Aðalráðstefna
Sigrast á heiminum og finna hvíld
Aðalráðstefna október 2022


18:44

Sigrast á heiminum og finna hvíld

Leitið hvíldar frá ofsa, óvissu og angist þessa heims, með því að sigrast á heiminum með sáttmálum ykkar við Guð.

Kæru bræður og systur, ég er þakklátur fyrir að geta heilsað upp á ykkur á þessum dýrðlega hvíldardagsmorgni. Þið eruð stöðugt í huga mínum. Ég dáist að því hvernig þið komið strax að verki þegar þið sjáið aðra í neyð. Ég furða mig á þeirri trú og vitnisburði sem þið sýnið aftur og aftur. Ég græt yfir sorgum ykkar, vonbrigðum og áhyggjum. Ég elska ykkur. Ég fullvissa ykkur um að himneskur faðir og sonur hans, Jesús Kristur, elska ykkur. Þeir eru afar meðvitaðir um aðstæður ykkar, gæsku ykkar, þarfir ykkar og bænir ykkar um hjálp. Aftur og aftur bið ég þess að þið finnið elsku þeirra til ykkar.

Að upplifa elsku þeirra er nauðsynlegt, því svo virðist sem við verðum daglega fyrir áreiti alvarlegra tíðinda. Einhverja daga gætuð þið hafa viljað fara í náttfötin ykkar, hnipra ykkur saman í keng og biðja einhvern að vekja ykkur þegar allt þetta umrót er yfirstaðið.

Kæru bræður og systur, það er þó svo margt dásamlegt framundan. Á komandi tíð, munum við sjá stærstu birtingarmyndir um kraft frelsarans, sem heimurinn hefur nokkru sinni séð. Frá þessum tíma, fram að endurkomu hans í „mætti og mikilli dýrð,“1 mun hann úthella yfir hina heilögu óteljandi forréttindum, blessunum og kraftaverkum.

Engu að síður, lifum við um þessar mundir á þeim tíma sem er vissulega sá flóknasti í sögu heimsins. Flækjurnar og áskoranirnar, valda því að margir eru yfirbugaðir og örmagna. Íhugið þó nýlega reynslu, sem gæti varpað ljósi á það hvernig þið og ég getum fundið hvíld.

Nýlega á opnu húsi í Washington D.C. musterinu varð nefndarmeðlimur opna hússins vitni að athugulum samskiptum, þar sem hann fylgdi nokkrum þekktum fréttamönnum í gegnum musterið. Á einhvern hátt tengdist ung fjölskylda þessari fjölmiðlaferð. Einn fréttamaðurinn spurði stöðugt um „ferðalag“ musterisgestanna, þegar hann eða hún færi í gegnum musterið. Hann vildi vita hvort musterisferðin væri táknræn fyrir áskoranirnar í ferðalagi mannsins í gegnum lífið.

Ungur drengur í þessari fjölskyldu heyrði samtalið. Þegar skoðunarhópurinn kom inn í musterisgjafasalinn, benti drengurinn á altarið, þar sem fólk krýpur til að gera sáttmála við Guð, og sagði: „Ó, þetta er huggulegt. Á þessum stað getur fólk hvílt sig á musterisferðalagi sínu.“

Ég efast um að drengurinn hafi vitað hversu djúpstæð athugasemd hans var. Hann hafði líklega ekki hugmynd um hin beinu tengsl á milli þess að gera sáttmála við Guð í musterinu og þessa dásamlega loforðs frelsarans:

„Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.

Takið á yður mitt ok og lærið af mér … og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.

Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“2

Kæru bræður og systur, ég syrgi þá sem yfirgefa kirkjuna vegna þess að þeim finnst aðild krefjast of mikils af þeim. Þeir hafa ekki enn skilið að með því að gera og halda sáttmála, verður lífið í raun auðveldara! Sérhver einstaklingur sem gerir sáttmála í skírnarfonti og í musteri – og heldur þá – hefur aukinn aðgang að krafti Jesú Krists. Hugleiðið vinsamlega þennan áhrifamikla sannleika!

Umbun þess að halda sáttmála við Guð, eru himneskur kraftur – kraftur sem styrkir okkur til að standast betur prófraunir okkar, freistingar og sorgir. Þessi kraftur gerir leiðina auðveldari fyrir okkur. Þeir sem lifa eftir æðri lögmálum Jesú Krists, hafa aðgang að æðri mætti hans. Þannig eiga þeir sem halda sáttmála, rétt á sérstakri hvíld sem veitist þeim í gegnum sáttmálssamband þeirra við Guð.

Áður en frelsarinn tók á sig þjáningarnar í Getsemane og á Golgata, lýsti hann yfir við postula sína: „Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“3 Í kjölfarið bað Jesús sérhvert okkar að gera slíkt hið sama, er hann sagði: „Ég vilþér sigrist á heiminum.“4

Kæru bræður og systur, boðskapur minn til ykkar í dag er sá, að vegna þess að Jesús Kristur sigraði þennan fallna heim og vegna þess að hann friðþægði fyrir sérhvert okkar, getið þið líka sigrast á þessum syndmettaða, sjálfhverfa og oft lýjandi heimi.

Vegna þess að frelsarinn, með óendanlegri friðþægingu sinni, endurleysti okkur öll frá veikleika, mistökum og synd og vegna þess að hann upplifði allan sársauka, áhyggjur og byrði, sem þið hafið nokkru sinni upplifað,5 þá getið þið risið ofar þessum ótrygga heimi, ef þið iðrist sannlega og leitið hjálpar hans.

Þið getið sigrast á hinum andlega og tilfinningalega slítandi plágum heimsins, svo sem hroka, drambi, reiði, ósiðsemi, óvild, græðgi, afbrýðisemi og ótta. Þrátt fyrir truflanirnar og rangfærslurnar sem þyrlast umhverfis okkur, getið þið fundið sanna hvíld – sem þýðir líkn og frið – jafnvel mitt í ykkar erfiðustu vandamálum.

Þessi mikilvægi sannleikur vekur þrjár grundvallarspurningar:

Fyrsta: Hvað þýðir það að sigra heiminn?

Önnur: Hvernig gerum við það?

Þriðja: Hvernig blessar það líf okkar að sigrast á heiminum?

Hvað þýðir það að sigrast á heiminum? Það þýðir að sigrast á þeirri freistingu að huga meira að því sem þessa heims er, en því sem Guðs er. Það þýðir að treysta kenningu Krists, meira en heimspeki manna. Það þýðir að gleðjast yfir sannleikanum, hrylla við blekkingum og verða „auðmjúkir fylgjendur Krists.“6 Það þýðir að velja að forðast allt sem hrekur burt andann. Það þýðir að vera fús til að „láta af,“ jafnvel okkar kærustu syndum.7

Að sigrast á heiminum, þýðir vissulega ekki að þið verðið fullkomin í þessu lífi og ekki heldur að vandamál ykkar gufi upp með töfrum – því þau munu ekki gera það. Það þýðir heldur ekki að ykkur verði ekki áfram tamt að gera mistök. Að sigrast á heiminum, þýðir þó að viðspyrna ykkar gegn synd, mun aukast. Hjarta ykkar mun mýkjast þegar trú ykkar á Jesú Krist eykst.8 Að sigrast á heiminum, þýðir að vaxa að elsku til Guðs og hans elskaða sonar, meira en þið elskið nokkurn eða nokkuð annað.

Hvernig sigrumst við þá á heiminum? Benjamín konungur kenndi okkur hvernig. Hann sagði að „hinn náttúrlegi maður er óvinur Guðs“ og verður það að eilífu, „nema hann láti undan umtölum hins heilaga anda, losi sig úr viðjum hins náttúrlega manns og verði heilagur fyrir friðþægingu Krists.“9 Í hvert sinn sem þið leitið að og fylgið hvatningu andans, í hvert sinn sem þið gerið eitthvað gott – eitthvað sem hinn „náttúrlegi maður“ myndi ekki gera – eruð þið að sigrast á heiminum.

Að sigrast á heiminum, er ekki atburður sem gerist á einum degi eða tveimur. Það gerist á heilu lífsskeiði, þegar við tökum endurtekið á móti kenningu Krists. Við ræktum trú á Jesú Krist með því að iðrast daglega og halda sáttmála, sem veita okkur kraft. Við höldum okkur á sáttmálsveginum og erum blessuð með andlegum styrk, persónulegri opinberun, aukinni trú og þjónustu engla. Að lifa eftir kenningu Krists, getur kallað fram öflugasta dyggðaferlið, sem skapar andlegan skriðþunga í lífi okkar.10

Þegar við keppum að því að lifa eftir æðri lögmálum Jesú Krists, tekur hjarta okkar og eðli að breytast. Frelsarinn lyftir okkur ofar aðdráttarafli þessa fallna heims, með því að blessa okkur með meiri kærleika, auðmýkt, örlæti, góðvild, sjálfsaga, friði og hvíld.

Ykkur gæti ef til vill fundist þetta hljóma meira sem erfið andleg vinna, fremur en hvíld. Stóri sannleikurinn er þó þessi: Þótt heimurinn staðhæfi að völd, eignir, vinsældir og nautnir holdsins skapi hamingju, þá er það ekki svo! Það er ekki mögulegt! Það sem þetta getur af sér, er ekkert annað en innantóm eftirlíking þeirrar „[blessunar] og hamingju“ sem þeir njóta sem „halda boðorð Guðs.“11

Sannleikurinn er sá, að það er miklu meira lýjandi að leita hamingjunnar þar sem þið getið aldrei fundið hana! Þegar þið aftur á móti gangið sjálf undir ok með Jesú Krist og vinnið hið andlega verk sem þarf til að sigrast á heiminum, hefur hann, og hann einn, máttinn til að lyfta ykkur ofar aðdráttarafli þessa heims.

Hvernig blessar það svo líf okkar að sigrast á heiminum? Svarið er skýrt: Að ganga í sáttmálssamband við Guð, bindur okkur við hann, á þann hátt sem gerir allt við lífið auðveldara. Misskiljið mig þó ekki: Ég sagði ekki að lífið yrði auðvelt eftir sáttmálsgjörð. Reyndar ættuð þið að búast við andstreymi, því andstæðingurinn vill ekki að þið uppgötvið mátt Jesú Krists. Að gangast sjálf undir ok með frelsaranum, þýðir að þið hafið aðgang að styrk hans og endurleysandi krafti.

Ezra Taft Benson forseti

Ég staðfesti hina djúpstæðu kenningu Ezra Taft Benson forseta: „Karlar og konur sem fela Guði líf sitt, munu uppgötva að hann getur gert miklu meira úr lífi þeirra en þau geta sjálf. Hann mun dýpka gleði þeirra, auka sýn þeirra, lífga huga þeirra, … lyfta anda þeirra, margfalda blessanir þeirra, auka tækifæri þeirra, hugga sálir þeirra, færa þeim vini og úthella friði.“12

Þessi óviðjafnanlegu forréttindi fylgja þeim sem leita eftir stuðningi himinsins, sér til hjálpar við að sigrast á þessum heimi. Í þessum tilgangi, færi ég öllum meðlimum kirkjunnar sama boð og ég færði hinu unga fullorðna fólki okkar í maí síðastliðnum. Ég brýndi fyrir þeim þá – og bið ykkur nú – að axla ábyrgð á vitnisburði ykkar um Jesú Krist og fagnaðarerindi hans. Vinnið fyrir honum. Endurnærið hann, svo hann styrkist. Nærið hann með sannleika. Mengið hann ekki með falskri heimspeki vantrúaðra karla og kvenna. Þegar þið hafið það stöðugt í algjöru fyrirrúmi að styrkja vitnisburð ykkar, fylgist þá með kraftaverkunum gerast í lífi ykkar.13

Ákall mitt til ykkar þennan morgun, er að þið leitið hvíldar frá ofsa, óvissu og angist þessa heims, með því að sigrast á heiminum með sáttmálum ykkar við Guð. Látið hann vita í bænum ykkar og með verkum ykkar, að ykkur sé alvara með að sigrast á heiminum. Biðjið hann að upplýsa huga ykkar og senda þá hjálp sem þið þurfið. Skráið dag hvern hugsanirnar sem berast þegar þið biðjist fyrir; fylgið því síðan eftir af kostgæfni. Verjið auknum tíma í musterinu og reynið að skilja hvernig musterið kennir ykkur að rísa ofar þessum fallna heimi.14

Líkt og ég hef áður sagt, þá er samansöfnun Ísraels langmikilvægasta verkið sem nú á sér stað á jörðu. Einn afgerandi þáttur þessarar samansöfnunar, er að undirbúa fólk sem er hæft, reiðubúið og verðugt til að taka á móti Drottni þegar hann kemur aftur; fólk sem þegar hefur valið Jesú Krist fram yfir þennan fallna heim; fólk sem gleðst yfir sjálfræði sínu til að lifa eftir æðri, helgari lögmálum Jesú Krists.

Ég brýni fyrir ykkur, kæru bræður og systur, að verða slíkt réttlátt fólk. Varðveitið og heiðrið sáttmála ykkar umfram allar aðrar skuldbindingar. Þegar þið látið Guð ríkja í lífi ykkar, þá lofa ég ykkur auknum friði, fullvissu, gleði og já, hvíld.

Með krafti hins heilaga postuladóms, sem í mér býr, blessa ég ykkur í tilraunum ykkar til að sigrast á þessum heimi. Ég blessa ykkur til að auka trú ykkar á Jesú Krist og læra betur hvernig virkja má kraft hans í lífi ykkar. Ég blessa ykkur, að þið fáið greint sannleika frá villu. Ég blessa ykkur, að þið hugið meira að því sem Guðs er, en því sem heimsins er. Ég blessa ykkur, að þið fáið séð þarfir þeirra sem eru umhverfis og styrkt þá sem þið elskið. Vegna þess að Jesús Kristur sigraði heiminn, þá getið þið það líka. Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.