Líahóna
Hugrekki til að miðla því sem mér er dýrmætast
Júlí 2024


„Hugrekki til að miðla því sem mér er dýrmætast,“ Líahóna, júlí 2024.

Hugrekki til að miðla því sem mér er dýrmætast

Til að fylgja fordæmi biskups míns og eiginkonu hans, hafði ég það að markmiði að miðla Mormónsbók í hvert skipti sem ég fór í klappstýruferð.

Ljósmynd
stúlka bendir á blaðsíðu í bók sem piltur heldur á

Þegar ég ólst upp fannst mér dásamlegt að fylgjast með því hvernig hænur ömmu minnar söfnuðu saman ungum sínum undir vængi sína er stormaði, til að veita þeim öryggi og vernd. Þessi mynd varð mér enn mikilvægari eftir að ég las um hana í Mormónsbók (sjá 3. Nefí 10:4–6). Biskupinn minn og eiginkona hans, sem ferðuðust mikið á vegum fyrirtækis síns, sögðu mér þegar ég var ung kona að þau miðluðu einhverjum Mormónsbók í hvert skipti sem þau ferðuðust.

Það var mér innblástur. Ég dáðist að þeim og fordæmi þeirra snerti hjarta mitt. Ég ákvað að ef ég skyldi nokkurn tíma fá tækifæri til að ferðast utan Utah, Bandaríkjunum, þá myndi ég fylgja fordæmi þeirra og miðla Mormónsbók í hvert skipti.

Sem klappstýra fyrir Brigham Young-háskólann, ferðaðist ég oft með klappstýruliðinu. Fyrir fyrstu ferð mína, keypti ég eintak af Mormónsbók og skrifaði í hana vitnisburð minn. Ég vildi þróa hugrekki til að miðla öðrum því sem mér var dýrmætast: vitnisburði mínum og Mormónsbók. Ég vildi vera eins og biskupinn minn og eiginkona hans. Ég vildi vera eins og Jesús Kristur. Ég vildi hjálpa við að safna öðrum saman og hjálpa þeim að koma til hans.

Ég lærði fljótt að ef ég bæði þess fyrir hverja ferð að verða leidd til þess einstaklings sem á því þurfti að halda, þá birtist einhver á réttum stað og réttum tíma svo ég gæti miðlað Mormónsbók á náttúrulegan og einfaldan hátt. Því meira sem ég iðkaði þetta, því auðveldara var það fyrir mig að miðla. Ferðir mínar urðu mér sífellt þýðingarmeiri. Ég var alltaf yfir mig glöð að finna blessaðan viðtakanda himnesks föður á þessu helga vitni um Krist.

Þegar ég ferðaðist, hugsaði ég: „Hvert ætti ég að fara til að finna þann sem himneskur faðir sendir mig til í þetta skipti? Hvað get ég sagt honum eða henni til að gefa til kynna hve dýrmæt Mormónsbók er mér?“ Hugsunum mínum og athöfnum beindi ég annað en að eigin þörfum og afþreyingu og ég bar aukinn kærleika til allra sem ég hitti. Ég reyndi að líta þau með augum frelsarans. Ég bað fyrir því að þau tækju á móti hinni himnesku gjöf sem himneskur faðir hafði sent mig til að bjóða þeim.

Ég var döpur þegar lokaári mínu lauk. Það var lífslangur draumur minn að vera klappstýra við BYU. Sama hvað, þá hefði ég notið þeirrar ótrúlegu upplifunar að vera klappstýra en tækifærið til að miðla eintaki af Mormónsbók í hverri klappstýruferð auðgaði líf mitt á fallegan, óvæntan hátt.

Það að miðla Mormónsbók var dýrmæt og auðveld leið til að auka við merkingu háskólaupplifunar minnar. Ég veit að fólkið sem ég gaf Mormónsbók var leitt sérstaklega til að taka á móti henni. Ég veit líka að í hinum ótrúlega vefnaði sem líf mitt er, óf himneskur faðir mig með ástríkri, hjartans miskunn: Hann gerði mér kleift að skynja elsku hans til barna sinna á einstakan hátt í hvert skipti sem ég ferðaðist.

Eftir útskriftina ákvað ég að ég skyldi alltaf halda áfram að leita að einhverjum sem ég gæti miðlað vitnisburði mínum. Með tímanum þroskaðist með mér meiri geta og ég varð rólegri við að miðla vitnisburði mínum. Ég lærði að ég þyrfti ekki að óttast það að miðla honum. Ég trúi að allir geti átt auðveldar með að miðla vitnisburði sínum með æfingu og með því að biðja um himneska hjálp.

Það að velja að fylgja fordæmi hins góða biskups míns og eiginkonu hans gerði líf mitt þýðingarmeira á margan hátt. Það kenndi mér að sjá að Drottinn er meðvitaður um hvert og eitt barna sinna. Hann elskar okkur og vill óðfús safna okkur öllum undir væng sinn. Hvílík blessun að skilja hið fallega myndmál sem hann notar er hann lýsir samansöfnun sinni. Hann lýsir okkur sem hænu sem safnar og verndar unga sína blíðlega.

Höfundur býr í Utah, Bandaríkjunum.

Prenta