Aðalráðstefna
Í samstarfi með Drottni
Aðalráðstefna október 2022


12:58

Í samstarfi með Drottni

Hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists lýsir yfir reglu um að jafnræðissamstarf skuli vera á milli konu og karls, bæði í jarðlífinu og í eilífðinni.

Á fyrstu mánuðum hjónabands okkar, lýsti elskuleg eiginkona mín yfir löngun sinni til að læra tónlist. Ég ætlaði að gleðja hana og ákvað því að skipuleggja stóran, hjartanlegan og óvæntan glaðning fyrir elskuna mína. Ég fór í hljóðfæraverslun og keypti handa henni píanó að gjöf. Ég setti kvittunina spenntur í öskju með fallegri slaufu, gaf henni og bjóst við hrífandi þakklætisvotti fyrir sérlega ástríkan og umhyggjusaman eiginmann.

Þegar hún opnaði litla kassann og sá innihald hans, horfði hún ástrík á mig og sagði: „Ó, elskan mín, þú ert yndislegur! Leyfðu mér þó að spyrja: Er þetta gjöf eða skuld?“ Eftir að hafa ráðfært okkur saman um hina óvæntu gjöf, ákváðum við að hætta við kaupin. Við lifðum á námsmannaframfærslu, eins og svo mörg nýgift hjón. Þessi reynsla hjálpaði mér að viðurkenna mikilvægi reglunnar um jafnræðissamstarf í hjónabandi og hvernig beiting hennar gæti hjálpað eiginkonu minni og mér að vera eitt í hjarta og huga.1

Hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists lýsir yfir reglu um að jafnræðissamstarf skuli vera á milli konu og karls, bæði í jarðlífinu og í eilífðinni. Þótt hvort fyrir sig búi yfir sérstökum eiginleikum og skyldum, gegna kona og karl jafn mikilvægu og nauðsynlegu hlutverki í hamingjuáætlun Guðs fyrir börn hans.2 Það var ljóst allt frá upphafði, er Drottinn lýsti yfir: „Eigi er gott, að maðurinn sé einsamall. [Hann vildi] því gjöra honum meðhjálp við hans hæfi.“3

Í áætlun Drottins var „meðhjálp“ félagi sem var við hlið Adams í jafnræðissamstarfi.4 Reyndar var Eva himnesk blessun í lífi Adams. Með sínu guðlega eðli og andlegu eiginleikum, hvatti hún Adam til að starfa með sér við að vinna að áætlun Guðs um hamingju fyrir allt mannkyn.5

Skoðum tvær grundvallarreglur sem styrkja samstarf karls og konu. Fyrri reglan er sú að við erum öll jöfn fyrir Guði.6 Samkvæmt kenningu fagnaðarerindisins, er það ekki svo að hinir mismunandi eiginleikar konu og karls vegi mismunandi þungt hvað varðar hin eilífu fyrirheit sem Guð hefur fyrir syni sína og dætur. Annað hefur ekki meiri möguleika en hitt á himneskri dýrð í eilífðunum.7 Frelsarinn sjálfur býður okkur öllum, börnum Guðs, „að koma til sín og verða gæsku sinnar aðnjótandi. Hann neitar engum að koma til sín.“8 Í þessu samhengi erum við því öll jöfn frammi fyrir honum.

Þegar hjónin hafa skilning á og lifa eftir þessari reglu, eru þau ekki í stöðu forseta eða varaforseta fjölskyldu sinnar. Það er engin æðri eða óæðri staða í hjónabandinu og hvorugt er framar eða aftar hinu. Þau ganga hlið við hlið, sem jafningjar, guðleg afsprengi Guðs. Þau verða eitt með himneskum föður og Jesú Kristi í huga, hjarta og tilgangi,9 við að leiða fjölskylduna í sameiningu.

Í jafningjasamstarfi „er elska ekki eign, heldur þátttaka … og hluti af þeirri samsköpun sem er okkar mannlega köllun.“10 „Með einlægri þátttöku, eru eiginmaður og eiginkona sameinuð í jafnræðiseiningu ‚ævarandi yfirráða‘ sem ,án þvingana‘ streyma með andlegu lífi til þeirra og afkomenda þeirra ‚alltaf og að eilífu‘.“11

Síðari reglan sem hér á við er hin gullna regla sem frelsarinn kenndi í Fjallræðunni: „Og eins og þér viljið að aðrir menn geri við yður, svo skuluð þér og þeim gera.“12 Þessi regla felur í sér sameiginlegt og gagnvirkandi viðhorf, einingu, að vera háð hvort öðru og byggir á öðru æðsta boðorðinu: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“13 Hún er blanda af öðrum kristilegum eiginleikum, eins og langlyndi, hógværð, lítillæti og góðvild.

Til að skilja betur beitingu þessarar reglu, getum við skoðað hið helga og eilífa samband sem Guð stofnaði til á milli fyrstu foreldranna, Adams og Evu. Þau urðu eitt hold14 og sköpuðu víddareiningu sem gerði þeim mögulegt að ganga saman í virðingu, þakklæti og kærleika, gleyma sjálfum sér og keppa að velferð hvors annars á leið sinni til eilífðar.

Þessir sömu eiginleikar eru það sem við keppum að í einhuga hjónabandi á okkar tíma. Með musterisinnsigluninni ganga kona og karl í helga reglu hjónabands í hinum nýja og eilífa sáttmála. Með þessari prestdæmisreglu eru þeim veittar eilífar blessanir og guðlegur máttur til að stjórna eigin fjölskyldumálum, er þau lifa í samræmi við sáttmálana sem þau hafa gert. Frá þeim tímapunkti halda þau áfram háð hvort öðru og í fullu samstarfi við Drottin, einkum hvað varðar hverja þá guðlega útnefndu ábyrgðarskyldu þeirra að ala upp og hafa forsjá fjölskyldu sinnar.15 Að ala upp og hafa forsjá, eru innbyrðis víxltengdar skyldur, sem þýðir að mæðrum og feðrum „[ber] skylda til að hjálpa hvort öðru sem jafningjar“16 og deila jafnri leiðtogaábyrgð á heimili sínu.

„Að ala upp þýðir að næra, kenna og styðja“ fjölskyldumeðlimi, sem er gert með því að hjálpa þeim að „læra sannleika fagnaðarerindisins og þróa trú á himneskan föður og Jesú Krist“ í kærleiksríku umhverfi. Að hafa forsjá, þýðir að „hjálpa við að leiða fjölskyldumeðlimi aftur til dvalar í návist Guðs. Þetta er gert með því að þjóna og kenna af mildi, hógværð og hreinni ást.“ Það felur líka í sér „að leiða fjölskyldumeðlimi í reglubundnum bænum, trúarnámi og öðrum þáttum tilbeiðslu. Foreldrar starfa í einingu“ og fylgja fordæmi Jesú Krists „til að uppfylla þessar [tvær mikilvægu] skyldur.“17

Mikilvægt er að hafa í huga að stjórnskipan í fjölskyldunni fylgir patríarkamynstrinu og er að sumu leyti frábrugðin prestdæmisforsjá í kirkjunni.18 Patríarkamynstrið felur í sér að eiginkonur og eiginmenn eru milliliðalaus ábyrg fyrir Guði varðandi uppfyllingu skyldna sinna í fjölskyldunni. Það kallar á jafnræðissamstarf – fúslega fylgni við allar reglur réttlætis og ábyrgðar – og veitir tækifæri til þroska í umhverfi kærleika og gagnkvæmrar hjálpsemi.19 Þessar sérstöku ábyrgðarskyldur fela ekki í sér valdaskiptingu og útiloka algjörlega hvers kyns misnotkun eða einhvers konar yfirráð.

Reynsla Adams og Evu, eftir að þau yfirgáfu Edengarðinn, sýnir á dásamlegan hátt hugmyndina um það hvernig móðir og faðir eru háð hvort öðru við að ala upp og hafa forsjá yfir fjölskyldu sinni. Eins og kennt er í Mósebók, störfuðu þau saman við að yrkja jörðina í svita andlits síns, til að sjá fyrir líkamlegri velferð fjölskyldu sinnar;20 þau færðu börn í heiminn;21 þau ákölluðu saman nafn Drottins og heyrðu rödd hans „í átt frá aldingarðinum Eden“;22 þau meðtóku boðorðin sem Drottinn gaf þeim og reyndu í sameiningu að hlýða þeim.23 Þau „fræddu [síðan] syni sína og dætur um [þessa] hluti24 og „hættu ekki að ákalla Guð“ saman, vegna þarfa sinna.25

Kæru bræður og systur, uppeldi og forsjá eru tækifæri, ekki takmarkanir. Ein manneskja kann að bera ábyrgð á einhverju, en er kannski ekki sú eina sem gerir það. Þegar ástríkir foreldrar skilja vel þessar tvær helstu ábyrgðarskyldur, munu þau í sameiningu leitast við að vernda börn sín og gæta að líkamlegri og tilfinningalegri velferð þeirra. Þau hjálpa þeim líka að takast á við andlegar hættur okkar tíma með því að næra börn sín á hinu góða orði Drottins, eins og það hefur verið opinberað spámönnum hans.

Þótt eiginmaður og eiginkona styðji hvort annað í sínum guðlega tilnefndu skyldum, geta „sjúkdómar, andlát eða aðrar aðstæður … gert persónulega aðlögun nauðsynlega.“26 Stundum mun annað hvort hjónanna bera ábyrgð á að gegna báðum hlutverkum samtímis, hvort heldur tímabundið eða til frambúðar.

Ég hitti nýlega systur og bróður sem hvort um sig búa við slíkar aðstæður. Sem einstæðir foreldrar, hefur hvort þeirra, innan síns fjölskyldusviðs og í samstarfi við Drottin, ákveðið að helga líf sitt andlegri og stundlegri umönnun barna sinna. Þau hafa ekki misst sjónar á musterissáttmálum sínum, sem þau gerðu við Drottin, og eilífum fyrirheitum hans, þrátt fyrir skilnað. Bæði hafa þau leitað liðsinnis Drottins í öllu, er þau kappkosta stöðugt að standast áskoranir sínar og ganga sáttmálsveginn. Þau treysta því að Drottinn sjái um þarfir þeirra, ekki aðeins í þessu lífi, heldur um alla eilífð. Bæði hafa þau nært börn sín með því að kenna þeim af mildi, hógværð og hreinni ást, jafnvel mitt í erfiðum aðstæðum lífsins. Eftir því sem ég veit best, þá kenna þessir tveir einstæðu foreldrar Guði ekki um ófarir sínar. Þess í stað horfa þau fram á við í fullkomnu vonarljósi og reiða sig á þær blessanir sem Drottinn geymir þeim.27

Bræður og systur, frelsarinn setti fullkomið fordæmi um einingu og samhljóm í tilgangi og kenningu með föður okkar á himnum. Hann baðst fyrir í þágu lærisveina sinna og sagði: „Að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur … svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt.“28

Ég ber ykkur vitni um, að þegar við – konur og karlar – vinnum saman í sönnu og jöfnu samstarfi, munum við njóta þeirrar einingar sem frelsarinn kennir, er við uppfyllum hina guðlegu ábyrgð í hjónaböndum okkar. Ég lofa ykkur, í nafni Krists, að hjörtu munu „tengd böndum einingar og elsku hver til annars,“29 við munum finna aukna gleði á ferð okkar til eilífs lífs og hæfni okkar til að þjóna hvert öðru og með hvert öðru, mun aukast til muna.30 Um þann sannleika ber ég vitni, í hinu heilaga nafni frelsarans, Jesú Krists, amen.