Líahóna
Guð sýndi mér að ég hefði tilgang
Júlí 2024


„Guð sýndi mér að ég hefði tilgang,“ Líahóna, júlí 2024.

Fyrirmyndir trúar

Guð sýndi mér að ég hefði tilgang

Ég féll úr tré en Drottinn bjargaði mér svo ég gæti snúið lífi mínu til betri vegar og hjálpað fólki með fötlun eins og ég.

maður í hjólastól með fjölskyldu sinni

Ljósmyndir: Christine Hair

Ég sótti trúarsamkomu með systur minni, þegar hún bað mig að klifra upp í tré og sækja nokkrar kókoshnetur fyrir ráðstefnuna. Þegar ég var að safna saman kókoshnetunum í trjátoppinum, missti ég skyndilega meðvitund og féll niður. Ég lenti illa á bakinu og gat ekki lengur fundið fyrir fótleggjunum.

Ég var sendur á sjúkrahús, þar sem læknarnir festu saman beinin í bakinu. Í þrjá mánuði lá ég á bakinu í sjúkrahúsinu og gat ekki einu sinni sest upp. Þetta var tilfinningalegur og niðurdrepandi tími. Ég lá bara þarna og velti fyrir mér hvað um mig yrði og hvað ég ætti gera næst.

Ráðgastu við Drottin

Eftir þrjá mánuði var mér sagt að fara til Nýja-Sjálands í bakaðgerð. Aðgerðin gerði það að verkum að ég gat setið í stað þess að vera eingöngu rúmliggjandi. Þegar ég var á sjúkrahúsinu í Nýja-Sjálandi, hitti ég unga konu sem þar starfaði. Hún spurði mig: „Þekki ég þig? Þú ert kunnuglegur.“

Við tókum að spjalla. Hún miðlaði fagnaðarerindi Jesú Krists og gaf mér Mormónsbók. Ég las hana ekki til að byrja með. Hún lá ósnert við hliðina á rúminu. Dag nokkurn var ég þó einn og ekkert áhugavert var í sjónvarpinu til að horfa á. Þá sá ég á Mormónsbók á borðinu. Ég opnaði hana og tók að lesa og lesa.

Við lesturinn fékk ég á tilfinninguna að Mormónsbók væri eitthvað öðruvísi og að hún hlyti að geyma hið sanna fagnaðarerindi Jesú Krists. Unga konan í sjúkrahúsinu hafði merkt við nokkur vers, eitt þeirra var Alma 37:37: „Ráðgastu við Drottin um allt, sem þú tekur þér fyrir hendur, og hann mun leiðbeina þér til góðs.“

Ég tók sérstaklega eftir þessum orðum og þau vöktu hjá mér hugsanir. Ég vissi að ég þyrfti að ráðgast við Drottin til að vita hvort Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu væri hin sanna kirkja. Ég vildi einnig fara og berja þessa kirkju augum.

Vonleysi mitt sópaðist í burtu

Þegar ég sneri aftur heim frá Nýja-Sjálandi, bauð ég trúboðunum að kenna mér. Við lærdóminn öðlaðist ég vitnisburð um að þetta væri kirkja Krists. Ég er þakklátur trúboðunum sem kenndu mér. Við skírn mína höfðu þeir styrk til að bera mig ofan í vatnið – annar hélt á mér í fangi sér á meðan hinn framkvæmdi skírnina.

Með skírninni var öllum tilfinningum þunglyndis og vonleysis sem ég hafði glímt við sópað í burtu. Ég vissi að ég hafði tilgang í lífinu og að Guð elskaði mig.

Áður en ég skírðist skammaðist ég mín vegna hjólastólsins. Eftir að ég skírðist byrjaði ég að mæta á hverjum sunnudegi í deildina og taka þátt í viðburðum fyrir ungt einhleypt fólk. Ég fór jafnvel á stikudansleiki og dansaði við öll lögin í hjólastólnum. Ég gerðist líka félagi í samtökum fyrir Samóabúa með mænuskaða.

Ég áttaði mig á að ég hefði læknast af þeirri tilfinningu að ég þyrfti að fela mig. Í kirkjunni öðlaðist ég sjálfstraustið til að vera aftur meðal fólks.

Drottinn hjálpaði mér líka að leggja mig fram og vaxa þegar ég var hvattur til að taka þátt í þriggja ára námi við kambódískan skóla fyrir gerviútlimi og innlegg [Cambodian School of Prosthetics and Orthotics (CSPO)]. Ég var óviss hvort ég gæti skráð mig í námið, því enginn sem var í hjólastól hafði nokkru sinni sótt um áður. Hvað sem því leið, þá gerðu kringumstæður mér að endingu kleift að fara í CSPO í Kambódíu. Ég var fyrsti nemandinn í sögunni með fötlun til að útskrifast frá þessari námsbraut.

karlmaður heldur á gervihandlegg

Posenai skammaðist sín fyrir að vera í hjólastól áður en hann skírðist. En eftir skírnina sagði hann: „Ég öðlaðist sjálfstraustið til að vera aftur meðal fólks.“

Eftir að ég sneri aftur til Samóa, talaði ég um heilsufar á UEF-trúarsamkomu. Í kjölfar ráðstefnunnar gekk til mín kona, tók í hönd mér og sagði sig hafa fundist ræðan mín góð. Lagimanofia var nýkomin heim úr trúboði. Allt frá því augnabliki að ég hitti hana, fannst mér að með henni yrði ég fullgerður. Ég hafði verið að biðjast fyrir um að ég myndi finna einhvern sem gæti orðið mér förunautur og elskað mig og tekið mér eins og ég var.

Þegar Lagimanofia og ég tókum að hittast var henni annt um mig og hún tók mér eins og ég var og fjölskylda hennar var stuðningsrík. Við giftumst og líf okkar breyttist að eilífu þegar við ættleiddum Posenai yngri. Guð bjó okkur undir að ættleiða hann. Það hefur veitt okkur mikla hamingju að hafa hann í lífi okkar.

Gat ég þjónað?

Ég var kallaður sem deildarritari í kirkjunni og síðar sem ráðgjafi í biskupsráði. Ég hafði ekki trúað að nokkur í hjólastól gæti þjónað. Slysið hafði orðið til þess að mér finnast ég gagnslaus, en við að starfa innan kirkjunnar fannst mér ég koma að gagni og það hjálpaði mér að skilja að ég hefði eitthvað fram að færa. Ég ann tækifærinu að vaxa nær Jesú Kristi með því að þjóna.

Ég vildi hljóta leiðsögn sem meðlimur biskupsráðsins, svo ég gæti staðið mig betur í köllun minni. Þetta leiddi af sér að ég vildi búa mig betur undir hvern sunnudag. Ég gerði það að venju að lesa ritningarnar og ég fékk tækifæri til að gefa vitnisburð. Leiðtogahlutverkið í kirkjunni hjálpaði mér jafnvel að verða leiðtogi í vinnunni. Ég efldi þá tilfinningu að ég gæti verið í forystu og tekið frumkvæði, sem gerði mér kleift að leiða á öðrum sviðum.

Nú starfa ég sem deildarstjóri Gerviútlima- og innleggjadeildar í Tupua Tamasese Meaole, aðalsjúkrahúsi Samóa. Deildin mín sér um 500 manns á ári fyrir gönguhjálpartækjum og hjólastólum. Kirkjan gefur hjólastóla og efni í gerviútlimi í gegnum heilbrigðisráðuneyti Samóa (sjá philanthropies.ChurchofJesusChrist.org/humanitarian-services). Þessi hjálpartæki gera fólki mögulegt að komast aftur til vinnu og að verða sjálfbjarga. Þau veita fólki einnig von og leið aftur til þess lífs sem það hélt að það hefði glatað.

karlmaður í hjólastól hjálpar öðrum karlmanni með gervifót

„Að starfa innan kirkjunnar veitti mér þá tilfinningu að ég væri gagnlegur og hjálpaði mér að skilja að ég hefði eitthvað fram á að færa,“ segir Posenai. „Ég ann tækifærinu að vaxa nær Jesú Kristi með því að þjóna.“

Reiða sig á Drottin

Ef ég ætti að gefa þeim ráð sem eru með fötlun, myndi ég segja: „Látið ekki fötlun ykkar halda ykkur frá því sem þið trúið á. Helgið ykkur því sem þið viljið fá áorkað og vinnið ötullega að því. Þegar þið biðjið um aðstoð Drottins, þá mun hann blessa ykkur [sjá 2. Nefí 32:9].“

Þessi trú heldur mér gangandi og gerir mig að þeim sem ég er í dag. Ég trúi að mér hafi verið komið fyrir hér og að ég sé varðveittur af ástæðu. Ég féll úr trénu en Drottinn bjargaði mér svo ég gæti snúið lífi mínu til betri vegar og unnið þetta verk, sem hjálpar öllu þessu fólki. Drottinn hefur kennt mér að ég get bjargað mörgum – ekki þrátt fyrir fötlun mína, heldur vegna hennar.