Ráðsmennska okkar á jörðu
Miklum andlegum blessunum er lofað þeim sem elska og annast jörðina og samferðarfólk sitt.
Þegar ég og eiginkona mín heimsóttum nýlega heimaland okkar, Frakkland, urðum við þeirrar ánægju aðnjótandi að taka nokkur barnabarna okkar með til að skoða undursamlegan lystigarð sem var í litla bænum Giverny. Við nutum þess að flakka um stíga garðsins til að dást að fallegu blómabeðunum, þokkafullum vatnaliljunum og ljósinu sem speglaðist á tjörnunum.
Þessi dásamlegi staður er ávöxtur ástríðu eins manns til sköpunar: hins mikla listmálara Claude Monet, sem af natni mótaði og ræktaði garðinn sinn í 40 ár til að gera úr honum vinnuumhverfi sitt fyrir málaralistina. Monet sökkti sér í fegurð náttúrunnar; svo tjáði hann hughrif sín með penslinum, með strokum lita og ljóss. Í áranna rás bjó hann til gríðarstórt safn með mörg hundruð málverkum, sem eru innblásin af garðinum hans.
Bræður og systur, tenging okkar við náttúrufegurðina umhverfis, getur veitt okkur einhverjar mest hvetjandi og ánægjulegustu upplifanir lífsins. Tilfinningar vakna og við finnum djúpa þakklætistilfinningu fyrir himneskan föður okkar og son hans, Jesú Krist, sem skapaði þessa mikilfenglegu jörðu – með fjöllum hennar og lækjum, plöntum og dýrum – og fyrir fyrstu foreldra okkar, Adam og Evu.1
Sköpunarverkið hefur í sjálfu sér engan endi. Það er óaðskiljanlegur hluti af áætlun Guðs fyrir börn hans. Hlutverk þess er að vera vettvangur karla og kvenna til að takast á við prófraunir, nota valfrelsi sitt, finna gleði og læra og taka framförum, svo þau geti dag einn snúið aftur í návist skapara síns og erft eilíft líf.
Þessi yndislega sköpun var alfarið búin til okkur til gagns og er lifandi sönnun um elsku skaparans til barna hans. Drottinn sagði: „Já, allt sem af jörðu kemur … er ætlað manninum til heilla og gagns, bæði til að þóknast auganu og gleðja hjartað.“2
Hin guðlega gjöf sköpunarinnar er hins vegar ekki án skyldna og ábyrgðar. Þessum skyldum er best lýst með hugtakinu ráðsmennska. Orðið ráðsmennska í fagnaðarerindinu felur í sér helga andlega eða stundlega skyldu til að annast eitthvað sem tilheyrir Drottni og við erum ábyrg fyrir.3
Eins og heilög ritning kennir, gilda eftirfarandi reglur um ráðsmennsku okkar á jörðu:
Fyrsta reglan: Gjörvöll jörðin, þar með talið allt líf á henni, tilheyrir Guði.
Skaparinn hefur falið okkur umsjá auðlinda jarðar og alls lífs á henni, en eignarrétturinn er alfarið hans. Hann sagði: „Ég, Drottinn, þandi út himnana og skóp jörðina, mitt eigið handaverk. Og allt, sem þar er, er mitt.“4 Allt sem er á jörðu tilheyrir Guði, þar eru fjölskyldur okkar meðtaldar, líkamar okkar og jafnvel líf okkar.5
Önnur reglan: Sem ráðsmönnum yfir sköpun Guðs, ber okkur skylda til að virða hana og annast.
Sem börnum Guðs, hefur okkur verið falin sú ábyrgð að vera ráðsmenn, umsjónarmenn og verndarar guðlegrar sköpunar hans. Drottinn sagði sig hafa „[gjört] sérhvern mann ábyrgan sem ráðsmann þeirra jarðnesku blessana, sem [hann hefur] gjört og fyrirbúið lífverum [sínum].“6
Himneskur faðir okkar leyfir okkur að nota auðlindir jarðar að eigin frjálsum vilja. Valfrelsi okkar ætti þó ekki að túlka sem væri það leyfi til að nota eða sóa verðmætum þessa heims án visku eða stillingar. Drottinn veitti þessa áminningu: „Og það er Guði gleðiefni að hafa gefið manninum allt þetta, því að í þeim tilgangi var það gjört, til að notast af forsjá, hvorki í óhófi né með áníðslu.“7
Russell M. Nelson forseti sagði eitt sinn: „Hvað eigum við, sem njótum góðs af hinni guðlegu sköpun, til bragðs að taka? Við ættum að annast jörðina, vera skynsamir ráðsmenn yfir henni og varðveita hana fyrir komandi kynslóðir.“8
Fyrir utan að vera einfaldlega vísindaleg eða stjórnmálaleg nauðsyn, er umhirða jarðar og náttúrulegs umhverfis okkar helg ábyrgð sem Guð fól okkur og ætti að fylla okkur djúpri skyldurækni og auðmýkt. Það er einnig ómissandi hluti af lærisveinshlutverki okkar. Hvernig getum við heiðrað og elskað himneskan föður og Jesú Krist, án þess að heiðra og elska sköpun hans?
Við getum gert margt – í sameiningu og hvert fyrir sig – til að vera góðir ráðsmenn. Þegar við lítum á persónulegar aðstæður okkar, þá getur hvert okkar nýtt ríkulegar auðlindir jarðar af meiri lotningu og skynsemi. Við getum lagt samfélagsverkefnum lið til að hirða um jörðina. Við getum sjálf tileinkað okkur lífstíl og breytni sem virðir sköpun Guðs og gerir eigin vistaverur snyrtilegri, fallegri og andríkari.9
Í sínu æðsta formi, felur ráðsmennska okkar yfir sköpun Guðs líka í sér hina helgu skyldu að elska, virða og annast alla menn sem við deilum jörðinni með. Þeir eru synir og dætur Guðs, systur okkar og bræður og eilíf hamingja þeirra er tilgangur sköpunarverksins.
Höfundurinn Antoine de Saint-Exupéry rifjaði upp eftirfarandi: Dag nokkurn, þegar hann ferðaðist í lest, sat hann mitt í hópi flóttafólks. Uppgjöfin sem hann sá í andliti ungs barns snerti hann djúpt og hann sagði: „Þegar ný stökkbreytt rósartegund verður til í garðinum, þá gleðjast garðyrkjumennirnir. Þeir hafa rósina á afviknum stað, annast hana og endurnæra. En mennirnir hafa engan garðyrkjumann.“10
Bræður mínir og systur, ættum við ekki að vera garðyrkjumenn fyrir samferðarfólk okkar, karla og konur? Eigum við ekki að gæta bróður okkar? Jesús bauð okkur að elska náunga okkar eins og sjálf okkur.11 Af hans munni, á orðið náungi ekki aðeins við um landfræðilega nálægð; það felur í sér nálægð hjartans. Það nær yfir alla íbúa þessarar plánetu – hvort sem þeir búa nálægt okkur eða í fjarlægu landi, án tillits til uppruna þeirra, bakgrunns eða kringumstæðna.
Sem lærisveinar Krists, þá berum við þá helgu ábyrgð að vinna óþreytandi að sátt og samlyndi meðal allra þjóða jarðar. Við þurfum að gera okkar allra besta við að vernda, hugga og líkna hinum vanmáttugu og nauðstöddu og öllum þeim sem þjást eða eru undirokaðir. Framar öllu, þá er æðsta gjöf sem við getum fært samferðarfólki okkar sú að miðla því gleði fagnaðarerindisins og bjóða því að koma til frelsara síns fyrir tilstilli helgra sáttmála og helgiathafna.
Þriðja reglan: Okkur er boðið að taka þátt í sköpunarverkinu.
Hinu guðlega ferli sköpunar er ekki enn lokið. Á hverjum degi vex sköpunarverk Guðs, breiðir úr sér og fjölgar sér. Það dásamlegasta er að himneskur faðir býður okkur að taka þátt í sköpunarverki sínu.
Við tökum þátt í sköpunarverkinu hvenær sem við ræktum jörðina eða bætum eigin handaverki við heiminn – svo framarlega sem við sýnum sköpun Guðs virðingu. Framlag okkar getur verið tjáð með sköpun listaverka, með byggingarlist, tónlist, bókmenntum eða menningu, sem fegra plánetuna okkar, örva skilningarvitin og lífga upp á tilveruna. Við leggjum einnig af mörkum með uppgötvunum í vísindum og læknisfræði, sem varðveita jörðina og lífið á henni. Thomas S. Monson forseti lýsti þessari hugmynd með þessum fallegu orðum: „Guð skildi veröldina eftir ófullgerða fyrir manninn til að spreyta sig á … svo maðurinn fái þekkt gleði og dýrð sköpunar.“12
Í dæmisögu Jesú um talenturnar, lofaði og umbunaði húsbóndinn þjónana tvo sem græddu og margfölduðu talenturnar sínar, þegar hann kom aftur heim úr ferðalagi sínu. Aftur á móti kallaði hann þjóninn sem faldi hina einu talentu sína í jörðu „ónýtan“ og tók frá honum jafnvel það sem hann hafði hlotið.13
Líkt þessu, snýst hlutverk okkar sem ráðsmenn jarðneskrar sköpunar ekki einungis um að vernda eða varðveita hana. Drottinn væntir þess af okkur að við störfum af kostgæfni í samræmi við hvatningu heilags anda hans, að því að auka og bæta auðlindirnar sem hann hefur treyst okkur fyrir – ekki aðeins sjálfum okkur til gagns, heldur til að blessa aðra.
Af öllum afrekum manna, þá jafnast ekkert á við upplifunina að vera skaparar með Guði í því að gefa barni líf eða hjálpa því að læra, vaxa og dafna – hvort heldur sem foreldrar, kennarar, leiðtogar eða í öðrum hlutverkum. Engin ráðsmennska er helgari, meira gefandi, og einnig meira krefjandi, en að ganga til liðs við skaparann og sjá andabörnum hans fyrir efnislíkama og hjálpa þeim svo að ná guðlegum möguleikum sínum.
Ábyrgðin sem fylgir því að taka þátt í sköpuninni er stöðug áminning um að líf og líkami hverrar manneskju er heilagur, að hann tilheyrir engum öðrum en Guði og að hann hafi gert okkur að umsjónarmönnum til að virða, vernda og hirða um þá. Þau boðorð Guðs sem stjórna sköpunarkrafti getnaðar og stofnun eilífra fjölskyldna, eru leiðandi fyrir okkur í þessari helgu ráðsmennsku, sem er svo nauðsynleg í áætlun hans.
Bræður og systur, við ættum að skilja að allt er andlegt í augum Drottins – jafnvel hinar stundlegustu hliðar lífs okkar. Ég ber vitni um að þeim eru lofaðar miklar andlegar blessanir, sem elska og annast jörðina og samferðarfólk sitt. Þegar þið eruð trúföst í þessari helgu ráðsmennsku og haldið eilífa sáttmála ykkar, munuð þið vaxa að þekkingu á Guði og syni hans, Jesú Kristi, og munuð finna elsku þeirra og áhrif enn ríkulegar í lífi ykkar. Allt þetta mun búa ykkur undir að dvelja hjá þeim og hljóta aukinn sköpunarkraft14 í komandi lífi.
Undir lok þessarar jarðnesku vistar, mun meistarinn biðja okkur að gera reikningsskil á helgri ráðsmennsku okkar, þar með talið á því hvernig við höfum annast sköpunarverk hans. Ég bið þess að við munum að því loknu heyra ástkær orð hans hvísluð í hjarta okkar: „Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.“15 Í nafni Jesú Krists, amen.