Íklæð þig styrk þínum, Síon
Sérhvert okkar ætti af kostgæfni að meta stundlega og andlega forgangsröðun sína.
Dæmisögur eru einkennandi fyrir meistaralega nálgun Drottins Jesú Krists við kennslu. Á einfaldan hátt eru dæmisögur frelsarans frásagnir sem notaðar eru til að líkja andlegum sannleika við efnislega hluti og jarðneska reynslu. Í guðspjöllum Nýja testamentisins eru til að mynda fullt af kenningum þar sem himnaríki er líkt við mustarðskorn,1 dýrmæta perlu,2 húsbónda og verkamenn í víngarði,3 tíu meyjar4 og margt fleira. Ritningarnar segja um hluta af þjónustu Drottins í Galíleu: „Án dæmisagna talaði hann ekki til þeirra.“5
Fyrirhuguð merking eða boðskapur dæmisögu er venjulega ekki tjáður beint. Sagan miðlar aðeins guðlegum sannleika til viðtakandans í hlutfalli við trú hans eða hennar á Guð, persónulegan andlegan undirbúning og vilja til að læra. Hver og einn verður því að iðka siðferðislegt sjálfræði á virkan hátt og „leita, finna og knýja á“6 til að uppgötva sannleikann sem felst í dæmisögu.
Ég bið þess einlæglega að heilagur andi upplýsi hvert og eitt okkar þegar við íhugum nú mikilvægi dæmisögunnar um hina konunglegu brúðkaupsveislu.
Konunglega brúðkaupsveislan
„Þá tók Jesús enn að segja þeim dæmisögu:
Líkt er um himnaríki og konung einn sem gerði brúðkaup sonar síns.
Hann sendi þjóna sína að kalla brúðkaupsgestina til brúðkaupsins en þeir vildu ekki koma.
Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: Segið boðsgestunum: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið.
En boðsgestirnir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns.“7
Í fornöld var brúðkaupshátíð eitt skemmtilegasta tilefnið í lífi gyðinga – viðburður sem tók viku eða jafnvel tvær. Slíkur viðburður krafðist mikils skipulags og voru gestir látnir vita með löngum fyrirvara, með áminningu senda á opnunardegi hátíðarinnar. Boð konungs til þegna sinna í slíkt brúðkaup var í meginatriðum talið tilskipun. Samt komu margir boðsgestanna í þessari dæmisögu ekki.8
„Að neita að vera viðstaddur veislu konungsins, var vísvitandi mótþrói gegn konunglegu valdi og persónuleg svívirðing gegn bæði ríkjandi þjóðhöfðingja og syni hans. Ef einn hefði horfið til býlis síns og annar til [viðskipta sinna],“9 hefði það endurspeglað ranga forgangsröðun viðkomandi og algjört skeytingarleysi fyrir vilja konungs.10
Dæmisagan heldur áfram:
„Síðan segir hann við þjóna sína: Brúðkaupsveislan er tilbúin en boðsgestirnir voru ekki verðugir.
Farið því út á stræti og torg og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þið finnið.
Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum.“11
Venja var sú á þessum tíma að gestgjafi brúðkaupsveislu – í þessari dæmisögu konungurinn – sæi brúðkaupsgestum fyrir klæðum. Slík brúðkaupsklæði voru einfaldar, látlausar skikkjur sem allir gestir klæddust. Á þann hátt áttu tignir og stöður ekki rétt á sér og allir veislugestir gátu blandað geði sem jafningjar.12
Fólk á strætum úti, sem boðið var í brúðkaupið, hefði ekki haft tíma eða burði til að verða sér úti um viðeigandi klæði til að búa sig undir viðburðinn. Konungurinn gaf því líklega gestum klæði úr eigin fataskáp. Öllum gafst kostur á að klæða sig í klæði konungs.13
Þegar konungur gekk inn í brúðkaupssalinn, virti hann fyrir sér áhorfendur og veitti strax athygli að einn áberandi gestur var ekki í brúðkaupsklæðum. Maðurinn var leiddur fram og konungur spurði: „Vinur, hvernig ert þú hingað kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum? Maðurinn gat engu svarað.“14 Konungurinn spurði í raun: „Af hverju ertu ekki í brúðkaupsklæðum, þótt þér hafi verið séð fyrir þeim?“15
Maðurinn var augljóslega ekki rétt klæddur fyrir þetta sérstaka tilefni og orðin: „Maðurinn gat engu svarað,“ gefa til kynna að hann hafi verið án afsökunar.16
Öldungur James E. Talmage kom með þessa lærdómsríku ábendingu um breytni mannsins: „Að óklæddi gesturinn hafi gerst sekur um vanrækslu, vísvitandi vanvirðingu eða eitthvað grófara brot, er augljóst af samhenginu. Konungurinn var í fyrstu náðarsamlega tillitssamur og spurði aðeins hvernig maðurinn hefði farið inn án brúðkaupsklæða. Hefði maðurinn getað útskýrt einstakt útlit sitt, eða haft einhverja skynsamlega afsökun fram að leggja, hefði hann örugglega talað; en okkur er sagt að hann hafi verið orðlaus. Tilskipun konungs hafði óhindrað verið send til allra, sem þjónar hans höfðu fundið; en hver þeirra varð að ganga inn í konungshöllina inn um dyrnar; og áður en komið var að veisluherberginu, þar sem konungur kæmi fram í eigin persónu, skyldi hver rétt klæddur; en þeim sem var ábótavant hafði með einhverjum hætti komist inn á annan hátt; og þar sem hann hafði ekki farið fram hjá vörðunum við hliðið, var hann boðflenna.“17
Kristinn rithöfundur, John O. Reid, benti á að neitun mannsins um að klæðast brúðkaupsklæðunum væri til marks um augljóst „virðingarleysi við bæði konunginn og son hans.“ Það var ekki svo að hann vantaði einfaldlega brúðkaupsklæði; heldur kaus hann að klæðast þeim ekki. Hann neitaði af mótþróa að klæða sig fyrir viðeigandi tilefni. Viðbrögð konungsins voru skjót og afdráttarlaus: „Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.“18
Dómur konungsins yfir manninum byggist ekki aðallega á að honum vantaði brúðkaupsklæði – heldur á því að „hann var í raun staðráðinn í því að klæðast þeim ekki. Maðurinn … þráði þann heiður að vera viðstaddur brúðkaupsveisluna, en … vildi ekki fylgja siðum konungs. Hann vildi gera hlutina á sinn hátt. Hann sýndi mótþróa gegn konunginum og fyrirmælum hans með því að klæðast ekki réttum fatnaði.“19
Margir eru kallaðir, en fáir útvaldir
Dæmisögunni lýkur síðan á þessu óþægilega ritningarversi: „Því að margir eru kallaðir en fáir útvaldir.“20
Athyglisvert er að Joseph Smith gerði eftirfarandi breytingu á þessu versi í Matteusi í hinni innblásnu þýðingu hans á Biblíunni: „Því að margir eru kallaðir en fáir eru útvaldir; vegna þess að allir eru ekki íklæddir brúðkaupsklæðunum.“21
Samhengi er á milli boðsins til brauðkaupsveislunnar og hinna útvöldu sem taka þátt í veislunni, en þetta tvennt er þó ólíkt. Boðið nær til allra karla og kvenna. Einstaklingur getur jafnvel þegið boðið og sest niður við veisluna – en ekki verið útvalinn til að taka þátt, því hann eða hún er ekki í réttum brúðkaupsklæðum hinnar umbreytandi trúar á Drottin Jesú og guðlegrar náðar hans. Þannig höfum við bæði köllun Guðs og einstaklingsbundið svar okkar við því kalli, og margir geta verið kallaðir en fáir útvaldir.22
Að vera eða verða útvalinn, er ekki staða sem okkur er veitt. Þið og ég getið öllu heldur að endingu valið að vera útvalin með réttlátri iðkun siðferðislegs sjálfræðis okkar.
Gætið að notkun orðsins útvaldir í eftirfarandi kunnuglegu versum í Kenningu og sáttmálum:
„Sjá, margir eru kallaðir en fáir eru útvaldir. Og hvers vegna eru þeir ekki útvaldir?
Vegna þess að hjörtu þeirra beinast svo mjög að því, sem þessa heims er, og leita sér svo mannlegrar upphefðar.“23
Ég tel að skilaboð þessara versa séu nokkuð blátt áfram. Guð er ekki með lista yfir uppáhalds einstaklinga, sem við verðum að vona að nafni okkar verði einhvern daginn bætt við. Hann takmarkar ekki „hina útvöldu“ eingöngu við fáa. Þess í stað ákvarðar hjarta okkar, þrá okkar, virðing okkar við helga sáttmála fagnaðarerindisins, hlýðni okkar við boðorðin og síðast en ekki síst hin endurleysandi náð frelsarans, hvort við teljumst vera ein af hinum útvöldu Guðs.24
„Því að vér ritum af kappi til að hvetja börn vor og einnig bræður vora til að trúa á Krist og sættast við Guð, því að vér vitum, að vér frelsumst fyrir náð, að afloknu öllu, sem vér getum gjört.“25
Í okkar annasama daglegu lífi og í uppnámi samtímaheimsins sem við lifum í, gætum við misst athyglina frá hinum eilífu hlutum sem mestu skipta og aðallega einblínt á ánægju, velmegun, vinsældir og frægð. Skammtíma viðfangsefni okkar við það „sem þessa heims er“ og leiðir til „mannlegrar upphefðar,“ gæti leitt til þess að við gæfum frá okkur andlegan fæðingarrétt okkar fyrir eitthvað sem ekki er meira virði en baunakássa.26
Fyrirheit og vitnisburður
Ég endurtek áminningu Drottins til fólks síns, sem sett var fram með Haggaí, spámanni Gamla testamentisins: „Því segir Drottinn allsherjar: Sjáið hvernig ykkur hefur farnast.“27
Sérhvert okkar ætti af einlægni að meta stundlega og andlega forgangsröðun sína og af kostgæfni bera kennsl á þá hluti í lífi okkar sem geta hindrað hinar ríkulegu blessanir sem himneskur faðir og frelsarinn eru fúsir til að veita okkur. Heilagur andi mun vissulega hjálpa okkur að sjá okkur sjálf eins og við í raun erum.28
Þegar við leitum á viðeigandi hátt eftir hinni andlegu gjöf að sjá með augum okkar og heyra með eyrum okkar,29 þá lofa ég því að við verðum blessuð með getu og dómgreind til að styrkja sáttmálssamband okkar við lifandi Drottin. Við munum einnig hljóta kraft guðleikans í lífi okkar26 – og að lokum verða bæði kölluð til og útvalin fyrir veislu Drottins.
„Vakna þú, vakna, íklæð þig styrk þínum, Síon.“31
„Því að fegurð Síonar og helgi verður að aukast, mörk hennar að færast út og stikur hennar að styrkjast. Já, sannlega segi ég yður, Síon verður að rísa og klæðast skrautklæðum sínum.“32
Af gleði ber ég vitni um guðleika og lifandi raunveruleika Guðs, hins eilífa föður okkar, og hans ástkæra sonar, Jesú Krists. Ég ber vitni um að Jesús Kristur er frelsari okkar og lausnari og að hann lifir. Ég ber líka vitni um það að faðirinn og sonurinn birtust drengnum Joseph Smith og hófu þannig endurreisn fagnaðarerindis frelsarans á síðari dögum. Megi hvert okkar leita að og vera blessað með augum til að sjá og eyrum til að heyra, þess bið ég í hinu heilaga nafni Drottins Jesú Krists, amen.