Aðalráðstefna
Lyft upp á krossinum
Aðalráðstefna október 2022


13:6

Lyft upp á krossinum

Til að vera fylgjandi Jesú Krists, verður maður stundum að bera byrði og fara þangað sem fórnar er krafist og þjáning er óumflýjanleg.

Fyrir mörgum árum, í kjölfar umræðu um bandaríska trúarbragðasögu í framhaldsskóla, spurði samnemandi mig: „Hvers vegna hafa hinir Síðari daga heilögu ekki tileinkað sér krossinn, sem aðrir kristnir menn nota sem tákn trúar sinnar?“

Þar sem slíkar spurningar um krossinn eru oft spurningar um skuldbindingu okkar við Krist, sagði ég honum strax að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu líti svo á að friðþægingarfórn Jesú Krists væri meginstaðreyndin, afgerandi grunnurinn, helsta kenningin og endanleg tjáning guðlegs kærleika í hinni miklu áætlun Guðs börnum hans til sáluhjálpar.1 Ég útskýrði að hin frelsandi náð sem felst í þeirri athöfn, væri nauðsynleg fyrir og altæk gjöf til allrar fjölskyldu mannkyns, allt frá Adam og Evu til enda veraldar.2 Ég vitnaði í spámanninn Joseph Smith, sem sagði: „Allt … í trúarbrögðum okkar er aðeins viðauki“ við friðþægingu Jesú Krists.3

Ég las síðan fyrir hann það sem Nefí hafði skrifað 600 árum fyrir fæðingu Jesú: „Og … engillinn talaði … til mín og sagði: Sjá! Og ég leit upp og sá Guðslambið, … [sem] var lyft upp á krossinum og hann var deyddur fyrir syndir heimsins.“4

Með mínum „elska, miðla og bjóða“ eldmóði í hámarki, hélt ég áfram að lesa! Við Nefítana í nýja heiminum sagði hinn upprisni Kristur: „Faðir minn sendi mig, til þess að mér yrði lyft upp á krossinum. Til þess að ég gæti dregið alla menn til mín. … Og vegna þessa hefur mér verið lyft upp.“5

Ég var í þann mund að vitna í Pál postula þegar ég tók eftir því að augu vinar míns voru orðin fjarlæg. Snögg augngota á armbandsúrið, minnti hann augljóslega á að hann þyrfti að fara eitthvert, hvert sem var – og hann hljóp af stað á sitt uppspunna stefnumót. Þannig lauk samtali okkar.

Á þessum morgni, um 50 árum síðar, er ég staðráðinn í að ljúka þessari útskýringu – jafnvel þótt hvert og eitt einasta ykkar fari að horfa á armbandsúrið sitt. Þegar ég reyni að útskýra hvers vegna við notum almennt ekki helgimyndafræði krossins, vil ég gera algjörlega ljósa djúpa virðingu okkar og djúpa aðdáun á trúarhvötum og dyggu lífi þeirra sem það gera.

Ein ástæða þess að við leggjum ekki áherslu á krossinn sem tákn, stafar af biblíulegum toga. Vegna þess að krossfesting var eitt sárasta aftökuform Rómaveldis, völdu margir fyrstu fylgjendur Jesú að varpa ekki ljósi á þetta hrottalega verkfæri þjáningar. Merking dauða Krists var vissulega lykilatriði í trú þeirra, en í um þrjú hundruð ár reyndu þeir yfirleitt að koma fagnaðarerindinu á framfæri með öðrum hætti.6

Á fjórðu og fimmtu öld var verið að kynna kross sem tákn almennrar kristni, en okkar er ekki „alhæfð kristni.“ Við erum hvorki kaþólsk, né mótmælendatrúar, við erum fremur endurreist kirkja, endurreist kirkja Nýja testamentisins. Uppruni okkar og valdsumboð ná því lengra aftur fyrir tíma ráða, trúarjátninga og helgimyndafræði.7 Í þessum skilningi er fjarvera þess tákns sem var seint að koma í almenna notkun, enn ein sönnun þess að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er endurreisn hins sannkristna upphafs.

Önnur ástæða fyrir því að við notum ekki táknræna krossa, er áhersla okkar á hið fullkomna kraftaverk trúboðs Krists – dýrðlega upprisu hans sem og fórnarþjáningar hans og dauða. Til að undirstrika þetta samband, bendi ég á tvö listaverk8 sem eru í bakgrunni hjá Æðsta forsætisráðinu og Tólfpostulasveitinni á helgum vikulegum musterisfundum þeirra á hverjum fimmtudegi í Salt Lake City. Þessar myndir eru okkur stöðug áminning um gjaldið sem reitt var af hendi og sigurinn sem vannst af honum, hvers þjónar við erum.

Krossfestingin, eftir Harry Anderson
Upprisan, eftir Harry Anderson

Almennari framsetning á tvíþættum sigri Krists, er notkun okkar á þessari litlu ímynd Thorvaldsens af upprisnum Kristi, sem stígur í dýrð úr gröfinni með sár krossfestingar sinnar enn sjáanleg.9

Auðkennismerki kirkjunnar

Loks minnumst við þess sem Gordon B. Hinckley forseti sagði eitt sinn: „Líf fólks okkar verður að [vera] … tákn [trúar] okkar.“10 Þessar hugleiðingar – einkum hin síðari – leiða mig að því sem kann að vera allra mikilvægasta tilvísun ritninganna í krossinn. Hún hefur ekkert að gera með hengiskraut eða skartgripi, með turna eða vegvísa. Hún hefur fremur að gera með þau bjargföstu heilindi og þann stranga siðferðislega burðarás sem kristnir menn ættu að hafa með sér við kallið sem Jesús hefur gefið sérhverjum lærisveina sinna. Í hverju landi og á hverri öld, hefur hann sagt við okkur öll: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.“11

Hér er rætt um krossinn sem við berum, fremur en þann sem við klæðumst. Til að vera fylgjandi Jesú Krists, verður maður stundum að bera byrði – okkar eigin eða einhvers annars – og fara þangað sem fórnar er krafist og þjáning er óumflýjanleg. Sannkristinn maður getur ekki aðeins fylgt meistaranum í þeim málum sem hann eða hún er sammála. Nei. Við fylgjum honum hvert sem er, þar á meðal, ef nauðsyn krefur, inn á vettvang fylltan tárum og erfiðleikum, þar sem við stöndum stundum alveg alein.

Ég þekki fólk, innan og utan kirkjunnar, sem fylgir Kristi jafn trúfastlega. Ég þekki börn með alvarlega líkamlega fötlun og ég þekki foreldrana sem annast þau. Ég sé þau öll leggja sig fram svo að stundum stefnir í algjöra örmögnun, þar sem leitað er styrks, öryggis og fáeinna gleðistunda, sem ekki hljótast öðruvísi. Ég þekki margt einhleypt fullorðið fólk sem þráir og verðskuldar ástríkan félaga, yndislegt hjónaband og heimili fullt af eigin börnum. Engin þrá gæti verið réttlátari, en ár eftir ár verða þau ekki slíkrar gæfu aðnjótandi. Ég þekki þau sem heyja baráttu við ýmiss konar geðsjúkdóma, sem biðja um hjálp í bænum sínum og af örvæntingu þrá fyrirheitið land tilfinningalegs stöðugleika. Ég þekki þau sem búa við lamandi fátækt og sem, þrátt fyrir örvæntingu, biðja aðeins um tækifæri til að búa ástvinum sínum betra líf og öðrum nauðstöddum umhverfis. Ég þekki marga sem heyja baráttu við gríðarlega erfiðleika varðandi sjálfsmynd, kyn og kynhneigð. Ég græt yfir þeim og ég græt með þeim, vitandi hversu miklar afleiðingar ákvarðanir þeirra munu hafa.

Þetta eru aðeins nokkrar af hinum mörgu krefjandi áskorunum sem lífið færir okkur og minna okkur hátíðlega á að það er gjald sem fylgir sannri lærisveinsgöngu. Við Aravna, sem reyndi að gefa Davíð konungi uxa til brennifórna, sagði Davíð: „Nei, ég vil kaupa það af þér fullu verði [því ég mun ekki færa] Drottni, Guði mínum, … [það] sem ég hef ekki greitt [fyrir].“12 Það segjum við líka öll.

Þegar við tökum upp krossa okkar og fylgjum honum, væri það í raun hörmulegt ef þungi áskorana okkar sjálfra gerði okkur ekki samúðarfyllri og gaumgæfnari gagnvart þeim byrðum sem aðrir bera. Það er ein áhrifamesta þversögn krossfestingarinnar, að armar frelsarans voru teygðir sundur og síðan negldir þannig, sem óafvitandi en nákvæmlega sýnir að sérhver karl, kona og barn í allri fjölskyldu mannkyns er ekki aðeins velkomið, heldur einnig boðið, að koma í hans endurleysandi, upphafna faðm.13

Líkt og hin dýrlega upprisa kom í kjölfar hinnar kvalafullu krossfestingar, þannig er hvers kyns blessunum úthellt yfir þá sem eru fúsir, eins og Jakob, spámaður Mormónsbók segir, til að „trúa á Krist og íhuga dauða hans og þola kross hans.“ Stundum koma þessar blessanir fljótlega og stundum koma þær síðar, en dásamleg niðurstaða okkar persónulega via dolorosa14 er loforð meistarans sjálfs um að þær komi vissulega. Til að öðlast slíkar blessanir, megum við þá fylgja honum – óbilandi, aldrei hikandi eða flýjandi, aldrei hikandi við verkið, hvorki þegar krossar okkar verða þungir, né þegar leiðin kann að myrkvast um tíma. Fyrir styrk ykkar og hollustu, og elsku ykkar, þakka ég innilega og persónulega. Í dag ber ég postullegt vitni um hann sem var „lyft upp“15 og eilífar blessanir hans til þeirra sem verður „lyft upp“ með honum, já, Drottin Jesú Krist, amen.

Heimildir

  1. Sjá Jeffrey R. Holland, Encyclopedia of Mormonism (1992), „Atonement of Jesus Christ,“ 1:83.

  2. Amúlek ræðir um friðþægingu Krists sem „[mikla] lokafórn“ sem er „algjör og eilíf“ í eðli sínu (Alma 34:10). Því „allir eru fallnir og glataðir og hljóta að farast án friðþægingar, sem nauðsynlegt er að eigi sér stað“ (Alma 34:9; sjá einnig vers 8–12). John Taylor forseti bætir við: „Á þann hátt sem okkur er óskiljanlegur og óútskýranlegur bar [Jesús] syndaþunga alls heimsins; ekki aðeins Adams, heldur afkomenda hans; og með því að gera það, lauk hann upp himnaríki, ekki aðeins fyrir alla trúaða og alla sem hlýddu lögmáli Guðs, heldur fyrir meira en helming mannkyns sem deyr áður en komist er til þroska ára, sem og [þau] sem … hafa dáið án lögmáls, er munu, fyrir milligöngu hans, verða reist upp án lögmáls og dæmdir án lögmáls, og eru þannig þátttakendur … í blessunum friðþægingar hans“ (An Examination into and an Elucidation of the Great Principle of the Mediation and Atonement of Our Lord and Savior Jesus Christ [1892], 148–49; Teachings of Presidents of the Church: John Taylor [2001], 52–53).

  3. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 49.

  4. 1. Nefí 11:32–33.

  5. 3. Nefí 27:14–15.

  6. Það eru auðvitað tilvísanir í krossinn í kennslu Páls (sjá t.d. 1. Korintubréf 1:17–18; Galatabréfið 6:14; Filippíbréfið 3:18), en þar er rætt um mikið meira en tvo trébjálka neglda saman eða eitthvað minna tákn um slíkt. Þegar Páll ræðir um krossinn, þá notar hann kenningarlega styttingu til að tala um hágöfgi friðþægingarinnar, þar sem Síðari daga heilagir taka fúslega undir með honum og vitna í hann.

  7. Fyrritíðar og hefðbundnar kristnar persónur eins og Marteinn Lúther og Andreas Karlstadt (1486–1541), héldu því fram á miðöldum að „krossfestingin [ein og sér] sýndi aðeins mannlegar þjáningar Krists og vanrækti að sýna upprisu hans og endurlausnarmátt“ (í John Hilton III, Considering the Cross: How Calvary Connects Us with Christ [2021], 17).

  8. Harry Anderson, The Crucifixion; Harry Anderson, Mary and the Resurrected Lord.

  9. Sjá Russell M. Nelson, „Ljúka upp himnunum til liðsinnis,“ aðalráðstefna, apríl 2020.

  10. Gordon B. Hinckley, „The Symbol of Christ,“ Ensign, maí 1975, 92.

  11. Matteus 16:24.

  12. 2. Samúelsbók 24:24.

  13. „Armur hans nær til allra, sem vilja iðrast og trúa á nafn hans“ (Alma 19:36; sjá einnig 2. Nefí 26:33; Alma 5:33).

  14. Via dolorosa er orðtak á latínu sem merkir „sársaukafull erfið leið, langferð eða röð upplifana“ (Merriam-Webster.com Dictionary, „via dolorosa“). Það er oftast tengt við ferli Jesú frá fordæmingu hans af hendi Pílatusar til krossfestingar hans á Golgata.

  15. Sjá 3. Nefí 27:14–15.