Jesús er svarið
Hversu erfiðar og torskildar sem áskoranir ykkar kunna að verða, þá getið þið alltaf og alla ævi haft hugfast að svarið er einfalt: það er alltaf Jesús.
Hvílíkur heiður að fá að tala til ykkar á þessum ráðstefnuhluta. Í dag ávarpa ég ykkur sem vini. Í Jóhannesarguðspjalli kenndi frelsarinn að við værum vinir hans, ef við gerum það sem hann biður okkur að gera.1
Það er hin einstaklingsbundna og sameiginlega elska okkar til frelsarans og sáttmálar okkar við hann sem binda okkur saman. Líkt og Henry B. Eyring forseti kenndi: „Ég vil tjá ykkur hversu mikið Drottinn elskar og treystir ykkur. Og enn frekar vil ég segja ykkur hversu mikið hann reiðir sig á ykkur.“2
Þegar ég var kallaður sem aðalvaldhafi af Russell M. Nelson forseta, vöknuðu miklar tilfinningar. Þær voru yfirþyrmandi. Ég og Julie, eiginkona mín, biðum spennt eftir laugardagssíðdegishluta aðalráðstefnu. Ég fylltist auðmýkt þegar ég var studdur. Ég taldi vandlega skrefin að mínu útnefnda sæti, til að mistakast ekki í mínu fyrsta verkefni.
Í lok þessa ráðstefnuhluta, gerðist nokkuð sem hafði mikil áhrif á mig. Sveitarmeðlimirnir mynduðu röð og heilsuðu hinum nýju aðalvaldhöfum einum af öðrum. Sérhver þeirra sýndi elsku og stuðning. Með hjartnæmu abrazo sögðu þeir: „Ekki hafa áhyggjur – þú tilheyrir.“
Í sambandi okkar við frelsarann lítur hann á hjartað og fer ekki í manngreinarálit.3 Íhugið hvernig hann valdi postula sína. Hann gaf ekki gaum að stöðu eða ríkidæmi. Hann býður okkur að fylgja sér og ég trúi því að hann fullvissi okkur um að við tilheyrum honum.
Þessi boðskapur á einkum við um ungmenni kirkjunnar. Ég sé í ykkur það sem Nelson forseti sér í ykkur. Hann sagði: „Það er óneitanlega eitthvað sérstakt við þessa kynslóð ungmenna. Himneskur faðir ykkar verður að bera mikið traust til ykkar til að senda ykkur til jarðar á þessum tíma. Þið eruð fædd til mikilleika!“4
Ég er þakklátur fyrir það sem ég læri af ungmennunum. Ég er þakklátur fyrir það sem börnin mín kenna mér, fyrir það sem trúboðarnir okkar kenna mér og fyrir það sem frænkur mínar og frændur kenna mér.
Fyrir ekki all löngu, var ég að vinna á býlinu okkar með Nash frænda mínum. Hann er sex ára og hjarta hans er hreint. Hann er uppáhalds frændi minn sem heitir Nash og ég held að ég sé uppáhalds frændi hans sem talar á ráðstefnu í dag.
Þegar hann hjálpaði mér að finna lausn fyrir verkefnið okkar, sagði ég: „Nash, þetta er frábær hugmynd. Hvernig varðst þú svona klár?“ Hann horfði á mig með svip í augunum sem sagði: „Ryan frændi, hvernig má það vera að þú veist ekki svarið við þessari spurningu?“
Hann yppti bara öxlum, brosti og sagði fullviss: „Jesús.“
Nash minnti mig dag þennan á þessa einföldu og þó djúpstæðu kennslu. Svarið við einföldustu spurningunum og flóknustu vandamálunum er alltaf það sama. Jesús Kristur er svarið. Sérhverja lausn er að finna í honum.
Í Jóhannesarguðspjalli sagði frelsarinn við lærisveina sína að hann myndi búa þeim stað. Tómas varð ráðvilltur og sagði við frelsarann:
„,Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?‘
Jesús segir við hann: ,Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.‘“5
Frelsarinn kenndi lærisveinum sínum að hann væri vegurinn, sannleikurinn og lífið. Hann er svarið við spurningunni um það hvernig komast á til himnesks föður. Að öðlast vitnisburð um guðlegt hlutverk hans í lífi okkar, var eitthvað sem ég lærði sem ungur maður.
Þegar ég þjónaði sem trúboði í Argentínu bauð Howard W. Hunter forseti okkur að gera nokkuð sem hafði mikil áhrif á líf mitt. Hann sagði: „Við verðum að þekkja Krist betur en við þekkjum hann; við verðum að minnast hans oftar en við minnumst hans; við verðum að þjóna honum af meiri trúfesti en við þjónum honum.“6
Á þeim tíma hafði ég haft áhyggjur af því hvernig hægt væri að verða betri trúboði. Þetta var svarið: að þekkja Krist, minnast hans og þjóna honum. Trúboðar um allan heim eru sameinaðir í þessum tilgangi: að „bjóða öðrum að koma til Krists með því að hjálpa þeim að meðtaka hið endurreista fagnaðarerindi fyrir trú á [hann] og friðþægingu hans“ og fyrir „iðrun, skírn, gjöf heilags anda og með því að standast allt til enda.“7 Við þá vini okkar sem hlýða á trúboðana, ítreka ég boðið um að koma til Krists. Saman munum við leitast við að þekkja hann, minnast hans og þjóna honum.
Að þjóna í trúboði, var helgur tími í lífi mínu. Í síðasta viðtali mínu við hann sem fastatrúboði, ræddi Blair Pincock forseti um væntanlegar breytingar á trúboðsleiðtogum, þar sem hann og eiginkona hans voru líka að ljúka þjónustu sinni. Okkur þótti báðum leitt að yfirgefa það sem okkur þótti svo vænt um. Hann sá að ég átti erfitt með þá tilhugsun að vera ekki fastatrúboði. Hann var mikill trúmaður og kenndi mér af ástúð, eins og hann hafði gert undanfarin tvö ár. Hann benti á myndina af Jesú Kristi fyrir ofan skrifborðið sitt og sagði: „Öldungur Olsen, þetta verður allt í lagi því þetta er verkið hans.“ Ég var fullviss um að frelsarinn myndi hjálpa okkur, ekki bara meðan við þjónuðum, heldur alltaf – ef við leyfum honum það.
Systir Pincock kenndi okkur af hjartans list einföldustu spænsku orðtökin. Þegar hún sagði: „Jesucristo vive,“ vissi ég að það var sannleikur og að hann lifir. Þegar hún sagði: „Elderes y hermanas, les amo,“ vissi ég að hún elskaði okkur og vildi að við fylgdum alltaf frelsaranum.
Ég og eiginkona mín hlutum nýlega þá blessun að þjóna sem trúboðsleiðtogar og starfa með dásamlegum trúboðum í Úrúgvæ. Ég myndi segja að þetta væru bestu trúboðar í heimi og ég treysti því að öllum trúboðsleiðtogum finnist það sama. Þessir lærisveinar kenndu okkur á hverjum degi að fylgja frelsaranum.
Í reglubundnum viðtölum, kom einn af okkar frábæru systratrúboðum inn á skrifstofuna. Hún var farsæll trúboði, frábær þjálfari og hollur leiðtogi. Félagar hennar litu upp til hennar og fólkið elskaði hana. Hún var hlýðin, auðmjúk og sjálfsörugg. Fyrri viðtöl okkar snérust um svæðið hennar og fólkið sem hún kenndi. Þetta viðtal var öðruvísi. Þegar ég spurði hvernig hún hefði það, fann ég að hún átti erfitt. Hún sagði: „Olsen forseti, ég veit ekki hvort ég geti gert þetta. Ég veit ekki hvort ég verð nokkurn tímann nógu góð. Ég veit ekki hvort ég geti verið sá trúboði sem Drottinn þarfnast að ég verði.“
Hún var dásamlegur trúboði. Frábær í alla staði. Draumur trúboðsforsetans. Ég hafði aldrei áhyggjur af hæfileikum hennar sem trúboða.
Þegar ég hlustaði á hana, átti ég erfitt með að vita hvað ég ætti að segja. Ég bað hljóðlega: „Himneski faðir, hún er framúrskarandi trúboði. Hún er þín. Hún er að gera allt sem rétt er. Ég vill ekki skemma fyrir. Viltu hjálpa mér að vita hvað segja skal.“
Orðin komu í huga minn. Ég sagði: „Hermana, mér þykir afar leitt að þér líði svona. Leyfðu mér að spyrja þig spurningar. Hvað myndir þú segja ef þú ættir vinkonu sem þú værir að kenna, sem liði eins og þér?“
Hún horfði á mig og brosti. Með þessum ótvíræða trúboðsanda og sannfæringu sagði hún: „Forseti, þetta er auðvelt. Ég myndi segja henni að frelsarinn þekki hana fullkomlega. Ég myndi segja henni að hann lifir. Hann elskar þig. Þú ert nógu góð og þú skilur þetta!“
Með smá flissi sagði hún: „Ég býst við að fyrst þetta á við um vinkonu okkar, þá á það líka við um mig.“
Þegar við höfum spurningar eða efasemdir, gæti okkur fundist lausnirnar of flóknar eða of ruglandi að finna svör. Megum við hafa hugfast að andstæðingurinn, já, faðir allra lyga, er hönnuður glundroðans.8
Frelsarinn er meistari einfaldleikans.
Nelson forseti hefur sagt:
„Óvinurinn er klókur. Í árþúsundir hefur hann látið gott sýnast illt og illt sýnast gott. Það sem frá honum kemur er hávært, hvatvíst og sjálfhælið.
Boðskapur föður okkar á himnum er hins vegar áberandi ólíkur. Það sem frá honum kemur er einfalt, kyrrlát og svo grípandi og hreinskilið að við fáum ekki misskilið.“9
Hver þakklát við erum fyrir að Guð elskaði okkur svo að hann sendi son sinn. Hann er svarið.
Nelson forseti sagði nýlega:
„Aldrei hefur verið meiri þörf fyrir fagnaðarerindi Jesú Krists en á okkar tíma. …
Þetta undirstrikar hina brýnu nauðsyn að við fylgjum boði Drottins til lærisveina sinna: ,Farið út um allan heim og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni.‘“10
Þeim sem munu velja að þjóna, get ég vottað þær blessanir sem munu hljótast þegar þið hlýðið kalli spámanns. Þjónusta snýst ekki um ykkur; hún snýst um frelsarann. Þið verið kölluð í stöðu, en mikilvægara er þó að þið verðið kölluð til að þjóna fólki. Þið munið bera þá miklu ábyrgð og njóta þeirrar blessunar að hjálpa nýjum vinum að skilja að Jesús er svarið.
Þetta er Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og það er hér sem við eigum heima. Allt sem Nelson forseti hvetur okkur ástúðlega að gera, mun leiða okkur nær frelsaranum.
Þið, dásamlega æskufólk – þar á meðal frændi minn Nash – hversu erfiðar og torskildar áskoranir ykkar kunna að verða, þá getið þið alltaf og alla ævi haft hugfast að svarið er einfalt: það er alltaf Jesús.
Ég segi það sama og ég hef oft heyrt þá segja sem við styðjum sem spámenn, sjáendur og opinberara: Við elskum ykkur, við þökkum ykkur og við þörfnumst ykkar. Hér eigið þið heima.
Ég elska frelsarann. Ég ber vitni um nafn hans, já, Jesú Krists. Ég ber vitni um að hann er „höfundur og fullkomnari trúar okkar“11 og að hann er meistari einfaldleikans. Jesús er svarið. Í nafni Jesú Krists, amen.