Aðalráðstefna
Kenningin að tilheyra
Aðalráðstefna október 2022


14:41

Kenningin að tilheyra

Kenningin um að tilheyra snýst um þetta hvað okkur öll varðar: Ég er eitt með honum í sáttmála fagnaðarerindisins.

Ég ætla að ræða um það sem ég kalla kenninguna um að tilheyra í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Þessi kenning er þríþætt: (1) hlutverk þess að tilheyra við samansöfnun sáttmálsfólks Drottins, (2) mikilvægi þjónustu og fórnfýsi í því að tilheyra og (3) miðlægi Jesú Krists í því að tilheyra.

Í upphafi var Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu að mestu skipuð hvítum heilögum frá Norður-Ameríku og Norður-Evrópu, með tiltölulega fáum frumbyggjum, Afrísk-Ameríkubúum og Kyrrahafseyjabúum. Nú þegar átta ár eru liðin frá 200 ára stofnafmæli kirkjunnar, þá hefur kirkjan aukist mjög að fjölda og fjölbreytileika í Norður-Ameríku og jafnvel enn meira annars staðar í heiminum.

Þegar hin löngu fyrirspáða síðari daga samansöfnun sáttmálsfólks Drottins eykst að skriðþunga, mun kirkjan sannlega verða skipuð meðlimum frá hverri þjóð, kynkvísl, tungu og lýð.1 Þetta er ekki útreiknaður eða þvingaður fjölbreytileiki, heldur eðlilegt fyrirbæri sem við ættum að búast við, þar eð við sjáum að net fagnaðarerindisins safnar saman frá hverri þjóð og hverjum lýð.

Hve blessuð við erum að sjá þann dag þegar Síon er stofnuð samtímis á hverju meginlandi og í okkar eigin samfélagi. Eins og spámaðurinn Joseph Smith sagði, þá hefur fólk Guðs á öllum tímum horft fram til þessa tíma af tilhlökkun og „við erum útvalið fólk Guðs til að leiða fram dýrð síðari daga.“2

Eftir að hafa hlotið þessi forréttindi, þá getum við ekki leyft að neinir kynþátta- eða hópafordómar eða annars konar sundrung hreiðri um sig í kirkju Krists á síðari dögum. Drottinn hefur boðið okkur: „Verið eitt, og ef þér eruð ekki eitt, eruð þér ekki mínir.“3 Við ættum að vera kostgæfin við að uppræta fordóma og mismunun í kirkjunni, á heimilum okkar og umfram allt í hjörtum okkar. Eftir því sem meðlimir kirkju okkar verða sífellt fjölbreyttari, verður viðmót okkar að verða alúðlegra og hlýlegra. Við þörfnumst hvers annars.4

Í fyrra bréfi sínu til Korintumanna lýsir Páll því yfir að allir sem eru skírðir í kirkjuna séu eitt í líkama Krists:

„Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur.

Í einum anda vorum vér allir skírðir til að vera einn líkami, hvort sem vér erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og allir fengum vér einn anda að drekka. …

til þess að ekki yrði ágreiningur í líkamanum heldur skyldu limirnir bera sameiginlega umhyggju hver fyrir öðrum.

Og hvort heldur einn limur þjáist, þá þjást allir limirnir með honum eða einn limur er í hávegum hafður samgleðjast allir limirnir honum.“5

Sú tilfinning að tilheyra, er mikilvæg fyrir líkamlega, sálarlega og andlega vellíðan okkar. Samt er vel mögulegt að stundum gæti hverju okkar fundist við ekki falla í hópinn. Á letjandi augnablikum, gæti okkur fundist við aldrei fá staðið undir miklum kröfum Drottins eða væntingum annarra.6 Við gætum óafvitandi þvingað væntingum upp á aðra – eða jafnvel okkur sjálf – sem eru ekki væntingar Drottins. Við gætum tjáð á lúmskan hátt að verðmæti sálar byggist á ákveðnum árangri eða köllun, en þetta er ekki mælikvarðinn á stöðu okkar í augum Drottins. „Drottinn horfir á hjartað.“7 Hann lætur sig skipta þrár okkar og langanir og að hverju við erum að verða.8

Systir Jodi King ritaði um eigin reynslu á liðnum árum:

„Mér fannst aldrei eins og ég tilheyrði ekki kirkjunni fyrr en ég og eiginmaður minn, Cameron, byrjuðum að glíma við ófrjósemi. Börnin og fjölskyldurnar sem ég hafði venjulega gleði af að sjá í kirkju, tóku nú að valda mér sorg og sársauka.

Mér fannst ég vera ófrjó án barns í fanginu eða með skiptitösku í hendi. …

erfiðasti sunnudagurinn var fyrsti sunnudagurinn okkar í nýrri deild. Þar sem við áttum ekki börn, vorum við spurð hvort við værum nýgift og hvenær við ætluðum að stofna fjölskyldu. Ég var orðin nokkuð góð í að svara þessum spurningum án þess að láta þær hafa áhrif á mig – ég vissi að þær áttu ekki að vera særandi.

Þennan sunnudag var þó einkar erfitt að svara þessum spurningum. Við höfðum nýlega komist að því, eftir að hafa verið vongóð, að ég væri – enn og aftur — ekki barnshafandi.

Ég gekk niðurdregin inn á sakramentissamkomu og að svara þessum dæmigerðu ,kynnast þér‘ spurningum var erfitt fyrir mig. …

Það var þó sunnudagaskólinn sem kramdi hjarta mitt. Lexían – sem átti að fjalla um guðlegt hlutverk mæðra – skipti fljótt um gír og varð að útblásturslotu. Hjarta mitt varð niðurbrotið og tárin runnu hljóðlega niður vanga mína þegar ég heyrði konur kvarta yfir blessun sem ég myndi gefa hvað sem er fyrir.

Ég rauk út úr kirkjunni. Í fyrstu vildi ég ekki fara aftur. Ég vildi ekki upplifa þessa einangrunartilfinningu aftur. Þetta kvöld, eftir að hafa talað við eiginmann minn, vissum við hins vegar að við myndum halda áfram að sækja kirkju, ekki aðeins vegna þess að Drottinn hefur beðið okkur um það, heldur líka vegna þess að við vissum bæði að gleðin sem fylgir því að endurnýja sáttmála og finna andann í kirkjunni er meiri en sorgin sem ég fann þennan dag. …

Í kirkjunni eru ekkjur og ekklar, fráskildir og einhleypir meðlimir; þeir sem eiga fjölskyldumeðlimi sem hafa horfið frá fagnaðarerindinu; fólk með langvarandi sjúkdóma eða fjárhagsörðugleika; meðlimir sem upplifa samkynhneigð; meðlimir sem reyna að sigrast á fíkn eða efasemdum, nýtrúaðir; nýfluttir á staðinn; þeir sem eru einir eftir í hreiðrinu; og listinn heldur áfram og áfram. …

Frelsarinn býður okkur að koma til sín – sama hverjar aðstæður okkar eru. Við komum í kirkju til að endurnýja sáttmála okkar, efla trú okkar, finna frið og gera það sem hann gerði fullkomlega í eigin lífi – þjóna þeim sem finnst þeir ekki tilheyra.“9

Páll útskýrði að kirkjan og embættismenn hennar væru gefin af Guði „[til] að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar,

þangað til við verðum öll einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar.“10

Það er því sorgleg kaldhæðni þegar einhverjum finnst hann ekki geta verið fullkomin fyrirmynd á öllum sviðum lífsins, kemst að þeirri niðurstöðu að hann á ekki heima í þeirri stofnun sem Guð hefur hannað okkur til hjálpar við að þróast til fullkomnunar.

Áskiljum Drottni og þeim sem hann hefur falið að gera það að dæma og verum sátt við að elska og koma fram við hvert annað eins vel og við getum. Við skulum biðja hann að vísa okkur leiðina, dag frá degi, til að „[leiða] inn … fátæka, örkumla, blinda og halta“11– það er alla – í hina miklu veislu Drottins.

Annar þáttur kenningarinnar um að tilheyra, hefur að gera með okkar eigið framlag. Þótt við leiðum sjaldan hugann að því, þá eiga þjónusta okkar og þær fórnir sem við færum fyrir aðra og Drottin ríkastan þátt í tilfinningu okkar að tilheyra. Of mikil áhersla á eigin þarfir eða eigin þægindi getur truflað þá tilfinningu að tilheyra.

Við keppum að því að fylgja þessari kenningu frelsarans:

„Sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónnykkar. …

Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“12

Sú tilfinning að tilheyra vaknar ekki með því að bíða eftir henni, heldur þegar við liðsinnum öðrum.

Á okkar tíma er því miður að verða gagnmenningarlegt að helga sig málstað eða fórna einhverju fyrir einhvern annan. Í grein fyrir Deseret Magazine fyrr á síðasta ári, sagði rithöfundurinn Rod Dreher frá samtali við unga móður í Búdapest:

„Ég er í sporvagni í Búdapest með … vinkonu sem er rétt yfir þrítugt – við skulum kalla hana Kristínu – á meðan við erum á leið til að taka viðtal við eldri [kristna] konu sem, ásamt látnum eiginmanni sínum, stóðst ofsóknir kommúnistaríkisins. Þegar við förum eftir götum borgarinnar talar Kristín um það hversu erfitt sé að vera heiðarleg við vini á hennar aldri um þá baráttu sem hún stendur frammi fyrir sem eiginkona og móðir ungra barna.

Erfiðleikar Kristínu eru fyllilega eðlilegir fyrir unga konu sem er að læra hvernig á að vera móðir og eiginkona – en samt er það viðhorf ríkjandi meðal hennar kynslóðar að erfiðleikar lífsins séu ógn við velferð manns og þeim ætti að hafna. Rífast hún og eiginmaður hennar stundum? Þá ætti hún að fara frá honum, segja þau. Eru börnin hennar að pirra hana? Þá ætti hún að senda þau í dagvistun.

Kristín hefur áhyggjur af því að vinir hennar skilji ekki að raunir, og jafnvel þjáningar, séu eðlilegur hluti af lífinu – og jafnvel hluti af góðu lífi, ef sú þjáning kennir okkur hvernig á að vera þolinmóð, góð og kærleiksrík.

… Trúarbragðafræðingur við Notre Dame háskólann, að nafni Christian Smith, komst að því í rannsókn sinni á fullorðnum [á aldrinum] 18 til 23 ára að flestir þeirra tryðu því að samfélagið væri ekkert annað en ,safn sjálfstæðra einstaklinga sem vilja njóta lífsins.‘“13

Samkvæmt þessari heimspeki, „er allt sem manni finnst erfitt mynd kúgunar.“14

Aftur á móti hlutu fyrirrennarar okkar og brautryðjendur djúpa tilfinningu um að tilheyra, vera einhuga og eiga von í Kristi með fórnunum sem þeir færðu til að þjóna í trúboði, byggja musteri, yfirgefa þægileg heimili í harðæri og byrja aftur og á margvíslegan annan hátt helga sig og eigur sínar málstað Síonar. Þau voru fús til að fórna jafnvel lífi sínu, ef þörf krefði. Við njótum jú öll ávinnings af þrautseigju þeirra. Sama á við um marga í dag sem gætu misst fjölskyldu og vini, misst af atvinnutækifæri eða upplifað mismunun eða umburðarleysi af því að láta skírast. Umbun þeirra er hins vegar sterk tilfinning um að tilheyra sáttmálsfólkinu. Sérhver fórn sem við færum fyrir málstað Drottins, hjálpar við að staðfesta stöðu okkar frammi fyrir honum, sem gaf líf sitt til lausnargjalds mörgum.

Síðasti og mikilvægasti þátturinn í kenningunni um að tilheyra er miðlægt hlutverk Jesú Krists. Við göngum ekki í kirkjuna eingöngu vegna samfélags, þótt það sé mikilvægt. Við sameinumst til endurlausnar fyrir kærleika og náð Jesú Krists. Við sameinumst til að tryggja okkur og þeim sem við elskum helgiathafnir sáluhjálpar og upphafningar, beggja vegna hulunnar. Við sameinumst til að taka þátt í því mikla verki að stofna Síon til undirbúnings endurkomu Drottins.

Kirkjan er vörður sáttmála sáluhjálpar og upphafningar, sem Guð býður okkur með helgiathöfnum hins heilaga prestdæmis.15 Það er með því að halda þessa sáttmála, sem við fáum mestu og dýpstu tilfinninguna um að tilheyra. Russell M. Nelson forseti ritaði nýlega:

„Þegar þið og ég höfum gert sáttmála við Guð, verður samband okkar við hann miklu nánara en áður en við gerðum sáttmála okkar. Við erum nú bundin saman. Vegna sáttmála okkar við Guð, mun hann aldrei þreytast á viðleitni sinni við að hjálpa okkur og við munum aldrei þurrausa hina náðarsamlegu þolinmæði hans til okkar. Sérhvert okkar á sér sérstakan stað í hjarta Guðs. …

Jesús Kristur er er ábyrgðarmaður þessara sáttmála (sjá Hebreabréfið 7:22; 8:6).“16

Ef við munum eftir þessu, munu miklar vonir Drottins varðandi okkur, hvetja okkur, en ekki draga úr okkur kjark.

Við getum fundið gleði þegar við, hvert fyrir okkur og samfélagslega, keppum að „vaxtatakmarki Krists fyllingar.“17 Þrátt fyrir vonbrigði og áföll á leiðinni, er þetta mikilfenglegur leiðangur. Við lyftum og hvetjum hvert annað til að feta veginn upp á við, vitandi að við getum, þrátt fyrir mótlæti og þrátt fyrir tafir á fyrirheitnum blessunum, „verið [hughraust, því Kristur hefur] sigrað heiminn“18 og við erum með honum. Að vera eitt með föðurnum, syninum og heilögum anda, er án efa hið endanlega varðandi það að tilheyra.19

Kjarni þeirrar kenningar að tilheyra, er því sá – að sérhvert okkar getur staðfest: Jesús Kristur dó fyrir mig; hann taldi mig verðuga/n blóðs síns. Hann elskar mig og getur gert gæfumuninn í lífi mínu. Ef ég iðrast, mun náð hans mun umbreyta mér. Ég er eitt með honum í sáttmála fagnaðarerindisins; ég tilheyri kirkju hans og ríki; og ég tilheyri málstað hans að færa öllum börnum Guðs endurlausn.

Ég ber vitni um að þið tilheyrið vissulega, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Opinberunarbókin 5:9; sjá einnig 1. Nefí 19:17; Mósía 15:28; Kenning og sáttmálar 10:51; 77:8, 11.

  2. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 186.

  3. Kenning og sáttmálar 38:27.

  4. Einn athugull álitsgjafi sagði:

    „Trúarbrögð sem eru eingöngu einkamál, hafa verið óþekkt í annálum mannkyns fram að okkar tíma – og ekki að ástæðulausu. Slík trúarbrögð minnka fljótt í innandyra ánægju, eins konar áhugamál eins einstaklings eða fleiri, eins og að lesa bók eða horfa á sjónvarp. Það er því ekki undarlegt að leitin að andríki hefur komist í tísku. Það er það sem einstaklingar, frelsaðir frá trúarbrögðum, leita í örvæntingu eftir sem staðgengli.

    Andríki er vissulega óaðskiljanlegur hluti allra trúarbragða – en lítill hluti og getur ekki komið í stað heildarinnar. Trúarbrögð eru ekki einhvers konar sálaræfingar sem stundum bjóða upp á yfirskilvitlega upplifun. Annað hvort mótar trú líf manns – allt líf manns – eða hún hverfur og skilur eftir sig kvíðafullar, tómar sálir sem engin sálfræðimeðferð nær til. Auk þess, til að trú geti mótað líf manns, þarf hún að vera opinber og samfélagsleg; hún þarf að tengjast dánum og ófæddum“ (Irving Kristol, „The Welfare State’s Spiritual Crisis,“ The Wall Street Journal, 3. feb. 1997, A14).

  5. 1. Korintubréf 12:12–13, 25–26.

  6. Sjá Russell M. Nelson, „Perfection Pending,“ Ensign, nóv. 1995, 86–88; Jeffrey R. Holland, „Verið þér því fullkomnir – að lokum,“ aðalráðstefna, október 2017.

  7. 1. Samúelsbók 16:7.

  8. Líkt og öldungur Jeffrey R. Holland sagði: „,Komið eins og þið eruð,‘ segir kærleiksríkur faðir við okkur öll, en bætir við ,ekki reikna með að vera áfram eins og þið eruð.‘ Við brosum og munum að Guð er ákveðinn í að gera meira úr okkur en að við héldum að við gætum orðið“ („Sungnir og ósungnir söngvar,“ aðalráðstefna, apríl 2017).

  9. Jodi King, „Belonging in the Church through the Lens of Infertility,“ Liahona, mars 2020, 46, 48–49.

  10. Efesusbréfið 4:12–13.

  11. Lúkas 14:21.

  12. Markús 10:43, 45; skáletrað hér.

  13. Rod Dreher, „A Christian Survival Guide for a Secular Age,“ Deseret Magazine, apríl 2021, 68.

  14. Dreher, „A Christian Survival Guide for a Secular Age,“ 68.

  15. Sjá Kenningu og sáttmála 84:19–22.

  16. Russell M. Nelson, „Hinn ævarandi sáttmáli,“ aðalráðstefna, október 2022.

  17. Efesusbréfið 4:13.

  18. Jóhannes 16:33.

  19. Sjá Jóhannes 17:20–23. „Og nú býð eg yður að leita þessa Jesú, sem spámennirnir og postularnir hafa ritað um, svo að náð Guðs föðurins, og einnig Drottinn Jesús Kristur og heilagur andi, sem ber þeim vitni, megi vera og haldast í yður að eilífu“ (Eter 12:41).