Þeim langaði að sjá hver Jesús væri
Ég ber vitni um að Jesús lifir, að hann þekkir okkur og að hann hefur mátt til að lækna, umbreyta og fyrirgefa.
Bræður, systur og vinir, árið 2013 vorum ég og eiginkona mín, Laurel, kölluð til að þjóna sem trúboðsleiðtogar í tékkneska slóvakíska trúboðinu. Börnin okkar fjögur þjónuðu með okkur.1 Við vorum blessuð sem fjölskylda með frábærum trúboðum og af hinum undraverðu tékknesku og slóvakísku heilögu. Við elskum þau.
Þegar fjölskylda okkar fór út á trúboðsakurinn, fór nokkuð sem öldungur Joseph B. Wirthlin kenndi með okkur. Í ræðu sem bar yfirskriftina „Boðorðið æðsta,“ spurði öldungur Wirthlin: „Elskið þið Drottin?“ Leiðsögn hans til okkar sem svöruðum „já“ var einföld og djúp: „Verjið tíma ykkar með honum. Hugleiðið orð hans. Takið á ykkur ok hans. Leitist við að skilja og hlýða.“2 Öldungur Wirthlin lofaði síðan þeim umbreytandi blessunum, sem væru fúsir til að helga Jesú Kristi tíma og stað.3
Við tókum leiðsögn og loforð öldungs Wirthlin til okkar. Ásamt trúboðum okkar, vörðum við lengri tíma með Jesú við að læra Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes í Nýja testamentinu og 3. Nefí í Mormónsbók. Í lok hverrar trúboðssamkomu, fundum við okkur aftur í því sem við kölluðum „guðspjöllin fimm,“4 að lesa, ræða, íhuga og læra um Jesú.
Fyrir mig, fyrir Laurel og fyrir trúboðana okkar, breytti öllu að verja tíma með Jesú í ritningunum. Við hlutum dýpra þakklæti fyrir hver hann var og hvað væri honum mikilvægt. Saman könnuðum við hvernig hann kenndi, hvað hann kenndi, hvernig hann sýndi kærleika, hvað hann gerði til að blessa og þjóna, kraftaverk hans, hvernig hann brást við svikum, hvað hann gerði varðandi erfiðar mannlegar tilfinningar, titlana og nöfnin hans, hvernig hann hlustaði, hvernig hann leysti átök, heiminn sem hann lifði í, dæmisögur hans, hvernig hann hvatti til einingar og góðvildar, hæfni hans til að fyrirgefa og lækna, prédikanir hans, bænir hans, friðþægingarfórn hans, upprisu hans, fagnaðarerindi hans.
Okkur leið oft eins og Sakkeusi sem var „lítill vexti,“ klifrandi upp í mórberjatréð er Jesús átti leið um Jeríkó, vegna þess að okkur langaði, með orðum Lúkasar, „til að sjá Jesú.“5 Hann var ekki sá Jesús sem við vildum eða óskuðum að hann væri, heldur Jesús eins og hann var í raun og veru.6 Rétt eins og öldungur Wirthlin hafði lofað, þá lærðum við á mjög raunverulegan hátt að „fagnaðarerindi Jesú Krists er fagnaðarerindi umbreytingar. Það tekur okkur sem mönnum og konum jarðar og umbreytir okkur í menn og konur eilífðanna.”7
Þetta voru sérstakir dagar. Við fórum að trúa að „Guði er enginn hlutur um megn.“8 Helgar síðdegisstundir í Prag, Bratislava eða Brno, við að íhuga og upplifa kraft og veruleika Jesú, halda áfram að enduróma í lífi okkar allra.
Oft lærðum við Markús 2:1–12. Sagan þar er sannfærandi. Mig langar að lesa hluta hennar í Markúsi og miðla henni síðan eins og ég hef skilið hana, eftir yfirgripsmikið nám og umræður við trúboða okkar og aðra.9
„Nokkrum dögum síðar kom Jesús aftur til Kapernaúm. Þegar fréttist að hann væri heima
söfnuðust þar svo margir að hvergi var lengur rúm, ekki einu sinni fyrir dyrum úti. Og Jesús flutti þeim orðið.
Þá er komið með lama mann og báru fjórir.
Þegar þeir gátu ekki komist með hann til Jesú fyrir fólkinu rufu þeir þekjuna uppi yfir honum, grófu þar í gegn og létu síga ofan rekkjuna sem hinn lami lá í.
Þá er Jesús sér trú þeirra segir hann við lama manninn: ‚Barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.‘“
Eftir samskipti við einhverja meðal mannfjöldans,10 lítur Jesús á manninn sem var með lömunarsjúkdóm og læknar hann líkamlega með því að segja:
„,Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín.‘
Maðurinn stóð upp, tók jafnskjótt rekkjuna og gekk burt í allra augsýn svo að allir voru furðu lostnir, lofuðu Guð og sögðu: ,Aldrei áður höfum við þvílíkt séð.‘“11
Ég segi nú söguna eins og ég hef skilið hana: Snemma í þjónustu sinni sneri Jesús aftur til Kapernaúm, lítils fiskiþorps staðsett við norðurströnd Galíleuvatns.12 Hann hafði nýlega gert fjölda kraftaverka með því að lækna sjúka og reka út illa anda.13 Þorpsbúar voru fullir áhuga á að heyra og sjá manninn sem nefndur var Jesús og söfnuðust saman við heimilið þar sem orðrómur var um að hann dvaldi.14 Þegar þeir gerðu það, hóf Jesús kennslu sína.15
Húsin á þeim tíma í Kapernaúm voru þéttskipuð íbúðarhús á einni hæð með flötu þaki.16 Þakið og veggirnir voru blanda af steini, timbri, leir og þekju, aðgengilegt eftir einföldum þrepum á hlið hússins.17 Mannfjöldinn varð stöðugt meiri við húsið, fyllti herbergið þar sem Jesús var að kenna og náði út á götuna.18
Frásögnin fjallar um mann sem er „lami“ og fjóra vini hans.19 Lami er tegund lömunar sem oft fylgir máttleysi og skjálfti.20 Ég sé fyrir mér einn hinna fjögurra segja við hina: „Jesús er í þorpinu okkar. Við vitum öll um kraftaverkin sem hann hefur gert og þá sem hann hefur læknað. Ef við gætum bara farið með vin okkar til Jesú, kannski gæti hann þá líka orðið heill.“
Þeir taka því í hvert sitt hornið á rekkjunni eða rúmi vinar síns og taka að bera hann um krókóttar, þröngar, ósléttar götur Kapernaúm.21 Þreyttir og sárir koma þeir út úr síðustu beygjunni, aðeins til að komast að því að mannfjöldinn eða „fólkið,“ eins og ritningin kallar það, sem safnast hafði saman til að hlusta er svo mikill að ómögulegt er að komast að Jesú.22 Af elsku og trú gefast þessir fjórir ekki upp. Þeir klifra frekar upp tröppurnar á flata þakið, lyfta vini sínum og rekkju hans varlega upp, rjúfa þakið eða loftið á herberginu þar sem Jesús kennir og láta vin sinn síga þar niður.23
Hugsið ykkur að mitt í því sem hlýtur að hafa verið alvarleg kennslustund, heyrir Jesús skrjáfandi hljóð, lítur upp og sér stækkandi op í loftinu um leið og ryk og strá falla niður í herbergið. Lamaður maður í rekkju er síðan látinn síga niður á gólfið. Það merkilega er að Jesús sér þetta ekki sem truflun, heldur eitthvað sem er mikilvægt. Hann horfir á manninn í rekkjunni, fyrirgefur syndir hans opinberlega og læknar líkama hans.24
Með þessa frásögn í Markús 2 í huga, þá verða nokkur sannindi skýr um Jesú sem Krist. Í fyrsta lagi, þegar við reynum að hjálpa einhverjum sem við elskum að koma til Krists, getum við gert það í fullvissu um að hann hafi getu til að lyfta byrði syndar og fyrirgefa. Í öðru lagi, þegar við komum með líkamlega, tilfinningalega eða aðra sjúkdóma til Krists, getum við gert það viss um að hann hafi mátt til að lækna og hugga. Í þriðja lagi, þegar við leggjum okkur fram við koma með aðra til Krists, eins og þessir fjórir, getum við gert það viss um að hann sjái einlægan ásetning okkar og muni heiðra hann á viðeigandi hátt.
Munið að kennsla Jesú var trufluð af því að gat var gert á þakið. Í stað þess að ávíta eða vísa frá þeim fjórum sem gerðu gatið fyrir þessa truflun, segir ritningin að „Jesús [hafi séð] trú þeirra.“25 Þau sem voru vitni að kraftaverkinu þá, „[lofuðu] Guð sem gefið hafði mönnum slíkt vald.“26
Bræður og systur, leyfið mér að ljúka með tveimur athugasemdum til viðbótar. Hvort sem við erum trúboðar, þjónar, Líknarfélagsforsetar, biskupar, kennarar, foreldrar, systkini eða vinir, þá erum við öll, sem Síðari daga heilagir lærisveinar, þátttakendur í því starfi að leiða aðra til Krists. Þess vegna eru eiginleikarnir sem vinirnir fjórir sýndu, þess virði að íhuga og líkja eftir.27 Þeir eru dirfska, aðlögunarhæfni, þrautseigja, sköpunargáfa, fjölhæfni, vongleði, ákveðni, trúfesti, bjartsýni, auðmýkt og þolgæði.
Að auki leggja vinirnir fjórir áherslu á andlegt mikilvægi samfélags og félagsskapar.28 Hver hinna fjögurra verður að halda uppi sínu horni, til að koma vini sínum til Krists. Ef einn sleppir takinu, verða hlutirnir erfiðari. Ef tveir gefast upp, verður verkið í raun ómögulegt. Hvert okkar hefur hlutverki að gegna í ríki Guðs.29 Þegar við uppfyllum það hlutverk og gerum okkar hlut, berum við okkar horn. Hvort heldur í Argentínu eða Víetnam, Akkra eða Brisbane, grein eða deild, sem fjölskylda eða félagar trúboða, þá hefur hvert okkar horn að bera. Þegar við gerum það, og ef við viljum gera það, mun Drottinn blessa okkur öll. Eins og hann sá trú þeirra, þannig mun hann líka sjá okkar trú og blessa okkur sem fólk.
Á mismunandi tímum hef ég borið hornið á rúminu og á öðrum tímum hef ég verið sá sem borinn var. Hluti af áhrifamætti þessarar merku frásagnar um Jesú er að hún minnir okkur á það hversu mikið við þörfnumst hvers annars, sem bræður og systur, til að koma til Krists og umbreytast.
Þetta er nokkuð af því sem ég hef lært af því að verja tíma með Jesú í Markúsi 2.
„Guð gefi að við megum [bera hornið okkar], að við megum ekki víkjast undan, að við megum ekki óttast, heldur að við megum vera sterk í trú okkar og staðráðin í verki okkar til að ná fram tilgangi Drottins.“30
Ég ber vitni um að Jesús lifir, að hann þekkir okkur og að hann hefur mátt til að lækna, umbreyta og fyrirgefa. Í nafni Jesú Krists, amen.