Aðalráðstefna
Byggja upp líf með viðnámsþrótti gegn andstæðingnum
Aðalráðstefna október 2022


10:32

Byggja upp líf með viðnámsþrótti gegn andstæðingnum

Ég bið þess að við megum halda áfram að byggja líf okkar með því að fylgja áætlunum og tækniupplýsingum að guðlegri skipan himnesks föður okkar.

Í gegnum árin höfum við meðtekið stórkostlega leiðsögn, innblástur, handleiðslu og opinberun frá þessum fallega ræðustól í Ráðstefnuhöllinni. Stundum hafa ræðumenn notast við samanburð frá sínu eigin þekkingarsviði og reynslu til útskýra skýrt og kröftuglega reglur fagnaðarerindis Jesú Krists.

Á þennan hátt höfum við meðal annars lært um flugvélar og flug, þar sem örlítil stefnubreyting getur leitt okkur á stað sem er mjög fjarri upprunalegum ákvörðunarstað okkar.1 Á þennan hátt höfum við einnig lært af því að bera saman líkamsstarfsemi okkar og hina máttugu breytingu hjartans, sem er nauðsynleg til að svara boði Drottins um að fylgja honum.2

Í þetta sinn langar mig auðmjúklega að bæta við samanburði frá vissum þætti á mínu fagsviði. Ég vísa hér til heims byggingarverkfræði. Frá upphafi háskólanáms míns, dreymdi mig um þann dag að geta lokið grunnkröfunum til að öðlast réttindi til að fara í námsbekk þar sem ég lærði að hanna byggingar og önnur mannvirki sem yrðu talin „skjálftavarin.“

Dagurinn rann upp og ég fór í fyrstu kennslustundina í þessu fagi. Fyrstu orð kennarans voru þessi: „Þið eruð eflaust spennt að hefja þetta nám og læra hvernig á að hanna mannvirki með skjálftavörn“ og við kinkuðum ákaft kolli. Kennarinn sagði þá: „Mér þykir leitt að segja ykkur að það er ekki mögulegt, því ég get ekki kennt ykkur hvernig eigi að byggja mannvirki með ‚vörn‘ gegn jarðskjálftum.“ Hann sagði: „Það er bara engin skynsemi í því, þar sem jarðskjálftar munu samt verða, hvort sem við viljum það eða ekki.“

Því næst bætti hann við: „Það sem ég get kennt ykkur er að hanna mannvirki sem eru jarðskjálftaþolin, mannvirki sem hafa viðnám gegn jarðskjálfta, svo að þau standi án alvarlegra skemmda og geti haldið áfram að veita þá þjónustu sem þau voru hönnuð fyrir.

Verkfræðingur gerir útreikninga sem tilgreina víddir, eiginleika og einkenni grunnanna, súlnanna, stólpanna, steypunnar og annarra samsetningarþátta sem verið er að hanna. Niðurstöðurnar eru svo túlkaðar í áætlanir og tæknilega þætti, sem verktakinn verður að fylgja til hins ýtrasta til þess að verkið verði að raunveruleika og uppfylli þannig hönnunar- og byggingartilgang sinn.

Þó að það séu rúmlega 40 ár frá þessari fyrstu kennslustund í jarðskjálftaþolsverkfræði, man ég greinilega það augnablik sem ég fór að öðlast dýpri, heildstæðari skilning á mikilvægi þess að þessi hugmynd væri til staðar í þeim mannvirkjum sem ég myndi hanna í mínu framtíðarstarfi. Ekki einungis það, heldur það sem er mikilvægara – að hún yrði varanleg í uppbyggingu lífs míns og þeirra sem ég gæti átt eftir að hafa jákvæð áhrif á.

Hversu blessuð erum við að geta treyst á þekkingu á sáluhjálparáætluninni sem himneskur faðir hannaði, að hafa hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists og að treysta á innblásna leiðsögn lifandi spámanna! Allt af því sem nefnt var, myndar hinar guðlega hönnuðu „áætlanir“ og „tæknilýsingar“ sem kenna okkur greinilega hvernig á að byggja hamingjusamt líf – líf sem hefur viðnám gegn syndum, viðnám gegn freistingum, sem hefur viðnám gegn árásum Satans, sem af örvæntingu reynir að ónýta eilíf örlög okkar um að vera með himneskum föður og með ástkærum fjölskyldum okkar.

Í upphafi þjónustu sinnar var frelsarinn sjálfur leiddur „til að djöfullinn gæti freistað hans.“3 Jesús kom hins vegar sigursæll frá þeirri miklu prófraun. Hvernig þjónaði það honum að hafa viðhorf gegn Satan eða viðnám gegn freistingum? Það sem gerði Jesú sigursælan á þessum erfiðustu stundum, var andlegur undirbúningur hans, sem gerði honum kleift að hafa viðnámsþrótt gegn freistingum andstæðingsins.

Hverjir voru sumir þeirra þátta sem hjálpuðu frelsaranum að vera undirbúinn fyrir þessa úrslitastundu?

Í fyrsta lagi, þá hafði hann fastað í 40 daga og 40 nætur, fasta sem hlýtur að hafa verið með stöðugri bæn. Þótt hann hafi verið líkamlega veikburða, þá var andi hans sterkur. Þótt við séum sem betur fer ekki beðin um að fasta í svo langan tíma – heldur aðeins í 24 tíma og einu sinni í mánuði – þá færir fastan okkur andlegan styrk og býr okkur undir að hafa viðnámsþol gegn áskorunum þessa lífs.

Í öðru lagi, sjáum við í frásögninni af freistingunum sem frelsarinn stóð frammi fyrir, að hann svaraði Satan ávallt með ritningarnar í huga, vitnaði í þær og beitti þeim á réttum augnablikum.

Þegar Satan freistaði hans með því að breyta steinum í brauð, svo að hann gæti satt hungrið eftir svo langa föstu, sagði Drottinn við hann: „Ritað er: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“4 Síðan, þegar Drottinn var á brún musterisins, reyndi djöfullinn að freista hans til að sýna mátt sinn, sem Drottinn svaraði með ákveðni: „Aftur er ritað: Þú skalt ekki freista Drottins, Guðs þíns.“5 Drottinn svaraði þriðju tilraun Satans: „Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“6

Jarðskjálftar skilja eftir merki sitt á mannvirkjum, jafnvel þó þau hafi verið hönnuð og byggð á réttan máta – afleiðingar eins og til dæmis sprungur, fallin húsgögn eða loft sem hafa hrunið og brotnar rúður. Vel hönnuð og vel byggð bygging mun samt sem áður uppfylla þann tilgang sinn að vernda íbúa sína og endurheimta upprunalegt ástand sitt eftir smá viðgerðir.

Á svipaðan hátt, geta átökin við andstæðinginn einnig skilið eftir „sprungur“ eða einhverjar skemmdir í lífi okkar, þrátt fyrir erfiði okkar við að byggja líf okkar eftir hinni fullkomnu guðlegu skipan. Slíkar „sprungur“ geta komið fram sem tilfinningar sorgar eða eftirsjár fyrir að hafa gert mistök og fyrir að hafa ekki gert allt á fullkominn máta, eða sem sú tilfinning að finnast við ekki eins góð og við myndum vilja vera.

Það sem sannlega skiptir máli er að við stöndum enn, vegna þess að við fylgdum áætlunum og tækniupplýsingum að guðlegri skipan, fagnaðarerindi Jesú Krists. Lífsbygging okkar hefur ekki hrunið vegna árása andstæðingsins eða vegna erfiðra aðstæðna sem við höfum þurft að takast á við; við erum tilbúin að halda áfram.

Gleðina sem okkur er lofað í ritningunum sem tilgang tilvistar okkar,7 ætti ekki að skilja sem svo að við munum ekki upplifa erfiðleika eða sorg eða að við munum ekki vera með „sprungur“ sem afleiðingar freistinga, mótlætis eða raunverulegra prófrauna í jarðlífi okkar.

Gleðin hefur að gera með viðhorf Nefís gagnvart lífinu er hann sagði: „Enda þótt ég hafi mátt þola miklar þrengingar á lífsleið minni, hef ég engu að síður orðið mikillar náðar Drottins aðnjótandi alla mína ævi.“8 Alla ævi hans! Jafnvel dagana sem Nefí þjáðist vegna skilningsleysis og höfnunar bræðra hans, jafnvel þegar þeir bundu hann á skipinu, jafnvel dagana sem Lehí, faðir hans, lést, jafnvel þegar Laman og Lemúel urðu svarnir fjandmenn fólks hans. Jafnvel á þessum erfiðu dögum, upplifði Nefí að hann nyti mikillar velþóknunar Drottins.

Við getum átt þá hugarró að vita að Drottinn mun aldrei leyfa það að við freistumst umfram getu okkar til að standast. Alma býður okkur að „[vaka og biðja] án afláts, svo að [við freistumst] ekki um megn fram, heldur [látum] þannig leiðast af hinum heilaga anda, [auðmjúk, hógvær, undirgefin, þolinmóð, full af elsku og langlundargeði].“9

Það sama má yfirfæra á raunir lífsins. Ammon minnir okkur á orð Drottins: „Farið … berið með þolinmæði þrengingar yðar, og ég mun sjá um að vel takist.“10

Drottinn veitir okkur ávallt aðstoð þegar við stöndum frammi fyrir mótlæti, freistingum, skilningsleysi, veikindum og jafnvel dauða. Hann sagði: „Og sannlega segi ég yður nú, og það sem ég segi einum segi ég öllum, verið vonglöð, litlu börn, því að ég er mitt á meðal yðar og ég hef ekki yfirgefið yður.“11 Hann mun aldrei yfirgefa okkur!

Ég bið þess að við megum halda áfram að byggja líf okkar með því að fylgja áætlunum og tækniupplýsingum að guðlegri skipan, sem faðir okkar er höfundur að og náði fram með frelsara okkar, Jesú Kristi. Vegna þeirrar náðar sem nær til okkar fyrir friðþægingu frelsara okkar, munum við verða farsæl í því að byggja líf sem hefur viðnámsþrótt gegn synd, gegn freistingu og styrk til að þola sorgarfylltar, erfiðar stundir í lífi okkar. Enn fremur verðum við í ástandi til að nálgast allar þær blessanir sem hafa verið lofaðar fyrir elsku föður okkar og frelsara. Í nafni Jesú Krists, amen.