Koma nær frelsaranum
Með því að reyna að þekkja og elska frelsarann, skiljum við okkur frá heiminum með sáttmálum við Guð og verðum áberandi, óvenjuleg og sérstök, án þess að einangra okkur frá öðrum í heiminum sem trúa öðru.
Kæru bræður og systur, í kvöld tala ég við auðmjúka og trúfasta fylgjendur Jesú Krists. Þegar ég sé gæsku lífs ykkar og trú ykkar á frelsarann hér í þessu landi og meðal þjóða um allan heim, elska ég ykkur jafnvel meira.
Þegar dró að lokum þjónustu Jesú, spurðu lærisveinar hans hann: „Hvernig sjáum við [tákn endurkomu þinnar] og [að] veröldin [sé] að líða undir lok?“1
Jesús sagði þeim frá ástandinu sem yrði fyrir endurkomu hans og sagði að endingu: „Þegar þér sjáið allt þetta, [munið þið vita] að [tíminn] er í nánd.“2
Á síðustu aðalráðstefnu, hlustaði ég af athygli á orð Henrys B. Eyring forseta: „Sérhvert okkar, hvar sem við erum, veit að við lifum á sífellt örðugri tímum. … Allir sem hafa augu til að sjá tákn tímanna og eyru til að heyra orð spámanna, vita að þetta er satt.“3
Frelsarinn lýsti velþóknun á sínum dyggu lærisveinum: „En sæl eru augu ykkar af því að þau sjá og eyru ykkar af því að þau heyra.“4 Megi þessi blessun verða okkar, er við hlustum af athygli á orð Drottins með spámönnum hans á þessari ráðstefnu.
Hveiti og illgresi
Drottinn útskýrði að á efsta tíma fyrir endurkomu hans, mun „góða sæðið,“ sem hann sagði vera „börn ríkisins,“5 vaxa við hlið „illgresisins“ eða þeirra sem ekki elskuðu Guð og héldu ekki boðorð hans. Þau munu „vaxa saman“6 hlið við hlið.
Þetta verður heimur okkar fram að endurkomu frelsarans, með mörgu góðu og mörgu illu, á allar hliðar.7
Stundum kann ykkur að finnast þið ekki vera sterkir, þroskaðir hveitisprotar. Verið þolinmóð við ykkur sjálf! Drottinn sagði að sumir sprotarnir sem spryttu upp, yrðu viðkvæmir.8 Við erum öll hans Síðari daga heilög og þótt við séum ekki enn allt sem við vildum verða, þá þráum við einlæglega að vera sannir lærisveinar hans.
Efla trú okkar á Jesú Krist
Okkur er ljóst að eftir því sem illskan eykst í heiminum, verður andlegt líf okkar og andlegt líf þeirra sem við elskum háðara því að við leggjum meiri rækt við og styrkjum trúarrætur okkar á Jesú Krist. Páll postuli ráðlagði okkur að vera rótföst,9 grundvölluð og staðföst10 í kærleika okkar til frelsarans og ákvörðun okkar um að fylgja honum. Okkar tími og tíminn framundan, krefst meiri einbeitingar og áreynslu, til að verjast árásum og kæruleysi.11
Jafnvel mitt í vaxandi veraldlegum áhrifum umhverfis, þurfum við ekki að óttast. Drottinn mun aldrei yfirgefa sáttmálslýð sinn. Það er endurgoldinn kraftur andlegra gjafa og guðlegrar leiðsagnar til handa hinum réttlátu.12 Þessi aukna blessun andlegs kraftar, veitist okkur þó ekki bara af því að við tilheyrum þessari kynslóð. Hann veitist þegar við styrkjum trú okkar á Drottin Jesú Krist og höldum boðorð hans, er við kynnumst honum og elskum hann. Jesús baðst fyrir: „En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“13
Líkt og við vitum mæta vel, þá er það meira en ein ákvörðun – meira en enn atburður – að trúa á Jesú Krist og að vera sannur lærisveinn. Það er heilagt, viðvarandi ferli sem eflist og stækkar í gegnum árstíðir lífs okkar og heldur áfram þar til við krjúpum við fætur hans.
Þegar góða sæðið vex innan um illgresið í heiminum, hvernig getum við þá dýpkað og styrkt skuldbindingu okkar við frelsarann á komandi tíma?
Hér eru þrjár hugmyndir:
Sökkva okkur niður í lífi Jesú
Fyrsta: Við getum kafað dýpra í líf Jesú, kenningar hans, hátign, kraft hans og friðþægingarfórn. Frelsarinn sagði: „Beinið öllum hugsunum yðar til mín.“14 Jóhannes postuli áminnti okkur: „Við elskum því að Guð elskaði okkur að fyrra bragði.“15 Eftir því sem við upplifum kærleika hans betur, elskum við hann jafnvel enn meira og fylgjum betur því fordæmi hans að annast þá sem umhverfis eru. Með hverri réttlátri breytni í átt til hans, sjáum við hann skýrar.16 Við dáum hann og reynum af okkar veika mætti að líkja eftir honum.17
Gera sáttmála við Drottin
Þessu næst, vegna þess að við þekkjum og elskum frelsarann betur, þráum við enn frekar að heita honum hollustu okkar og trausti. Við gerum sáttmála við hann. Við byrjum á loforðum okkar við skírn og staðfestum þau loforð og önnur þegar við iðrumst daglega, biðjum um fyrirgefningu og tökum óðfús á móti sakramentinu í hverri viku. Við lofum að „hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans.“18
Þegar við erum tilbúin til þess, meðtökum við helgiathafnir og sáttmála musterisins. Þegar við finnum fyrir áhrifum eilífðarinnar á helgum, friðsælum stundum í húsi Drottins, gerum við fúslega sáttmála við Guð og eflum þann ásetning okkar að halda þá.
Að gera og halda sáttmála, gerir elsku frelsarans kleift að festa djúpar rætur í hjarta okkar. Í Líahónaþessa mánaðar sagði Nelson forseti: „Sáttmál[ar okkar] munu leiða okkur stöðugt nær honum. … Guð mun ekki fyrirgera sambandi sínu við þá sem hafa bundist honum slíkum böndum.“19 Eins og Nelson forseti lofaði svo fallega í morgun: „Með vígslu hvers nýs musteris, eykst guðlegur kraftur í heiminum til að styrkja okkur og vega upp á móti hinum síauknu árásum andstæðingsins.“20
Fáum við séð hvers vegna Drottinn leiðbeinir spámanni sínum að færa hin helgu musteri nær okkur og gera okkur kleift að dvelja oftar í húsi hans?
Þegar við göngum inn í musterið og lærum um tilgang okkar í lífinu og eilífu gjafirnar sem okkur eru boðnar fyrir milligöngu frelsara okkar, Jesú Krists, losnum við um stund undan þeim veraldlegu áhrifum sem hrannast upp gegn okkur.
Varðveita gjöf heilags anda
Þriðja og síðasta hugmyndin mín: Í þessu helga viðfangsefni varðveitum við og verndum gjöf heilags anda. M. Russell Ballard forseti og öldungur Kevin W. Pearson vitnuðu báðir hér rétt áður í þessa spámannlegu aðvörun Nelsons forseta, sem ég mun endurtaka aftur: „Á komandi tíð verður ekki mögulegt að komast af andlega, án þess að njóta stöðugrar handleiðslu, huggunar og áhrifa heilags anda.“21 Þetta er ómetanleg gjöf. Við gerum okkar besta til að vernda okkur sjálf í daglegum upplifunum, svo við njótum áfram áhrifa heilags anda. Við erum ljós heimsins og þegar nauðsyn krefur veljum við fúslega að vera öðruvísi en aðrir. Dallin H. Oaks forseti spurði nýlega ungt einhleypt fólk: „,Þorið [þið] að vera öðruvísi?‘ … Þær ákvarðanir sem þið takið í eigin lífi eru [einkar] mikilvægar. … Haldið þið áfram gegn andstöðu heimsins?“22
Veljið að vera öðruvísi en heimurinn
Í nýlegri færslu á samfélagsmiðlum bað ég samlærisveina að segja frá því hvernig þau hafa valið að vera öðruvísi en heimurinn. Mér bárust hundruð svara.23 Hér eru bara nokkur þeirra:
Amanda: Ég er hjúkrunarfræðingur og starfa í fangelsinu á staðnum. Ég reyni að annast fangana, eins og Kristur myndi gera.
Rachel: Ég er óperusöngkona og það er oft sjálfgefið að ég klæðist þeim búningi sem mér er færður, óháð hógværð. [Vegna þess að ég hef musterisgjöf,] sagði ég [framleiðendunum] að búningurinn yrði að vera [hóflegur]. Þeir voru óánægðir … en gerðu breytingarnar með tregðu. Ég myndi ekki skipta á þeim friði sem veitist af því að standa sem vitni Krists á öllum tímum.
Chriss: Ég er alkóhólisti (í bata), musterisverðugur, meðlimur kirkjunnar. Ég er ekki þögull um reynslu mína af fíkn og af því að öðlast vitnisburð um friðþægingu [Jesú Krists].
Lauren: Ég var að skrifa grínatriði með bekkjarfélögum mínum í menntaskóla. Þau vildu fá minn hljóða, hlédræga persónuleika til að missa stjórn á sér með blótsyrðum. Þau héldu áfram að þrýsta á mig, en ég neitaði og fékk mitt fram.
Adam: Margir trúa mér ekki þegar ég segist halda skírlífislögmálið og kjósi að forðast klámefni. Þeir skilja ekki þá gleði og hugarró sem þetta veitir mér.
Ella: Faðir minn er meðlimur LGBTQ samfélagsins. Ég reyni alltaf að hafa tilfinningar annarra í huga á meðan ég stend sem vitni um Krist og er trú því sem ég trúi.
Andrade: Ég ákvað að halda áfram að fara í kirkju þegar fjölskyldan mín ákvað að fara ekki lengur.
Svo að lokum frá Sherry: Við vorum að sækja viðburð í höfðingjasetri ríkisstjórans. Þau tóku að útdeila kampavíni til að „skála.“ Ég stóð fast á því að fá vatn, þótt starfsfólkið hefði sagt að það væri móðgandi. Við skáluðum fyrir ríkisstjóranum og ég lyfti vatnsglasinu mínu hátt á loft! Ríkisstjórinn varð ekki móðgaður.
Nelson forseti sagði: „Já, þið lifið í heiminum, en staðlar ykkur eru afar ólíkir stöðlum heimsins, til að hjálpa ykkur að forðast óhreinindi heimsins.“24
Anastasia, ung móðir í Úkraínu, var á sjúkrahúsi og nýbúin að fæða dreng þegar sprengjuárásirnar hófust í Kænugarði í febrúar síðastliðnum. Hjúkrunarfræðingur opnaði dyrnar á sjúkrastofunni og sagði brýnni röddu: „Taktu barnið þitt, vefðu því inn í teppi og farðu fram í anddyrið — núna!
Anastasia sagði síðar:
„Ég hafði aldrei ímyndað mér að fyrstu dagar mínir í móðurhlutverkinu yrðu svona erfiðir, … en … ég einbeiti mér að … þeim blessunum og kraftaverkum sem ég hef séð. …
Á þessari stundu … gæti virst algjörlega ómögulegt að fyrirgefa þeim sem hafa valdið svo miklum skaða og harmi … , en sem lærisveinn Jesú Krists, trúi ég að mér muni takast að [fyrirgefa]. …
Ég veit ekki allt sem mun gerast í framtíðinni, … en ég veit að þegar við höldum sáttmála okkar, mun það gera andanum kleift að vera ætíð með okkur, … gera okkur mögulegt að finna gleði og von, … jafnvel á erfiðum tímum.“25
Loforðið um eilíft líf og himneska dýrð
Kæru bræður og systur, ég hef verið ríkulega blessaður með elsku okkar ástkæra frelsara, Jesú Krists. Ég veit að hann lifir og leiðir sitt heilaga verk. Ég get ekki fyllilega tjáð elsku mína til hans með orðum.
Við erum öll „sáttmálslýður“ sem nær yfir alla jörðu, meðal þjóða og menningar í öllum heimsálfum, milljónir að tölu, og væntum dýrðlegrar endurkomu Drottins okkar og frelsara. Við lýsum sem ljós fyrir þá sem eru umhverfis og temjum meðvitað þrár okkar, hugsanir, val og verk. Með því að reyna af öllu hjarta að þekkja og elska frelsarann, skiljum við okkur frá heiminum með sáttmálum við Guð og verðum áberandi, óvenjuleg og sérstök er við heiðrum hann og kenningar hans, án þess að einangra okkur frá öðrum í heiminum sem trúa öðru.
Það er dásamlegt ferðalag að vera hveitið meðal illgresisins, stundum harmþrungið, en alltaf friðsælt og þroskandi og fullvissandi vegna trúar okkar. Þegar þið leyfið elsku ykkar til frelsarans, og elsku hans til ykkar, að skjóta djúpum rótum í hjarta ykkar, þá lofa ég að sjálfstraust ykkar, friður og gleði munu aukast er þið takist á við áskoranir lífsins. Frelsarinn hefur líka lofað okkur: „Ég [mun] safna saman fólki mínu, samkvæmt dæmisögunni um hveitið og illgresið, svo að safna megi hveitinu í hlöðu og það hljóti eilíft líf og krýnist himneskri dýrð.“26 Í nafni Jesú Krists, amen.