Arfleifð hvatningar
Ég hvet ykkur til að halda áfram að keppa að því að verða hæf til að snúa aftur til himnesks föður og Jesú Krists.
Kæru bræður og systur, ég er þakklátur fyrir að vera meðal ykkar á þessari aðalráðstefnu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Við höfum skynjað trú ykkar og elsku hvar sem þið kunnið að vera. Við höfum verið uppbyggð af innblásinni kennslu, máttugum vitnisburðum og mikilfenglegri tónlist.
Ég hvet ykkur til að halda áfram að keppa að því að verða hæf til að snúa aftur til himnesks föður og Jesú Krists. Hvar sem þið eruð stödd á sáttmálsveginum, munuð þið takast á við líkamlegar prófraunir jarðlífsins og andstöðu Satans.
Líkt og móðir mín sagði við mig, þegar ég kvartaði undan því hve erfitt eitthvað væri: „Ó, Hal, auðvitað er þetta erfitt. Þannig á það að vera. Lífið er prófraun.“
Hún gat sagt þetta af rósemd, jafnvel brosandi, því hún vissi tvennt. Á tillits til erfiðleikanna, var það sem mestu skipti að komast heim í návist himnesks föður. Hún vissi líka að hún gæti það með trú á frelsara sinn.
Hún fann að hann var henni nálægur. Á síðustu ævidögum sínum, talaði hún við mig um frelsarann, þar sem hún lá í herberginu sínu. Við hlið rúmsins hennar voru dyr í næsta herbergi. Hún brosti og horfði í átt að dyrunum, þegar hún talaði af yfirvegun um að hitta hann brátt. Ég man enn eftir að hafa horft á dyrnar og ímyndað mér herbergið hinum megin við þær.
Hún er nú í andaheiminum. Henni tókst að einblína á verðlaunin sem hún hafði þráð, þrátt fyrir áralangar líkamlegar og persónulegar raunir lífs síns.
Sú arfleifð hvatningar sem hún lét okkur eftir, er best lýst í Moróní 7, þar sem Mormón hvetur son sinn, Moróní, og þjóð sína. Þetta er arfleifð hvatningar til komandi kynslóða, eins og arfleifð móður minnar til fjölskyldu sinnar. Mormón fól öllum þessa arfleifð hvatningar sem leggja kapp á að gera sig hæf fyrir eilíft líf, með því að takast á við allar sínar jarðnesku prófraunir.
Í fyrstu versum Moróní 7, byrjar Mormón á því að gefa vitnisburð sinn um Jesú Krist, um engla og um anda Krists, sem gerir okkur kleift að þekkja gott frá illu og þess vegna getu til að velja rétt.
Hann setur Jesú Krist í fyrsta sæti, eins og allir sem af árangri hvetja þá áfram sem erfiða upp á við á veginum til síns himneska heimilis:
„Því að samkvæmt orðum Krists frelsast enginn maður, nema hann trúi á nafn hans. En hafi þetta horfið, þá hefur trúin einnig horfið. Og hörmulegt yrði þá hlutskipti mannsins, því að þá væri eins ástatt fyrir honum og engin endurlausn hefði átt sér stað.
En sjá, ástkæru bræður mínir, ég vænti betra af yður, því að ég vænti þess, að þér trúið á Krist vegna þess hve bljúgir þér eruð. Því að ef þér trúið ekki á hann, eruð þér ekki hæfir til að teljast meðal þeirra, sem í kirkju hans eru.“1
Mormón leit á bljúgleika þeirra sem merki um trúarstyrk. Hann sá að þeir reiddu sig á frelsarann. Hann hvatti þá með því að vekja athygli á þessari trú. Mormón hélt áfram að hvetja þá og hjálpaði þeim að skilja að trú þeirra og bljúgleiki myndu efla fullvissu þeirra og trú á árangri í erfiðleikum:
„Og enn fremur, ástkæru bræður mínir, vil ég ræða við yður um von. Hvernig getið þér eignast trú án þess að eiga von?
Og í hverju skal von yðar fólgin? Sjá, ég segi yður, að þér skuluð eiga von fyrir friðþægingu Krists og kraft upprisu hans, að vera reistir til eilífs lífs, og það vegna trúar yðar á hann, í samræmi við fyrirheitið.
Eigi maðurinn því trú, hlýtur hann að eiga von, því að án trúar er enga von að hafa.
Og sjá, ég segi yður enn fremur, að hann getur ekki átt trú og von án þess að hann sé hógvær og af hjarta lítillátur.“2
Mormón hvatti þá síðan, með því að bera vitni um að þeir væru á leið með að hljóta þá gjöf að hjörtu þeirra fylltust hinni hreinu ást Krists. Fyrir þá, fléttar hann saman samvirkri trú á Jesú Krist, bljúgleika, auðmýkt, heilögum anda og staðfastri von um að hljóta eilíft líf. Hann hvatti þá á þennan hátt:
„Enginn er Guði velþóknanlegur, nema hinn hógværi og af hjarta lítilláti. Og ef maðurinn er hógvær og af hjarta lítillátur og játar með krafti heilags anda, að Jesús sé Kristur, hlýtur hann að eiga kærleika. Því að skorti hann kærleika, er hann ekkert. Þess vegna verður hann að eiga kærleika.“3
Þegar ég lít yfir farinn veg, sé ég hvernig þessi kærleiksgjöf – hin hreina ást Krists – styrkti, leiddi og bar uppi móður mína og breytti henni í baráttunni á veginum heim.
„Og kærleikurinn er langlyndur og góðviljaður, og öfundar ekki. Hann hreykir sér ekki upp, leitar ekki síns eigin, reiðist ekki auðveldlega, hugsar ekkert illt, fagnar ekki yfir misgjörðum, heldur fagnar í sannleikanum, þolir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.
Skorti yður þess vegna kærleika, ástkæru bræður mínir, eruð þér ekki neitt, því að kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. Haldið þess vegna fast við kærleikann, sem er öllu æðri, því að allt annað hlýtur að falla úr gildi –
En kærleikurinn er hin hreina ást Krists og varir að eilífu. Og hverjum þeim, sem reynist eiga hann á efsta degi, honum mun vel farnast.
Biðjið þess vegna til föðurins, ástkæru bræður mínir, af öllum hjartans mætti, að þér megið fyllast þessari elsku, sem hann hefur gefið öllum sönnum fylgjendum sonar síns, Jesú Krists; að þér megið verða synir Guðs; að þegar hann birtist, þá verðum vér honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er; að vér megum eiga þessa von; að vér megum verða hreinir eins og hann er hreinn.“4
Ég er þakklátur fyrir þá hvatningu sem Mormón veitti með fordæmi sínu og kennslu. Ég hef einnig verið blessaður af arfleifð móður minnar. Spámenn, allt frá Adam og fram til okkar tíma, hafa styrkt mig með kennslu og fordæmi.
Af tillitssemi við þá sem ég þekki persónulega og fjölskyldur þeirra, hef ég kosið að reyna ekki að sannreyna upplýsingar um baráttu þeirra eða að ræða opinberlega um hinar miklu gjafir þeirra. Það sem ég hef orðið vitni að hefur þó orðið mér til hvatningar og breytt mér til hins betra.
Ég mun segja stuttlega frá hvatningu eiginkonu minnar, í hættu á að ganga á friðhelgi hennar. Ég stíg því varlega til jarðar. Hún er hlédræg manneskja, sem hvorki sækist eftir skjalli né metur það mikils.
Við höfum verið gift í 60 ár. Það er vegna þeirrar reynslu sem ég skil nú merkingu eftirfarandi orða í ritningunum: trú, von, hógværð, þrautseigja, að leita ekki okkar eigin, fagna í sannleikanum, hugsa ekkert illt og ofar öllu, kærleikur.5 Á grunni þeirrar reynslu, get ég borið vitni um að jafnvel eðlilegt fólk geti tileinkað sér alla þessa dásamlegu eiginleika í daglegu lífi, er þeir rísa ofar andstreymi lífsins.
Milljónir ykkar sem hlustið, þekkið slíkt fólk. Mörg ykkar eruð slíkt fólk. Við þurfum öll slíka hvetjandi og elskuríka vini.
Þegar þið sitjið hjá einhverjum slíkum sem þjónandi systir eða bróðir; þá eruð þið fulltrúar Drottins. Hugsið um hvað hann myndi gera eða segja. Hann myndi bjóða þeim að koma til sín. Hann myndi veita þeim hvatningu. Hann myndi sjá og lofa þær breytingar sem á þeim hafa orðið og þau munu þurfa að gera. Hann myndi vera þeim fullkomið fordæmi til að fylgja.
Enginn getur gert þetta fyllilega ennþá, en með því að hlusta á þessa ráðstefnu, getið þið vitað að þið eruð á þeirri leið. Frelsarinn þekkir áskoranir ykkar fyllilega. Hann þekkir mikla möguleika ykkar til að vaxa að trú, von og kærleika.
Boðorðin og sáttmálarnir sem hann færir ykkur eru ekki próf til að stjórna ykkur. Þau eru gjöf sem lyfta ykkur og gera ykkur kleift að taka á móti öllum gjöfum Guðs og snúa aftur heim til himnesks föður og Drottins, sem elska ykkur.
Jesús Kristur galt gjaldið fyrir syndir okkar. Við getum gert tilkall til blessunar eilífs lífs, ef við höfum nægilega trú á hann til að iðrast og verða sem barn, hrein og reiðubúin að taka á móti æðstu gjöf allra gjafa Guðs.
Ég bið þess að þið munið taka á móti boði hans og færa það öðrum börnum himnesks föður.
Ég bið fyrir trúboðum okkar um allan heim. Megi þeir hljóta innblástur til að hvetja alla til að vilja og trúa að boðið sé frá Jesú Kristi, sett fram af þjónum hans, sem hafa tekið á sig nafn hans.
Ég ber vitni um að hann lifir og leiðir kirkju sína. Ég er vitni hans. Russell M. Nelson forseti er lifandi spámaður Guðs fyrir alla jörðina. Ég veit að það er sannleikur. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.