Eruð þið enn fús?
Fúsleiki okkar til að fylgja Jesú Kristi er í réttu hlutfalli við þann tíma sem við skuldbindum okkur að vera á heilögum stöðum.
Einn sunnudaginn, er ég var að búa mig undir að meðtaka sakramentið eftir nokkurra vikna stikuráðstefnur, barst áhugaverð og kröftug hugsun í huga minn.
Þegar presturinn hóf að blessa brauðið, sóttu orðin sem ég hafði heyrt svo oft áður fast að huga mínum og hjarta. „Og vitni fyrir þér, ó Guð, eilífi faðir, að þau séu fús til að taka á sig nafn sonar þíns, og hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans, sem hann hefur gefið þeim, svo að andi hans sé ætíð með þeim.”1 Hve oft höfum við vitnað fyrir Guði að við séum fús?
Þegar ég hugleiddi mikilvægi þessarra helgu orða, sótti orðið fús sterkar á mig en nokkru sinni áður. Flóð ljúfra og helgra minninga fylltu huga minn og hjarta af elsku og þakklæti fyrir friðþægingarfórn frelsarans og úrslitahlutverk hans í sáluhjálparáætlun föðurins fyrir mig og fjölskyldu mína. Svo heyrði ég og skynjaði þessi sálarvekjandi orð bænarinnar um vatnið „að þau vitni fyrir þér … að þau hafi hann ávallt í huga.“2 Ég skildi greinilega á þeirri stundu að meira þurfti til en góðan ásetning til að halda sáttmála mína.
Að meðtaka sakramentið, er ekki óvirk trúarathöfn sem gefur bara í skyn samþykki okkar. Það er kraftmikil áminning um raunveruleika altækrar friðþægingingarfórnar frelsarans og þörfina á að muna ávallt eftir honum og halda boðorð hans. Að vera fús til að einblína á frelsarann, er svo mikilvægt að það er kjarni þeirra tveggja ritningarversa sem oftast eru þulin upp í kirkjunni: sakramentisbænirnar. Að skilja þann sannleika sem himneskur faðir býður hverju okkar svo fúslega með sínum eingetna syni, ætti í staðinn að kalla fram okkar bestu viðleitni til að vera ávallt fús.
Er okkar andlega undirstaða tryggilega byggð á Jesú Kristi?
Ef okkar andlega undirstaða er grunnhyggin eða yfirborðskennd, gætum við átt það til að byggja fúsleika okkar á samfélagslegri kostnaðar- og ávinningsgreiningu eða persónulegri óþægindavísitölu. Ef við svo leggjum þeirri hugmynd lið að kirkjan samanstandi aðallega af úreltum kenningum eða röngum pólitískum samfélagsreglum, óraunhæfum persónulegum höftum og tímaskuldbindingum, þá verður niðurstaða okkar um fúsleika gölluð. Við ættum ekki að reikna með því að reglan um fúsleika verði vinsæl á meðal áhrifavalda samfélagsmiðla eða TikTok aðdáenda. Mannasetningar samræmast sjaldnast guðlegum sannleika.
Kirkjan er samkomustaður fyrir ófullkomna einstaklinga sem elska Guð og eru fúsir til að fylgja Drottni Jesú Kristi. Sá fúsleiki er rótfestur í þeim raunveruleika að Jesús er Kristur, sonur hins lifanda Guðs. Þennan guðlega sannleika er aðeins mögulegt að skilja fyrir kraft heilags anda. Þess vegna er fúsleiki okkar í beinu hlutfalli við þann tíma sem við verjum á heilögum stöðum, þar sem áhrif heilags anda eru til staðar.
Það væri gott fyrir okkur að verja meiri tíma við að ræða hugrenningar okkar við ástkæran föður okkar á himnum og minni tíma í að leita álits annarra. Við gætum einnig valið að breyta okkar daglega fréttastraumi í orð Krists í hinum helgu ritningum og spámannleg orða lifandi spámanna hans.
Það mikilvægi sem við leggjum í það að halda hvíldardaginn heilagan, greiða tíund, hafa gild musterismeðmæli, fara í musterið og heiðra musterissáttmála okkar, eru allt sterkar vísbendingar um fúsleika okkar og staðfesting á skuldbindingu okkar. Erum við fús til að framlag okkar sé meira en yfirborðskennt til að styrkja trú okkar á Krist?
Himneskur faðir elskar okkur fullkomlega, en þeirri elsku fylgja miklar væntingar. Hann væntir þess að við höfum frelsarann fúslega sem þungamiðju lífs okkar. Frelsarinn er fullkomið dæmi um fúsleika til að lúta föðurnum í öllu. Hann er „vegurinn, sannleikurinn og lífið.“3 Hann friðþægði fúslega fyrir syndir okkar. Hann hann léttir byrðar okkar fúslega, lægir ótta okkar, veitir okkur styrk og færir frið og skilning inn í hjörtu okkar á tímum óróa og sorgar.
Samt er trú á Jesú Krist val. „Þótt ekki sé nema löngun til að trúa“4 á orð hans, þá höfum við byrjunarreit til að hefja eða endurræsa trúarferð okkar. Orð hans, ef þau eru gróðursett í hjörtum okkar eins og fræ og annast er um þau af mikilli alúð, munu skjóta rótum og trú okkar mun vaxa í fullvissu og verða að lífsreglu verka og kraftar. Mormónsbók er sterkasta heimild okkar til að rækta og endurreisa trú okkar. Fúsleiki er hvati trúar.
Jarðlífið er ekki auðvelt að guðlegri skipan og getur stundum verið yfirþyrmandi. Hins vegar „[lifum við], svo að [við megum] gleði njóta“!5 Það færir okkur varanlega gleði að einblína á frelsarann og sáttmála okkar. Tilgangur jarðlífsins er að sannreyna fúsleika okkar. „Hið mikla hlutverk lífsins og gjald lærisveinsins er að læra vilja Drottins og síðan að gera hann.“6 Einlægt lærisveinslíf leiðir til fyllingar gleði. Erum við fús til að greiða gjald lærisveinsins?
Sáttmálsvegurinn er ekki einfaldur gátlisti; hann er ferli andlegs vaxtar og dýpkandi skuldbindingar við Drottin Jesú Krist. Aðaltilgangur hvers boðorðs, reglu, sáttmála og helgiathafnar, er að byggja trú og traust á Krist. Ákvörðun okkar um að hafa Krist að þungamiðju í lífi okkar, verður þar af leiðandi að vera stöðug – ekki skilyrt, aðstæðubundin eða yfirborðskennd. Við höfum ekki ráð á að taka frí eða verja persónulegum tíma frá fúsleika okkar til að „standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og allsstaðar.“7 Lærisveinslífið er ekki ódýrt, því samfélag heilags anda er ómetanlegt.
Drottinn var vissulega að hugsa um okkar tíma þegar hann kenndi dæmisöguna um meyjarnar tíu. Hann sagði um þær fimm hyggnu að þær hafi „haft hinn heilaga anda sér til leiðsagnar, og ekki látið blekkjast,“8 á sama tíma og „[slokknaði] á“ lömpum hinna fávísu vegna olíuskorts.9 Kannski lýsa þessi orð Nefís þeim meðlimum kirkjunnar best sem eitt sinn voru trúfastir: „Aðra mun hann hvetja til værðar og andvaraleysisdvalar holdlegs öryggis, svo að þeir segi: Allt er eins og vera ber í Síon.“10
Andvaraleysisdvali holdlegs öryggis er að sækjast eftir og treysta á veraldlega hluti, fremur en Krist – með öðrum orðum að horfa í gegnum veraldlega linsu, fremur en andlega linsu. Heilagur andi gefur okkur þann hæfileika að sjá „hlutina eins og þeir í raun eru og eins og þeir í raun munu verða.“11 Einungis „fyrir kraft heilags anda [getum við] fengið að vita sannleiksgildi allra hluta“12 og ekki látið blekkjast. Við setjum Krist sem þungamiðju lífs okkar og heitum því að vera fús til að hlýða boðorðum hans, ekki vegna þess að við séum blind, heldur vegna þess að við getum séð.13
Hvað með meyjarnar fávísu? Hvers vegna voru þær ófúsar að bera ker af andlegri olíu? Voru þær bara að fresta því? Þær voru kannski of kærulausar, því það var óhentugt eða virtist vera óþarfi. Hver sem ástæðan var, þá voru þær blekktar varðandi mikilvægi hlutverks Krists. Þetta er aðalblekking Satans og ástæða þess að það slokknaði á lömpum vitnisburðar þeirra, vegna skorts á andlegri olíu. Þessi dæmisaga er myndlíking fyrir okkar tíma. Margir yfirgefa frelsarann og sáttmála sína löngu áður en þeir yfirgefa kirkju hans.
Við búum á fordæmalausum tímum, sem spámenn til forna höfðu löngu spáð fyrir um, á þeim degi er Satan „ólmast í hjörtum mannanna barna og [reitir] þau til reiði gegn því, sem gott er.“14 Allt of mörg okkar lifa í heimi sýndarveruleika fylltum skemmtunum og skilaboðum sem eru andsnúin guðlegri sjálfsmynd og trú á Krist.
Öflugustu andlegu áhrifin í lífi barns, eru réttlát fordæmi ástríkra foreldra og ömmu og afa sem trúfastlega halda helga sáttmála sína. Meðvitaðir foreldrar kenna börnum sínum trú á Drottin Jesú Krist, svo að þau megi vita „til hvaða uppsprettu þau mega leita til fyrirgefningar synda sinna.“15 Kæruleysi og ósamkvæmni í því að halda sáttmála leiðir til andlegra slysa. Hinn andlegi skaði er oftast mestur á meðal barna okkar og barnabarna. Foreldrar, ömmur og afar, erum við enn fús?
Russell M. Nelson forseti hefur varað við að „á komandi tíð verður … ekki mögulegt að komast af andlega, án þess að njóta stöðugrar handleiðslu, huggunar og áhrifa heilags anda.“16 Þetta er skýr og augljós aðvörun um að hirða vel um lampa okkar og auka birgðir andlegrar olíu. Erum við enn fús að fylgja lifandi spámönnum? Hvað er mikil andleg olía á lömpum ykkar? Hvaða breytingar á lífi ykkar myndu gera ykkur kleift að hafa stöðugri áhrif heilags anda?
Í dag, eins og á tímum Jesú, verða þeir sem munu snúa til baka, ófúsir að samþykkja gjald þess að vera lærisveinn. Á sama tíma og harðri og hatursfullri gagnrýni er ítrekað beint að kirkju frelsarans og þeim sem fylgja honum, þá mun starf okkar sem lærisveina krefjast aukins fúsleika til að rétta úr kútnum og styrkja okkar andlega bak og hlýða ekki á það.17
Ef okkar andlega undirstaða er tryggilega byggð á Jesú Kristi, munum við ekki falla og ekki þurfa að óttast.
„Sjá, Drottinn krefst hjartans og viljugs huga, og þeir viljugu og auðsveipu skulu neyta gæða Síonarlands á þessum síðustu dögum.“18
Megum við ávalt vera fús. Í hinu heilaga nafni Drottins Jesú Krists, amen.