hindrandi, ættum við að hafna.

Siður er iðkun eða tíður og venjubundinn hugsunarháttur einstaklings, menningar eða hefðar. Oft viðurkennum við það sem við hugsum og gerum á venjubundin hátt sem „eðlilegt.“

Leyfið mér að útskýra þetta: Patricia, mín ástkæra eiginkona, elskar að drekka kókossafa og síðan að borða kókoshnetuna. Í fyrstu heimsókn okkar til Puebla í Mexíkó, fórum við á stað þar sem við keyptum okkur kókoshnetu. Eftir að hafa drukkið safann, bað eiginkona mín þá að brjóta kókoshnetuna og færa henni innihaldið til að borða. Þegar það kom var það rauðleitt. Þeir höfðu stráð chillípipar yfir það! Sæt kókoshneta með chillípipar! Það fannst okkur undarlegt. Síðar komumst við þó að því að þau undarlegu voru ég og eiginkona mín, sem borðuðum ekki kókoshnetu með chillípipar. Í Mexíkó er þetta hins vegar ekki sjaldgæft; þetta er mjög eðlilegt.

Af öðru tilefni, vorum við að borða í Brasilíu með nokkrum vinum og þau gáfu okkur avókadó að borða. Í þann mund sem við hugðumst strá salti á það, sögðu vinir okkar við okkur: „Hvað eruð þið að gera!? Við höfum þegar stráð sykri á avókadóið!“ Avókadó með sykri! Það fannst okkur undarlegt. Síðar komumst við þó að því að þau undarlegu voru ég og eiginkona mín, sem borðuðum ekki avókadó með sykri. Í Brasilíu er sykurstráð avókadó eðlilegt.

Það sem sumum er eðlilegt, getur verið öðrum undarlegt, allt eftir siðum þeirra og hefðum.

Hvaða siðir og hefðir eru eðlileg í lífi okkar?

Russell M. Nelson forseti hefur sagt: „Í dag heyrum við oft talað um ,nýtt eðlilegt ástand.‘ Ef þið í raun þráið nýtt eðlilegt ástand, býð ég ykkur að snúa hjörtum ykkar, huga og sál til himnesks föður okkar og sonar hans, Jesú Krists, í vaxandi mæli. Látið það verða ykkur nýtt eðlilegt ástand“ („Nýtt eðlilegt ástand,“ aðalráðstefna, október 2020).

Þetta boð er fyrir alla. Það skiptir ekki máli hvort við erum fátæk eða rík, menntuð eða ómenntuð, gömul eða ung, veik eða heilbrigð. Hann býður okkur að gera það „eðlilegt“ í lífi okkar sem hjálpar okkur að halda okkur á sáttmálsveginum.

Engin þjóð býr yfir öllu því sem er gott eða aðdáunarvert. Af þeirri ástæðu, eins og Páll og spámaðurinn Joseph Smith kenndu:

„Sé eitthvað dyggðugt, fagurt, háleitt eða lofsvert, þá sækjumst vér eftir því“ (Trúaratriðin 1:13).

„Hvað sem er lofsvert, hugfestið það“ (Filippíbréfið 4:8).

Gætið að því að þetta er áminning, ekki bara athugasemd.

Ég vildi að við gæfum okkur öll smástund til að hugleiða siðina okkar og hvernig þeir hafa áhrif á fjölskyldur okkar.

Meðal dásamlegra venja sem ættu að vera eðlilegar meðlimum kirkjunnar, eru þessar fjórar:

  1. Persónulegt nám og fjölskyldunám í ritningunum. Hver einstaklingur ber ábyrgð á að læra fagnaðarerindið til að snúast til trúar á Drottin Jesú Krist. Foreldrar bera ábyrgð á að kenna börnum sínum fagnaðarerindið (sjá Kenningu og sáttmála 68:25; 93:40).

  2. Persónulegar bænir og fjölskyldubænir. Frelsarinn bauð okkur að biðja ávallt (sjá Kenningu og sáttmála 19:38). Bænin gerir okkur kleift að eiga persónuleg samskipti við okkar himneska föður, í nafni sonar hans, Jesú Krists.

  3. Sækja sakramentissamkomur vikulega (sjá 3. Nefí 18:1–12; Moróní 6:5–6). Við gerum það til að minnast Jesú Krists með því að meðtaka sakramentið. Í þessari helgiathöfn endurnýja meðlimir kirkjunnar sáttmála sinn um að taka á sig nafn frelsarans, að minnast hans alltaf og halda boðorð hans (sjá Kenningu og sáttmála 20:77, 79).

  4. Taka oft þátt í musteris- og ættarsögustarfi. Það starf er leiðin til að sameina og innsigla fjölskyldur um eilífð (sjá Kenningu og sáttmálar128:15).

Hvernig líður okkur þegar við heyrum þessa fjóra hluti nefnda? Eru þeir hluti af venjubundnu lífi okkar?

Það eru margar aðrar hefðir sem gætu verið hluti af því sem okkur er eðlilegt og við höfum tileinkað okkur og þannig látið Guð ríkja í lífi okkar.

Hvernig getum við ákvarðað hvað vera skal eðlilegt í lífi okkar og fjölskyldu okkar? Í ritningunum finnum við góða fyrirmynd; í Mósía 5:15, segir: „Þess vegna vil ég, að þér séuð staðföst og óbifanleg og rík af góðum verkum.“

Ég ann þessum orðum, vegna þess að við vitum að þeir hlutir sem verða eðlilegir í lífi okkar, eru þeir sem við endurtökum aftur og aftur. Ef við erum staðföst og óbifanleg í því að gera gott, munu siðir okkar samræmast reglum fagnaðarerindisins og þeir munu hjálpa okkur að halda okkur á sáttmálsveginum.

Nelson forseti hefur líka leiðbeint: „Meðtakið ykkar nýja eðlilega ástand með því að iðrast daglega. Leitist við að verða sífellt hreinni í hugsun, orðum og gjörðum. Þjónið öðrum. Hafið eilífa yfirsýn. Eflið kallanir ykkar. Hverjar sem áskoranir ykkar eru, kæru bræður og systur, lifið dag hvern þannig að þið séuð betur undir það búin að mæta skapara ykkar („Nýtt eðlilegt ástand.“)

Nú finnst mér og eiginkonu minni, Patriciu, ekkert undarlegt við það að borða kókoshnetu með chillípipar og avókadó með sykri – reyndar finnst okkur það gott. Upphafning er þó nokkuð sem er miklu háverðugra en bragðskyn; það er málefni sem tengist eilífðinni.

Ég bið þess að okkar eðlilega ástand megi gera okkur kleift að upplifa ástand í „óendanlegri sælu“ (Mósía 2:41), sem þeim er lofað sem halda boðorð Guðs og að á meðan við vinnum að því, gætum við sagt: „Og svo bar við, að við lifðum eftir leiðum hamingjunnar“ (2. Nefí 5:27).

Bræður mínir og systur, ég ber vitni um þá fimmtán menn sem við styðjum sem spámenn, sjáendur og opinberara, þar á meðal okkar ástkæra spámann, Russell M. Nelson forseta. Ég ber vitni um að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er sönn. Ég ber sérstaklega vitni um Jesú Krist, frelsara okkar og lausnara, í nafni Jesú Krists, amen.