Aðalráðstefna
Höfuðdjásn í stað ösku: Hinn læknandi vegur fyrirgefningar
Aðalráðstefna október 2022


10:7

Höfuðdjásn í stað ösku: Hinn læknandi vegur fyrirgefningar

Að lifa á þann hátt að þið veitið höfuðdjásn í stað ösku lífs ykkar, er ávöxtur trúar sem fylgir frelsaranum.

Í 1. Samúelsbók má finna lítt þekkta sögu um Davíð, framtíðarkonung Ísraels, og konu að nafni Abígail.

Eftir dauða Samúels, fóru Davíð og menn hans frá Sál konungi, sem sóttist eftir lífi Davíðs. Þeir sáu um að vakta hjarðir og þjóna ríks manns að nafni Nabal, sem var illgjarn. Davíð sendi 10 manna sinna með kveðju til Nabals og ósk um nauðsynleg matvæli og birgðir.

Nabal svaraði beiðni Davíðs með skömmum og sendi menn hans tómhenta til baka.

Móðgaður bjó Davíð menn sína undir að fara gegn Nabal og húsi hans með þessum orðum: „Hann launar mér gott með illu.“1 Þjónn sagði Abígail, konu Nabals, frá slæmri meðferð eiginmanns hennar á mönnum Davíðs. Abígail safnaði nauðsynlegum mat og birgðum saman í flýti og fór til að miðla málum.

Þegar Abígail hitti hann, „varpaði [hún] sér niður frammi fyrir Davíð og hneigði sig til jarðar.

Hún féll til fóta honum og sagði: ,Herra, sökin er aðeins mín. …

Svo sannarlega … þá hefur Drottinn hindrað að þú bakaðir þér blóðskuld með því að taka málið í þínar hendur. …

… Láttu nú afhenda ungu mönnunum, sem fylgja þér, gjöfina sem ég, ambátt þín, hef fært þér, herra minn. …

Fyrirgefðu framhleypni ambáttar þinnar.‘ …

Þá svaraði Davíð Abígail: ,Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, sem sendi þig til móts við mig í dag.

Blessuð séu hyggindi þín og þú sjálf sem forðaðir mér frá því að baka mér blóðskuld með því að taka réttinn í mínar hendur.‘ …

Davíð tók við því sem hún hafði fært honum og sagði við hana: ,Farðu í friði heim til þín. Ég hlustaði á orð þín og mun verða við ósk þinni.‘“2

Þau fóru bæði í friði.

Í þessari frásögn má sjá Abígail sem valdamikla persónu eða tákn fyrir Jesú Krist.3 Fyrir tilstilli friðþægingarfórnar sinnar, getur hann leyst okkur frá synd og byrði hins stríðandi hjarta og veitt okkur þá næringu sem við þörfnumst.4

Á sama hátt og Abígail var fús til að taka á sig syndir Nabals, tók frelsarinn – á óskiljanlegan hátt – einnig á sig syndir okkar og syndir þeirra sem hafa sært okkur eða smánað.5 Hann tók þessar syndir á sig í Getsemane og á krossinum. Hann fyrirbjó okkur leið til að láta af hefndarfullu hjarta. Sá „vegur“ liggur um fyrirgefningu – sem getur verið það erfiðasta sem við nokkru sinni gerum og eitt það guðdómlegasta sem við getum nokkru sinni upplifað. Á vegi fyrirgefningar getur kraftur friðþægingar Jesú Krists flætt inn í líf okkar og byrjað að lækna djúpar sprungur hjartans og sálarinnar.

Russell M. Nelson forseti hefur kennt að frelsarinn veiti okkur þá getu að fyrirgefa.

„Fyrir tilstilli hans altæku friðþægingar, getið þið fyrirgefið þeim sem hafa sært ykkur og þeim sem aldrei munu gangast við ábyrgð illskuverks síns á ykkur.

Að öllu jöfnu er auðvelt að fyrirgefa þeim sem af einlægni leita eftir fyrirgefningu ykkar. Frelsarinn mun þó gera ykkur kleift að fyrirgefa hverjum þeim sem á einhvern hátt hefur misboðið ykkur. Eftir það mun sú sársaukafulla iðja ekki lengur hrella sál ykkar.“6

Það að Abígail kom með birgðir af mat og nauðsynjum getur kennt okkur að frelsarinn býður þeim sem hafa verið sárir og særðir þá næringu og aðstoð sem við þörfnumst til að læknast og verða gerð heil.7 Við erum ekki skilin eftir ein til að takast á við afleiðingar gjörða annarra, við getum einnig verið gerð heil og okkur veitt það tækifæri að frelsast frá byrði hins stríðandi hjarta og hverju því sem kann að fylgja.

Drottinn hefur sagt: „Ég, Drottinn, mun fyrirgefa þeim, sem ég vil fyrirgefa, en af yður er krafist, að þér fyrirgefið öllum mönnum.“8 Drottinn krefst þess að við fyrirgefum okkur sjálfum til góðs.9 Hann biður okkur samt ekki að gera það án hjálpar sinnar, elsku og skilnings. Í gegnum sáttmála okkar við Drottin getum við meðtekið kraft styrkingar, leiðsagnar og þá hjálp sem við þörfnumst til að bæði fyrirgefa og vera fyrirgefið.

Verið samt meðvituð um að það að fyrirgefa einhverjum þýðir ekki að þið setjið ykkur sjálf í þá stöðu að vera sár áfram. „Við getum unnið að því að fyrirgefa einhverjum en samt fundist andinn hvetja okkur til að halda okkur frá þeim.“10

Á sama hátt og Abígail hjálpaði Davíð að „íþyngja [ekki] samvisku [sinni]“11 og þiggja þá hjálp sem hann þarfnaðist, þá getur frelsarinn hjálpað ykkur. Hann elskar ykkur og hann hittir ykkur á vegi ykkar og „vængir [hans] færa lækningu.“12 Hann þráir frið ykkar.

Ég hef persónulega orðið vitni að kraftaverki Krists lækna stríðandi hjarta mitt. Með leyfi föður míns deili ég því með ykkur að ég ólst uppi á heimili þar sem mér fannst ég ekki alltaf örugg vegna andlegs og munnlegs ofbeldis. Í æsku og á yngri fullorðinsárum, var ég ósátt við föður minn og hafði reiði í hjarta mínu vegna þeirra særinda.

Í gegnum árin og í viðleitni minni til að leita friðar og lækningar á vegi fyrirgefningar, gerði ég mér grein fyrir því á djúpstæðan hátt að sami sonur Guðs og sá sem friðþægði fyrir syndir mínar, er sami lausnarinn og sá sem mun einnig bjarga þeim sem hafa sært mig innilega. Ég gat ekki í raun trúað fyrri sannleikanum án þess að trúa þeim seinni.

Á sama tíma og elska mín til frelsarans hefur vaxið, þá hefur þrá mín til að skipta særindunum og reiðinni út fyrir læknandi smyrsl hans einnig vaxið. Það hefur verið margra ára ferli, krafist mikils hugrekkis, berskjöldunar, þrautseigju og lærdóms að treysta á guðlegan kraft frelsarans til að bjarga og lækna. Ég á enn margt að læra, en hjarta mitt er ekki lengur í vígahug. Mér hefur verið gefið „nýtt hjarta“13 – sem hefur upplifað hinn djúpa og varanlega kærleika persónulegs frelsara, sem stóð við hlið mér, sem leiddi mig varlega og með þolinmæði á betri stað, sem grét með mér, sem þekkti sorg mína.

Drottinn hefur sent mér uppbótarblessanir á sama hátt og Abígail færði Davíð það sem hann þarfnaðist. Hann hefur sent leiðbeinendur í líf mitt. Það yndislegasta og mest umbreytandi hefur verið samband mitt við himneskan föður minn. Í gegnum hann hef ég smám saman kynnst ljúfri, verndandi og leiðandi elsku fullkomins föður.

Öldungur Richard G. Scott sagði: „Þið getið ekki strokað það út sem hefur verið gert, en þið getið fyrirgefið.14 Fyrirgefning læknar hræðileg, hörmuleg sár, því hún leyfir elsku Guðs að hreinsa hjarta ykkar og huga af eitri haturs. Hún hreinsar meðvitund ykkar af hefndarþrá. Hún skapar rými fyrir hreinsandi, læknandi, endurreisandi elsku Drottins.“15

Jarðneskur faðir minn hefur einnig upplifað undraverða breytingu á sínu hjarta síðastliðin ár og hefur snúið sér til Drottins – nokkuð sem ég hefði aldrei reiknað með í þessu lífi. Annar vitnisburður fyrir mig um hinn algera og umbreytandi kraft Jesú Krists.

Ég veit að hann getur læknað syndarann og þá sem er syndgað gegn. Hann er frelsarinn og lausnari heimsins, sem gaf líf sitt, svo við mættum lifa á ný. Hann sagði: „Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, [lækna menn af hjartasárum], boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa.”16

Öllum þeim sem þjást af hjartasárum, eru bundnir, þjáðir og jafnvel blindaðir af sársauka eða synd, býður hann lækningu, bata og frelsun. Ég ber vitni um að sú lækning og sá bati sem hann býður er raunverulegur. Tímasetning þessarar lækningar er persónubundin og við getum ekki dæmt tímasetningu annarra. Það er mikilvægt að gefa okkur nauðsynlegan tíma til að læknast og vera góð við okkur sjálf í því ferli. Frelsarinn er ávallt miskunnsamur og athugull og til staðar til að veita þá huggun sem við þörfnumst.17

Á vegi fyrirgefningar og lækningar höfum við val um að viðhalda ekki óheilbrigðu mynstri eða samböndum í fjölskyldum okkar eða annars staðar. Við getum boðið öllum á okkar áhrifasviði góðvild fyrir grimmd, elsku fyrir hatur, blíðu fyrir hörku, öryggi fyrir bágindi og frið fyrir ágreining.

Að veita það sem ykkur hefur verið neitað um, er kraftmikill hluti af guðlegri lækningu sem er mögulegur fyrir trú á Jesú Krist. Að lifa á þann hátt að þið gefið höfuðdjásn í stað ösku lífs ykkar,18 eins og Jesaja sagði, er verk trúar sem fylgir hinu æðsta fordæmi frelsarans sem þoldi allt til að hann gæti líknað okkur.

Jósef í Egyptalandi lifði lífi ösku. Hann var hataður af bræðrum sínum, svikinn, seldur í þrældóm, fangelsaður af ósekju og gleymdur af einhverjum sem hafði lofað að hjálpa. Samt treysti hann á Drottin. „En Drottinn var með Jósef“19 og helgaði prófraunir hans honum sjálfum til blessunar og vaxtar – og björgunar fjölskyldu hans og alls Egyptalands.

Þegar Jósef hitti bræður sína sem mikill leiðtogi í Egyptalandi, sýndi fyrirgefning og fágað viðhorf hans sig í nærgætnum orðum hans:

„En verið ekki daprir og ásakið ykkur ekki fyrir að hafa selt mig hingað. Það var Guð sem sendi mig hingað á undan ykkur til að bjarga lífi. …

Það voruð því ekki þið sem senduð mig hingað heldur Guð.“20

Fyrir frelsarann varð líf Jósefs „höfuðdjásn í stað ösku.“21

Kevin J Worthen, forseti BYU, hefur sagt að Guð „geti látið það góða gerast … ekki bara út frá sigrum okkar, heldur einnig út frá mistökum okkar og mistökum annarra sem valda okkur sársauka. Guð er það góður og það valdamikill.“22

Ég ber vitni um að mesta fordæmi okkar um elsku og fyrirgefningu er frelsari okkar, Jesús Kristur, sem sagði í bitrum sárauka: „Faðir, fyrirgef þeim því að þeir vita ekki hvað þeir gera.“23

Ég veit að faðir okkar á himnum þráir gæsku og von börnum sínum öllum til handa. Í Jeremía lesum við: „Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla.“24

Jesús Kristur er ykkar persónulegi Messías, ástríkur lausnari ykkar og frelsari, sem þekkir þrár hjarta ykkar. Hann þráir lækningu ykkar og hamingju. Hann elskar ykkur. Hann grætur með ykkur í sorgum ykkar og fagnar því að gera ykkur heil. Megum við herða upp hugann og taka í ástríka hönd hans sem er ávallt útrétt25 er við göngum hinn læknandi veg fyrirgefningar, það er bæn mín í nafni Jesú Krists, amen.